Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vélknúið flug

Vélknúið flug

Vélknúið flug

ÖLDUM saman hafði menn dreymt um að geta flogið. En maðurinn hefur ekki nógu sterka vöðva til að hefja sig á loft. Árið 1781 fann James Watt upp gufuvél sem skilaði snúningsafli, og Nikolaus Otto vann síðan nánar úr hugmyndinni og smíðaði sprengihreyfil árið 1876. Nú var komin til sögunnar vél sem hægt var að nota til að knýja flugvél. En hver gat smíðað flugvél?

Bræðurna Wilbur og Orville Wright hafði langað til að fljúga frá því á barnsaldri þegar þeir höfðu lært að fljúga flugdrekum. Þeir unnu við að smíða reiðhjól og við það öfluðu þeir sér vissrar verkfræðikunnáttu. Þeim var ljóst að erfiðasti þáttur flugsins var sá að hanna vél sem hægt væri að stjórna. Flugvél, sem heldur ekki jafnvægi í loftinu, er ekki ósvipuð reiðhjóli án stýris. Wilbur fylgdist með dúfum á flugi og tók eftir að þær halla sér í sömu átt og þær beygja, rétt eins og hjólreiðamaður gerir. Hann dró þá ályktun að fuglar sneru upp á vængendana til að beygja og til að halda jafnvægi. Þannig kviknaði sú hugmynd að smíða væng sem hægt væri að snúa upp á.

Árið 1900 smíðuðu þeir Wilbur og Orville svifflugu með vængjum af þessari gerð. Þeir flugu henni eins og flugdreka og smíðuðu síðan stærri svifflugu sem gat borið mann. Þeir komust að raun um að það þurfti þrenns konar stjórntæki til að stjórna áfallshorni og halla og til að beygja. Það olli þeim hins vegar vonbrigðum að lyftikraftur vængjanna var ekki nægur. Þeir smíðuðu því vindgöng og prófuðu sig áfram með hundruð gerða af vængjum uns þeir fundu heppilega lögun, stærð og áfallshorn. Árið 1902 voru þeir búnir að smíða nýja flugvél og höfðu náð tökum á því að halda henni stöðugri í vindi. Var nú hægt að setja hreyfil í hana?

Fyrst urðu bræðurnir að smíða hreyfilinn. Vegna reynslu sinnar af vindgöngunum tókst þeim að leysa hið flókna vandamál að hanna loftskrúfu. Það var loks 17. desember árið 1903 að hreyfillinn var ræstur, skrúfan snerist og flugvélin tókst á loft móti köldum vindinum. „Okkur hafði tekist það sem við höfðum ætlað okkur frá því að við vorum strákar,“ sagði Orville. „Við höfðum lært að fljúga.“ Bræðurnir urðu heimsfrægir. En hvernig komust þeir á loft? Já, náttúran átti sinn þátt í því.

[Mynd á bls. 4]

Flugvél Wright-bræðra, „Flyer“, í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum árið 1903. (sviðsett ljósmynd)