Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjálfvirk leiðsögutækni

Sjálfvirk leiðsögutækni

Sjálfvirk leiðsögutækni

ÞÚ VEIST trúlega að það getur verið þrautin þyngri að rata rétta leið í ókunnri borg. En hvernig er hægt að rata um opið haf? Áttaviti einn og sér kemur að litlum notum nema sjófarandinn viti hvar hann er staddur miðað við áfangastað. Það var ekki fyrr en sextantinn og skipsklukkan komu til skjalanna upp úr 1730 að sæfarendur gátu staðsett nákvæmlega á korti hvar þeir voru niður komnir og kortlagt siglingaleiðina. En hver einasta staðarákvörðun kostaði margra klukkustunda útreikninga.

Algengt er að ökumenn nú á tímum noti tiltölulega ódýr tæki sem eru tengd GPS-gervihnattaleiðsögukerfinu. Þeir þurfa ekki annað en að slá inn áfangastaðinn. Leiðsögutækið getur sýnt nákvæma staðsetningu ökutækisins á litlum skjá og vísað ökumanninum veginn. Hvernig virkar það?

Leiðsögutæki af þessu tagi styðjast við um það bil 30 gervihnetti. Hver hnöttur sendir merki sem gefur til kynna stöðu hans og tíma upp á fáeina milljörðustu úr sekúndu. Eftir að leiðsögutækið hefur náð sambandi við fáeina gervihnetti getur það mælt nákvæmlega hve lengi merkin eru að berast frá þeim. Þessar upplýsingar eru notaðar til að reikna út staðsetninguna. Geturðu ímyndað þér hve flókna útreikninga þarf til? Það tekur ekki nema örfáar sekúndur að reikna út fjarlægðina til þriggja gervihnatta sem eru í mörg þúsund kílómetra fjarlægð og eru á ferð hver í sína áttina með hraða sem nemur mörgum kílómetrum á sekúndu.

Það voru tveir prófessorar, Bradford Parkinson og Ivan Getting, sem fundu upp GPS-tæknina upp úr 1960. Upphaflega var hún ætluð til hernaðarnota en síðar var almenningi veittur aðgangur að henni að hluta til og síðan að fullu árið 1996. GPS-leiðsögutæki er hreint tækniundur en var það fyrsta sjálfvirka leiðsögutækið?

[Rétthafi myndar á bls. 8]

Hnöttur: Byggt á ljósmynd frá NASA.