Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skyndibiti skordýranna

Skyndibiti skordýranna

Skyndibiti skordýranna

● Skordýr eru sólgin í orkuríka skyndifæðu. Blóm eru kjörinn staður til að nærast á. Blómin auglýsa tilveru sína með skærum litum, ekki ósvipað og skyndibitastaðir. Skordýrin laðast að blómunum og setjast á þau til að maula frjóduft eða dreypa á hunangslegi.

Skordýrin eru með misheitt blóð. Þau eru því ósköp silaleg eftir kalda nótt og þurfa á sólarorkunni að halda til að komast í gang. Mörg blóm bjóða skordýrunum heildarpakka — nærandi fæðu og góðan stað til að baða sig í sólinni. Lítum á dæmi.

Freyjubrá er algengt blóm sem vex víðast hvar í Evrópu og Norður-Ameríku. Blómið virðist ekkert sérstakt við fyrstu sýn en við nánari skoðun kemur í ljós að þar er heilmikið í gangi. Freyjubráin er kjörinn staður fyrir skordýr til að hefja daginn. Hvít krónublöðin endurkasta yl sólarinnar og gul hvirfilkrónan er kjörinn hvíldarstaður þar sem skordýrin geta drukkið í sig sólarylinn. *

Það spillir ekki fyrir að hvirfilkróna freyjubrárinnar býður upp á meira en nóg af girnilegu frjódufti og hunangslegi sem hvort tveggja er næringarrík fæða handa fjölda skordýra. Er hægt að hugsa sér betri stað fyrir skordýr til að fá sér sólbað og góðan morgunverð?

Á einum degi má því búast við að sægur skordýra heimsæki freyjubrána. Þar má sjá bjöllur, jurtalýs, krybbur, litrík fiðrildi og alls konar flugur. En þessar „skyndibitakeðjur“ skordýranna gætu hæglega farið fram hjá þér nema þú hafir augun opin fyrir þeim.

Hvernig væri að skoða lífið í krónum blómanna næst þegar þú ferð út í náttúruna? Þá er líklegt að þú öðlist enn dýpri virðingu fyrir skapara allra hluta.

[Neðanmáls]

^ Rannsóknir hafa leitt í ljós að yfirborð sumra blóma er nokkrum gráðum heitara en umhverfið.