Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

„Það er ótrúlegt en satt að ár eftir ár skuli Biblían seljast mest allra bóka í Bandaríkjunum — þrátt fyrir að 90% heimila eigi að minnsta kosti eina biblíu . . . Áætlað er að 25 milljónir eintaka seljist ár hvert.“ — THE WALL STREET JOURNAL, BANDARÍKJUNUM.

„Um 4,5 milljónir manna verða fyrir slöngubiti ár hvert. Samkvæmt varfærnu mati deyja í það minnsta 100.000 manns á ári eftir slöngubit og 250.000 manns að auki verða fyrir varanlegu heilsutjóni.“ — MELBOURNE-HÁSKÓLI, ÁSTRALÍU.

Sendir voru um „210 milljarðar tölvuskeyta á dag árið 2008.“ — NEW SCIENTIST, BRETLANDI.

Hávaði frá þjóðvegum truflar minni

„Ef fólk sefur í herbergi sem liggur að þjóðvegi, járnbraut eða flugvelli er líklegt að það eigi erfiðara með að rifja upp gamlar upplýsingar og festa nýjar í minni, jafnvel þó að það sofi í hávaðanum.“ Þetta segir Ysbrand van der Werf við Hollensku taugavísindastofnunina. Svefnmissir dregur úr minnisfestingu og námsgetu fólks en hið sama er að segja um fólk sem verður fyrir „vægum truflunum á djúpsvefni án þess . . . að vakna“, að sögn hollenska dagblaðsins de Volkskrant. Heilastöð, sem kallast dreki, gegnir mikilvægu hlutverki í minnisfestingu. Til að þessi heilastöð starfi sem best þarf djúpan svefn án truflunar af „utanaðkomandi streituþáttum, svo sem hávaða og birtu“.

Flugeldar og öndunarfærakvillar

Það getur verið tilkomumikið að sjá flugeldasýningu en agnirnar, sem fara út í andrúmsloftið, geta hins vegar verið hættulegar heilsunni. Oft eru höfð málmsölt í flugeldum til að mynda leiftur í ýmsum litum. Strontíum er til dæmis notað til að fá rauðan lit og baríum til að fá grænan. Vísindamenn í Austurríki tóku sýni af nýföllnum snjó fyrir og eftir flugeldasýningar á gamlárskvöldi. Mælingar leiddu í ljós að baríum í snjónum fimmhundruðfaldaðist. Baríumeitrun veldur herpingi í öndunarvegi og því getur það aukið á öndunarfærakvilla, svo sem astma, að anda að sér flugeldareyk.

Vindmyllur hættulegar leðurblökum

Dauðar leðurblökur hafa fundist hjá vindmyllum í Alberta í Kanada, að því er fram kemur í tímaritinu Scientific American. Þetta var mönnum nokkur ráðgáta, ekki síst vegna þess að leðurblökur búa yfir háþróaðri ómsjá og eru einstaklega flugfimar. Rannsóknir hafa nú leitt í ljós innvortis blæðingar hjá 92 prósentum þessara dauðu leðurblaka. Sú ályktun hefur verið dregin að viðkvæm öndunarfæri leðurblakanna þoli ekki þá skyndilegu loftþrýstingslækkun sem vindmylluspaðarnir valda. Hraðinn á spaðaendunum getur verið allt að 200 kílómetrar miðað við klukkustund. Flökkuleðurblökur, sem nærast á skordýrum, eru í mestri hættu og óttast er að vindmyllurnar geti valdið ójafnvægi í vistkerfinu.