Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað merkir það að bjóða hina kinnina?

Hvað merkir það að bjóða hina kinnina?

Sjónarmið Biblíunnar

Hvað merkir það að bjóða hina kinnina?

JESÚS Kristur sagði í hinni frægu fjallræðu: „Rísið ekki gegn þeim sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina.“ — Matteus 5:39.

Við hvað átti hann? Var hann að hvetja kristna menn til að vera viljalaus fórnarlömb? Eiga kristnir menn að líða ofbeldi orðalaust? Mega þeir ekki leita sér lögverndar?

Það sem Jesús átti við

Til að skilja hvað Jesús átti við verðum við að kynna okkur í hvaða samhengi hann sagði þetta og við hverja hann var að tala. Áður en hann talaði um að bjóða hina kinnina vitnaði hann í leiðbeiningar sem áheyrendur hans þekktu úr Biblíunni. Hann sagði: „Þér hafið heyrt að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.“ — Matteus 5:38.

Versin, sem Jesús vitnaði í, eru 2. Mósebók 21:24 og 3. Mósebók 24:20. Það er athyglisvert að samkvæmt lögmáli Guðs var refsiákvæðinu um „auga fyrir auga“, sem nefnt er í þessum versum, ekki beitt fyrr en afbrotamaðurinn hafði komið fram fyrir prestana og dómarana. Þeir rannsökuðu málsatvik rækilega og könnuðu að hve miklu leyti hefði verið um ásetning að ræða. — 5. Mósebók 19:15-21.

Með tímanum rangfærðu Gyðingar þetta lagaákvæði. Í biblíuskýringum frá 19. öld eftir Adam Clark segir: „Svo virðist sem Gyðingar hafi notað þetta lagaboð [auga fyrir auga, tönn fyrir tönn] til að réttlæta reiði sína og öll óhæfuverk sem drýgð voru sökum hefnigirni. Menn leituðu oft hefnda langt úr hófi fram svo að hefndin varð mun harðari en efni stóðu til.“ En samkvæmt Biblíunni var fólki ekki heimilað að hefna sín.

Það sem Jesús var að kenna í fjallræðunni þegar hann talaði um að ,bjóða hina kinnina‘ endurspeglar anda laganna sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni. Jesús átti ekki við að væru fylgjendur hans slegnir á aðra kinnina ættu þeir að staulast aftur á fætur og bjóða hina kinnina. Á biblíutímunum, eins og reyndar oft nú á tímum, var kinnhestur ekki gefinn í því skyni að meiða líkamlega heldur til að smána eða særa og fá fram viðbrögð, stofna til átaka.

Jesús átti því greinilega við að ef einhver reyndi að vekja upp ágreining með raunverulegum löðrungi eða særandi meiðyrði ætti sá sem yrði fyrir því ekki að svara í sömu mynt. Hann ætti að reyna að forðast þann vítahring sem það gæti haft í för með sér að gjalda illt fyrir illt. — Rómverjabréfið 12:17.

Jesú komst mjög líkt að orði og Salómon konungur sem sagði: „Segðu ekki: ,Eins og hann gerði mér, eins ætla ég að gera honum, ég ætla að veita manninum makleg málagjöld.‘“ (Orðskviðirnir 24:29) Fylgjandi Jesú ætti að bjóða hina kinnina í þeirri merkingu að láta ekki annan þvinga sig eða neyða til átaka. — Galatabréfið 5:26.

Hvað um sjálfsvörn?

Með því að bjóða hina kinnina er ekki átt við að kristinn maður eigi ekki að verja sig gegn ofstopafullum árásarmanni. Jesús var ekki að segja að við ættum aldrei að verja okkur heldur að við ættum ekki að berja frá okkur í móðgunarskyni. Við ættum ekki að láta vekja upp hjá okkur hefndarhug. Þótt viturlegt sé að draga sig í hlé hvenær sem mögulegt er til að forðast ryskingar er rétt að gera ráðstafanir til að verja hendur sínar og leita hjálpar lögreglu ef við verðum fyrir barðinu á afbrotamanni.

Fylgjendur Jesú á fyrstu öld fylgdu á viðeigandi hátt sömu meginreglu þegar þeir vörðu lagaleg réttindi sín. Sem dæmi má nefna að Páll postuli nýtti sér réttarkerfi þess tíma til að verja þann rétt sinn að boða fagnaðarerindið eins og Jesús hafði sagt fylgjendum sínum að gera. (Matteus 28:19, 20) Á trúboðsferð sinni í Filippí létu yfirvöld taka hann og Sílas, trúboðsfélaga hans, til fanga og þeir voru ákærðir fyrir að brjóta lögin.

Síðan voru þeir báðir húðstrýktir opinberlega og þeim varpað í fangelsi og það án réttarhalda. Þegar Páli gafst tækifæri notaði hann réttindi sín sem rómverskur ríkisborgari. Þegar ráðamenn fréttu um réttarstöðu hans óttuðust þeir afleiðingarnar og báðu Pál og Sílas að yfirgefa borgina án þess að stofna til vandræða. Páll setti þannig fordæmi með því að „verja fagnaðarerindið“. — Postulasagan 16:19-24, 35-40; Filippíbréfið. 1:7.

Líkt og Páll hafa vottar Jehóva oft og mörgum sinnum neyðst til að höfða mál fyrir dómstólum og verja réttindi sín til að þjóna Guði. Það hefur jafnvel gerst í löndum sem hampa að jafnaði trúfrelsinu sem þegnar þeirra njóta. Þegar glæpir og persónulegt öryggi eru annars vegar er heldur ekki ætlast til þess að vottar Jehóva bjóði hina kinnina og láti misþyrma sér án þess að verja sig. Þeir gera ráðstafanir til að leita verndar með hjálp yfirvalda.

Sem sannkristnir menn gera vottarnir því með réttu það sem nauðsynlegt er til að staðfesta ákveðin lagaleg réttindi þótt þeir viti að slíkar aðgerðir beri oft takmarkaðan árangur. Þeir leggja þess vegna málin algerlega í hendur Guðs eins og Jesús gerði. Þeir eru sannfærðir um að hann þekki fullkomlega allar staðreyndir, bregðist við samkvæmt þeim og að sérhver refsing af hans hendi feli í sér fullkomið réttlæti. (Matteus 26:51-53; Júdasarbréfið 9) Sannkristnir menn hafa hugfast að það er hlutverk Jehóva að hefna. — Rómverjabréfið 12:17-19.

HEFURÐU VELT FYRIR ÞÉR?

● Hvað ættu kristnir menn að varast? — Rómverjabréfið 12:17.

● Er bannað samkvæmt Biblíunni að leita lagalegs réttar síns til að verja sig? — Filippíbréfið 1:7.

● Hvaða traust bar Jesús til föður síns? — Matteus 26:51-53.