Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bera trúarbrögðin sökina?

Bera trúarbrögðin sökina?

Bera trúarbrögðin sökina?

PRESTURINN og rithöfundurinn Jonathan Swift skrifaði snemma á 18. öld: „Trú vor er nógu sterk til að vér getum hatað, en of veik til að vér getum elskað.“ Margir hafa haldið því fram að trúarbrögðin valdi reyndar meiri sundrung en samlyndi. En ekki eru allir þeirrar skoðunar.

Hópur rannsóknarmanna við Friðarrannsóknarstofnun Bradfordháskóla í Bretlandi tók að sér, fyrir hönd Breska ríkisútvarpsins, að leita svars við því hvort trúarbrögðin stuðluðu að friði eða stríði. Lítum á niðurstöðuna.

Í skýrslu, sem hópurinn samdi, segir: „Eftir að hafa farið yfir sögulega greiningu margra sérfræðinga af ólíkum fræðisviðum er það niðurstaða okkar að síðastliðin 100 ár séu fá stríð sem kalla megi með sanni trúarstríð.“ Rannsóknarteymið sagði að sum stríð, sem „fjölmiðlar og fleiri séu vanir að kalla trúarstríð eða stríð sprottin af trúarlegum ágreiningi, séu í raun réttri þjóðernisstríð, frelsisstríð eða varnarstríð“.

Margir halda því þó fram að prestar hafi margsinnis stuðlað að og stutt vopnuð átök, annaðhvort með gerðum sínum eða þá með þögninni. Eftirfarandi er til vitnis um það:

● „Trúarbrögðin virðast tengjast ofbeldi nálega hvar sem er . . . Á síðustu árum hefur ofbeldi í nafni trúar brotist út meðal íhaldssamra kristinna manna í Bandaríkjunum, milli æstra múslíma og gyðinga í Mið-Austurlöndum, ósáttra hindúa og múslíma í Suður-Asíu og milli trúarsamfélaga innfæddra í Afríku og Indónesíu . . . Þeir sem áttu hlut að máli í þessum tilvikum hafa treyst að trúin styrkti pólitíska sjálfsmynd þeirra og veitti þeim heimild fyrir hugmyndafræði hefndarinnar.“ — Terror in the Mind of God — The Global Rise of Religious Violence.

● „Heittrúaðar þjóðir búa oft við verstu þjóðfélagsmeinin, svo fáránlegt sem það er . . . Þótt trúin sé allsráðandi hefur það ekki stemmt stigu við glæpum . . . Niðurstaðan virðist ótvíræð: Til að finna örugg, friðsamleg, mannsæmandi og ,siðmenntuð‘ lífsskilyrði er best að forðast staði þar sem trúarhitinn er mikill.“ — Holy Hatred.

● „Baptistar eru miklu þekktari fyrir átök en friðsemd . . . Þegar trúarsöfnuðir og síðan [bandaríska] þjóðin klofnaði vegna þrælahalds og annarra deilna á nítjándu öld studdu baptistar í norðri og suðri stríðið. Þeir litu á það sem réttláta krossferð og töldu víst að Guð stæði með þeim. Baptistar studdu einnig stríðið við England (1812), Mexíkó (1845) og Spán (1898). Tvö síðastnefndu stríðin voru réttlætt ,fyrst og fremst á þeim forsendum að verið væri að veita kúguðum þjóðum trúfrelsi og opna ný trúboðssvæði‘. Það er ekki svo að skilja að baptistar hafi sóst eftir stríði frekar en friði heldur hitt að þegar stríð var skollið á studdu þeir það og tóku þátt í því.“ — Review and Expositor — A Baptist Theological Journal.

● „Sagnfræðingar benda á að trúarlegar hvatir hafi búið að baki átökum á flestum tímaskeiðum og nánast meðal allra hinna ólíku þjóða og menningarhópa heims, og yfirleitt beggja vegna víglínunnar í hverju stríði. Hin útjöskuðu vígorð ,guðirnir eru með oss‘ er ein elsta og áhrifaríkasta stríðshvatningin.“ — The Age of Wars of Religion, 1000-1650 — An Encyclopedia of Global Warfare and Civilization.

● „Trúarleiðtogar . . . þurfa að horfa af meiri gagnrýni á það hvernig þeim hefur bæði mistekist að veita virka forystu og bera vitni um undirstöðugildi trúar sinnar . . . Öll trúarbrögð sækjast vissulega eftir friði en það er vafamál að þau hafi nokkurn tíma stuðlað að friði.“ — Violence in God’s Name — Religion in an Age of Conflict.

Prestar hinna stóru kirkjudeilda kristna heimsins (kaþólskra, rétttrúnaðarmanna og mótmælenda) hafa alla tíð verið óþreytandi að brýna hermenn til dáða og biðja fyrir dánum og deyjandi — beggja vegna víglínunnar. Með þessum hætti hafa þeir afsakað blóðsúthellingarnar og lagt blessun sína yfir hersveitir hvarvetna.

Sumir halda því eflaust fram að það sé ekki hægt að kenna trúarbrögðunum um stríð og styrjaldir. Gott og vel. En hefur trúarbrögðunum orðið eitthvað ágengt í þá átt að sameina mannkynið?

[Rammi á bls. 5]

„Séra Charles A. Eaton, prestur við Madison Avenue-baptistakirkjuna, tilkynnti úr prédikunarstólnum í gær að safnaðarheimilinu yrði breytt í skráningarstöð fyrir karla sem vildu skrá sig í landherinn eða sjóherinn.

Hann var einn af tugum presta í borginni sem fluttu stríðsprédikanir við almennar guðsþjónustur á sunnudagsmorgni og hvöttu karla og konur til að sýna þjóðinni og lýðræðinu hollustu með því að bjóða fram krafta sína í þágu stríðsins við fyrsta tækifæri. Margar kirkjur voru fánum skreyttar.“ — „The New York Times,“ 16. apríl 1917.