Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað þarf ég að vita um samskiptasíður á Netinu? — 1. hluti

Hvað þarf ég að vita um samskiptasíður á Netinu? — 1. hluti

Ungt fólk spyr

Hvað þarf ég að vita um samskiptasíður á Netinu? — 1. hluti

„Ég á vini í öðrum löndum og besta leiðin til að vera í sambandi við þá er á samskiptasíðum. Mér finnst frábært að geta talað við þá þótt þeir séu mjög langt í burtu.“ – Sara, 17 ára. *

„Mér finnst samskiptasíður vera tímasóun, samskiptaleið letingja. Til að byggja upp vináttu þarf fólk að tala saman augliti til auglitis.“ – Gregor, 19 ára.

HVOR athugasemdin hér að ofan lýsir þínu viðhorfi best? Hverju sem þú svarar er eitt víst: Samskiptasíður á Netinu hafa náð ótrúlegum vinsældum. * Hugsaðu um þetta: Það liðu 38 ár þangað til útvarpið náði til 50 milljóna manna, það tók 13 ár fyrir sjónvarpið að ná slíkum vinsældum, en aðeins fjögur ár liðu frá tilkomu Netsins þangað til 50 milljónir manns notuðu það. Á aðeins einu ári skráðu sig rúmlega 200 milljónir manna á samskiptasíðuna Facebook.

Merktu við rétt eða rangt:

Unglingar eru fjölmennasti hópur þeirra sem nota samskiptasíður. ․․․․․ Rétt ․․․․․ Rangt

Svar: Rangt. Af þeim sem nota vinsælustu samskiptasíðurnar eru tæplega tveir þriðju 25 ára og eldri. Árið 2009 fjölgaði mest notendum sem voru eldri en 55 ára.

Engu að síður hafa milljónir unglinga aðgang að samskiptasíðum og hjá sumum þeirra er þetta helsta samskiptaleiðin. Ung kona sem heitir Jessica segir: „Ég skráði mig af síðunni, en virkjaði síðan aðganginn aftur vegna þess að enginn hafði samband við mig í síma. Það er eins og fólk gleymi manni ef maður er ekki með samskiptasíðu.“

Hvers vegna eru samskiptasíður á Netinu svona vinsælar? Svarið er einfalt: Það liggur í eðli okkar mannanna að hafa samskipti við aðra og samskiptasíður snúast einmitt um það. Skoðum hvað hefur fengið suma til að byrja að nota þær.

1. Það er þægilegt.

„Það getur verið erfitt að halda sambandi við vini sína, en þegar þeir eru allir á einni síðu er það ekkert mál.“ – Lea, 20 ára.

„Ég þarf bara að skrifa eina athugasemd og það er eins og ég hefði sent öllum vinum mínum tölvupóst samtímis.“ – Kristín, 20 ára.

2. Hópþrýstingur.

„Ég er alltaf að fá beiðnir um að vera vinur einhvers á samskiptasíðum en ég er ekki með aðgang svo ég get það ekki.“ – Natalie, 22 ára.

„Þegar ég segi fólki að ég ætli ekki að nota samskiptasíður er horft á mig eins og það sé eitthvað að mér.“ – Eva, 18 ára.

3. Þrýstingur frá fjölmiðlum.

„Fjölmiðlar ýta undir þá hugmynd að þeir sem eru ekki í stöðugu sambandi eigi enga vini. Og ef maður á ekki vini á maður ekkert líf. Þannig að ef maður er ekki á samskiptasíðum er maður einskis virði.“ – Katrín, 18 ára.

4. Skólinn.

„Kennararnir nota samskiptasíður á Netinu. Sumir senda skilaboð til að segja okkur frá skyndiprófum. Eða til dæmis ef ég skil ekki eitthvað í stærðfræði get ég sett skilaboð á síðuna hjá kennaranum mínum og hann hjálpar mér að leysa dæmið í gegnum hana.“ – María, 17 ára.

5. Vinnan.

„Atvinnuleitendur nota samskiptasíður til að láta vita af sér. Stundum tekst þeim þannig að fá vinnu.“ – Amý, 20 ára.

„Ég er grafískur hönnuður og nota samskiptasíðu í vinnunni. Þar geta viðskiptavinir séð að hvaða verkefni ég er að vinna.“ – Davíð, 21 árs.

Ættir þú að fá þér aðgang að samskiptasíðu á Netinu? Ef þú býrð í heimahúsum er það ábyrgð foreldra þinna að ákveða það. * (Orðskviðirnir 6:20) Ef þeir leyfa þér það ekki ættirðu að hlýða þeim. – Efesusbréfið 6:1.

Sumir foreldrar leyfa hins vegar börnum, sem hafa þroska til, að nota samskiptasíður og hafa þá eftirlit með þeim. Er það afskiptasemi af hálfu foreldra þinna ef þeir fylgjast með hvernig þú notar þær? Alls ekki. Þar sem samskiptasíður eru mjög öflugur miðill hafa þeir fulla ástæðu til þess. Það leynast í rauninni margar hættur á samskiptasíðum eins og nánast á öllu Netinu. Ef þú hefur leyfi til að nota samskiptasíður hvernig geturðu þá varað þig á þessum hættum?

Öruggur „akstur“

Í vissum skilningi er hægt að líkja notkun Netsins við það að keyra bíl. Líklega hefurðu tekið eftir að ekki eru allir bílstjórar ábyrgðarfullir í umferðinni þótt þeir séu með ökupróf. Satt að segja hafa margir lent í skelfilegum bílslysum vegna kæruleysis eða gáleysis.

Hið sama á við um þá sem nota Netið. Sumir líkjast ábyrgum bílstjórum þegar þeir eru á Netinu en aðrir kærulausum. Ef foreldrar þínir leyfa þér að nota samskiptasíður treysta þeir þér fyrir talsvert erfiðum „akstri“ í netheimum. En hvers konar „bílstjóri“ ert þú? Sýnirðu að þú ,varðveitir visku og gætni‘? – Orðskviðirnir 3:21.

Í þessari grein ætlum við að líta á tvennt sem sérstaklega þarf að gæta að á samskiptasíðum – persónulegum upplýsingum og tímanum. Í greininni „Ungt fólk spyr“ í næsta tölublaði af Vaknið! verður svo rætt um mannorð og vináttu.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR

Að gæta að persónulegum upplýsingum er kannski það síðasta sem þér dettur í hug þegar samskiptasíður á Netinu eru til umræðu. Er ekki tilgangurinn með þeim einmitt að koma upplýsingum á framfæri? Ef við förum ekki varlega getur það engu að síður haft hörmulegar afleiðingar.

Útskýrum þetta með dæmi. Ef þú værir með mikla peninga á þér, myndirðu þá veifa þeim svo að allir sæju þegar þú ert í bænum með vinum þínum? Það væri heimskulegt, þú gætir alveg eins beðið um að þeim yrði stolið. Það væri viturlegra að geyma þá þannig að enginn sæi þá.

Hugsaðu um einkamál þín eins og peninga. Skoðaðu listann hér að neðan með það í huga, og merktu við það sem þú vilt ekki að bláókunnugir sjái eða viti.

․․․․․ heimilisfangið mitt

․․․․․ netfangið mitt

․․․․․ í hvaða skóla ég er

․․․․․ hvenær ég er heima

․․․․․ hvenær enginn er heima

․․․․․ myndirnar mínar

․․․․․ skoðanir mínar

․․․․․ áhugamál mín

Jafnvel þótt þú sért ákaflega mannblendinn ertu örugglega sammála um að sumt sem stendur á listanum ætti ekki að opinbera fyrir hverjum sem er. Hins vegar hafa margir unglingar – og fullorðnir – óafvitandi gefið ókunnugum þessar upplýsingar. Hvernig geturðu komið í veg fyrir að það gerist?

Ef foreldrar þínir leyfa þér að vera á samskiptasíðum þarftu að kynna þér friðhelgisstillingarnar vel – og nota þær. Ekki láta hönnuði samskiptasíðunnar ákveða hver séu einkamál þín. Stillingar, sem eru í boði á samskiptasíðunni, veita stundum fleirum en þú heldur aðgang að síðunni þinni. Stelpa, sem heitir Allison, breytti því stillingunum hjá sér þannig að bara nánir vinir hennar gætu séð það sem hún setti inn. Hún segir: „Sumir vina minna eiga vini sem ég þekki ekki og ég vil ekki að þeir viti allt um mig.“

En þú þarft að vera með varann á þótt þú hleypir eingöngu nánum vinum að. Karen, sem er 21 árs, segir: „Maður fer að setja inn meiri upplýsingar um sjálfan sig en maður ætlaði sér vegna þess að það er orðið manni svo mikilvægt að fá athugasemdir frá vinum sínum.“

Hafðu alltaf í huga að þegar Netið er annars vegar er „einkamál“ afstætt hugtak. Af hverju? Gwenn Schurgin O’Keeffe segir í bók sinni CyberSafe: „Öll stór vefsetur gera öryggisafrit af gagnagrunnum sínum. Það sem við setjum þar inn hverfur í rauninni aldrei. Við þurfum að líta á það sem varanleg gögn vegna þess að líklega er einhvers staðar til afrit. Það væri heimskulegt að ætla að svo væri ekki.“

TÍMINN

Það eru ekki bara persónulegar upplýsingar sem má bera saman við peninga, hið sama á við um tímann. Þú þarft að ráðstafa tímanum vel. (Prédikarinn 3:1) Það getur verið ein mesta áskorunin þegar þú ert á Netinu, ekki síst þegar þú ert á samskiptasíðum. *

„Ég hef svo oft sagt að ég ætli bara aðeins að kíkja í nokkrar mínútur. Klukkutíma síðar er ég enn á Netinu.“ – Amanda, 18 ára.

„Ég var orðin netfíkill. Þegar ég kom heim úr skólanum fór ég alltaf á Netið og var klukkutímum saman að skoða það sem aðrir höfðu sett inn og hvað þeir sögðu um það sem ég hafði sett inn.“ – Klara, 16 ára.

„Ég gat farið inn á samskiptasíðuna í símanum mínum og gerði það þegar ég var á leið í skólann, í skólanum og á leið heim. Þegar ég var komin heim fór ég svo í tölvuna. Ég vissi að ég var búin að ánetjast þessu en ég vildi ekki hætta því. – Rakel, 17 ára.

Ef foreldrar þínir leyfa þér að vera á samskiptasíðum skaltu ákveða hve miklum tíma á dag þér finnst eðlilegt að nota í þær. Fylgdu því svo eftir. Skráðu hjá þér í mánuð hve mikinn tíma þú notar á samskiptasíðum til að sjá hvort þú sért innan þeirra marka sem þú hafðir ákveðið. Mundu að tíminn er eins og peningar. Láttu því samskiptasíðurnar ekki eyða honum öllum. Það eru til mikilvægari hlutir í lífinu. – Efesusbréfið 5:15, 16; Filippíbréfið 1:10.

Sumir unglingar hafa gert ráðstafanir til að geta haft stjórn á tímanum. Líttu á dæmin hér að neðan:

„Ég afskráði mig af samskiptasíðunni og hafði þá allt í einu mikinn tíma aflögu. Mér fannst ég vera frjáls. Nýlega virkjaði ég síðuna mína aftur en núna hef ég fulla stjórna á notkuninni. Stundum fer ég ekki inn á hana í marga daga. Það kemur jafnvel fyrir að ég gleymi henni. Ef þetta fer að verða vandamál hjá mér aftur get ég alltaf afskráð mig.“ – Allison, 19 ára.

„Ég hef gert,samskiptasíðuhlé‘ með því að afskrá mig og virkja ekki síðuna aftur fyrr en um tveimur mánuðum síðar. Ég geri þetta alltaf þegar mér finnst ég vera farin að eyða of miklum tíma í þetta. Núna sækist ég ekki eins mikið í síðuna og nota hana aðeins í ákveðnum tilgangi en ekki meira en svo.“ – Anna, 22 ára.

Þegar öllu er á botninn hvolft

Annað sem ber að hafa í huga varðandi samskiptasíður á Netinu er það sem kemur fram hér að neðan. Til að átta þig betur á því geturðu merkt ✔ við það sem þú heldur að sé rétt.

Samskiptasíður snúast fyrst og fremst um . . .

(A) ․․․․․ viðskipti.

(B) ․․․․․ félagsskap.

(C) ․․․․․ eins konar afþreyingu.

Það kemur þér kannski á óvart að rétt svar skuli vera A. Samskiptasíður urðu upphaflega til vegna viðskipta og ætlunin var að hagnast á þeim, fyrst og fremst með auglýsingum. Því fleiri sem nota síðurnar og því fleiri sem sjá skilaboð þeirra því verðmætari verða síðurnar þeim sem auglýsa. Og það segir sig sjálft að því meira sem þú og aðrir nota síðurnar þeim mun fleiri auglýsingar birtast á skjánum.

Með þetta í huga skiljum við betur að þeir sem standa á bak við samskiptasíðurnar tapa hvorki á því að þú dreifir upplýsingum of víða né að þú notir of mikinn tíma á Netinu – og auglýsendur græða mikið á því. Reyndu því með öllu móti að passa upp á persónulegar upplýsingar og hafa stjórn á tímanum sem þú notar á samskiptasíðum.

NÆST Í ÞESSARI GREINARÖÐ . . .

Samskiptasíður á Netinu geta haft áhrif á mannorð þitt og vináttubönd. Skoðaðu með hvaða hætti.

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype

[Neðanmáls]

^ Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.

^ Samskiptasíða er vefsetur þar sem notendur geta átt samskipti við valinn hóp vina.

^ Vaknið! mælir hvorki með né fordæmir ákveðnar samskiptasíður. Kristnir einstaklingar ættu að ganga úr skugga um að þeir brjóti ekki gegn meginreglum Biblíunnar þegar þeir eru á Netinu. – 1. Tímóteusarbréf 1:5, 19.

^ Finna má fleiri upplýsingar í Vaknið! apríl – júní 2011 í greininni „Ungt fólk spyr . . . Stjórna rafræn samskipti lífi mínu?“ Skoðið sérstaklega rammann á bls. 26: „Ég var orðin háð samskiptasíðum á Netinu“.

[Innskot á blaðsíðu 13]

Það liðu 38 ár þangað til útvarpið náði til 50 milljóna manna.

[Innskot á blaðsíðu 13]

Á aðeins 1 ári skráðu sig rúmlega 200 milljónir manns á samskiptasíðuna Facebook.

[Rammi á blaðsíðu 15]

SPYRÐU FORELDRA ÞÍNA

Ræddu um einkamál á Netinu við foreldra þína. Hverju væri betra að halda út af fyrir sig og hvers vegna? Hvaða upplýsingar gæti verið hættulegt að setja inn á Netið yfirhöfuð? Spyrðu líka foreldra þína hvernig þú getur fundið jafnvægi milli samskipta á Netinu og samskipta augliti til auglitis. Hverju mæla þeir með ef þú þarft að breyta einhverju?

[Mynd á blaðsíðu 14]

Það sem þú setur inn á samskiptasíður sést kannski víðar en þú heldur.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Tíminn er eins og peningar. Ef þú notar þá alla á einum stað áttu ekki nóg þegar þú þarft á þeim að halda.