Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað veldur ofbeldi?

Hvað veldur ofbeldi?

Hvað veldur ofbeldi?

ÞAÐ getur verið erfitt að rekja orsakir ofbeldis. Og sjaldan er aðeins ein orsök eins og félagsskapur, afþreyingarefni eða félagslegt umhverfi. Margt getur átt hlut að máli. Hér eru nokkur dæmi.

Vonleysi og örvænting. Stundum grípur fólk til ofbeldis þegar það er beitt kúgun, er félagslega einangrað, í fjárhagskröggum, því er mismunað eða þegar því finnst það hafa misst öll tök á lífi sínu.

Múgsefjun. Það er ekki óalgengt þegar fólk hópast saman að það gefi sér lausan tauminn, eins og til dæmis á íþróttaviðburðum. Hvers vegna? Bókin Social Psychology bendir á að það sé sér „ekki eins meðvitandi um eigin siðferðiskennd og því sé hættara til að grípa til ofbeldis þegar eitthvað kyndir undir því“. Annað ritverk segir að þessir einstaklingar gætu farið að hegða sér eins og viljalausar strengjabrúður og hætt að finna fyrir „félagslegri ábyrgð“.

Hatur og öfund. Fyrsta skrásetta morð sögunnar framdi maður sem hét Kain. (1. Mósebók 4:1-8) Hann lét hatrið og öfundina ná heljartökum á sér og myrti bróður sinn. Þó hafði Guð hvatt hann til að hafa hemil á tilfinningum sínum og lofað að blessa hann fyrir það. Orð Biblíunnar eiga svo sannarlega við: „Hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns spilling.“ – Jakobsbréfið 3:16.

Ofneysla áfengis og fíkniefni. Ofdrykkja og fíkniefnanotkun skaða ekki aðeins líkamlega og andlega heilsu manna heldur hafa einnig áhrif á stjórnstöðvar heilans. Sá sem er undir áhrifum er því líklegri til reiðast og beita ofbeldi ef honum er ögrað.

Gölluð dóms- og réttarkerfi. Í Prédikaranum 8:11 segir: „Dómi yfir illskuverkum er ekki fullnægt þegar í stað og því svellur mönnum móður til þess að gera það sem illt er.“ Óhæf, slök eða spillt réttarkerfi ýta beint eða óbeint undir ofbeldi.

Fölsk trú. Ofbeldi er oft tengt trúarbrögðum. Þar má meðal annars nefna ofbeldi trúarhópa og hryðjuverk. En það eru ekki bara ofstækismenn, öfgamenn og ofsatrúarmenn sem bera ábyrgð á ofbeldinu. Áhangendur stóru trúarbragða heimsins – bæði „kristinna“ og þeirra sem ekki eru kristin – tóku þátt í blóðbaði beggja heimsstyrjaldanna. Oft lögðu trúarleiðtogar þeirra blessun sína yfir ofbeldið. Slík hegðun misbýður Guði. – Títusarbréfið 1:16; Opinberunarbókin 17:5, 6; 18:24.

Er hægt að vera friðsamur í heimi nútímans þar sem ofbeldi er svo víða hampað? Já. Við skulum skoða það núna.

[Rammi á bls. 6]

OFBELDI KEMUR INNAN FRÁ

Þó að margt geti ýtt undir ofbeldi á það sér fyrst og fremst upptök hjá okkur sjálfum. Hvernig þá? Jesús Kristur hafði næman skilning á hjarta mannsins og sagði: „Úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp, hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska.“ (Markús 7:21, 22) Við nærum slíkar tilhneigingar þegar við horfum á, hlustum á eða hugsum um eitthvað slæmt hvað eftir annað. – Jakobsbréfið 1:14, 15.

Ef við á hinn bóginn nærum hugann á því sem gerir okkur gott, eins og fjallað er um á blaðsíðu 8, ,deyðum‘ við rangar hvatir og ræktum með okkur löngun í það sem er heilnæmt og gott. (Kólossubréfið 3:5; Filippíbréfið 4:8) Guð mun þá styrkja okkur „að krafti hið innra“. – Efesusbréfið 3:16.

[Rammi á bls. 7]

SÉRFRÆÐINGAR STANDA Á GATI

Hvers vegna er í sumum löndum greint frá 60 sinnum fleiri morðum en í öðrum? Hvers vegna hafa styrjaldir og annað ofbeldi fylgt manninum alla tíð? Torskildar spurningar sem þessar eru margar en fátt um skýr svör.

Sumir sérfræðingar halda því fram að fátækt og ójöfnuður leiði til ofbeldis. Sumar rannsóknir sýna að glæpatíðni í fátækrahverfum sé oft mjög há og að um 90 prósent morða, þar með talinna sjálfsmorða, hafi verið framin í fátækum löndum heims. Er þá fátækt fólk ofbeldishneigðara en aðrir? Eða verður það frekar fyrir barðinu á ofbeldi vegna þess að samfélagið, sem það býr í, hefur ekki efni á góðri löggæslu? Þá má nefna staði eins og Kolkata á Indlandi þar sem milljónir manna búa við sára fátækt en þó er tíðni morða í þessari borg ein sú lægsta sem þekkist í heiminum.

Aðrir halda því fram að meira sé um ofbeldi í samfélögum þar sem auðvelt er að komast yfir byssur. Vissulega gera byssur ofbeldishneigt fólk enn hættulegra. En af hverju er fleira ofbeldisfullt fólk í sumum samfélögum? Sérfræðingar eru ekki á einu máli um það.