Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég var ofbeldisseggur

Ég var ofbeldisseggur

Ég var ofbeldisseggur

Salvador Garza segir frá

ÞEGAR ég var strákur var ég mikið fyrir ofbeldi og slóst við alla sem reittu mig til reiði. Þetta fór ekki fram hjá hnefaleikameistara einum. Hann kenndi mér að boxa og með tímanum var ég farinn að ferðast um Bandaríkin sem atvinnuboxari. Seinna var ég lífvörður fyrir meðlim í glæpagengi.

Ég hélt áfram að hafa mikla nautn af ofbeldi, jafnvel eftir að ég gekk í hjónaband og var búinn að eignast sex börn. Þegar hér var komið sögu rak ég næturklúbb. Nokkrum sinnum var reynt að koma mér fyrir kattarnef en mér líkaði spennan sem fylgdi svona lífi. Einhverju sinni lenti ég í ryskingum við tvo menn og skaut á þá. Þeir særðust alvarlega. Ég og nokkrir vinir mínir lögðum meira að segja á ráðin um að ræna þekktum stjórnmálamanni. En lögreglan komst á snoðir um ráðabruggið og handtók mig. Þegar hún náði vinum mínum kom til skotbardaga og þeir féllu allir. Ég er því feginn að hafa þegar verið kominn í fangelsi.

Mörgum árum síðar var mér sleppt úr haldi og ég fann mér vinnu. Dag einn á leiðinni heim úr vinnunni fékk ég skyndilega nístandi höfuðverk. Ég var svo áhyggjufullur að ég bað til Guðs um hjálp. Dolores, eiginkona mín, hafði verið að kynna sér Biblíuna hjá vottum Jehóva og var búin að segja mér að Guð héti Jehóva. Ég bað því beint til hans.

Þegar ég var búinn að ná mér hvatti Dolores mig til að sækja samkomur hjá vottum Jehóva í ríkissal þeirra. Ég táraðist þegar ég fann fyrir vinsemd og einlægum áhuga vottanna. Ég fór því einnig að kynna mér Biblíuna og það sem ég lærði breytti viðhorfi mínu til lífsins. Mér þótti mjög vænt um það sem ég var að læra.

Það tók mig hins vegar örlítið lengri tíma að læra að temja skapið. Ég man til dæmis eftir því að eitt sinn þegar ég var í boðunarstarfinu með Antonio, vini mínum, að við hittum mann sem hreytti í okkur ónotum. Það fauk í mig og ég réðst á manninn. En sem betur fer hélt Antonio aftur af mér. Nokkru seinna sýndi hann mér þolinmóður hvernig Jesús brást við spotti og svívirðingum. Pétur postuli, sem starfaði náið með Jesú, skrifaði: „Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt.“ (1. Pétursbréf 2:23) Þessi orð höfðu mikil áhrif á mig.

Þegar ég hugsa um þær breytingar, sem ég hef þurft að gera í gegnum árin, þakka ég Jehóva fyrir að hafa fengið heilagan anda sem gerir okkur kleift að sýna sjálfstjórn og verða friðsöm. (Galatabréfið 5:22, 23) Fjölskylda mín er sameinuð og hamingjusöm og við lifum friðsælu lífi. Og ég nýt þess að nota stóran hluta af tíma mínum til að hjálpa öðrum að finna friðinn sem Guð gefur.

[Mynd á bls. 9]

Salvador fann frið með því að kynna sér Biblíuna.