Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 26

Job sýnir Guði trúfesti

Job sýnir Guði trúfesti

KENNIR þú ekki í brjósti um þennan sjúka mann? Hann heitir Job. Konan hans stendur hjá honum. Veistu hvað hún er að segja við Job? ‚Formæltu Guði og farðu að deyja.‘ Hvernig gat henni dottið í hug að segja annað eins, og hvers vegna þurfti Job að þjást svona mikið?

Job var trúfastur maður sem hlýddi Jehóva. Hann bjó í Ús-landi, ekki langt frá Kanaan. Jehóva þótti mjög vænt um Job en sá var til sem hataði hann. Veistu hver það var?

Það var Satan djöfullinn. Mundu að Satan er vondi engillinn sem hatar Jehóva. Honum tókst að fá Adam og Evu til að óhlýðnast Jehóva og hann hélt að sér tækist að fá alla aðra til að gera það líka. En gat hann það? Nei. Hugsaðu bara um allt trúfasta fólkið, bæði menn og konur, sem við höfum þegar lært um. Hve mörgum manstu eftir með nafni?

Þegar Jakob og Jósef voru dánir í Egyptalandi var enginn maður á allri jörðinni jafntrúfastur Jehóva og Job. Jehóva vildi láta Satan vita að hann gæti ekki fengið alla til að vera vonda og sagði þess vegna við hann: ‚Líttu á Job. Taktu eftir hvað hann er mér trúfastur.‘

Satan svaraði: ‚Hann er bara trúfastur af því að þú blessar hann og gefur honum svo mikið. En ef þú tekur allt frá honum mun hann formæla þér.‘

Jehóva svaraði: ‚Þú mátt gera það. Taktu allt frá honum. Gerðu Job allt það til miska sem þú vilt. Við skulum þá sjá hvort hann formælir mér. Gættu þess aðeins að verða honum ekki að bana.‘

Fyrst lét Satan menn stela nautgripum og úlföldum Jobs, og sauðfé hans var drepið. Síðan drap hann 10 syni hans og dætur í óveðri. Þar næst sló Satan Job hræðilegum sjúkdómi. Job þjáðist mjög mikið. Þess vegna sagði konan hans við hann: ‚Formæltu Guði og farðu að deyja.‘ En það vildi Job ekki. Einnig komu þrír falskir vinir til hans og sögðu að hann hefði lifað slæmu lífi. En Job var enn trúfastur.

Það gladdi Jehóva mikið og eftir þetta blessaði hann Job eins og þú getur séð á myndinni. Hann læknaði Job af sjúkdómnum. Job eignaðist aftur 10 enn fallegri börn og tvöfalt fleiri nautgripi, sauði og úlfalda en hann hafði átt áður.

Ætlar þú alltaf að vera Jehóva trúfastur eins og Job? Ef þú gerir það mun Guð einnig blessa þig. Þá færð þú að lifa að eilífu þegar öll jörðin verður gerð eins falleg og aldingarðurinn Eden.