Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Uppreisn í andaheiminum

Uppreisn í andaheiminum

Satan notaði höggorm til að tala til Evu og þá sameinaðist hún honum í uppreisn gegn Guði.

Allar andaverurnar, sem Jehóva skapaði, voru góðar. En síðar gerðist einn af englunum illur. Hann er Satan djöfullinn. Satan vildi fá fólk á jörðinni til að tilbiðja sig í stað Jehóva. Það gerðist þannig:

Í garðinum Eden uxu mörg tré sem báru ljúffenga ávexti. Jehóva sagði Adam og konu hans, Evu, að þau gætu borðað af þeim eins og þau lysti. En þar var eitt tré sem Guð sagði að þau skyldu ekki borða af. Hann sagði að þau myndu vissulega deyja ef þau ætu af því. — 1. Mósebók 2:9, 16, 17.

Dag einn var Eva ein þegar höggormur talaði til hennar. Auðvitað var það ekki höggormurinn sem talaði í raun og veru; það var Satan djöfullinn sem lét líta út eins og höggormurinn væri að tala. Satan sagði Evu að ef hún æti af forboðna ávextinum yrði hún vitur eins og Guð. Hann sagði einnig að hún myndi ekki deyja. Þetta var hvort tveggja lygi. En Eva trúði Satan og át ávöxtinn. Seinna gaf hún Adam ávöxt og hann át líka. — 1. Mósebók 3:1-6.

Af þessari sönnu sögu lærum við að Satan er uppreisnarseggur og lygari. Hann sagði Evu að hún myndi ekki deyja þótt hún óhlýðnaðist Guði. Það var lygi. Hún dó og Adam dó einnig. Satan dó ekki þá, en hann mun þó að lokum deyja af því að hann syndgaði. Þangað til að því kemur er hann lifandi og heldur áfram að afvegaleiða mannkynið. Hann er enn þá lygari og reynir að fá fólk til að brjóta lög Guðs. — Jóhannes 8:44.

Aðrir englar gera uppreisn

Seinna gerðust aðrir englar illir. Þessir englar tóku eftir fögru konunum á jörðinni og vildu eiga kynmök við þær. Þeir komu þess vegna til jarðarinnar og íklæddust karlmannslíkömum. Síðan tóku þeir sér þessar konur. Þetta var gagnstætt tilgangi Guðs. — 1. Mósebók 6:1, 2; Júdasarbréfið 6.

Illir englar komu til jarðar til að fremja siðleysi með konum.

Einnig þetta olli mannkyninu miklum erfiðleikum. Konur þessara engla fæddu börn en það voru ekki eðlileg börn. Þau uxu upp og urðu ofstopafullir og grimmir risar. Að lokum var ofbeldið orðið svo mikið á jörðinni að Jehóva ákvað að eyða illa fólkinu með miklu flóði. Einu mennirnir, sem lifðu af flóðið, voru hinn réttláti Nói og fjölskylda hans. — 1. Mósebók 6:4, 11; 7:23.

Illu englarnir fóru hins vegar aftur til andaheimsins; þeir dóu ekki. En þeim var refsað. Þeim var ekki hleypt aftur inn í fjölskyldu Guðs sem réttlátir englar tilheyra. Auk þess leyfði Jehóva þeim ekki oftar að íklæðast mannslíkömum. Og að lokum munu þeir deyja í hinum mikla dómi. — 2. Pétursbréf 2:4; Júdasarbréfið 6.

Satan varpað niður af himni

Satan og illum englum hans var varpað niður af himni.

Snemma á okkar öld átti sér stað stríð á himni. Opinberunarbókin í Biblíunni lýsir því sem gerðist: „Þá hófst stríð á himni: Míkael [Jesús Kristur upprisinn] og [góðir] englar hans fóru að berjast við drekann [Satan]. Drekinn barðist og [illir] englar hans, en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og [illum] englum hans var varpað niður með honum.“

Hvaða afleiðingar hafði það? Frásögnin heldur áfram: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið.“ Góðu englarnir gátu fagnað því að Satan og illu englarnir eða andarnir voru ekki lengur á himni. En hvað um fólkið á jörðinni? Biblían segir: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:7-9, 12.

Já, Satan og hinir illu félagar hans afvegaleiða mannfólkið og valda því miklum þjáningum. Þessir illu englar eru kallaðir djöflar. Þeir eru óvinir Guðs og eru allir illir.