Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Það getur ekki verið satt!“

„Það getur ekki verið satt!“

MAÐUR í New York segirsvo frá: “Jónatan, sonur minn, var að heimsækja vini í nokkurra mílna fjarlægð. Valentínu, konunni minni, var illa við að hann færi þangað. Hún var alltaf hrædd við umferðina. En hann var hrifinn af rafeindatækjum og vinir hans voru með verkstæði þar sem hann gat fengið hagnýta reynslu. Ég var á heimili mínu í vesturhluta Manhattan í New York. Konan mín var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni á Púertóríkó. ‚Jónatan verður kominn aftur bráðlega,‘ hugsaði ég. Þá hringdi bjallan. ‚Þetta er örugglega hann.‘ En svo var ekki. Það var lögreglan og sjúkraflutningsmenn. ‚Kannast þú við þetta ökuskírteini?‘ spurði lögreglumaðurinn. ‚Já, sonur minn, Jónatan, á það,‘ ‚Við höfum slæmar fréttir að færa þér. Það varð slys og . . . sonur þinn, . . . sonur þinn fórst.‘ ‚Það getur ekki verið satt!‘ voru mín fyrstu viðbrögð. Þetta reiðarslag myndaði sár í hjörtum okkar sem er enn ekki gróið jafnvel árum seinna.“

‚Við höfum slæmar fréttir að færa þér. Það varð slys og . . . sonur þinn, . . . sonur þinn fórst.‘

Faðir í Barcelóna skrifar: „Á sjötta áratugnum vorum við hamingjusöm fjölskylda á Spáni. Við vorum konan mín, María, og börnin okkar þrjú, David, Paquito og Isabel, á aldrinum 13, 11, og 9 ára.

Dag einn í mars árið 1963 kom Paquito heim úr skólanum og kvartaði undan alvarlegum höfuðverk. Það var okkur hulin ráðgáta hver ástæðan gæti verið — en ekki lengi. Þremur klukkustundum síðar var hann látinn. Heilablóðfall hafði bundið snöggan enda á líf hans.

Meira en 30 ár eru liðin frá dauða Paquitos. Þrátt fyrir það veldur þessi missir okkur enn þá djúpum sársauka. Það er ekki nokkur leið fyrir foreldra að missa barn án þess að finnast þau hafa misst eitthvað af sjálfum sér, og skiptir þá ekki máli hversu langur tími líður eða hve mörg önnur börn þau eiga.“

Þessi tvö dæmi um foreldra, sem misstu börn, sýna hversu djúp og varanleg sár standa eftir þegar barn deyr. Hversu sönn eru ekki orð læknisins sem skrifaði: „Barnslát veldur yfirleitt meiri sorg og áfalli en dauði eldri manns vegna þess að barnið er sá einstaklingur í fjölskyldunni sem menn eiga síst von á að deyi. . . . Með dauða sérhvers barns glatast framtíðardraumar, framtíðartengsl [synir, tengdadætur, barnabörn], ánægjustundir sem menn hafa ekki enn fengið að njóta.“ Og hver sú kona, sem misst hefur barn vegna fósturláts, getur fundið fyrir þessum sama missi.

Kona, sem missti eiginmann sinn, segir: „Russell, maðurinn minn, hafði þjónað sem aðstoðarmaður herlæknis á vígvöllum Kyrrahafsins í síðari heimsstyrjöldinni. Hann hafði séð og lifað af hræðilegar orrustur. Hann sneri heim til Bandaríkjanna og til kyrrlátara lífs. Seinna þjónaði hann sem erindreki orðs Guðs. Snemma á sjötugsaldri fór að bera á hjartaveiki hjá honum. Hann reyndi að lifa athafnasömu lífi. Þá, dag einn í júlí 1988, fékk hann heiftarlegt hjartaslag og lést. Það var ógurlegt áfall að missa hann. Ég gat ekki einu sinni kvatt hann. Hann var ekki aðeins eiginmaðurinn minn. Hann var besti vinur minn. Við höfðum átt saman 40 ár. Nú sá ég fram á að vera mjög einmana.“

Þetta eru aðeins fáeinir af þeim þúsundum harmleikja sem fjölskyldur um allan heim verða fyrir á hverjum degi. Flestir sem misst hafa ástvin geta tekið undir það að þegar dauðinn tekur barnið manns, eiginmann, eiginkonu, foreldri eða vin, þá er það sannarlega ‚síðasti óvinurinn‘, eins og hinn kristni ritari Páll komst að orði. Oft eru fyrstu ósjálfráðu viðbrögðin við hinni hræðilegu frétt sú að afneita henni: „Það getur ekki verið satt! Ég trúi þessu ekki.“ Á eftir fylgja oft önnur viðbrögð, eins og við munum sjá. — 1. Korintubréf 15:25, 26.

Áður en við fjöllum um sorgartilfinningarnar skulum við hins vegar svara nokkrum mikilvægum spurningum. Er dauðinn endalok einstaklingsins? Er einhver von um að við getum séð ástvini okkar á ný?

Það er til raunveruleg von

Biblíuritarinn Páll gaf von um að komast mætti undan þessum ‚síðasta óvini‘, dauðanum. Hann skrifaði: „Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ (1. Korintubréf 15:26) Af hverju gat Páll verið svona viss um það? Af því að sá, sem sjálfur hafði verið reistur upp frá dauðum, Jesús Kristur, hafði kennt honum það. (Postulasagan 9:3-19) Þess vegna gat Páll líka skrifað: „Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann [Adam], kemur og upprisa dauðra fyrir mann [Jesú Krist]. Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.“ — 1. Korintubréf 15:21, 22.

Jesús fann til djúprar sorgar þegar hann mætti ekkjunni frá Nain og sá látinn son hennar. Frásögn Biblíunnar segir okkur: „Þegar [Jesús] nálgaðist borgarhliðið [í Nain], þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: ‚Grát þú eigi!‘ Og hann gekk að og snart líkbörurnar, en þeir, sem báru, námu staðar. Þá sagði hann: ‚Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!‘ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans. En ótti greip alla, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: ‚Spámaður mikill er risinn upp meðal vor,‘ og ‚Guð hefur vitjað lýðs síns.‘“ Taktu eftir að Jesús kenndi svo í brjósti um ekkjuna að hann reisti son hennar upp frá dauðum. Ímyndaðu þér hvað það boðar um framtíðina. — Lúkas 7:12-16.

Fyrir framan sjónarvotta reisti Jesús þarna mann upp frá dauðum sem varð þeim ógleymanlegt. Það var til sannindamerkis um upprisuna sem hann hafði þegar spáð nokkru fyrir þennan atburð, endurreisn til lífs á jörð undir ‚nýjum himni‘. Við það tækifæri hafði Jesús sagt: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ — Opinberunarbókin 21:1, 3, 4; Jóhannes 5:28, 29; 2. Pétursbréf 3:13.

Af öðrum sjónarvottum að upprisu má nefna meðal annars Pétur ásamt nokkrum öðrum af þeim 12 sem fylgdu Jesú á ferðum hans. Þeir heyrðu í raun og veru Jesú, risinn upp frá dauðum, tala við Galíleuvatnið. Frásögnin segir okkur: „Jesús segir við þá: ‚Komið og matist.‘ En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: ‚Hver ert þú?‘ Enda vissu þeir, að það var Drottinn. Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.“ — Jóhannes 21:12-14.

Pétur gat þess vegna skrifað af algerri sannfæringu: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.“ — 1. Pétursbréf 1:3.

Páll postuli lét í ljós trausta von sína þegar hann sagði: „[Ég] trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum. Og þá von hef ég til Guðs, sem þeir og sjálfir hafa, að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ — Postulasagan 24:14, 15.

Milljónir manna geta þess vegna átt þá traustu von að sjá ástvini sína aftur á lífi á jörðinni en við mjög ólíkar kringumstæður. Hvaða kringumstæður verða það? Rætt verður nánar um vonina, sem Biblían gefur um ástvini okkar, í síðasta hluta þessa bæklings sem ber heitið „Örugg von látinna“.

En fyrst skulum við fjalla um spurningar sem kunna að vera í huga þínum ef þú ert sorgmæddur vegna dauða ástvinar: Er eðlilegt að syrgja á þennan hátt? Hvernig get ég borið sorg mína? Hvað geta aðrir gert til að hjálpa mér að takast á við hana? Hvernig get ég hjálpað öðrum sem syrgja? Og síðast en ekki síst: Hvað segir Biblían um trausta von látinna? Sé ég nokkurn tíma ástvini mína aftur? Og hvar?