Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

5. KAFLI

Kenndu barninu frá unga aldri

Kenndu barninu frá unga aldri

1, 2. Hvar ættu foreldrar að leita leiðsagnar um barnauppeldi?

 „SYNIR eru gjöf frá Drottni,“ sagði þakklátur faðir fyrir um 3000 árum. (Sálmur 127:3) Já, gleðin sem fylgir því að eignast barn er gjöf frá Guði og flest hjón geta orðið þeirrar gleði aðnjótandi. En þeir sem eiga börn gera sér fljótt grein fyrir því að gleðinni fylgir ábyrgð.

2 Það er ekkert áhlaupaverk að ala upp börn nú á dögum. Mörgum hefur samt tekist vel til og innblásin orð sálmaritarans segja okkur hvers vegna: „Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis.“ (Sálmur 127:1) Því betur sem þú fylgir leiðbeiningum Jehóva, þeim mun betra foreldri verður þú. Biblían segir: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ (Orðskviðirnir 3:5) Ertu fús til að hlusta á leiðbeiningar Jehóva þegar þú leggur út í þetta 20 ára uppeldisstarf ?

VIÐURKENNDU SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

3. Hvaða ábyrgð bera feður á uppeldi barnanna?

3 Það er algengt viðhorf karlmanna víða um heim að barnauppeldi sé aðallega í verkahring kvenna. Vissulega bendir orð Guðs á að faðirinn eigi að vera aðalfyrirvinnan en hún segir líka að hann hafi skyldum að gegna á heimilinu. Biblían segir: „Annastu verk þitt utan húss og ljúk því á akrinum, síðan getur þú byggt hús þitt“, það er að segja sinnt heimilinu. (Orðskviðirnir 24:27) Í augum Guðs er barnauppeldið sameiginlegt verkefni foreldranna. — Orðskviðirnir 1:8, 9.

4. Af hverju ætti ekki að meta sveinbörn meir en stúlkubörn?

4 Hvernig líturðu á börnin þín? Bent hefur verið á að „stúlkubörnum sé oft tekið með litlum fögnuði“ í Asíu. Og í Rómönsku Ameríku er það enn þekkt að stúlkur séu minna metnar en drengir, meira að segja meðal „frekar upplýstra fjölskyldna“. En stúlkur eru ekki annars flokks börn. Þegar Jakob, nafnkunnur faðir til forna, talaði um börnin sín, þar á meðal dæturnar, kallaði hann þau ‚börnin sem Guð hafði af náð sinni gefið honum‘. (1. Mósebók 33:1-5; 37:35) Jesús blessaði líka öll börn (drengi og stúlkur) sem færð voru til hans. (Matteus 19:13-15) Við getum verið viss um að hann endurspeglaði viðhorf Jehóva. — 5. Mósebók 16:14.

5. Hvað ættu hjón að hafa í huga þegar þau ákveða hvað þau ætla að eignast mörg börn?

5 Í sumum samfélögum er ætlast til þess að konur eignist eins mörg börn og þær mögulega geta. Auðvitað ráða hjón því sjálf hvað þau eignast mörg börn. En hvað er til ráða ef foreldrar hafa ekki efni á að fæða, klæða og mennta mörg börn? Hjón ættu að taka það með í reikninginn þegar þau ákveða barnafjöldann. Sum hjón fela ættingjum þá ábyrgð að ala upp nokkur barnanna ef þau geta ekki séð fyrir þeim öllum sjálf. Er það æskilegt? Nei, reyndar ekki. Það leysir ekki foreldra undan ábyrgð sinni gagnvart börnunum. Biblían segir: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni.“ (1. Tímóteusarbréf 5:8) Ábyrg hjón reyna að skipuleggja fyrir fram hvað þau ætla að eignast mörg börn svo að þau geti ‚séð fyrir sínum‘. Ef þau kjósa að nota getnaðarvarnir er það persónuleg ákvörðun þeirra og ef þau velja þann kost ráða þau einnig hvers konar getnaðarvarnir þau nota. „Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ (Galatabréfið 6:5) En getnaðarvörn, sem er fólgin í fóstureyðingu af einhverju tagi, stangast á við meginreglur Biblíunnar. Jehóva Guð er „uppspretta lífsins“. (Sálmur 36:10) Að eyða lífi eftir að það hefur verið getið lýsir gríðarlegri vanvirðingu við Jehóva og jafnast á við morð. — 2. Mósebók 21:22, 23; Sálmur 139:16; Jeremía 1:5.

AÐ SINNA ÞÖRFUM BARNANNA

6. Hvenær ætti að byrja að kenna börnunum?

6 Orðskviðirnir 22:6 segja: „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda.“ Foreldrum ber skylda til að fræða börnin og þeir ættu að byrja fræðsluna mjög snemma. Páll postuli segir að Tímóteus hafi fengið fræðslu „frá blautu barnsbeini“. (2. Tímóteusarbréf 3:15) Gríska orðið, sem hér er notað, getur lýst mjög ungu barni eða jafnvel ófæddu. (Lúkas 1:41, 44; Postulasagan 7:18-20) Tímóteus fékk því kennslu frá unga aldri enda er það besti tíminn til að byrja að kenna börnunum. Smábörn hungrar meira að segja í þekkingu.

7. (a) Hvers vegna er mikilvægt að báðir foreldrar myndi náin tengsl við barnið? (b) Hvernig var sambandið milli Jehóva og eingetins sonar hans?

7 „Ég fékk mikla ást á barninu mínu þegar ég sá það í fyrsta skipti,“ sagði móðir nokkur. Það gera flestar mæður. Þessi fallegu tengsl styrkjast síðan þegar barnið þroskast og móðir og barn eru meira saman. Brjóstagjöf styrkir einnig tengslin. (Samanber Sálm 22:10) Til að uppfylla tilfinningaþarfir barnsins er nauðsynlegt að móðirin gæli við það og tali við það. (Samanber Jesaja 66:12.) En hvað með föðurinn? Hann ætti einnig að tengjast barninu náið. Jehóva er gott dæmi um þetta. Í Orðskviðunum getum við lesið um samskipti hans við eingetinn son sinn. Þar eru Jesú lögð þessi orð í munn: „Drottinn skóp mig í upphafi vega sinna. . . . Ég var yndi hans dag hvern.“ (Orðskviðirnir 8:22, 30; Jóhannes 1:14) Þannig ætti góður faðir að mynda hlýlegt og kærleiksríkt samband við barn sitt frá upphafi. „Sýnið mikla væntumþykju,“ segir faðir nokkur. „Börn fá aldrei of mikið af faðmlögum og kossum.“

8. Hvernig geta foreldrar örvað huga barnanna eins fljótt og mögulegt er?

8 En börn þurfa meira. Frá því að þau fæðast er heilinn tilbúinn til að taka við upplýsingum og geyma þær, og þessar upplýsingar koma fyrst og fremst frá foreldrunum. Tökum tungumálið sem dæmi. Fræðimenn segja að „líklega hafi samskipti foreldra við börnin fyrstu árin“ mikil áhrif á það hversu vel börn læra að tala og lesa. Talaðu við barnið frá unga aldri og lestu fyrir það. Fljótlega fer það að herma eftir þér og áður en langt um líður verður þú farinn að kenna því að lesa. Líklega verður það orðið læst áður en það byrjar í skóla. Þetta kemur sér sérstaklega vel í löndum þar sem kennarar eru fáir og bekkir fjölmennir.

9. Hvaða markmið ættu foreldrar að hafa ofarlega í huga?

9 Kristnum foreldrum er fyrst og fremst umhugað um að sinna trúarþörf barnanna. (Sjá 5. Mósebók 8:3.) Markmið þeirra ætti að vera að hjálpa barninu að tileinka sér kristinn persónuleika, að íklæðast „hinum nýja manni“ ef svo má að orði komast. (Efesusbréfið 4:24) Til þess þurfa þeir að velja rétt „byggingarefni“ og nota réttar „byggingaraðferðir“.

BRÝNDU SANNLEIKANN FYRIR BARNINU

10. Hvaða eiginleika þurfa börn að temja sér?

10 Gæði byggingar eru að miklu leyti komin undir byggingarefninu. Páll postuli sagði að best væri að byggja kristinn persónuleika úr ‚gulli, silfri og dýrum steinum‘. (1. Korintubréf 3:10-12) Þessir málmar tákna eiginleika eins og trú, visku, hyggindi, trúfesti og virðingu og mætur á Jehóva og lögum hans. (Sálmur 19:8-12; Orðskviðirnir 2:1-6; 3:13, 14) Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að temja sér þessa eiginleika frá unga aldri? Með því að fylgja aðferð sem lýst var endur fyrir löngu.

11. Hvernig hjálpuðu ísraelskir foreldrar börnunum að temja sér góða eiginleika?

11 Stuttu áður en Ísraelsþjóðin hélt inn í fyrirheitna landið sagði Jehóva ísraelskum foreldrum: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ (5. Mósebók 6:6, 7) Já, foreldrar þurfa að vera góð fyrirmynd barnsins og félagar þess, tala við það og kenna því.

12. Hvers vegna þurfa foreldrar að vera góð fyrirmynd?

12 Vertu góð fyrirmynd. Jehóva sagði fyrst: „Þessi orð . . . skulu vera þér hugföst,“ og síðan: „Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum.“ Foreldrar verða því fyrst að temja sér guðrækni sjálfir. Þeir verða að elska sannleikann og lifa í samræmi við hann. Það er eina leiðin til að ná til hjarta barnsins. (Orðskviðirnir 20:7) Hvers vegna? Vegna þess að börn verða fyrir meiri áhrifum af því sem þau sjá en því sem þau heyra. — Lúkas 6:40; 1. Korintubréf 11:1.

13. Hvernig geta kristnir foreldrar líkt eftir Jesú þegar þeir sinna börnunum?

13 Vertu félagi barnsins. Jehóva sagði foreldrum í Ísrael að tala við börnin bæði heima og á ferðalögum. Þetta krefst þess að foreldrar verji tíma með börnunum sama hversu uppteknir þeir eru. Jesús áleit greinilega að börn væru verð tíma hans og athygli. Undir lok þjónustu hans á jörðinni „færðu [menn] börn til hans, að hann snerti þau“. Hver voru viðbrögð hans? „Hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“ (Markús 10:13, 16) Jesús vissi að hann átti skammt eftir ólifað. Samt sem áður gaf hann sér tíma til að vera með börnum og sinna þeim. Hann er svo sannarlega góð fyrirmynd fyrir okkur.

14. Af hverju er gagnlegt fyrir foreldra að verja tíma með barninu sínu?

14 Talaðu við barnið. Ef þú verð tíma með barninu áttu auðveldara með að tala við það og ná til þess. Því meira sem þið talið saman, þeim mun betur geturðu séð hvernig persónuleiki þess mótast. Mundu að til að ná til barnsins er ekki nóg að tala við það. „Ég þurfti að læra að hlusta,“ segir móðir í Brasilíu, „hlusta með hjartanu.“ Þolinmæði hennar bar árangur þegar sonur hennar fór að trúa henni fyrir tilfinningum sínum.

15. Hvað þarf að hafa í huga í sambandi við afþreyingu?

15 Börn þurfa tíma til „að hlæja“ og „leika sér“. (Prédikarinn 3:1, 4; Sakaría 8:5) Afþreying hefur mjög góð áhrif ef foreldrar og börn njóta hennar saman. Það er sorglegt að á mörgum heimilum skuli afþreying aðallega felast í því að horfa á sjónvarpið. Þótt sumir sjónvarpsþættir geti verið skemmtilegir grafa margir undan góðum siðferðisgildum og sjónvarpið getur auk þess dregið úr samskiptum innan fjölskyldunnar. Þess vegna væri tilvalið að gera eitthvað skapandi með börnunum eins og til dæmis að syngja, fara í leiki, hitta vini eða fara á skemmtilega staði. Slík afþreying lífgar upp á samskiptin.

16. Hvað ættu foreldrar að kenna börnunum um Jehóva og hvernig ættu þeir að gera það?

16 Vertu kennari. Jehóva sagði: „Þú skalt brýna [þessi orð] fyrir börnum þínum.“ Samhengið segir okkur hvað átti að kenna og hvernig. Í fyrsta lagi segir: „Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ (5. Mósebók 6:5) Í öðru lagi segir: „Þú skalt brýna [ þessi orð] fyrir börnum þínum.“ Veittu kennslu sem miðar að því að börnin læri að elska Jehóva og boðorð hans af heilum hug. (Samanber Hebreabréfið 8:10.) Til að „brýna“ eitthvað fyrir einhverjum getur þurft að ítreka það aftur og aftur. Jehóva er því í rauninni að segja þér að tala um sig á reglulegum grundvelli því að það sé helsta leiðin til að hjálpa börnunum að tileinka sér kristinn persónuleika. Þetta felur í sér að hafa reglubundnar námsstundir til að fræða börnin um Biblíuna.

17. Hvaða löngun gætu foreldrar þurft að vekja með börnunum? Hvers vegna?

17 Flestir foreldrar vita að það er ekki auðvelt að láta fræðsluna ná til hjartans. Pétur postuli hvatti trúsystkini sín: „Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk.“ (1. Pétursbréf 2:2) Hvatningin að ‚sækjast eftir‘ gefur til kynna að mörgum er ekki meðfætt að hungra eftir andlegri fæðu. Foreldrar þurfa að finna leiðir til að vekja þessa löngun með börnunum.

18. Hvaða kennsluaðferðir notaði Jesús sem foreldrar eru hvattir til að beita?

18 Jesús náði til hjartna fólks með því að nota dæmisögur. (Markús 13:34; Lúkas 10:29-37) Þessi kennsluaðferð er sérstaklega árangursrík þegar verið er að kenna börnum. Kenndu biblíusannindi með því að nota hrífandi og áhugaverðar sögur, til dæmis í bókunum Biblíusögubókin mín og Lærum af kennaranum mikla. * Fáðu börnin til að vera þátttakendur. Leyfðu þeim að beita sköpunargáfunni með því að teikna eða leika biblíuatburði. Jesús notaði líka spurningar. (Matteus 17:24-27) Beittu þeirri aðferð í fjölskyldunáminu. Í stað þess að segja einfaldlega hver lög Guðs eru gætirðu spurt spurninga eins og: Hvers vegna gaf Jehóva okkur þetta boðorð? Hvað gerist ef við fylgjum því? Hvað gerist ef við fylgjum því ekki? Spurningar sem þessar hjálpa barninu að rökhugsa og sjá að lög Guðs eru skynsamleg og góð. — 5. Mósebók 10:13.

19. Hvaða hag hafa börnin af því að foreldrarnir fylgi meginreglum Biblíunnar í barnauppeldinu?

19 Þú getur hjálpað barninu að eignast náið samband við Jehóva Guð frá unga aldri með því að vera góð fyrirmynd, vera félagi barnsins, tala við það og kenna því. Þetta samband verður til þess að barnið verður stolt af því að vera kristinn einstaklingur. Það mun reyna að breyta samkvæmt trú sinni jafnvel þótt það mæti hópþrýstingi og freistingum. Minntu barnið sífellt á að meta þetta dýrmæta samband að verðleikum. — Orðskviðirnir 27:11.

AGI ER NAUÐSYNLEGUR

20. Hvað er agi og hvernig á að aga?

20 Agi er kennsla sem leiðréttir hugann og hjartað. Börn þurfa stöðugan aga. Páll ráðleggur feðrum að ala börnin upp „með aga og umvöndun Drottins“. (Efesusbréfið 6:4) Foreldrar ættu að aga í kærleika eins og Jehóva gerir. (Hebreabréfið 12:4-11) Hægt er að veita kærleiksríkan aga með rökræðum. Þess vegna er okkur sagt að ‚hlýða á aga‘. (Orðskviðirnir 8:33) Hvernig á að veita aga?

21. Hvaða meginreglur ættu foreldrar að hafa í huga þegar þeir aga börnin?

21 Sumir foreldrar halda að agi felist aðeins í því að tala við börnin í hótunartón, skamma þau eða jafnvel niðurlægja. En þegar Páll ræddi um þessi mál sagði hann í viðvörunartón: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði.“ (Efesusbréfið 6:4) Kristnir menn eru hvattir til að vera ‚ljúfir við alla og hógværir er þeir aga þá sem skipast í móti‘. (2. Tímóteusarbréf 2:24, 25) Þótt foreldrar þurfi að sýna festu ættu þeir samt að hafa þessi orð í huga þegar þeir aga börnin. En stundum duga rökræður ekki og nauðsynlegt getur verið að beita einhvers konar refsingu. — Orðskviðirnir 22:15.

22. Hvað þarf barnið að skilja ef því er refsað?

22 Börn eru ólík og geta þurft ólíkan aga. Sumum börnum nægir ekki að vera ‚öguð með orðum‘. (Orðskviðirnir 29:19) Stundum getur verið nauðsynlegt að refsa þeim með öðrum hætti ef þau hafa verið óhlýðin. En barnið þarf að skilja hvers vegna því er refsað. „Fræðið mig, og ég skal þegja, og sýnið mér, í hverju mér hefir á orðið.“ (Jobsbók 6:24) Refsingum þurfa líka að vera takmörk sett. „Ég [vil] hirta þig í hófi,“ sagði Jehóva við þjóð sína. (Jeremía 46:28b) Biblían aðhyllist engan veginn að börn séu flengd eða slegin í reiði. — Orðskviðirnir 16:32.

23. Hvað ætti barn að skilja þegar foreldrarnir refsa því?

23 Áður en Jehóva agaði fólk sitt varaði hann það við og sagði: „Óttast þú ekki . . . því að ég er með þér.“ (Jeremía 46:28a) Á sama hátt ætti agi foreldra, í hvað mynd sem hann birtist, aldrei að verða til þess að barninu finnist sér vera hafnað. (Kólossubréfið 3:21) Barnið ætti að skilja að aginn er veittur vegna þess að foreldrarnir vilja því vel.

VERNDAÐU BARNIÐ

24, 25. Fyrir hvaða hræðilegu ógn þarf að vernda börn nú á dögum?

24 Margir fullorðnir hugsa til æskuáranna með gleði. Þeir minnast hlýrrar öryggiskenndar og fullvissu um að foreldrarnir myndu gæta þeirra hvað sem á dyndi. Foreldrar vilja að börnin sín njóti sama öryggis, en í siðspilltum heimi nútímans er erfiðara að vernda börnin en áður.

25 Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er hræðileg ógn sem hefur orðið æ algengari á undanförnum árum. Í Malasíu fjórfaldaðist tíðni kynferðisofbeldis gegn börnum á tíu ára tímabili. Í Þýskalandi eru um 300.000 börn beitt slíku ofbeldi á hverju ári en samkvæmt könnun er talan heilar 9.000.000 í einu landi í Suður-Ameríku. Því miður eru flest þessara barna misnotuð á sínu eigin heimili af fólki sem þau þekkja og treysta. En börn ættu að geta leitað verndar hjá foreldrunum. Hvernig geta foreldrar verndað börnin sín?

26. Hvernig er hægt að vernda börn og hvernig getur þekking hjálpað þeim?

26 Reynslan sýnir að þau börn, sem vita lítið um kynferðismál, eru sérstaklega berskjölduð fyrir barnaníðingum. Þess vegna er mikilvægt að fræða þau á meðan þau eru ung. Þekking getur verndað börn „frá vegi hins illa, frá þeim mönnum, sem fara með fals“. (Orðskviðirnir 2:10-12) Hvaða þekking ? Þekking á meginreglum Biblíunnar, á því hvað sé siðferðilega rétt og rangt. Þau ættu líka að vita að sumir fullorðnir gera margt slæmt og að þau þurfa ekki að hlýða fólki sem biður þau að gera eitthvað óviðeigandi. (Samanber Daníel 1:4, 8; 3:16-18.) Það er ekki nóg að tala einu sinni við börnin um þessi mál. Flest ung börn þurfa að heyra áminningar oftar en einu sinni til að muna þær vel. Þegar börnin verða aðeins eldri ætti faðirinn auðvitað að virða rétt dóttur sinnar til að hafa sitt næði og móðirin rétt sonar síns. Það eykur skilning barnsins á því hvað sé viðeigandi. Og ein besta vörnin gegn barnaníðingum er auðvitað strangt eftirlit foreldra.

LEITAÐU LEIÐSAGNAR GUÐS

27, 28. Hvar ættu foreldrar að leita aðstoðar við barnauppeldið?

27 Það getur vissulega verið áskorun að kenna börnum frá unga aldri en trúaðir foreldrar geta fengið aðstoð. Þegar Manóa, sem var uppi á dómaratímanum, komst að raun um að þau hjónin ættu von á barni bað hann Jehóva að gefa sér leiðbeiningar um barnauppeldið. Jehóva bænheyrði hann. — Dómarabókin 13:8, 12, 24.

28 Trúræknir foreldrar geta á svipaðan hátt leitað til Jehóva í bæn og beðið um leiðsögn við uppeldi barnanna. Foreldrahlutverkið krefst mikillar vinnu en launin eru líka mikil. Kristin hjón á Hawaii segja: „Foreldrar hafa 12 ár til að gera þessu starfi góð skil áður en hin tvísýnu unglingsár skella á. Ef þeir hafa lagt sig fram um að fara eftir meginreglum Biblíunnar uppskera þeir gleði og frið þegar börnin ákveða að þjóna Jehóva af öllu hjarta.“ (Orðskviðirnir 23:15, 16) Þegar barnið þitt tekur þessa ákvörðun getur þú svo sannarlega tekið undir orðin: „Synir [og dætur] eru gjöf frá Drottni.“

^ gr. 18 Gefnar úr af Vottum Jehóva.