Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

7. KAFLI

Þegar unglingar gera uppreisn

Þegar unglingar gera uppreisn

1, 2. (a) Hvaða dæmisögu sagði Jesús til að vekja athygli á því að leiðtogar Gyðinga voru ótrúir Guði? (b) Hvað lærum við um unglinga af dæmisögu Jesú?

 NOKKRUM dögum fyrir dauða sinn spurði Jesús trúarleiðtoga Gyðinga athyglisverðrar spurningar. Hann sagði: „Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: ‚Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum.‘ Hann svaraði: ‚Það vil ég ekki.‘ En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: ‚Já, herra,‘ en fór hvergi. Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?“ Trúarleiðtogarnir svöruðu: „Sá fyrri.“ — Matteus 21:28-31.

2 Jesús sagði þessa dæmisögu til að vekja athygli á því að leiðtogar Gyðinga voru ótrúir Guði. Þeir voru eins og seinni sonurinn, lofuðu að gera vilja Guðs en stóðu ekki við það. En dæmisagan vitnar líka um næman skilning Jesú á fjölskyldulífinu eins og margir foreldrar taka eflaust eftir. Eins og hann benti svo vel á er oft erfitt að vita hvað unglingar eru að hugsa og hvað þeir ætla sér. Sumir valda miklum erfiðleikum á unglingsárunum en verða síðan ábyrgir og virtir einstaklingar þegar þeir fullorðnast. Gott er að hafa það í huga núna þegar við fjöllum um uppreisn unglinga.

HVAÐ ER UPPREISN?

3. Af hverju ættu foreldrar ekki að vera fljótir að stimpla barnið sitt uppreisnarsegg?

3 Stundum heyrir maður af unglingum sem snúast algerlega gegn foreldrum sínum. Þú þekkir kannski fjölskyldu sem virðist eiga mjög erfitt með að ráða við ungling á heimilinu. En það er ekki alltaf auðvelt að vita hvort unglingurinn er í rauninni að gera uppreisn eða ekki. Einnig getur verið erfitt að skilja hvers vegna sum börn snúast gegn foreldrum sínum en önnur ekki, jafnvel þótt þau komi frá sama heimili. Hvað ættu foreldrar að gera ef þá grunar að barnið þeirra ætli að gera algera uppreisn? Til að svara því þurfum við fyrst að skoða hvað uppreisn er.

4-6. (a) Hvað er uppreisn? (b) Hvað ættu foreldrar að hafa í huga ef unglingurinn er stundum óhlýðinn?

4 Í stuttu máli má segja að unglingur, sem gerir uppreisn, standi vísvitandi gegn yfirvaldi og ögri því æ ofan í æ. Vissulega er ‚fíflska í hjörtum barna‘. (Orðskviðirnir 22:15) Öll streitast þau einhvern tíma gegn yfirvaldi foreldra sinna eða annarra. Þetta gerist ekki síst á gelgjuskeiðinu þegar unglingarnir eru að þroskast líkamlega og tilfinningalega. Allar breytingar í lífi fólks valda streitu og unglingar ganga svo sannarlega í gegnum miklar breytingar. Sonur þinn eða dóttir er að breytast úr barni í fullorðinn einstakling. Þetta er ástæðan fyrir því að foreldrum og börnum kemur stundum illa saman á þessum árum. Foreldrar reyna oft ósjálfrátt að hægja á breytingunum en unglingarnir vilja hraða þeim.

5 Unglingur, sem gerir uppreisn, hafnar gildismati foreldranna. Mundu samt að þótt unglingur sé óhlýðinn í nokkur skipti þýðir það ekki að hann sé uppreisnarseggur. Og þótt hann sýni í fyrstu lítinn sem engan áhuga á sannindum Biblíunnar er ekki sjálfgefið að hann sé að gera uppreisn. Foreldrar ættu ekki að vera fljótir til að dæma barnið sitt.

6 Snúast allir unglingar gegn yfirvaldi foreldra sinna? Nei, alls ekki. Allt virðist benda til þess að aðeins lítill hluti unglinga geri alvarlega uppreisn. En hvað um þá unglinga sem eru þrjóskir og sífellt í uppreisnarhug? Hvað gæti ýtt undir slíka hegðun?

ORSAKIR UPPREISNAR

7. Hvernig getur andi Satans ýtt undir uppreisn unglinga?

7 Ein helsta orsök uppreisnar er andi Satans sem gegnsýrir heiminn. „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Undir stjórn Satans hefur heimurinn skapað mjög skaðlegt menningarumhverfi sem kristnir menn verða að berjast gegn. (Jóhannes 17:15) Þetta umhverfi er klúrara og hættulegra en áður og hefur mun verri áhrif. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Ef foreldrar fræða börnin ekki, vernda þau ekki og vara þau ekki við þessum slæmu áhrifum gæti andinn, „sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa“, auðveldlega náð tökum á börnunum. (Efesusbréfið 2:2) Hópþrýstingur er líka nátengdur anda heimsins. Biblían segir: „Illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Ef fólk umgengst þá sem eru gegnsýrðir af anda heimsins verður það líklega fyrir áhrifum af þessum anda. Ungt fólk þarf stöðugt á hjálp að halda til að gera sér grein fyrir því að besta lífsstefnan, sem völ er á, er sú að hlýða meginreglum Guðs. — Jesaja 48:17, 18.

8. Hvað getur orsakað uppreisn unglinga?

8 Andrúmsloftið á heimilinu getur líka leitt til uppreisnar. Ef annað foreldrið er til dæmis alkóhólisti, fíkniefnaneytandi eða beitir maka sinn ofbeldi getur það brenglað viðhorf unglingsins til lífsins. Unglingar á frekar rólegum heimilum geta líka gert uppreisn ef þeim finnst foreldrarnir ekki sýna sér áhuga. Uppreisn unglinga orsakast samt ekki alltaf af ytri áhrifum. Sum börn hafna gildismati foreldra sinna þótt foreldrarnir hafi fylgt meginreglum Biblíunnar og verndað þau að miklu leyti fyrir umheiminum. Hvers vegna? Kannski vegna mannlegs ófullkomleika sem er önnur orsök vandamála okkar. Páll sagði: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam] og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) Adam var eigingjarn uppreisnarmaður og gaf öllum afkomendum sínum vondan arf. Sumir unglingar velja einfaldlega að gera uppreisn eins og forfaðir þeirra.

UNDANLÁTSEMI ELÍ OG HARÐSTJÓRN REHABEAMS

9. Hvaða öfgar gætu ýtt undir uppreisn unglinga?

9 Annað sem hefur leitt til uppreisnar unglinga er rangt viðhorf foreldra til barnauppeldis. (Kólossubréfið 3:21) Sumir samviskusamir foreldrar eru strangir úr hófi fram og setja börnunum of þröngar skorður. Aðrir eru of eftirlátir og brýna ekki fyrir óreyndum unglingunum lífsreglur sem væru þeim til verndar. Hinn gullni meðalvegur er stundum vandfundinn og þarfir barna eru ólíkar. Sum þurfa meira eftirlit en önnur. Tvær frásögur í Biblíunni sýna hætturnar sem fylgja því að fara út í öfgar og vera annaðhvort of eftirlátsamur eða of strangur.

10. Af hverju var Elí slæmur faðir þótt hann hafi sennilega verið trúfastur æðsti prestur?

10 Elí var æðsti prestur í Ísrael til forna. Hann þjónaði í 40 ár og þekkti lögmál Guðs eflaust mjög vel. Sennilega hefur hann sinnt prestsstörfum sínum af trúfesti og jafnvel frætt syni sína, þá Hofní og Pínehas, vandlega um lögmál Guðs. En hann var of undanlátsamur við þá. Hofní og Pínehas þjónuðu sem prestar en þeir voru „hrakmenni“ og höfðu aðeins áhuga á að uppfylla eigin óskir og siðlausar langanir. Þegar þeir hegðuðu sér svívirðilega á helgri jörð hafði Elí ekki hugrekki til að víkja þeim úr embætti. Hann aðvaraði þá aðeins mildilega. Með undanlátsemi sinni sýndi hann að hann mat syni sína meir en Guð. Afleiðingin var sú að þeir gerðu uppreisn gegn hreinni tilbeiðslu á Jehóva og allt heimilisfólk Elí varð fyrir mikilli ógæfu. — 1. Samúelsbók 2:12-17, 22-25, 29; 3:13, 14; 4:11-22.

11. Hvaða lærdóm geta foreldrar dregið af slæmu fordæmi Elí?

11 Synir Elí voru orðnir fullorðnir þegar þetta gerðist en frásagan undirstrikar hve hættulegt er að beita ekki aga. (Samanber Orðskviðina 29:21.) Sumir foreldrar rugla saman ást og undanlátsemi og setja ekki skýrar, stefnufastar og sanngjarnar reglur. Þeir veita ekki kærleiksríkan aga jafnvel þótt börnin brjóti meginreglur Guðs. Slík undanlátsemi getur orðið til þess að börnin virði hvorki yfirvald foreldranna né nokkuð annað yfirvald. — Samanber Prédikarann 8:11.

12. Hvaða mistök gerði Rehabeam?

12 Rehabeam er dæmi um hinar öfgarnar í meðferð valds. Hann var síðasti konungurinn í hinu sameinaða Ísraelsríki en ekki góður konungur. Fólkið í ríkinu, sem Rehabeam erfði, var óánægt vegna oksins sem Salómon, faðir hans, hafði lagt á það. Sýndi Rehabeam fólkinu skilning? Nei, þegar fulltrúar þjóðarinnar báðu hann að létta okið að einhverju marki hlýddi hann ekki á ráð þroskaðra öldunga heldur skipaði svo fyrir að okið skyldi þyngt. Hroki hans leiddi til uppreisnar ættkvíslanna tíu í norðri sem varð til þess að ríkið klofnaði í tvennt. — 1. Konungabók 12:1-21; 2. Kroníkubók 10:19.

13. Hvernig geta foreldrar forðast að gera sömu mistök og Rehabeam?

13 Foreldrar geta dregið mikilvægan lærdóm af frásögu Biblíunnar af Rehabeam. Þeir þurfa að leita Jehóva í bæn og skoða uppeldisaðferðir sínar með hliðsjón af meginreglum Biblíunnar. (Sálmur 105:4) „Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja,“ segir Prédikarinn 7:7. Skynsamleg mörk gefa unglingum svigrúm til að vaxa en eru þeim jafnframt til verndar. Börn ættu hins vegar ekki að búa við svo strangt uppeldi og svo stífar hömlur að þau geti ekki byggt upp hóflegt sjálfstraust. Ef foreldrar veita sanngjarnt frjálsræði en setja jafnframt skýr mörk reyna unglingar síður að gera uppreisn.

SINNIÐ GRUNDVALLARÞÖRFUM UNGLINGANNA

14, 15. Hvernig ættu foreldrar að koma fram við unglinginn þegar hann fer að þroskast?

14 Þótt það gleðji foreldra að sjá börnin vaxa úr grasi og verða fullorðin gætu þeir orðið smeykir þegar unglingurinn fer að verða sjálfstæðari og óháðari þeim. Láttu það ekki koma þér á óvart þótt unglingurinn verði stundum frekar þrjóskur eða ósamvinnuþýður á þessu tímabili. Hafðu hugfast að markmið kristinna foreldra ætti að vera að ala börnin þannig upp að þau verði þroskaðir, traustir og ábyrgir kristnir einstaklingar. — Samanber 1. Korintubréf 13:11; Efesusbréfið 4:13, 14.

15 Foreldrar verða að venja sig af því að bregðast alltaf neikvætt við þegar unglingurinn biður um aukið sjálfstæði. Þetta getur verið erfitt en unglingurinn verður að fá að þroskast á heilbrigðan hátt sem einstaklingur. Sumir unglingar hafa meira að segja mjög þroskuð viðhorf þótt þeir séu frekar ungir. Biblían segir til dæmis um Jósía konung: „Er hann sjálfur var enn ungur að aldri [um 15 ára], tók hann að leita Guðs Davíðs.“ Þessi duglegi unglingur var greinilega mjög ábyrgur. — 2. Kroníkubók 34:1-3.

16. Hverju ættu unglingar að gera sér grein fyrir þegar þeir fá aukna ábyrgð?

16 En frelsinu fylgir ábyrgð. Láttu hálffullorðinn unglinginn finna fyrir afleiðingum gerða sinna og ákvarðana þegar það á við. Meginreglan að „það sem maður sáir, það mun hann og uppskera“ á við unglinga jafnt sem fullorðna. (Galatabréfið 6:7) Það er ekki hægt að vernda börnin endalaust. En hvað ef barnið vill gera eitthvað sem er algerlega óviðunandi? Sem ábyrgt foreldri verður þú að segja nei. Þótt þú útskýrir ástæðuna ætti ekkert að breyta ákvörðun þinni. (Samanber Matteus 5:37.) Hafðu samt hugfast að „mjúklegt andsvar stöðvar bræði“ og reyndu að segja nei á rólegan og yfirvegaðan hátt. — Orðskviðirnir 15:1.

17. Hvaða þörfum unglinga þurfa foreldrar að sinna?

17 Ungt fólk þarf það öryggi sem fylgir stefnuföstum aga jafnvel þótt það sé ekki alltaf sammála reglum og hömlum foreldranna fyrst í stað. Það er gremjulegt fyrir börnin ef foreldrarnir breyta reglunum sí og æ eftir eigin geðþótta. Ef unglingar fá hvatningu og hjálp til að byggja upp sjálfstraust og vinna bug á óframfærni eða feimni verða þeir sennilega heilsteyptari einstaklingar þegar þeir þroskast. Unglingar kunna líka að meta það þegar þeim er sýnt það traust sem þeir hafa áunnið sér. — Samanber Jesaja 35:3, 4; Lúkas 16:10; 19:17.

18. Nefndu nokkrar uppörvandi staðreyndir um unglinga.

18 Það er hughreystandi fyrir foreldra að vita að börn dafna yfirleitt ef friður, stöðugleiki og ástúð ríkir á heimilinu. (Efesusbréfið 4:31, 32; Jakobsbréfið 3:17, 18) Auk þess hafa margir unglingar spjarað sig prýðilega og komist vel til manns þótt þeir hafi búið við erfiðleika í fjölskyldunni eins og alkóhólisma, ofbeldi eða önnur slæm áhrif. Ef foreldrarnir sjá til þess að unglingurinn finni til öryggis á heimilinu og njóti ástar, hlýju og athygli, samhliða sanngjörnum hömlum og biblíulegum aga, eru mestar líkur á því að hann þroskist vel og foreldrarnir geti verið stoltir af honum. — Samanber Orðskviðina 27:11.

ÞEGAR BÖRN FARA ÚT AF SPORINU

19. Hvaða ábyrgð hvílir á barninu þó að foreldrarnir eigi að fræða það um veginn sem það á að halda?

19 Gott uppeldi hefur mikið að segja. Í Orðskviðunum 22:6 segir: „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ En geta börn farið út af sporinu þótt þau eigi góða foreldra? Já, það þarf að sjá þessi orð í samhengi við önnur vers í Orðskviðunum sem leggja áherslu á að það er ábyrgð barnsins að hlusta á foreldra sína og hlýða þeim. (Orðskviðirnir 1:8) Foreldrar og börn stuðla að sátt og samlyndi innan fjölskyldunnar ef þau vinna saman að því að fylgja meginreglum Biblíunnar. Ef þau gera það ekki er voðinn vís.

20. Hvernig ættu foreldrar að taka á málum ef barnið gerir eitthvað af sér í hugsunarleysi?

20 Hvernig ættu foreldrar að bregðast við ef unglingur á heimilinu gerir eitthvað af sér og lendir í vandræðum? Þá þarf unglingurinn sérstaklega á hjálp að halda. Ef foreldrarnir hafa hugfast að unglingurinn er óreyndur hættir þeim síður til þess að bregðast of harkalega við. Páll ráðlagði þroskuðum kristnum mönnum í söfnuðinum: „Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð.“ (Galatabréfið 6:1) Foreldrar ættu að fylgja þessu ráði þegar þeir ræða við ungling sem hefur gert eitthvað af sér í hugsunarleysi. Þeir ættu að útskýra skýrt og greinilega hvers vegna hegðun unglingsins var röng og hvernig hann getur forðast að gera sömu mistök aftur. Þeir ættu líka að láta það koma skýrt fram að það var hegðun unglingsins sem var slæm en ekki unglingurinn sjálfur. — Samanber Júdasarbréfið 22, 23.

21. Hvernig ættu foreldrar að bregðast við ef barnið þeirra fremur alvarlega synd?

21 En hvað ættu foreldrar að gera ef brotið er mjög alvarlegt? Þá þarf unglingurinn að fá sérstaka hjálp og góða leiðsögn. Ef safnaðarmaður syndgar alvarlega er hann hvattur til að iðrast og biðja öldungana um aðstoð. (Jakobsbréfið 5:14-16) Þegar hann hefur iðrast hjálpa öldungarnir honum að byggja sig upp í trúnni. Í fjölskyldunni er það ábyrgð foreldranna að hjálpa unglingi sem gerir eitthvað af sér þótt þeir gætu þurft að ræða málið við öldungana. Þeir ættu hins vegar aldrei að leyna því fyrir öldungunum ef barnið hefur framið alvarlega synd.

22. Hvaða viðhorf ættu foreldrar að reyna að hafa ef barn þeirra brýtur alvarlega af sér?

22 Þegar börn gera eitthvað alvarlegt af sér reynir það mjög á foreldrana. Örvilnuðum foreldrum er kannski skapi næst að reiðast og hóta einþykku barni en það gæti hins vegar gert barnið biturt. Hafðu hugfast að framtíð þess gæti oltið á því hvernig komið er fram við það meðan á þessu stendur. Mundu líka að Jehóva var fús til að fyrirgefa fólki sínu þegar það vék af réttri braut, svo framarlega sem það iðraðist. Taktu eftir hlýlegum orðum hans: „Komið, eigumst lög við! — segir Drottinn. Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri, skulu þær verða sem ull.“ (Jesaja 1:18) Þetta er góð fyrirmynd fyrir foreldra.

23. Hvernig ættu foreldrar að bregðast við ef barnið þeirra drýgir alvarlega synd og hvað ættu þeir að forðast?

23 Reyndu að hvetja barnið til að breyta um stefnu. Leitaðu ráða hjá reyndum foreldrum og safnaðaröldungum. (Orðskviðirnir 11:14) Gættu þess að segja ekki eða gera eitthvað í fljótfærni sem gæti orðið til þess að barninu finnist erfitt að snúa aftur til þín. Forðastu stjórnlausa reiði og biturð. (Kólossubréfið 3:8) Gefstu ekki fljótt upp. (1. Korintubréf 13:4, 7) Þótt þú hatir hið illa skaltu ekki verða harðbrjósta eða beiskur gagnvart barninu. Umfram allt ættu foreldrar að vera góð fyrirmynd og hafa sterka trú á Guð.

EF UNGLINGUR ER ÁKVEÐINN Í AÐ GERA UPPREISN

24. Hvað gerist því miður stundum í kristnum fjölskyldum og hvernig ættu foreldrar að bregðast við?

24 Stundum er ljóst að unglingur er harðákveðinn í því að gera uppreisn og hafna kristnum lífsgildum með öllu. Þá ættu foreldrarnir að einbeita sér að því að styrkja og uppbyggja hina í fjölskyldunni. Beindu ekki svo mikilli athygli að unglingnum, sem er í uppreisn, að þú vanrækir hin börnin. Í stað þess að fela vandamálið fyrir þeim skaltu ræða við þau um málið eftir því sem við á og hughreysta þau. — Samanber Orðskviðina 20:18.

25. (a) Hvað gætu foreldrar þurft að gera ef barn er harðákveðið í því að gera uppreisn? (b) Hvað ættu foreldrar að hafa hugfast ef eitt af börnunum gerir uppreisn?

25 Jóhannes postuli sagði um þann sem forherðir sig og gerir uppreisn gegn söfnuðinum: „Takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn.“ (2. Jóhannesarbréf 10) Foreldrar gætu talið nauðsynlegt að grípa til svipaðra aðgerða ef barnið er lögráða og gerir algera uppreisn. Það getur verið mjög erfitt og sársaukafullt, en stundum er það nauðsynlegt til að vernda aðra í fjölskyldunni. Hin börnin þurfa á vernd þinni og umsjón að halda. Haltu því áfram að setja skýrar en jafnframt sanngjarnar hegðunarreglur. Eigðu góð samskipti við börnin sem eru enn á heimilinu. Sýndu áhuga á því hvernig þeim gengur í skólanum og söfnuðinum. Segðu þeim líka að þótt þú hafir ekki velþóknun á hegðun barnsins, sem er í uppreisn, hatir þú það samt ekki. Fordæmdu slæma hegðun barnsins en ekki barnið sjálft. Þegar tveir synir Jakobs stofnuðu fjölskyldunni í ógæfu með því að fremja grimmdarverk formælti Jakob reiði þeirra en ekki þeim sjálfum. — 1. Mósebók 34:1-31; 49:5-7.

26. Í hverju geta samviskusamir foreldrar leitað huggunar ef eitt af börnunum gerir uppreisn?

26 Þér finnst ef til vill að þú berir ábyrgð á því sem hefur átt sér stað í fjölskyldunni. En ef þú hefur gert allt sem í þínu valdi stóð, beðið Jehóva um leiðsögn og fylgt ráðum hans eftir fremsta megni er engin ástæða til að gagnrýna sjálfan þig of harðlega. Leitaðu huggunar í því að enginn er fullkomið foreldri og þú reyndir að gera þitt besta. (Samanber Postulasöguna 20:26.) Það tekur mjög á að hafa iðrunarlausan uppreisnarsegg í fjölskyldunni en ef þannig er ástatt skaltu vera þess fullviss að Guð skilur þig og hann yfirgefur aldrei trúa þjóna sína. (Sálmur 27:10) Gættu þess að heimilið sé öruggt skjól og athvarf fyrir börnin sem eftir eru.

27. Hvaða von ættu foreldrar barna, sem gera uppreisn, alltaf að halda í?

27 Gefðu aldrei upp vonina. Uppeldið, sem barnið hefur fengið, gæti að lokum snert hjarta þess og leitt það aftur inn á rétta braut. (Prédikarinn 11:6) Margar kristnar fjölskyldur hafa lent í því sama og þú og stundum hafa villuráfandi börn snúið aftur eins og týndi sonurinn í dæmisögu Jesú. (Lúkas 15:11-32) Hið sama gæti gerst hjá þér.