Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

10. KAFLI

Veikindi í fjölskyldunni

Veikindi í fjölskyldunni

1, 2. Hvernig notaði Satan hörmungar og veikindi til að reyna að gera Job afhuga Guði?

 FJÖLSKYLDULÍF JOBS hlýtur að hafa verið hamingjuríkt. Biblían segir að hann hafi verið „meiri öllum austurbyggjum“. Hann átti tíu börn, sjö syni og þrjár dætur. Hann gat líka séð vel fyrir heimilinu. Síðast en ekki síst tók hann forystuna í trúarlífi fjölskyldunnar og var umhugað um samband barnanna við Jehóva. Allt þetta stuðlaði að því að fjölskyldan var samrýmd og hamingjusöm. — Jobsbók 1:1-5.

2 Það fór ekki fram hjá Satan, erkióvini Jehóva Guðs, að Job gekk allt í haginn. Satan leitar stöðugt færis að brjóta ráðvendni þjóna Guðs á bak aftur og réðst því á Job og rændi hann eignum og börnum. Síðan sló hann Job „illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja“. Satan vonaðist til að hörmungar hans og veikindi myndu gera hann afhuga Guði. — Jobsbók 2:6, 7.

3. Lýstu veikindum Jobs.

3 Biblían segir ekki hvað sjúkdómurinn, sem lagðist á Job, heitir en hún lýsir einkennunum. Líkami hans var þakinn ormum og húðin skorpnaði og flagnaði af. Andardráttur hans og líkami varð illa lyktandi og hann var kvalinn af sársauka. (Jobsbók 7:5; 19:17, Biblían 2007; 30:17, 30) Job sat harmþrunginn í öskunni og skóf hold sitt með leirbrotum. (Jobsbók 2:8) Hann var svo sannarlega aumkunarverður.

4. Í hverju lenda allar fjölskyldur af og til?

4 Hvernig myndirðu bregðast við ef svona alvarleg veikindi hrjáðu þig? Nú á dögum leggur Satan ekki sjúkdóma á þjóna Guðs eins og hann lagði á Job. En vegna ófullkomleikans, álagsins sem fylgir daglegu lífi og skaðlegra umhverfisáhrifa er við því að búast að sumir í fjölskyldunni veikist af og til. Fáir þurfa að þjást jafnmikið og Job en við getum öll orðið veik þótt við reynum að fyrirbyggja það. Veikindi reyna oft mikið á fjölskylduna. Við skulum því athuga hvernig Biblían hjálpar okkur í baráttunni við þennan gamla óvin mannkyns. — Prédikarinn 9:11; 2. Tímóteusarbréf 3:16.

VIÐBRÖGÐ ÞÍN

5. Hvernig bregst fjölskyldan yfirleitt við skammvinnum veikindum?

5 Það er alltaf erfitt þegar eðlilegt líf fer úr skorðum, hver sem ástæðan er, og þá sérstaklega ef það er vegna langvinnra veikinda. Skammvinn veikindi kalla meira að segja á það að maður lagi sig að breyttum aðstæðum, sýni skilning og færi fórnir. Heilbrigðir fjölskyldumeðlimir þurfa ef til vill að hafa hljótt svo að hinn veiki geti hvílst. Þeir gætu líka þurft að neita sér um eitthvað sem þeir eru vanir að gera. En í flestum fjölskyldum finna jafnvel ung börn til með veiku systkini eða foreldri þótt það geti stundum þurft að minna þau á að sýna tillitssemi. (Kólossubréfið 3:12) Þegar um skammvinn veikindi er að ræða er fjölskyldan yfirleitt fús til að gera það sem til þarf. Auk þess vonast líklega flestir í fjölskyldunni til þess að njóta sömu umhyggju ef þeir veikjast. — Matteus 7:12.

6. Hver geta viðbrögðin verið ef einhver í fjölskyldunni á við alvarleg og langvarandi veikindi að stríða?

6 En segjum sem svo að veikindin séu mjög alvarleg og kosti róttækar og langvarandi breytingar. Einhver í fjölskyldunni gæti hafa lamast af völdum heilablóðfalls, verið með heilabilun vegna Alzheimers eða verið veiklaður af öðrum orsökum. Kannski á einhver í fjölskyldunni við geðrænan sjúkdóm að stríða, svo sem geðklofa. Í fyrstu er eðlilegt að finna til vorkunnar í garð hins sjúka og vera sorgmæddur vegna þess að ástvinur á bágt. En síðan fylgja kannski aðrar tilfinningar í kjölfarið. Þegar veikindi einnar manneskju hafa mjög mikil áhrif á líf annarra í fjölskyldunni og skerða jafnvel frelsi þeirra gætu þeir fundið til gremju. Þeir hugsa kannski með sér: Af hverju þurfti ég að lenda í þessu?

7. Hvernig brást eiginkona Jobs við veikindum hans og hverju virðist hún hafa gleymt?

7 Kona Jobs virðist hafa hugsað eitthvað þessu líkt. Mundu að hún hafði þegar misst börnin sín. Sá harmleikur hlýtur að hafa fyllt hana örvæntingu. Að lokum fékk eiginmaður hennar sársaukafullan og andstyggilegan sjúkdóm, hann sem hafði verið svo hraustur og atorkumikill. Þá virðist hún hafa misst sjónar á því sem skipti miklu meira máli en allar þessar hörmungar — sambandi þeirra hjóna við Guð. Biblían segir: „Þá sagði kona [Jobs] við hann: ‚Heldur þú enn fast við ráðvendni þína? Formæltu Guði og farðu að deyja!‘“ — Jobsbók 2:9.

8. Hvaða ritningarstaður getur hjálpað fólki að hafa rétt viðhorf ef einhver í fjölskyldunni er alvarlega veikur?

8 Margir verða gramir, jafnvel reiðir, þegar líf þeirra gerbreytist vegna veikinda annarra. En þegar kristinn maður hugleiðir málið gerir hann sér eflaust grein fyrir því að veikindin gefa honum tækifæri til að sýna hve einlægur kærleikur hans er. Sannur kærleikur „er langlyndur, hann er góðviljaður . . . [og] leitar ekki síns eigin. . . . Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.“ (1. Korintubréf 13:4-7) Við ættum ekki að leyfa neikvæðum tilfinningum að ná yfirhöndinni heldur þurfum við að reyna eftir fremsta megni að hafa stjórn á þeim. — Orðskviðirnir 3:21.

9. Hvaða loforð geta hjálpað fólki andlega og tilfinningalega þegar einhver í fjölskyldunni er alvarlega veikur?

9 Hvernig er hægt að hlúa að andlegri og tilfinningalegri velferð fjölskyldunnar þegar alvarleg veikindi steðja að? Mismunandi sjúkdómar kalla auðvitað á mismunandi umönnun og meðferð og það væri ekki viðeigandi í þessari bók að mæla með einhverri sérstakri læknismeðferð eða heimahlynningu. En Jehóva „reisir upp alla niðurbeygða“ í andlegum skilningi. (Sálmur 145:14) Davíð konungur skrifaði: „Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum. Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs . . . Drottinn styður hann á sóttarsænginni.“ (Sálmur 41:2-4) Jehóva sér um að varðveita þjóna sína í trúnni jafnvel þegar þeim finnst þeir vera að bugast undan tilfinningaálaginu. (2. Korintubréf 4:7) Margir hafa tekið undir orð sálmaritarans þegar alvarleg veikindi eru í fjölskyldunni: „Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.“ — Sálmur 119:107.

HUGARFARIÐ HEFUR MIKIÐ AÐ SEGJA

10, 11. (a) Hvað er nauðsynlegt fyrir fjölskyldu ef hún þarf að takast á við alvarleg veikindi? (b) Hvað gerði kona nokkur þegar eiginmaður hennar veiktist alvarlega?

10 „Hugrekki mannsins heldur honum uppi í sjúkdómi hans,“ segir í Orðskviðunum, „en dapurt geð, hver fær borið það?“ (Orðskviðirnir 18:14) Alvarleg veikindi geta haft áhrif á hugarástand fjölskyldna og einstaklinga. Hins vegar er „rósamt hjarta . . . líf líkamans“. (Orðskviðirnir 14:30) Hugarfar fólks ræður miklu um það hvernig fjölskyldum gengur að takast á við alvarleg veikindi. — Samanber Orðskviðina 17:22.

11 Kristin kona varð fyrir því áfalli að eiginmaður hennar fékk heilablæðingu aðeins sex árum eftir að þau giftust. „Þetta hafði mikil áhrif á talgetu hans og næstum ómögulegt var að halda uppi samræðum við hann,“ segir hún. „Það kostaði mikla áreynslu að reyna að skilja hvað hann var að segja.“ Ímyndaðu þér einnig gremjuna og angistina sem eiginmaðurinn hlýtur að hafa upplifað. Hvað gerðu hjónin? Þótt þau byggju langt frá söfnuðinum reyndi systirin eftir fremsta megni að vera sterk í trúnni. Hún fylgdist með öllum upplýsingum sem komu frá söfnuðinum og gætti þess að fá alltaf næga andlega fæðu með því að lesa tímaritin Varðturninn og Vaknið! Þetta veitti henni andlegan þrótt til að annast eiginmann sinn þar til hann dó fjórum árum síðar.

12. Hvernig getur hinn sjúki stundum lagt sitt af mörkum, líkt og Job gerði?

12 Í frásögunni af Job kemur fram að það var hann, hinn sjúki, sem var sterkur. „Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?“ spurði hann eiginkonu sína. (Jobsbók 2:10) Það er engin furða að lærisveinninn Jakob skuli nefna Job sem framúrskarandi dæmi um þolinmæði og umburðarlyndi. Í Jakobsbréfinu 5:11 lesum við: „Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir Drottinn gjörði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ Hugrekki hins sjúka getur oft hjálpað hinum í fjölskyldunni að vera jákvæðir.

13. Hvaða samanburð ættum við að forðast ef alvarleg veikindi eru í fjölskyldunni?

13 Flestum kemur saman um að það geti verið erfitt að horfast í augu við veruleikann fyrst í stað þegar upp koma alvarleg veikindi í fjölskyldunni. Þeir benda líka á að það skipti mjög miklu máli að sjá hlutina í réttu ljósi. Það getur verið erfitt í byrjun að breyta venjum fjölskyldunnar. En sá sem leggur sig einlæglega fram getur lagað sig að nýjum aðstæðum. Þá er líka mikilvægt að vera ekki að bera sig saman við aðra og hugsa sem svo að þetta sé ekki sanngjarnt. Það er ekki sjálfgefið að lífið sé auðveldara hjá fólki þar sem allir í fjölskyldunni eru frískir. Enginn veit í rauninni hvaða byrðar aðrir þurfa að bera. Allir kristnir menn finna huggun í orðum Jesú: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“ — Matteus 11:28.

AÐ FORGANGSRAÐA

14. Hvernig er hægt að forgangsraða rétt?

14 Þegar alvarleg veikindi eru í fjölskyldunni er gott fyrir alla að muna eftir innblásnu orðunum: „Ef margir leggja á ráðin, fá þau framgang.“ (Orðskviðirnir 15:22) Gæti fjölskyldan hist og rætt um aðstæðurnar sem komnar eru upp? Það væri viðeigandi að gera það, biðja til Guðs og leita leiðsagnar í Biblíunni. (Sálmur 25:4) Hvað ætti að ræða við slíkt tækifæri? Það þarf til dæmis að taka ákvarðanir sem varða læknismeðferð, fjármál og fjölskylduna. Hver mun annast sjúklinginn að mestu? Hvernig getur fjölskyldan unnið saman svo hægt sé að veita þá umönnun? Hvaða áhrif hafa þær ákvarðanir, sem teknar eru, á hvern og einn í fjölskyldunni? Hvernig er hægt að sinna trúarlegum þörfum þess sem ber hitann og þungann af umönnun sjúklingsins, svo og öðrum þörfum hans?

15. Hvernig styður Jehóva fjölskyldur þegar við alvarleg veikindi er að stríða?

15 Þeir sem biðja einlæglega um handleiðslu Jehóva, hugleiða orð Biblíunnar og fylgja leiðsögn hennar óhikað fá oft meiri blessun en þeir bjuggust við. Það þýðir ekki endilega að hinn sjúki nái bata en þeir sem reiða sig á Jehóva geta treyst að allt fari á besta veg miðað við aðstæður. (Sálmur 55:23) Sálmaritarinn skrifaði: „Miskunn þín [studdi mig], Drottinn. Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.“ — Sálmur 94:18, 19; Sjá einnig Sálm 63:7-9.

HJÁLPIÐ BÖRNUNUM

16, 17. Á hvaða nótum mætti ræða við ung börn um veikindi systkinis þeirra?

16 Börn geta átt erfitt þegar alvarleg veikindi eru í fjölskyldunni. Það er mikilvægt að foreldrarnir hjálpi þeim að skilja aðstæðurnar sem upp eru komnar og bendi þeim á hvernig þau geti orðið að liði. Ef það er barn sem er veikt þarf að minna systkini þess á að foreldrunum þykir jafn vænt um öll börnin þótt veika barnið fái meiri athygli en hin. Til að hin börnin verði ekki öfundsjúk eða gröm út í veika barnið ættu foreldrarnir að hjálpa þeim að styrkja systkinaböndin, sýna samhug og leggja sitt af mörkum til að takast á við erfiðleikana sem veikindin hafa í för með sér.

17 Þegar ung börn eiga í hlut er yfirleitt betra að foreldrarnir höfði til tilfinninga þeirra heldur en að gefa langar og flóknar læknisfræðilegar skýringar. Þannig mætti gefa þeim einhverja hugmynd um hvað sjúka barnið er að ganga í gegnum. Ef heilbrigðu börnin sjá að veika barnið getur ekki gert margt af því sem þeim finnst eðlilegt að gera er líklegra að þau sýni meiri ‚hluttekningu og bróðurelsku‘. — 1. Pétursbréf 3:8.

18. Hvernig er hægt að hjálpa eldri börnum að skilja erfiðleikana sem fylgja veikindum og hvernig gæti það verið þeim til góðs?

18 Ef börnin eru orðin eldri þarf að sýna þeim fram á að aðstæður eru erfiðar og að allir í fjölskyldunni þurfi að færa fórnir. Ef læknis- og sjúkrakostnaður er umtalsverður er ekki víst að foreldrarnir geti veitt hinum börnunum eins mikið og þeir vildu. Ætli börnin taki því illa og finnist þau fara á mis við eitthvað? Eða munu þau sýna skilning á aðstæðum og vera fús til að færa nauðsynlegar fórnir? Það fer að miklu leyti eftir því hvernig málin eru rædd og hvaða andrúmsloft tekst að skapa í fjölskyldunni. Oft hafa veikindi í fjölskyldunni auðveldað foreldrum að kenna börnum sínum að fylgja ráðum Páls: „Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður. Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.“ — Filippíbréfið 2:3, 4.

AFSTAÐA TIL LÆKNISMEÐFERÐAR

19, 20. (a) Hvaða ábyrgð leggst á herðar þeirra sem veita fjölskyldu forstöðu þegar einhver í fjölskyldunni veikist? (b) Hvaða leiðsögn veitir Biblían um læknismeðferð þótt hún sé ekki kennslubók í læknisfræði?

19 Skynsamir kristnir menn eru ekki á móti læknismeðferð svo framarlega sem hún stangast ekki á við lög Guðs. Þegar einhver í fjölskyldunni verður veikur leita þeir aðstoðar sem fyrst til að lina þjáningar hins sjúka. En læknar geta haft ólíkar skoðanir sem þarf að vega og meta. Þar að auki hafa ýmsir nýir sjúkdómar og kvillar skotið upp kollinum á undanförnum árum og stundum er ekki til einhver ein meðferð sem nýtur almennrar viðurkenningar. Stundum getur meira að segja verið erfitt að fá nákvæma sjúkdómsgreiningu. Hvað er þá til ráða?

20 Þótt einn biblíuritarinn hafi verið læknir og Páll postuli hafi gefið vini sínum Tímóteusi gagnleg læknisráð er Biblían ekki kennslubók um læknisfræði heldur leiðarvísir um trú og siðferði. (Kólossubréfið 4:14; 1. Tímóteusarbréf 5:23) Þeir sem veita fjölskyldu forstöðu verða því að taka skynsamlegar ákvarðanir um læknismeðferð. Kannski telja þeir nauðsynlegt að fá álit fleiri en eins læknis. (Samanber Orðskviðina 18:17.) Þeir vilja sannarlega fá bestu meðferð sem völ er á fyrir sjúkan ástvin og flestir leita til venjulegra lækna. Sumir kjósa hins vegar óhefðbundnar lækningar. Þetta er persónuleg ákvörðun hvers og eins. En þegar kristnir menn taka ákvarðanir um læknismeðferð láta þeir ‚orð Guðs vera lampa fóta sinna og ljós á vegum sínum‘. (Sálmur 119:105) Þeir fylgja leiðbeiningum Biblíunnar í einu og öllu. (Jesaja 55:8, 9) Þess vegna forðast þeir greiningaraðferðir sem bera keim af spíritisma og læknismeðferð sem gengur á skjön við meginreglur Biblíunnar. — Sálmur 36:10; Postulasagan 15:28, 29; Opinberunarbókin 21:8.

21, 22. Að hvaða niðurstöðu komst asísk kona eftir að hafa hugleitt meginreglu í Biblíunni og hvernig reyndist ákvörðun hennar til blessunar?

21 Lítum á dæmi. Ung kona frá Asíu fór að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva. Stuttu síðar fæddi hún stúlkubarn. Barnið fæddist fyrir tímann og vó aðeins 1470 grömm. Konan varð algerlega miður sín þegar læknir sagði henni að barnið yrði alvarlega þroskaheft og myndi aldrei læra að ganga. Hann ráðlagði henni að koma barninu fyrir á stofnun. Eiginmaðurinn var tvístígandi. Hvar gat hún leitað ráða?

22 Hún segir: „Ég mundi eftir að hafa lært í Biblíunni að ‚synir eru gjöf frá Drottni og ávöxtur móðurkviðarins umbun‘.“ (Sálmur 127:3) Hún ákvað að taka þessa „gjöf “ heim og annast hana. Í fyrstu voru aðstæður erfiðar en með hjálp vina í söfnuði Votta Jehóva gat hún annast barnið og veitt því þá sérhæfðu aðstoð sem það þurfti á að halda. Tólf árum síðar kom stúlkan reglulega á samkomur í ríkissalnum og hafði gaman af því að vera með hinum börnunum í söfnuðinum. Móðirin segir: „Ég er innilega þakklát fyrir að hafa tekið rétta ákvörðun byggða á meginreglum Biblíunnar. Nú get ég haft hreina samvisku frammi fyrir Jehóva Guði og er laus við þá eftirsjá sem hefði annars fylgt mér alla ævi.“

23. Hvernig hughreystir Biblían sjúka og þá sem annast þá?

23 Veikindi munu ekki þjaka okkur að eilífu. Spámaðurinn Jesaja talaði um þann tíma þegar „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Þetta loforð uppfyllist í nýja heiminum sem nálgast óðfluga. En þangað til þurfum við að búa við sjúkdóma og dauða. Sem betur fer fáum við leiðsögn og hjálp í orði Guðs. Hegðunarreglur Biblíunnar eru varanlegar og æðri síbreytilegum skoðunum ófullkominna manna. Það er því viturlegt að taka undir með sálmaritaranum: „Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran. . . . Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát. . . . Að halda þau hefir mikil laun í för með sér.“ — Sálmur 19:8, 10, 12.