Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

16. KAFLI

Tryggðu fjölskyldunni varanlega framtíð

Tryggðu fjölskyldunni varanlega framtíð

1. Hvað ætlaðist Jehóva fyrir með fjölskylduna?

 ÞEGAR JEHÓVA leiddi Adam og Evu saman í hjónaband lét Adam í ljós gleði sína með því að mæla fram fyrsta hebreska ljóðið sem um er getið. (1. Mósebók 2:22, 23) En skaparinn hafði fleira í huga en það eitt að gleðja jarðnesk börn sín. Hjón og fjölskyldur áttu að gera vilja hans. Hann sagði fyrstu hjónunum: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:28) Þetta var göfugt og gefandi verkefni. Það hefði orðið Adam og Evu og ófæddum börnum þeirra til mikillar gæfu ef þau hefðu gert vilja Jehóva og hlýtt honum í einu og öllu.

2, 3. Hvað er farsælast fyrir fjölskyldur nú á tímum?

2 Það er sömuleiðis farsælast fyrir fjölskyldur nú á tímum að vinna saman að því að gera vilja Guðs. Páll postuli skrifaði: „Guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:8) Guðhrædd fjölskylda, sem fylgir leiðbeiningum Jehóva í Biblíunni, uppsker hamingju nú þegar. (Sálmur 1:1-3; 119:105; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Þótt ekki fari nema einn í fjölskyldunni eftir meginreglum Biblíunnar er það betra en að enginn geri það.

3 Í þessari bók hefur verið fjallað um margar af þeim meginreglum Biblíunnar sem stuðla að farsælu fjölskyldulífi. Trúlega hefurðu veitt því athygli að sumar þeirra eru nefndar margsinnis í bókinni. Ástæðan er sú að þær lýsa djúpstæðum sannleika sem er öllum til góðs á mörgum sviðum fjölskyldulífsins. Fjölskylda, sem leggur sig fram við að fara eftir þessum meginreglum, kemst að raun um að guðhræðslan hefur sannarlega ‚fyrirheit fyrir þetta líf‘. Lítum enn á ný á fjórar af þessum mikilvægu meginreglum.

SJÁLFSTJÓRN

4. Af hverju er mikilvægt fyrir hjón að sýna sjálfstjórn?

4 Salómon konungur sagði: „Eins og borg, sem múrarnir hafa verið brotnir utan af, eins er sá maður, sem eigi hefir stjórn á skapsmunum sínum.“ (Orðskviðirnir 25:28; 29:11) Það er mikilvægt fyrir þá sem vilja búa í hamingjuríku hjónabandi að ‚hafa stjórn á skapsmunum sínum‘, að sýna sjálfstjórn. Sá sem lætur undan skaðlegum kenndum, svo sem reiði eða siðlausum löngunum, veldur skaða sem tekur mörg ár að bæta — ef það er þá hægt á annað borð.

5. Hvernig getur ófullkominn maður tamið sér sjálfstjórn og af hverju er það til góðs?

5 Enginn ófullkominn afkomandi Adams hefur fullkomna stjórn á sjálfum sér. (Rómverjabréfið 7:21, 22) En sjálfstjórn er ávöxtur andans. (Galatabréfið 5:22, 23) Við þroskum með okkur sjálfstjórn með því að biðja um anda Guðs, fara eftir viðeigandi leiðbeiningum í Biblíunni, umgangast aðra sem sýna sjálfstjórn og forðast þá sem gera það ekki. (Sálmur 119:100, 101, 130; Orðskviðirnir 13:20; 1. Pétursbréf 4:7) Þetta hjálpar okkur að ‚flýja saurlifnaðinn‘, jafnvel þegar freistingar verða á vegi okkar. (1. Korintubréf 6:18) Við höfnum ofbeldi og forðumst eða sigrumst á alkóhólisma. Og við sýnum meiri stillingu ef okkur er ögrað eða aðstæður gera okkur gramt í geði. Allir — einnig börn — þurfa að þroska með sér þennan mikilvæga ávöxt andans. — Sálmur 119:1, 2.

FRUMREGLAN UM FORYSTU

6. (a) Hvaða frumreglu setti Guð um forystu? (b) Hvað þarf eiginmaður að hafa hugfast til að forysta hans sé fjölskyldunni til farsældar?

6 Í öðru lagi er mikilvægt að virða frumregluna um forystu. Páll lýsti þessari frumreglu þegar hann sagði: „Ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Korintubréf 11:3) Þetta merkir að eiginmaðurinn fer með forystuna í fjölskyldunni, eiginkonan styður hann dyggilega og börnin eru foreldrunum hlýðin. (Efesusbréfið 5:22-25, 28-33; 6:1-4) Við skulum samt hafa hugfast að það þarf að fara rétt með forystu til að hún sé til farsældar fyrir fjölskylduna. Guðræknir eiginmenn vita að forysta er ekki það sama og einræði. Þeir líkja eftir Jesú sem er yfir þá settur. Hann átti að vera „höfuðið yfir öllu“ en kom samt ekki „til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna“. (Efesusbréfið 1:22; Matteus 20:28) Kristinn maður líkir eftir Jesú og beitir ekki forystuhlutverkinu í eigin þágu heldur með hag konu sinnar og barna í huga. — 1. Korintubréf 13:4, 5.

7. Hvaða meginreglur Biblíunnar hjálpa eiginkonu að rækja þær skyldur sem Guð hefur falið henni í fjölskyldunni?

7 Guðrækin eiginkona keppir ekki við mann sinn og reynir ekki að ráða yfir honum. Hún er ánægð með að geta stutt hann og unnið með honum. Biblían tekur skýrt fram að ‚maðurinn sé höfuð konunnar‘. (Efesusbréfið 5:23) Með því að giftast er hún sett undir ‚lögmál sem bindur hana við manninn‘. (Rómverjabréfið 7:2) En Biblían kallar hana líka „meðhjálp“ mannsins. (1. Mósebók 2:20) Hún hefur til að bera eiginleika og kosti sem maðurinn hefur ekki og hún veitir honum þann stuðning sem hann þarf á að halda. (Orðskviðirnir 31:10-31) Í Biblíunni er einnig talað um að eiginkonan sé „förunautur“ mannsins sem vinnur náið með honum. (Malakí 2:14) Þessar meginreglur hjálpa hjónum að skilja hlutverk hvort annars og sýna hvort öðru gagnkvæma virðingu.

VERTU „FLJÓTUR TIL AÐ HEYRA“

8, 9. Hvernig geta allir stuðlað að bættum tjáskiptum í fjölskyldunni?

8 Í þessari bók er iðulega bent á nauðsyn góðra tjáskipta. Af hverju? Af því að fjölskyldulífið gengur betur fyrir sig ef fólk talar saman og hlustar almennilega hvert á annað. Ítrekað hefur verið að tjáskipti eru tvíhliða. Lærisveinninn Jakob orðaði það þannig: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala.“ — Jakobsbréfið 1:19.

9 Við þurfum líka að gefa gaum að því hvernig við tölum. Vanhugsuð orð, ásakanir eða harkaleg gagnrýni er ekki leiðin til að greiða fyrir góðum tjáskiptum. (Orðskviðirnir 15:1; 21:9; 29:11, 20) Jafnvel þótt við höfum rétt fyrir okkur er hætta á að það sé til ills að opna munninn ef við erum grimm, hrokafull eða tillitslaus í orðum. Það sem við segjum ætti að vera smekklegt og „salti kryddað“. (Kólossubréfið 4:6) Orð okkar ættu að vera eins og „gullepli í skrautlegum silfurskálum“. (Orðskviðirnir 25:11) Þegar fólk lærir að tala saman og skiptast á skoðunum hefur það stigið stórt skref í átt að farsælu fjölskyldulífi.

HLUTVERK KÆRLEIKANS

10. Hvers konar kærleikur er mikilvægur í hjónabandinu?

10 Orðin „ást“ og „kærleikur“ eru mikið notuð í þessari bók. Manstu hvers konar kærleika er aðallega talað um? Rómantísk ást (eros á grísku) gegnir vissulega stóru hlutverki í hjónabandinu og í góðu hjónabandi myndast líka sterk og hlýleg vináttubönd (filia á grísku) milli karls og konu. En kærleikurinn, sem felst í gríska orðinu agape, er enn mikilvægari. Þetta er kærleikurinn sem við sýnum Jehóva, Jesú og náunganum. (Matteus 22:37-39) Þetta er kærleikurinn sem Jehóva sýnir mannkyninu. (Jóhannes 3:16) Það er ómetanlegt að geta sýnt maka okkar og börnum sams konar kærleika. — 1. Jóhannesarbréf 4:19.

11. Hvernig stuðlar kærleikurinn að góðu hjónabandi?

11 Þessi göfugi kærleikur er „band algjörleikans“. (Kólossubréfið 3:14) Hann tengir hjón sterkum böndum þannig að þau langar til að gera það sem er best fyrir hvort annað og fyrir börnin. Þegar erfiðleikar verða á veginum er það kærleikurinn sem hjálpar fjölskyldum að takast á við þá í sameiningu. Þegar árin líða er það kærleikurinn sem hjálpar hjónum að styðja hvort annað og meta hvort annað að verðleikum. „Kærleikurinn . . . leitar ekki síns eigin. . . . Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ — 1. Korintubréf 13:4-8.

12. Hvernig styrkir kærleikurinn til Jehóva hjónabandið?

12 Það er mikilvægt að hjón elski hvort annað en það er þó umfram allt kærleikurinn til Jehóva sem gerir hjónabandið sterkt og varanlegt. (Prédikarinn 4:9-12) Hvers vegna? Jóhannes postuli skrifaði: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Hjón ættu að ala börnin upp í guðrækni, ekki aðeins vegna þess að þeim þykir innilega vænt um þau heldur líka vegna þess að þetta eru fyrirmæli Jehóva. (5. Mósebók 6:6, 7) Þau ættu að forðast siðleysi, ekki aðeins af því að þau elska hvort annað heldur fyrst og fremst af því að þau elska Jehóva sem dæmir „hórkarla og frillulífismenn“. (Hebreabréfið 13:4) Jafnvel þó að annar makinn valdi alvarlegum erfiðleikum í hjónabandinu heldur hinn áfram að fylgja meginreglum Biblíunnar ef hann elskar Jehóva. Kærleikurinn til Jehóva styrkir kærleiksböndin í fjölskyldunni og stuðlar að farsæld hennar.

FJÖLSKYLDA SEM GERIR VILJA GUÐS

13. Hvernig getum við einbeitt okkur að því sem mestu máli skiptir og hvernig hjálpar það okkur?

13 Líf kristins manns snýst um það að gera vilja Guðs. (Sálmur 143:10) Það er þannig sem við sýnum guðrækni. Að gera vilja Guðs hjálpar fjölskyldum að einbeita sér að því sem mestu máli skiptir. (Filippíbréfið 1:9, 10) Jesús sagði til dæmis: „Ég er kominn að gjöra ‚son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. Og heimamenn manns verða óvinir hans.‘“ (Matteus 10:35, 36) Margir af fylgjendum Jesú hafa verið ofsóttir af ættingjum, rétt eins og hann varaði við. Það er ákaflega dapurlegt. Við ættum þó ekki að láta fjölskylduböndin vera þyngri á metunum en kærleikann til Jehóva Guðs og Jesú Krists. (Matteus 10:37-39) Ef við höldum okkar striki þrátt fyrir andstöðu frá ættingjum gæti afstaða þeirra breyst þegar þeir sjá hve góð áhrif guðræknin hefur. (1. Korintubréf 7:12-16; 1. Pétursbréf 3:1, 2) Og þó að það gerist ekki ávinnst ekkert til langs tíma litið með því að hætta að þjóna Guði vegna andstöðu ættingjanna.

14. Hvernig getur löngunin til að gera vilja Guðs hjálpað foreldrum að kenna börnunum það sem er þeim fyrir bestu?

14 Þegar foreldrar gera vilja Guðs hjálpar það þeim að taka réttar ákvarðanir. Tökum dæmi. Í sumum menningarsamfélögum er gjarnan litið á börnin sem ákveðna tryggingu og foreldrar treysta að þau sjái um þá í ellinni. Það er vissulega rétt af uppkomnum börnum að annast aldraða foreldra sína en foreldrar ættu ekki þar fyrir að ýta þeim út í efnishyggju. Þeir gera börnunum engan greiða með því að kenna þeim að meta efnislegar eigur meira en andleg verðmæti. — 1. Tímóteusarbréf 6:9.

15. Hvernig er móðir Tímóteusar prýðisdæmi um foreldri sem gerði vilja Guðs?

15 Evnike, móðir Tímóteusar, er gott dæmi um þetta. (2. Tímóteusarbréf 1:5) Eignmaður hennar var ekki í trúnni en þrátt fyrir það tókst henni að ala Tímóteus upp í guðrækni, og naut þar aðstoðar Lóisar, ömmu hans. (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Þegar Tímóteus hafði aldur til leyfði Evnike honum að fara að heiman til að starfa sem trúboði með Páli postula. (Postulasagan 16:1-5) Það hlýtur að hafa glatt hana mjög að sjá son sinn verða duglegan trúboða. Guðrækni hans sem fulltíða maður vitnaði um gott uppeldi hans. Evnike hefur áreiðanlega notið þess að frétta af dyggu trúboðsstarfi sonar síns, þótt hún hafi eflaust saknað hans. — Filippíbréfið 2:19, 20.

FJÖLSKYLDAN OG FRAMTÍÐ ÞÍN

16. Hvernig sýndi Jesús móður sinni umhyggju en hvert var aðalmarkmið hans í lífinu?

16 Jesús var alinn upp á guðræknu heimili og sem fulltíða maður sýndi hann móður sinni viðeigandi umhyggju. (Lúkas 2:51, 52; Jóhannes 19:26) Meginmarkmið hans í lífinu var hins vegar að gera vilja Guðs og það þýddi að hann átti að opna mönnum leiðina til að hljóta eilíft líf. Hann gerði það þegar hann gaf fullkomið mannslíf sitt sem lausnargjald fyrir syndugt mannkyn. — Markús 10:45; Jóhannes 5:28, 29.

17. Hvaða framtíðarvon geta þeir sem gera vilja Guðs átt vegna fórnar Jesú?

17 Eftir að Jesús dó reisti Jehóva hann upp til lífs á himnum, fékk honum mikið vald í hendur og skipaði hann að lokum konung í ríki sínu. (Matteus 28:18; Rómverjabréfið 14:9; Opinberunarbókin 11:15) Fórn Jesú gerði að verkum að hægt var að velja hóp manna til að ríkja með honum á himnum. Hún hefur einnig í för með sér að aðrir hjartahreinir menn eiga þess kost að hljóta fullkomleika í paradís á jörð. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 4; 21:3-5; 22:1-4) Við höfum hlotið þann mikla heiður að mega segja öðrum frá þessu stórfenglega fagnaðarerindi. — Matteus 24:14.

18. Hvað eru fjölskyldur og einstaklingar hvattir til að gera?

18 Eins og Páll postuli benti á hefur fólk ‚fyrirheit fyrir hið komanda líf‘ ef það lifir guðrækilega. Það hlýtur að vera langbesta leiðin til að vera farsæll og hamingjusamur í lífinu. Mundu að „heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu“. (1. Jóhannesarbréf 2:17) Leggðu þig því fram um að gera vilja Guðs, hvort sem þú ert barn eða foreldri, eiginmaður eða eiginkona, einhleyp manneskja eða einstætt foreldri. Gleymdu aldrei að þú ert þjónn hins lifandi Guðs þótt álagið sé stundum mikið eða erfiðleikarnir virðist yfirþyrmandi. Þannig geturðu glatt Jehóva með breytni þinni. (Orðskviðirnir 27:11) Og megir þú höndla hamingjuna í þessum heimi og hljóta eilíft líf í nýja heiminum sem fram undan er.