Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bók spádóma

Bók spádóma

Bók spádóma

Fólk hefur áhuga á framtíðinni. Það leitar að áreiðanlegum spám um margvísleg efni, allt frá veðurhorfum til framvindu efnahagsmála. Þegar það tekur mið af slíkum spám verður það hins vegar oft fyrir vonbrigðum. Biblían inniheldur margar spár eða spádóma. Hve áreiðanlegir eru slíkir spádómar? Eru þeir sögulegir atburðir ritaðir fyrirfram eða eru þeir skrifaðir eftir að atburðirnir gerðust og látnir líta út sem spádómar?

RÓMVERSKI stjórnmálamaðurinn Kató (234-149 f.o.t.) er sagður hafa sagt: „Ég velti því fyrir mér hvort spámaður hlæi ekki þegar hann hittir annan spámann.“1 Allt til þessa dags eru margir vissulega vantrúaðir á spákonur, stjörnuspekinga og aðra sem segja fyrir um framtíðina. Oft eru spásagnir þeirra settar fram með óljósu orðalagi og hægt er að túlka þær á ótal vegu.

En hvað um spádóma Biblíunnar? Er ástæða til að tortryggja þá eða er grundvöllur fyrir því að treysta þeim?

Ekki aðeins fræðilegar ágiskanir

Menn, sem eru vel að sér, reyna kannski að koma með nákvæmar tilgátur um framtíðina með því að skoða framvindu mála í samfélaginu, en þær eru aldrei réttar að öllu leyti. Bókin Future Shock segir: „Sérhvert samfélag stendur ekki aðeins frammi fyrir röð atburða sem líklega gerast í framtíðinni heldur fjölda mögulegra atburða og ágreiningi um hvaða atburðarás sé ákjósanleg.“ Hún bætir við: „Auðvitað getur enginn ‚þekkt‘ framtíðina í algildum mæli á nokkurn hátt. Við getum aðeins sett framtíðarhugmyndir okkar upp í kerfi og útfært þær betur og reynt að meta líkurnar á að þær verði að veruleika.“2

En biblíuritararnir ‚mátu‘ ekki einfaldlega „líkurnar“ á ‚að hugmyndir yrðu að veruleika.‘ Ekki er heldur hægt að vísa spám þeirra á bug sem óljósum fullyrðingum sem túlka má á ótal vegu. Þvert á móti voru margir spádóma þeirra settir afskaplega skýrt fram og voru óvenjulega nákvæmir og spáðu oft þvert gegn því sem búast hefði mátt við. Tökum sem dæmi það sem Biblían sagði fyrirfram um borgina Babýlon til forna.

Yrði ‚sópað burt með sópi eyðingarinnar‘

Babýlon til forna varð að „prýði konungsríkjanna.“ (Jesaja 13:19) Þessi víðfeðma borg var hernaðarlega vel staðsett á verslunarleiðinni frá Persaflóa til Miðjarðarhafsins og þjónaði sem birgðastöð fyrir vöruflutninga bæði á sjó og landi milli austurs og vesturs.

Þegar komið var fram á sjöundu öld f.o.t. virtist Babýlon, höfuðborg babýlonska heimsveldisins, vera óvinnandi. Borgarstæðið var beggja vegna Efratárinnar og vatn hennar var notað til að mynda breiða og djúpa virkisgröf og net síkja. Til varnar borginni voru líka gríðarmiklir, tvöfaldir virkisveggir styrktir með fjölmörgum varnarturnum. Það var engin furða að íbúum hennar fyndist þeir vera öruggir.

En á áttundu öld, áður en Babýlon náði hátindi dýrðar sinnar, spáði Jesaja spámaður að Babýlon yrði ‚sópað burt með sópi eyðingarinnar.‘ (Jesaja 13:19; 14:22, 23) Jesaja lýsti líka nákvæmlega hvernig fall Babýlonar bæri að. Innrásarliðið myndi ‚þurrka upp ár hennar‘ — þaðan sem vatnið kom í borgarsíkin — og gera borgina berskjaldaða. Jesaja gaf jafnvel upp nafn sigurvegarans; „Kýrus“ héti hann, yrði mikill konungur Persa og ‚yrðu fyrir honum opnaðar dyrnar og borgarhliðin eigi lokuð.‘ — Jesaja 44:27–45:2.

Þetta var djörf spá. En rættist hún? Sagan svarar því.

„Án þess að slæi til bardaga“

Tveimur öldum eftir að Jesaja skráði spádóm sinn, að kvöldi 5. október 539 f.o.t., slógu hersveitir Meda og Persa undir stjórn Kýrusar mikla upp herbúðum nálægt Babýlon. En íbúar Babýlonar voru hvergi smeykir. Að sögn gríska sagnfræðingsins Heródótusar (á fimmtu öld f.o.t.) höfðu þeir komið sér upp vistum til margra ára.3 Þeir höfðu einnig Efratána og öfluga múra Babýlonar sér til varnar. Engu að síður „fór her Kýrusar inn í Babýlon án þess að slægi til bardaga“ þessa sömu nótt samkvæmt Nabónídusarkroníku.4 Hvernig var það mögulegt?

Heródótus segir svo frá að inni í borginni hafi fólk „dansað og skemmt sér við hátíðarhöld.“5 Úti fyrir hafði Kýrus hins vegar beint vatni Efratárinnar í annan farveg. Þegar vatnsborðið lækkaði ösluðu hermenn hans eftir árfarveginum með vatnið upp á læri. Þeir þrömmuðu fram hjá gnæfandi turnunum og fóru inn í gegnum það sem Heródótus kallaði „hliðin sem opnuðust út að ánni,“ hlið sem voru í hirðuleysi skilin eftir opin.6 (Samanber Daníel 5:1-4; Jeremía 50:24; 51:31, 32.) Aðrir sagnfræðingar, þar með talinn Xenófon (um 431–um 352 f.o.t.), svo og fleygrúnatöflur sem fornleifafræðingar hafa fundið, staðfesta að Babýlon hafi skyndilega fallið fyrir Kýrusi.7

Uppfylltist spádómur Jesaja um Babýlon þar með, eða kemur eitthvað annað til greina? Er hugsanlegt að þetta hafi ekki verið spá heldur skrifað eftir á? Spyrja mætti þess sama um aðra biblíuspádóma ef út í það er farið.

Eru þeir skrifaðir eftir á en látnir líta út eins og spádómar?

Ef spámenn Biblíunnar — Jesaja þar með talinn — umrituðu aðeins sögulega atburði á þann hátt að þeir virtust vera að bera fram spádóm, hafa þessir menn ekki verið neitt annað en slungnir svikarar. En af hvaða hvötum skyldu þeir vera með slíkar blekkingar? Sannir spámenn voru fljótir að láta vita að ekki væri hægt að múta þeim. (1. Samúelsbók 12:3; Daníel 5:17) Við höfum þegar skoðað óyggjandi vitnisburð um að biblíuritararnir (en margir þeirra voru spámenn) hafi verið trúverðugir menn sem voru jafnvel fúsir til að opinbera sín eigin vandræðalegu mistök. Það virðist ólíklegt að þess konar menn hneigðust að því að búa til margbrotnar falsanir, dulbúa frásögn liðinna atburða sem spádóm.

Það er annað sem rétt er að íhuga. Margir biblíuspádómar innihéldu harkalega fordæmingu á þjóð spámannanna sjálfra og voru prestarnir og stjórnendurnir þar með taldir. Jesaja fór til dæmis hörðum orðum um hið bágborna siðferðisástand Ísraelsmanna — bæði leiðtoga og almennings — á hans dögum. (Jesaja 1:2-10) Aðrir spámenn afhjúpuðu kröftuglega syndir prestanna. (Sefanía 3:4; Malakí 2:1-9) Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvers vegna þeir skyldu spinna upp spádóma sem innihéldu hinar hvössustu vítur sem hægt er að ímynda sér á sína eigin þjóð og hvers vegna prestarnir skyldu hafa lagt slíkum klækjum lið.

Hvernig hefðu spámennirnir þar að auki komist upp með slíka fölsun, ef þeir voru ekkert annað en svindlarar? Mikið var lagt upp úr læsi í Ísrael. Börnum var kennt frá ungum aldri að lesa og skrifa. (5. Mósebók 6:6-9) Hvatt var til einkalesturs á Ritningunum. (Sálmur 1:2) Lesið var opinberlega upp úr Ritningunum í samkunduhúsunum á hinum vikulega hvíldardegi. (Postulasagan 15:21) Það virðist ólíklegt að heil þjóð, læs og vel að sér í Ritningunum, gæti hafa látið blekkjast af slíkum prettum.

Þar fyrir utan er meira fólgið í spádómi Jesaja um fall Babýlonar. Í honum er að finna þætti sem gætu alls ekki hafa verið ritaðir eftir uppfyllingu sína.

„Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera“

Hvað yrði um Babýlon eftir fall hennar? Jesaja spáði: „Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera, kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa. Enginn Arabi skal slá þar tjöldum sínum og engir hjarðmenn bæla þar fénað sinn.“ (Jesaja 13:20) Það kann að hafa virst skrítið, svo ekki sé meira sagt, að spá því að borg á svo hagstæðum stað yrði óbyggð til frambúðar. Gæti Jesaja hafa skrifað þetta eftir að hann hefði séð Babýlon í eyði?

Eftir að Kýrus tók Babýlon héldu menn áfram að búa þar um aldir þótt borgin mætti muna fífil sinn fegri. Gleymum ekki að alla Jesajabók var að finna í Dauðahafshandritunum sem eru frá annarri öld f.o.t. Á um það bil sama tíma og þessi afrit voru gerð náðu Parþíumenn Babýlon á sitt vald. Á fyrstu öld okkar tímatals var gyðingasamfélag í Babýlon og biblíuritarinn Pétur fór þangað í heimsókn. (1. Pétursbréf 5:13) Þá hafði Dauðahafshandrit Jesajabókar verið til í næstum tvær aldir. Babýlon var því ekki komin algerlega í eyði þótt komið væri fram á fyrstu öld en Jesajabók var þá löngu fullgerð. *

En eins og spáð hafði verið varð Babýlon að lokum aðeins að „grjóthrúgu.“ (Jeremía 51:37) Að sögn hebreskufræðingsins Híerónýmusar (á fjórðu öld e.o.t.) var Babýlon orðin á hans dögum veiðilendur þar sem „hvers konar villidýr“ reikuðu um.9 Babýlon hefur verið í eyði til þessa dags.

Jesaja lifði það aldrei að sjá Babýlon óbyggða. En rústir þessarar borgar, sem eitt sinn var svo öflug, um 80 kílómetrum suður af Bagdad í Írak, bera þögult vitni um uppfyllingu orða hans: „Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera.“ Einhvers konar endurreisn Babýlonar sem ferðamannastaðar kynni að laða að henni gesti en „ætt og afkomendur“ Babýlonar eru að eilífu horfnir. — Jesaja 13:20; 14:22, 23.

Jesaja spámaður bar þess vegna ekki fram óljósa spádóma sem mátt hefði fella að næstum hvaða atburði sem væri í framtíðinni. Hann umritaði ekki heldur söguna svo að úr virtist verða spádómur. Veltu þessu aðeins fyrir þér: Af hverju skyldi svindlari taka þá áhættu að „spá“ einhverju sem hann hefði ekki nokkra stjórn á — að hin volduga Babýlon yrði aldrei framar byggð mönnum?

Þessi spádómur um fall Babýlonar er aðeins eitt dæmi úr Biblíunni. * Í uppfyllingu spádóma Biblíunnar sjá margir greinilega vísbendingu um að hún hljóti að koma frá einhverjum sem er manninum æðri. Þú fellst ef til vill á það að þessi bók spádóma sé í það minnsta þess virði að kanna hana. Eitt er víst: Það er geysimikill munur á þokukenndum og æsifengnum spádómum spámanna nútímans og hinum skýru, skynsamlegu og áreiðanlegu spádómum Biblíunnar.

[Neðanmáls]

^ gr. 24 Það eru til traustar sannanir fyrir því að bækur Hebresku ritninganna — Jesajabók þar með talin — hafi verið skrifaðar löngu fyrir fyrstu öld. Sagnfræðingurinn Jósefus (á fyrstu öld e.o.t.) gefur til kynna að helgiritasafn Hebresku ritninganna hafi verið endanlega ákveðið löngu fyrir daga hans.8 Þar að auki hófst vinna við Sjötíumannaþýðinguna, gríska þýðingu Hebresku ritninganna, á þriðju öld f.o.t. og var að fullu lokið á annarri öld f.o.t.

^ gr. 28 Frekari umfjöllun um biblíuspádóma og sagnfræðilegar staðreyndir, sem sanna uppfyllingu þeirra, má finna á blaðsíðu 117-133 í bókinni The Bible — God’s Word or Man’s?, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Rammi á blaðsíðu 28]

Voru biblíuritararnir áreiðanlegir spámenn eða slungnir svikarar?

[Mynd á blaðsíðu 29]

Rústir hinnar fornu Babýlonar.