Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Komutími Messíasar

Komutími Messíasar

Ellefti kafli

Komutími Messíasar

1. Hvað megum við vera viss um þar eð Jehóva er hinn mikli tímavörður?

 JEHÓVA er hinn mikli tímavörður. Hann hefur stjórn á öllum tímum og tíðum sem tengjast verki hans. (Postulasagan 1:7) Allt sem hann hefur tiltekið í sambandi við þessa tíma og tíðir gerist örugglega. Það breytist ekki. 

2, 3. Hvaða spádómi hugði Daníel að og hvaða heimsveldi réð yfir Babýlon á þeim tíma?

2 Spámaðurinn Daníel var iðinn að rannsaka Ritninguna og treysti Jehóva til að tímasetja atburði og láta þá gerast. Spádómarnir um eyðingu Jerúsalem voru honum sérstaklega hugleiknir. Jeremía hafði skrásett opinberun Guðs um það hve lengi borgin helga skyldi liggja í eyði, og Daníel grannskoðaði þennan spádóm. Hann skrifaði: „Á fyrsta ríkisári Daríusar Ahasverussonar, sem var medískur að ætt og orðinn konungur yfir ríki Kaldea, á fyrsta ári ríkisstjórnar hans, hugði ég, Daníel, í ritningunum að áratölu þeirri, er Jerúsalem átti að liggja í rústum, samkvæmt orði [Jehóva], því er til Jeremía spámanns hafði komið, sem sé sjötíu ár.“ — Daníel 9:1, 2; Jeremía 25:11.

3 Daríus frá Medíu stjórnaði „ríki Kaldea“ á þeim tíma. Spá Daníels, þegar hann túlkaði skriftina á veggnum, hafði ræst skjótlega. Babýlonska heimsveldið var búið að vera. Það hafði verið „gefið Medum og Persum“ árið 539 f.o.t. — Daníel 5:24-28, 30; 6:1.

DANÍEL BIÐUR AUÐMJÚKUR TIL JEHÓVA

4. (a) Hvað var nauðsynlegt til að hljóta frelsun Guðs? (b) Hvernig leitaði Daníel til Guðs?

4 Daníel var ljóst að 70 árin, sem Jerúsalem átti að liggja í eyði, voru næstum liðin. Hvað gerði hann? „Ég sneri þá ásjónu minni til [Jehóva] Guðs til þess að bera fram bæn mína og grátbeiðni með föstu, í sekk og ösku,“ segir hann. „Ég bað til [Jehóva] Guðs míns, gjörði játningu.“ (Daníel 9:3, 4) Rétt hjartalag var nauðsynlegt til að hljóta miskunn Guðs og frelsun. (3. Mósebók 26:31-46; 1. Konungabók 8:46-53) Það þurfti trú, auðmýkt og fulla iðrun vegna þeirra synda sem leitt höfðu til útlegðar og þrælkunar. Daníel leitaði því til Guðs í þágu syndugrar þjóðar sinnar. Hvernig? Hann fastaði, syrgði og klæddist sekk til tákns um einlæga iðrun.

5. Af hverju gat Daníel verið viss um að Gyðingar fengju að fara heim í land sitt?

5 Spádómur Jeremía hafði vakið von hjá Daníel, því að hann gaf til kynna að Gyðingar fengju bráðlega að snúa aftur heim til Júda. (Jeremía 25:12; 29:10) Eflaust hefur Daníel þóst viss um að hinir undirokuðu Gyðingar fengju heimfararleyfi því að maður, er Kýrus hét, var nú konungur Persíu. Hafði ekki Jesaja spáð því að Kýrus myndi leysa Gyðinga úr haldi svo að þeir gætu endurbyggt Jerúsalem og musterið? (Jesaja 44:28–45:3) En Daníel hafði enga hugmynd um hvernig það myndi atvikast, þannig að hann hélt áfram að biðja og ákalla Jehóva.

6. Hvað viðurkenndi Daníel í bæn?

6 Daníel vakti athygli á miskunn Guðs og ástríkri góðvild. Hann viðurkenndi auðmjúklega að Gyðingar hefðu syndgað með mótþróa sínum, með því að víkja frá boðorðum Jehóva og hunsa spámenn hans. Guð hafði réttilega ‚rekið þá til annarra landa fyrir tryggðrof þeirra.‘ Daníel bað: „[Jehóva], vér megum blygðast vor, konungar vorir, höfðingjar vorir og feður vorir, því að vér höfum syndgað móti þér. En hjá [Jehóva], Guði vorum, er miskunnsemi og fyrirgefning, því að vér höfum verið honum mótsnúnir og ekki hlýtt raustu [Jehóva] Guðs vors, að breyta eftir boðorðum hans, þeim er hann fyrir oss lagði fyrir munn þjóna sinna, spámannanna. Já, allur Ísrael hefir brotið lögmál þitt, hefir vikið frá þér, svo að hann hlýðir eigi framar raustu þinni. Þá var þeirri eiðfestu bölvan úthellt yfir oss, sem skrifuð er í lögmáli Móse, þjóns Guðs, því að vér höfum syndgað móti honum.“ — Daníel 9:5-11; 2. Mósebók 19:5-8; 24:3, 7, 8.

7. Af hverju má segja að það hafi verið réttmætt af Jehóva að leyfa að Gyðingar væru leiddir í útlegð?

7 Guð hafði varað Ísraelsmenn við afleiðingunum af því að óhlýðnast sér og lítilsvirða sáttmálann sem hann hafði gert við þá. (3. Mósebók 26:31-33; 5. Mósebók 28:15; 31:17) Daníel viðurkennir að aðgerðir Guðs hafi verið réttmætar og segir: „Hann efndi orð sín, þau er hann hafði talað gegn oss og dómurum vorum, þeim er yfirráð höfðu yfir oss, að hann skyldi láta mikla ógæfu yfir oss koma, svo að hvergi á jarðríki hefir slík ógæfa orðið sem í Jerúsalem. Eins og skrifað er í lögmáli Móse um alla þessa ógæfu, svo er hún yfir oss komin. Og vér höfum ekki blíðkað [Jehóva] Guð vorn með því að hverfa frá misgjörðum vorum og gefa gætur að trúfesti þinni. Og [Jehóva] vakti yfir ógæfunni og lét hana yfir oss koma, því að [Jehóva] Guð vor er réttlátur í öllum verkum sínum, þeim er hann gjörir, en vér höfum eigi hlýtt raustu hans.“ — Daníel 9:12-14.

8. Á hverju byggir Daníel bæn sína til Jehóva?

8 Daníel reynir ekki að réttlæta verknað landa sinna. Útlegðin var verðskulduð rétt eins og hann viðurkennir: „Vér höfum syndgað, vér höfum breytt óguðlega.“ (Daníel 9:15) Og ekki er hann einungis að hugsa um að þjáningunum linni, heldur er honum einnig umhugað um vegsemd og heiður Jehóva. Með því að fyrirgefa Gyðingum og leyfa þeim að snúa heim væri Guð að efna loforð sitt fyrir munn Jeremía og helga heilagt nafn sitt. Daníel biður: „[Jehóva] lát þú samkvæmt réttlæti því, er þú ávallt hefir sýnt, gremi þína og heiftarreiði þína hverfa frá borg þinni Jerúsalem, þínu heilaga fjalli, því að fyrir syndir vorar og misgjörðir feðra vorra er Jerúsalem og lýður þinn orðinn að háðung hjá öllum þeim, sem umhverfis oss búa.“ — Daníel 9:16.

9. (a) Með hvaða innilegri bón lýkur Daníel bæn sinni? (b) Hvað þykir Daníel miður en hvernig sýnir hann virðingu sína fyrir nafni Guðs?

9 Daníel heldur áfram í innilegri bæn: „Heyr nú, Guð vor, bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans og lát ásjónu þína lýsa, fyrir sjálfs þín sakir, [Jehóva], yfir helgidóm þinn, sem nú er í eyði. Hneig, Guð minn, eyra þitt og heyr, ljúk upp augum þínum og sjá eyðing vora og borgina, sem nefnd er eftir nafni þínu, því að ekki framberum vér auðmjúkar bænir fyrir þig í trausti til vors eigin réttlætis, heldur í trausti til þinnar miklu miskunnsemi. [Jehóva], heyr! [Jehóva], fyrirgef! [Jehóva], hygg að og framkvæm! Tef eigi, fyrir sjálfs þín sakir, Guð minn, því að eftir þínu nafni er borg þín nefnd og lýður þinn!“ (Daníel 9:17-19) Myndu þjóðirnar líta á Jehóva sem alheimsdrottin ef hann fyrirgæfi ekki, ef hann léti fólk sitt vera áfram í útlegð og borgina helgu, Jerúsalem, liggja í eyði um ókomna tíð? Gætu þær ekki ályktað sem svo að Jehóva væri máttlaus gegn guðum Babýlonar? Jú, nafn Jehóva myndi bíða hnekki og Daníel þykir það miður. Nafn Guðs, Jehóva, stendur 19 sinnum í Daníelsbók, og þar af 18 sinnum í þessari bæn.

GABRÍEL KEMUR MEÐ HRAÐI

10. (a) Hver var sendur til Daníels og af hverju? (b) Af hverju talar Daníel um Gabríel sem ‚mann‘?

10 Daníel er enn að biðjast fyrir þegar engillinn Gabríel birtist honum og segir: „Daníel, nú er ég út genginn til þess að veita þér glöggan skilning. Þegar þú byrjaðir bæn þína, út gekk orð, og er ég hingað kominn til að kunngjöra þér það, því að þú ert ástmögur Guðs. Tak því eftir orðinu og gef gætur að vitraninni.“ En af hverju talar Daníel um hann sem ‚manninn Gabríel‘? (Daníel 9:20-23) Þegar hann leitaðist við að skilja sýnina um geithafurinn og hrútinn birtist honum ‚einhver líkur manni ásýndar.‘ Þetta var engillinn Gabríel sem sendur var til að veita Daníel skilning. (Daníel 8:15-17) Og núna, eftir bæn Daníels, kemur þessi engill til hans í mannsmynd og talar við hann eins og maður við mann.

11, 12. (a) Hvernig sýndu guðræknir Gyðingar virðingu fyrir fórnarákvæðum lögmálsins þótt Jehóva ætti hvorki musteri né altari í Babýlon? (b) Af hverju var Daníel kallaður „ástmögur Guðs“?

11 Gabríel kemur „um það bil, er kveldfórn er fram borin.“ Altari Jehóva hafði verið eytt ásamt musterinu í Jerúsalem og Gyðingar voru fangar hinna heiðnu Babýloníumanna. Gyðingar voru því ekki að færa Guði fórnir í Babýlon. En það var viðeigandi að guðræknir Gyðingar í Babýlon lofuðu Jehóva og bæðust fyrir á þeim tíma sem Móselögmálið fyrirskipaði að fórnir skyldu færðar. Daníel var einkar guðrækinn og er kallaður „ástmögur Guðs.“ Jehóva, sem „heyrir bænir,“ þótti vænt um hann og Gabríel var sendur með hraði til að svara trúarbæn hans. — Sálmur 65:3.

12 Daníel hafði haldið áfram að biðja til Guðs þrisvar á dag, jafnvel þegar hann stofnaði sér í lífshættu með því. (Daníel 6:11, 12) Það er engin furða að Jehóva skyldi þykja svona vænt um hann. Auk þess að biðjast fyrir hugleiddi Daníel orð Guðs þannig að hann gat gengið úr skugga um hver vilji hans væri. Daníel var bænrækinn og kunni að nálgast Jehóva með viðeigandi hætti til að fá bænheyrslu. Í bænum sínum lagði hann áherslu á réttlæti Guðs. (Daníel 9:7, 14, 16) Og þótt óvinir hans gætu ekkert fundið honum til saka vissi hann að hann var syndari í augum Guðs og játaði synd sína fúslega. — Daníel 6:5; Rómverjabréfið 3:23.

„SJÖTÍU VIKUR“ TIL AÐ GERA ÚT AF VIÐ SYNDINA

13, 14. (a) Hvaða mikilvægar upplýsingar veitti Gabríel spámanninum Daníel? (b) Hve langar eru hinar „sjötíu vikur“ og hvernig vitum við það?

13 Daníel fékk aldeilis svar við bæn sinni! Jehóva fullvissar hann um að Gyðingar fái að snúa heim á ný. En hann fær líka innsýn í miklu þýðingarmeira mál — komu hins fyrirheitna Messíasar. (1. Mósebók 22:17, 18; Jesaja 9:6, 7) Gabríel segir Daníel: „Sjötíu vikur eru ákveðnar þjóð þinni og þinni heilögu borg til að binda enda á afbrotin og gera út af við syndina, til að friðþægja fyrir ávirðingarnar og koma á varanlegu réttlæti, og innsigla vitrun og spámann og smyrja hið háheilaga. Og vita skaltu og skilja að frá því að orðið gekk út um endurreisn og endurbyggingu Jerúsalem til Messíasar, leiðtogans, verða sjö vikur og sextíu og tvær vikur. Hún mun aftur snúa og verða endurreist með torgi og síki, en á þrengingartímum.“ — Daníel 9:24, 25, New World Translation.

14 Þetta voru miklar gleðifréttir! Jerúsalem yrði ekki aðeins endurreist og tilbeiðslan endurvakin í nýju musteri, heldur myndi ‚leiðtoginn Messías‘ koma fram á ákveðnum tíma. Það myndi gerast innan ‚sjötíu vikna.‘ Gabríel nefnir ekki daga svo að hér er ekki um að ræða venjulegar sjö daga vikur eða alls 490 daga. Það væri aðeins eitt ár og þriðjungi betur. Hin boðaða endurreisn Jerúsalem með „torgi og síki“ tók miklu lengri tíma. Hér er um að ræða áravikur. Margar biblíuþýðingar gefa til kynna að hver vika sé sjö ára löng. Til dæmis er talað um „sjötíu vikur ára“ neðanmáls við Daníel 9:24 í Tanakh — The Holy Scriptures sem gefin er út af The Jewish Publication Society. Íslenska biblían frá 1859 talar um „sjötygi sjöundir (ára)“ og An American Translation segir: „Sjötíu vikur ára eru ætlaðar þjóð þinni og þinni heilögu borg.“ Svipað orðalag er að finna hjá Moffatt og Rotherham.

15. Í hvaða þrjú tímabil skiptast hinar „sjötíu vikur“ og hvenær áttu þær að hefjast?

15 Samkvæmt orðum engilsins áttu hinar „sjötíu vikur“ að skiptast í þrennt: (1) „sjö vikur,“ (2) „sextíu og tvær vikur“ og (3) eina viku. Það eru 49 ár, 434 ár og 7 ár eða alls 490 ár. Biblíuþýðingin The Revised English Bible segir reyndar: „Sjötíu sinnum sjö ár eru ákveðin þjóð þinni og þinni helgu borg.“ Eftir 70 ára útlegð og þjáningar í Babýlon áttu Gyðingar að njóta sérstakrar velvildar Guðs í 490 ár, það er að segja 7 sinnum 70 ár. Tíminn skyldi talinn „frá því að orðið gekk út um endurreisn og endurbyggingu Jerúsalem.“ Hvenær var það?

HINAR „SJÖTÍU VIKUR“ HEFJAST

16. Í hvaða tilgangi veitti Kýrus Gyðingum heimfararleyfi eins og sjá má af tilskipun hans?

16 Þrjú atvik eru umhugsunarverð í sambandi við upphaf hinna ‚sjötíu vikna.‘ Hið fyrsta átti sér stað árið 537 f.o.t. þegar Kýrus gaf út tilskipunina um að Gyðingar skyldu snúa heim í land sitt. Tilskipunin hljóðar svo: „Svo segir Kýrus Persakonungur: Öll konungsríki jarðarinnar hefir [Jehóva], Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda. Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri [Jehóva], Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem. Og hvern þann, sem enn er eftir, á sérhverjum þeim stað þar sem hann dvelst sem útlendingur, hann skulu menn á þeim stað styrkja með silfri og gulli og lausafé og kvikfénaði, auk sjálfviljagjafa til Guðs musteris í Jerúsalem.“ (Esrabók 1:2-4) Ljóst er að markmið þessarar tilskipunar var gagngert það að ‚musteri Jehóva‘ skyldi endurreist á sínum fyrri grunni.

17. Hver var tilgangurinn með ferð Esra til Jerúsalem, samanber bréfið sem honum var fengið?

17 Annað atvikið átti sér stað á sjöunda stjórnarári Artaxerxesar Persakonungs (Artaxerxesar Longimanusar, sonar Xerxesar 1., einnig nefndur Artahsasta). Esra fræðimaður lagði þá upp í fjögurra mánaða ferðalag frá Babýlon til Jerúsalem. Hann hafði í fórum sínum sérstakt bréf frá konungi en það var ekki heimildarbréf um endurreisn Jerúsalem. Esra var einungis falið að ‚gera musteri Jehóva dýrlegt.‘ Þess vegna var talað um gull og silfur í bréfinu, heilög áhöld og framlög af hveiti, víni, olíu og salti til stuðnings tilbeiðslunni í musterinu, auk skattfrelsis þeirra sem þjónuðu þar. — Esrabók 7:6-27.

18. Hvaða tíðindi ollu Nehemía hugarangri og hvernig komst Artaxerxes konungur að raun um það?

18 Þriðja atvikið átti sér stað 13 árum síðar, á 20. stjórnarári Artaxerxesar Persakonungs. Nehemía var þá byrlari hans í „borginni Súsa.“ Þeir Gyðingar, sem snúið höfðu heim frá Babýlon, höfðu endurbyggt Jerúsalem að hluta. En ýmsu var ábótavant. Nehemía var miður sín þegar hann komst að raun um að ‚múrar Jerúsalem voru niður brotnir og borgarhliðin í eldi brennd.‘ Aðspurður hvers vegna hann væri svona dapur í bragði svaraði hann: „Konungurinn lifi eilíflega! Hví skyldi ég ekki vera dapur í bragði, þar sem borgin, er geymir grafir forfeðra minna, er í eyði lögð og hlið hennar í eldi brennd?“ — Nehemíabók 1:1-3; 2:1-3.

19. (a) Hvað gerði Nehemía áður en hann svaraði spurningu Artaxerxesar? (b) Hvað fór Nehemía fram á og hvernig kannaðist hann við þátt Guðs í málinu?

19 Síðan segir Nehemía: „Þá sagði konungur við mig: ‚Hvers beiðist þú þá?‘ Þá gjörði ég bæn mína til Guðs himnanna; síðan mælti ég til konungs: ‚Ef konungi þóknast svo og ef þú telur þjón þinn til þess færan, þá send mig til Júda, til borgar þeirrar, er geymir grafir forfeðra minna, til þess að ég endurreisi hana.‘“ Artaxerxesi féll hugmyndin vel í geð og hann varð einnig við annarri bón Nehemía: „Ef konunginum þóknast svo, þá lát fá mér bréf til landstjóranna í héraðinu hinumegin Fljóts [Efrats], til þess að þeir leyfi mér að fara um lönd sín, þar til er ég kem til Júda, og bréf til Asafs, skógarvarðar konungsins, til þess að hann láti mig fá við til þess að gjöra af bjálka í hlið kastalans, er heyrir til musterisins, og til borgarmúranna og til hússins, er ég mun fara í.“ Nehemía kannaðist við þátt Jehóva í öllu þessu og sagði: „Konungur veitti mér það [bréfið], með því að hönd Guðs míns hvíldi náðarsamlega yfir mér.“ — Nehemíabók 2:4-8.

20. (a) Hvenær tók orðið „um endurreisn og endurbyggingu Jerúsalem“ gildi? (b) Hvenær hófust hinar „sjötíu vikur“ og hvenær lauk þeim? (c) Hvað bendir til að upphaf og endir hinna ‚sjötíu vikna‘ séu rétt tímasett?

20 Þótt leyfið væri veitt í nísanmánuði, snemma á 20. stjórnarári Artaxerxesar, tók ‚orðið um endurreisn og endurbyggingu Jerúsalem‘ ekki gildi fyrr en nokkrum mánuðum síðar þegar Nehemía kom til borgarinnar og hóf endurreisn sína. Ferð Esra hafði tekið fjóra mánuði, en Súsa var rösklega 320 kílómetrum fyrir austan Babýlon og því enn fjær Jerúsalem. Að öllum líkindum kom Nehemía til Jerúsalem undir lok 20. stjórnarárs Artaxerxesar, það er að segja árið 455 f.o.t. Það var þá sem hinar „sjötíu vikur“ eða 490 ár hófust. Þeim hefur því lokið síðla árs 36 e.o.t. — Sjá „Hvenær tók Artaxerxes við völdum?“ á bls. 197.

‚LEIÐTOGINN MESSÍAS‘ BIRTIST

21. (a) Hverju átti að ljúka á fyrstu ‚sjö vikunum‘ og þrátt fyrir hvað? (b) Hvaða ár átti Messías að koma fram og hvað segir Lúkasarguðspjall hafa gerst á þeim tíma?

21 Hve mörg ár liðu uns Jerúsalem var raunverulega endurbyggð? Endurreisn borgarinnar átti að eiga sér stað á „þrengingartíma“ sökum erfiðleika meðal Gyðinga sjálfra og andstöðu Samverja og annarra. Verkinu virðist hafa verið lokið að svo miklu leyti sem nauðsynlegt var árið 406 f.o.t. — innan hinna ‚sjö vikna‘ eða 49 ára. (Daníel 9:25) Síðan tók við 62 vikna tímabil eða 434 ár. Eftir það átti hinn fyrirheitni Messías að koma fram. Ef talin eru 483 ár (49 plús 434) frá árinu 455 f.o.t. komum við að árinu 29 e.o.t. Hvað gerðist þá? Guðspjallaritarinn Lúkas segir: „Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, . . . kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda.“ Á þeim tíma var „eftirvænting vakin hjá lýðnum“ eftir komu Messíasar. — Lúkas 3:1-3, 15.

22. Hvenær og hvernig varð Jesús hinn fyrirheitni Messías?

22 Jóhannes var ekki hinn fyrirheitni Messías. Hins vegar sagði hann um skírn Jesú frá Nasaret haustið 29: „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum. Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ‚Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.‘ Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs.“ (Jóhannes 1:32-34) Við skírnina varð Jesús hinn smurði, það er að segja Messías eða Kristur. Skömmu síðar hitti Andrés, lærisveinn Jóhannesar, hinn smurða Jesú og sagði Símoni Pétri bróður sínum: „Við höfum fundið Messías!“ (Jóhannes 1:41) ‚Leiðtoginn Messías‘ kom því fram nákvæmlega á réttum tíma — við lok hinna 69 vikna.

ATBURÐIR SÍÐUSTU VIKUNNAR

23. Af hverju þurfti ‚leiðtoginn Messías‘ að deyja og hvenær átti það að gerast?

23 Hvað átti að gerast í 70. vikunni? Gabríel sagði að „sjötíu vikur“ hefðu verið ákveðnar „til að binda enda á afbrotin og gera út af við syndina, til að friðþægja fyrir ávirðingarnar og koma á varanlegu réttlæti, og innsigla vitrun og spámann og smyrja hið háheilaga.“ ‚Leiðtoginn Messías‘ þurfti að deyja til að ná þessu fram. Hvenær? Gabríel sagði: „Eftir þær sextíu og tvær sjöundir [„vikur,“ New World Translation] mun hinn smurði afmáður verða, og hann mun ekkert eiga . . . Og hann mun gjöra fastan sáttmála við marga um eina sjöund [„halda sáttmálanum í gildi fyrir marga í eina viku,“ New World Translation], og um miðja sjöundina mun hann afnema sláturfórn og matfórn.“ (Daníel 9:26a, 27a) Hinn örlagaríki tími var því „um miðja sjöundina,“ það er að segja um miðja síðustu áravikuna.

24, 25. (a) Hvenær dó Kristur og hvað tók enda með dauða hans og upprisu? (b) Hvaða tækifæri opnaðist með dauða Jesú?

24 Jesús Kristur hóf þjónustu sína meðal almennings síðla árs 29 og hún stóð í þrjú og hálft ár. Eins og spáð hafði verið var Kristur „afmáður“ snemma árs 33 þegar hann dó á kvalastaur og gaf líf sitt sem lausnargjald fyrir mannkynið. (Jesaja 53:8; Matteus 20:28) Þegar hinn upprisni Jesús bar verðgildi mannslífsins, sem hann fórnaði, fram fyrir Guð á himnum var ekki lengur þörf á þeim dýrafórnum og matfórnum sem kveðið var á um í lögmálinu. Prestar Gyðinga héldu áfram að færa slíkar fórnir uns musterinu í Jerúsalem var eytt árið 70, þótt Guð hefði ekki þóknun á þeim lengur. Nú hafði verið færð betri fórn sem aldrei þurfti að endurtaka. Páll postuli skrifaði: „Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar . . . Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þá, er helgaðir verða.“ — Hebreabréfið 10:12, 14.

25 Þótt synd og dauði hafi haldið áfram að hrjá mannkynið uppfylltist spádómur þegar Jesús var líflátinn og reistur upp til lífs á himnum. Þá var ‚bundinn endi á afbrotin, gert út af við syndina, friðþægt fyrir ávirðingarnar og komið á réttlæti.‘ Guð hafði afnumið lagasáttmálann er hafði fordæmt Gyðingana og afhjúpað þá sem syndara. (Rómverjabréfið 5:12, 19, 20; Galatabréfið 3:13, 19; Efesusbréfið 2:15; Kólossubréfið 2:13, 14) Nú var hægt að strika út syndir iðrandi manna og aflétta refsingunni. Vegna friðþægingarfórnar Messíasar gátu þeir sem iðkuðu trú sæst við Guð. Þeir gátu hlakkað til þess að hljóta að gjöf frá Guði „eilíft líf í Kristi Jesú.“ — Rómverjabréfið 3:21-26; 6:22, 23; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

26. (a) Hvaða sáttmála var ‚haldið í gildi í eina viku,‘ þótt lagasáttmálinn væri fallinn úr gildi? (b) Hvað gerðist við lok 70. vikunnar?

26 Jehóva felldi lagasáttmálann sem sagt úr gildi árið 33 með dauða Krists. Hvers vegna var þá hægt að segja að Messías myndi „halda sáttmálanum í gildi fyrir marga í eina viku“? Vegna þess að það var Abrahamssáttmálinn sem hann hélt í gildi. Allt til loka 70. vikunnar lét Guð blessun sáttmálans ná til Hebreanna sem voru afkomendur Abrahams. En við lok hinna ‚sjötíu áravikna‘ árið 36 prédikaði Pétur postuli fyrir guðhræddum Ítala er Kornelíus hét, ásamt heimilisfólki hans og fleiri heiðingjum. Og þaðan í frá var fagnaðarerindið prédikað meðal fólks af öðrum þjóðum. — Postulasagan 3:25, 26; 10:1-48; Galatabréfið 3:8, 9, 14.

27. Hvað var „hið háheilaga“ og hvernig var það smurt?

27 Spádómurinn boðaði einnig smurningu ‚hins háheilaga.‘ Hér er ekki átt við hið allra helgasta, innsta herbergi musterisins í Jerúsalem. „Hið háheilaga“ er helgidómur Guðs á himni þar sem Jesús bar verðgildi fórnarblóðs síns fram fyrir föður sinn. Fórnin smurði eða vígði þennan himneska, andlega veruleika sem hið allra helgasta hafði táknað í jarðnesku tjaldbúðinni og síðar musterinu. — Hebreabréfið 9:11, 12.

GUÐ STAÐFESTIR SPÁDÓMINN

28. Hvað merkti það að „innsigla vitrun og spámann“?

28 Messíasarspádómur engilsins Gabríels talar einnig um að „innsigla vitrun og spámann.“ Það merkir að allt sem spáð var varðandi Messías — allt sem hann áorkaði með fórn sinni, upprisu og framkomu á himnum, auk annars sem gerðist í 70. vikunni — fengi velþóknunarstimpil eða innsigli Guðs, það kæmi fram og hægt væri að treysta því. Sýnin yrði innsigluð, það er að segja einskorðuð við Messías. Hún myndi uppfyllast í honum og verki Guðs fyrir atbeina hans. Rétt túlkun á sýninni fengist aðeins í sambandi við hinn boðaða Messías. Ekkert annað gæti rofið innsiglið og lokið upp merkingu hennar.

29. Hvað átti að verða um hina endurbyggðu Jerúsalem og hvers vegna?

29 Gabríel var búinn að spá því að Jerúsalem yrði endurreist. Nú boðar hann eyðingu hinnar endurreistu borgar og musterisins: „Borgina og helgidóminn mun eyða þjóð höfðingja nokkurs, sem koma á, en hann mun farast í refsidómsflóðinu, og allt til enda mun ófriður haldast við og sú eyðing, sem fastráðin er. . . . Og á vængjum viðurstyggðarinnar mun eyðandinn koma, en eftir það mun gjöreyðing, og hún fastráðin, steypast yfir eyðandann.“ (Daníel 9:26b, 27b) Enda þótt þessi eyðing myndi eiga sér stað eftir hinar „sjötíu vikur“ yrði hún bein afleiðing þess sem gerðist á þessari síðustu „viku“ þegar Gyðingar höfnuðu Kristi og fengu hann líflátinn. — Matteus 23:37, 38.

30. Hvernig rættist tilskipun tímavarðarins mikla eins og sagnaheimildir sýna?

30 Sagnaheimildir sýna að rómverskar hersveitir umkringdu Jerúsalem árið 66, undir stjórn sýrlenska landstjórans Cestíusar Gallusar. Þrátt fyrir mótspyrnu Gyðinga komust Rómverjar inn í borgina með gunnfána sína eða skurðgoðatákn og tóku að grafa undan norðurvegg musterisins. Með stöðu sinni þar voru þeir „viðurstyggð“ sem gat valdið gereyðingu. (Matteus 24:15, 16) Árið 70 komu Rómverjar undir stjórn Títusar hershöfðingja eins og ‚flóð‘ og eyddu borgina og musterið. * Ekkert stöðvaði þá því að Guð hafði ‚fastráðið‘ þetta. Tímavörðurinn mikli, Jehóva, hafði enn á ný staðið við orð sitt!

[Neðanmáls]

^ gr. 30 Samkvæmt nákvæmri þýðingu frumtextans.

HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?

• Hvers beiddist Daníel af Jehóva þegar hinum 70 eyðiárum Jerúsalem var að ljúka?

• Hve langar voru hinar „sjötíu vikur,“ hvenær hófust þær og hvenær lauk þeim?

• Hvenær birtist ‚leiðtoginn Messías‘ og á hvaða örlagaríka tíma var hann „afmáður“?

• Hvaða sáttmála var haldið „í gildi fyrir marga í eina viku“?

• Hvað gerðist eftir hinar „sjötíu vikur“?

[Spurningar]

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 197]

Hvenær tók Artaxerxes við völdum?

SAGNFRÆÐINGAR eru ekki á eitt sáttir um það hvenær Artaxerxes Persakonungur tók við völdum. Sumir telja það hafa verið árið 465 f.o.t. því að Xerxes faðir hans tók við völdum árið 486 f.o.t. og lést á 21. stjórnarári sínu. En það eru sterk rök fyrir því að Artaxerxes hafi verið krýndur árið 475 f.o.t. og að árið 474 f.o.t. hafi verið fyrsta stjórnarár hans.

Áletranir og höggmyndir, sem fundist hafa í Persepólis, höfuðborg Persaveldis að fornu, benda til að Xerxes og faðir hans, Daríus 1., hafi stjórnað sameiginlega um skeið. Hafi þessi samstjórn staðið í 10 ár og Xerxes setið einn að völdum í 11 ár eftir að Daríus dó árið 486 f.o.t., þá hefur árið 474 f.o.t. verið fyrsta stjórnarár Artaxerxesar.

Hin rökin tengjast hershöfðingjanum Þemistóklesi frá Aþenu sem sigraði her Xerxesar árið 480 f.o.t. Síðar glataði Þemistókles hylli Grikkja og var sakaður um landráð. Hann flýði, leitaði skjóls við persnesku hirðina og var vel tekið. Að sögn gríska sagnaritarans Þúkydídesar gerðist það þegar Artaxerxes var „nýlega sestur í hásæti.“ Gríski sagnaritarinn Díódóros Sikúlos tímasetur dauða Þemistóklesar árið 471 f.o.t. Þemistókles beiddist þess að fá eitt ár til að læra persnesku áður en hann fengi áheyrn Artaxerxesar konungs, svo að hann hlýtur að hafa komið til Litlu-Asíu ekki síðar en árið 473 f.o.t. Evsebíusarkroníka Híerónýmusar styður þessa tímasetningu. Þýski fræðimaðurinn Ernst Hengstenberg segir í riti sínu, Christology of the Old Testament, að stjórnartíð Artaxerxesar hafi hafist árið 474 f.o.t., þar eð Artaxerxes var „nýlega sestur í hásæti“ þegar Þemistókles kom til Asíu árið 473 f.o.t. Margar aðrar heimildir taka undir það. Hann bætir við að ‚tuttugasta ár Artaxerxesar sé árið 455 fyrir Krist.‘

[Mynd]

Brjóstmynd af Þemistóklesi.

[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 188, 189]

(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)

„SJÖTÍU VIKUR“

455 f.o.t. — Orðið um endurreisn Jerúsalem

7 vikur — 49 ár

406 f.o.t. — Jerúsalem endurreist

62 vikur — 434 ár

29 e.o.t. — Messías birtist

1 vika — 7 ár

33 e.o.t. — Messías afmáður

36 e.o.t. — Hinum ‚sjötíu vikum‘ lýkur

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 180]

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 193]