Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

2. KAFLI

Er virkilega hægt að ‚nálgast Guð‘?

Er virkilega hægt að ‚nálgast Guð‘?

1, 2. (a) Hvað gæti mörgum fundist langsótt en um hvað fullvissar Biblían okkur? (b) Hvaða náið samband var Abraham veitt og hvers vegna?

 HVERNIG yrði þér innanbrjósts ef skapari himins og jarðar kallaði þig vin sinn? Mörgum þykir sennilega langsótt að það geti gerst. Hvernig í veröldinni ætti lítilmótlegur maður að geta öðlast vináttu Jehóva Guðs? Engu að síður fullvissar Biblían okkur um að við getum orðið nánir vinir Guðs.

2 Ættfaðirinn Abraham átti náið samband við Jehóva sem kallaði hann ‚vin sinn‘. (Jesaja 41:8) Já, Jehóva leit á Abraham sem persónulegan vin. Abraham fékk að eiga svona náið samband við Guð vegna þess að hann „trúði Jehóva“. (Jakobsbréfið 2:23) Jehóva leitar líka færis núna til að tengjast þjónum sínum nánum vináttuböndum og sýna þeim kærleika. (5. Mósebók 10:15) Orð hans hvetur: „Nálgist Guð og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jakobsbréfið 4:8) Þessi orð fela í sér bæði boð og fyrirheit.

3. Hvað býður Jehóva okkur og hvaða loforð fylgir því?

3 Jehóva býður okkur að tengjast sér. Hann er boðinn og búinn til að taka á móti okkur sem vinum sínum. Jafnframt lofar hann að koma til móts við okkur, nálgast okkur, ef við nálgumst hann. Við getum því eignast nokkuð dýrmætt – náið vináttusamband við Jehóva. (Sálmur 25:14) Orðasambandið „nánir vinir“ lýsir hér sérstöku sambandi trúnaðarvina.

4. Hvernig myndir þú lýsa nánum vini og hvernig reynist Jehóva slíkur vinur þeirra sem nálgast hann?

4 Áttu náinn trúnaðarvin? Slíkur vinur lætur sér annt um þig og þú treystir honum af því að hann hefur alltaf reynst þér trúr. Þú gleðst enn meira yfir því að segja honum frá gleði þinni. Og hann léttir þér byrðar með því að hlusta samúðarfullur á sorgir þínar. Hann skilur þig þó að enginn annar virðist gera það. Þegar þú tengist Guði eignast þú líka einstakan vin sem metur þig mikils, lætur sér innilega annt um þig og skilur þig til fulls. (Sálmur 103:14; 1. Pétursbréf 5:7) Þú trúir honum fyrir leyndustu tilfinningum þínum af því að þú veist að hann er trúr þeim sem eru honum trúfastir. (Sálmur 18:25) En þú gætir ekki átt þetta verðmæta vináttusamband við Guð hefði hann ekki boðið upp á það.

Jehóva hefur opnað leiðina

5. Hvað gerði Jehóva til að við gætum átt náið samband við sig?

5 Við erum syndug svo að við gætum aldrei eignast náið samband við Guð hjálparlaust. (Sálmur 5:4) „En Guð hefur sýnt að hann elskar okkur með því að láta Krist deyja fyrir okkur meðan við vorum enn syndarar,“ skrifaði Páll postuli. (Rómverjabréfið 5:8) Já, Jehóva sendi Jesú til að „gefa líf sitt sem lausnargjald fyrir marga“. (Matteus 20:28) Ef við trúum á lausnarfórn hans getum við átt náið samband við Guð. Guð „elskaði okkur að fyrra bragði“ og lagði þar með grunninn að því að við gætum orðið vinir sínir. – 1. Jóhannesarbréf 4:19.

6, 7. (a) Hvernig vitum við að Jehóva er ekki hulinn og óþekkjanlegur Guð? (b) Eftir hvaða leiðum hefur Jehóva opinberað sig?

6 Jehóva hefur gert annað: Hann hefur opinberað sig okkur. Náin vinátta byggist á því að þekkja hina persónuna og meta hana að verðleikum. Við gætum aldrei átt náið samband við Jehóva ef hann væri fjarlægur Guð og óþekkjanlegur. En Jehóva felur sig ekki heldur vill að við kynnumst sér. (Jesaja 45:19) Og það sem hann opinberar um sjálfan sig er öllum aðgengilegt, jafnvel þeim sem kunna að þykja lítilfjörlegir á mælikvarða heimsins. – Matteus 11:25.

Jehóva hefur opinberað sig í sköpunarverkinu og rituðu orði sínu.

7 Hvernig hefur Jehóva opinberað sig? Hann birtir vissa þætti persónuleika síns í sköpunarverkinu – firnamátt sinn, djúpstæða visku og sterkan kærleika. (Rómverjabréfið 1:20) En Jehóva opinberar sig ekki aðeins í sköpunarverkinu heldur einnig í orði sínu, Biblíunni. Enginn miðlar þekkingu sem hann.

Hvernig Jehóva opinberar sig í orði sínu

8. Hvers vegna má segja að Biblían sé vitnisburður um kærleika Jehóva til okkar?

8 Biblían er vitnisburður um kærleika Jehóva til okkar. Þar opinberar hann sig með hugtökum sem við getum skilið og það sannar ekki aðeins að hann elski okkur heldur einnig að hann vilji að við þekkjum sig og elskum. Með því að lesa þessa dýrmætu bók getum við nálgast hann. (Sálmur 1:1–3) Lítum á nokkur dæmi um það hvernig Jehóva opinberar sig með hjartnæmum hætti í Biblíunni.

9. Nefndu nokkur dæmi úr Biblíunni þar sem eiginleikar Guðs eru nefndir beinum orðum.

9 Í Ritningunni er víða sagt beinum orðum hvaða eiginleika Guð hefur til að bera. Lítum á nokkur dæmi. „Jehóva elskar réttlæti.“ (Sálmur 37:28) Guð er „mikill og máttugur“. (Jobsbók 37:23) „‚Ég er trúfastur,‘ segir Jehóva.“ (Jeremía 3:12) „Hann er vitur í hjarta.“ (Jobsbók 9:4) Hann er „miskunnsamur og samúðarfullur Guð sem er seinn til reiði, sýnir tryggan kærleika í ríkum mæli og er alltaf sannorður“. (2. Mósebók 34:6) „Þú, Jehóva, ert góður og fús til að fyrirgefa.“ (Sálmur 86:5) Og, eins og nefnt var í síðasta kafla, er einn eiginleiki ríkjandi: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Laðast þú ekki að þessum óviðjafnanlega Guði þegar þú hugleiðir þessa aðlaðandi eiginleika hans?

10, 11. (a) Frá hverju segir Jehóva í orði sínu til að við getum séð persónuleika hans í skýrara ljósi? (b) Nefndu dæmi úr Biblíunni sem sýnir fram á mátt Guðs í verki.

10 Auk þess að telja upp eiginleika sína í Biblíunni segir Jehóva frá ákveðnum dæmum þar sem þessir eiginleikar birtast í verki. Slíkar frásagnir draga upp ljóslifandi myndir sem skýra fyrir okkur hina ýmsu þætti í persónuleika hans. Og það dregur okkur síðan nær honum. Lítum á dæmi.

Biblían er hjálp til að nálgast Jehóva.

11 Það er eitt að lesa að Guð búi yfir „ógurlegum mætti“ en allt annað að lesa um það hvernig hann bjargaði Ísraelsmönnum gegnum Rauðahafið og hélt þeim uppi í eyðimörkinni í 40 ár. (Jesaja 40:26) Í huganum geturðu séð ólgandi hafið opnast. Þú sérð fyrir þér hvernig þjóðin – kannski 3.000.000 manna – ganga eftir þurrum sjávarbotninum með stirðnaðan sjóinn eins og gnæfandi veggi til beggja handa. (2. Mósebók 14:21; 15:8) Þú sérð merki um vernd Guðs og umhyggju í eyðimörkinni. Vatn sprettur fram af kletti. Matur, sem líkist hvítu fræi, birtist á jörðinni. (2. Mósebók 16:31; 4. Mósebók 20:11) Jehóva opinberar ekki aðeins að hann sé máttugur heldur einnig að hann noti máttinn í þágu þjóna sinna. Er ekki hughreystandi til að vita að bænir okkar skuli stíga upp til máttugs Guðs sem er ‚skjól okkar og styrkur og hjálpar okkur alltaf á neyðartímum‘? – Sálmur 46:1.

12. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að „sjá“ sig?

12 Jehóva, sem er andi, hefur gert margt fleira til að auðvelda okkur að kynnast sér. Við mennirnir erum takmarkaðir við hinn sýnilega efnisheim og getum því ekki séð inn á andlega tilverusviðið. Ef Guð lýsti sjálfum sér með hugtökum úr andaheiminum væri það sambærilegt við að lýsa útlitseinkennum okkar, svo sem freknum og augnlit, fyrir manni sem fæddist blindur. Jehóva hjálpar okkur vinsamlega að „sjá“ sig með því að nota hugtök sem við skiljum. Stundum grípur hann til myndhvarfa og samlíkinga og líkir sér við hluti sem við þekkjum. Hann talar jafnvel um sig eins og hann hafi viss mannleg einkenni. a

13. Hvaða mynd er dregin upp í Jesaja 40:11 og hvaða áhrif hefur hún á þig?

13 Sjáðu hvernig Jehóva er lýst í Jesaja 40:11: „Eins og hirðir annast hann hjörð sína. Hann smalar lömbunum saman með hendinni og ber þau í fangi sínu.“ Hér er Jehóva líkt við fjárhirði sem tekur unglömb upp „með hendinni“. Þetta lýsir ágætlega að Jehóva getur verndað þjóna sína og stutt þá, jafnvel þá sem eru varnarlausastir. Við getum verið örugg í sterkum faðmi hans því að hann yfirgefur okkur aldrei ef við erum honum trú. (Rómverjabréfið 8:38, 39) Hirðirinn mikli ber lömbin „í fangi sínu“. Þar er átt við víðar fellingar í yfirhöfn þar sem fjárhirðir hélt stundum á nýfæddum lömbum. Þannig fullvissar Jehóva okkur um alúð sína og væntumþykju. Það er ofur eðlilegt að langa til að eiga náið samband við hann.

„Sonurinn vill opinbera hann“

14. Hvers vegna má segja að skýrasta opinberun Jehóva á sjálfum sér komi fram í Jesú?

14 Skýrasta opinberun Jehóva á sjálfum sér kemur fram í ástkærum syni hans, Jesú. Enginn gat endurspeglað hugsanir Guðs og tilfinningar betur eða lýst honum eins ljóslifandi og frumgetinn sonur hans gerði, því að hann var með föður sínum áður en aðrar andaverur voru skapaðar og efnisheimurinn myndaður. (Kólossubréfið 1:15) Jesús gerþekkti Jehóva. Þess vegna gat hann sagt: „Enginn veit hver sonurinn er nema faðirinn og enginn veit hver faðirinn er nema sonurinn og þeir sem sonurinn vill opinbera hann.“ (Lúkas 10:22) Þegar Jesús var á jörðinni sem maður opinberaði hann föður sinn á tvo mikilvæga vegu.

15, 16. Á hvaða tvo vegu opinberaði Jesús föður sinn?

15 Annars vegar er kennsla Jesú góð hjálp til að kynnast föðurnum. Lýsingar hans á föður sínum snerta hjartað. Til að sýna fram á að Jehóva sé miskunnsamur Guð og taki við iðrandi syndurum líkti Jesús honum við góðhjartaðan föður sem er svo djúpt snortinn þegar hann sér týndan son sinn snúa heim aftur að hann hleypur á móti honum, faðmar hann að sér og kyssir hann blíðlega. (Lúkas 15:11–24) Sömuleiðis talaði Jesús um að Jehóva Guð „dragi“ réttsinnaða menn til sín af því að hann elskar þá hvern og einn. (Jóhannes 6:44) Lítill spörfugl fellur ekki til jarðar án þess að hann taki eftir því. „Verið því óhræddir,“ sagði Jesús, „þið eruð meira virði en margir spörvar.“ (Matteus 10:29, 31) Við hljótum að laðast að Guði sem er svona umhyggjusamur.

16 Hins vegar sýnir Jesús með fordæmi sínu hvernig Jehóva er. Svo fullkomlega endurspeglaði hann föður sinn að hann gat sagt: „Sá sem hefur séð mig hefur líka séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Þegar við lesum um Jesú í guðspjöllunum – um tilfinningar hans og framkomu við aðra – sjáum við á vissan hátt lifandi mynd af föður hans. Jehóva hefði tæplega getað gefið okkur skýrari opinberun á eðli sínu. Hvers vegna?

17. Útskýrðu með dæmi hvernig Jehóva hefur hjálpað okkur að skilja eðli sitt.

17 Tökum dæmi: Segjum að þú sért að reyna að útskýra hvað gæska sé. Þú gætir skilgreint það með orðum. En ef þú getur bent á raunverulegt dæmi um góðverk eins manns í þágu annars og sagt: „Þetta er dæmi um gæsku,“ þá fær orðið „gæska“ dýpri merkingu og verður skiljanlegra. Jehóva hefur gert eitthvað þessu líkt til að hjálpa okkur að skilja eðli sitt. Hann lýsir sér bæði með orðum og gefur lifandi dæmi í syni sínum. Við sjáum eiginleika Guðs birtast í verki hjá Jesú. Þegar guðspjallaritararnir lýsa Jesú er Jehóva í rauninni að segja: „Þannig er ég.“ Hvernig er manninum Jesú lýst í hinni innblásnu frásögu?

18. Hvernig birtist máttur, réttlæti og viska í fari Jesú?

18 Fjórir höfuðeiginleikar Guðs birtast fagurlega í Jesú. Máttur hans sýndi sig í því að hann hafði vald yfir sjúkdómum, hungri og jafnvel dauðanum. En ólíkt eigingjörnum mönnum, sem misbeita valdi sínu, notaði hann kraftaverkamáttinn aldrei í eigin þágu eða öðrum til skaða. (Matteus 4:2–4) Hann unni réttlætinu. Hann fylltist réttlátri reiði er hann sá óheiðarlega kaupmenn féfletta almúgann. (Matteus 21:12, 13) Hann fór ekki í manngreinarálit. Hann kom vel fram við fátæka og undirokaða og hjálpaði þeim að ‚endurnærast‘. (Matteus 11:4, 5, 28–30) Kennsla hans bar vott um óviðjafnanlega visku enda var hann ‚meiri en Salómon‘. (Matteus 12:42) En aldrei flíkaði hann visku sinni. Orð hans snertu hjörtu almúgafólks því að kennsla hans var skýr, einföld og raunsæ.

19, 20. (a) Hvernig var Jesús framúrskarandi dæmi um kærleika? (b) Hvað ættum við að hafa hugfast þegar við lesum um Jesú og hugleiðum dæmi hans?

19 Jesús var framúrskarandi dæmi um kærleika. Kærleikur hans birtist í mörgum myndum meðan hann þjónaði á jörð, meðal annars í samúð hans og hluttekningu. Hann fann til með bágstöddum. Hvað eftir annað lét hann til sín taka af því að hann kenndi í brjósti um fólk. (Matteus 14:14) Þó að hann læknaði sjúka og mettaði hungraða birtist umhyggja hans með enn sterkari hætti er hann fræddi fólk um ríki Guðs sem verður mannkyni til blessunar um alla eilífð. Hann hjálpaði fólki að taka við sannleikanum um ríkið og elska hann. (Markús 6:34; Lúkas 4:43) Síðast en ekki síst sýndi Jesús fórnfúsan kærleika með því að leggja líf sitt fúslega í sölurnar fyrir aðra. – Jóhannes 15:13.

20 Það er engin furða að fólk á öllum aldri og af alls konar uppruna skyldi laðast að þessum hlýlega og tilfinninganæma manni. (Markús 10:13–16) En þegar við lesum um Jesú og hugleiðum dæmi hans skulum við hafa hugfast að hann er skýr og greinileg spegilmynd föður síns. – Hebreabréfið 1:3.

Gagnleg námsbók

21, 22. Hvað er fólgið í því að leita Jehóva og hvað er að finna í þessu námsriti sem hjálpar okkur til þess?

21 Ljóst er að Jehóva vill að við eigum náið samband við sig, ella hefði hann ekki opinberað sig svona greinilega í orði sínu. En hann þvingar okkur ekki til að eiga samband við sig. Það er undir sjálfum okkur komið að leita hans „meðan hann er að finna“. (Jesaja 55:6) Að leita Jehóva felur í sér að kynnast eiginleikum hans og vegum eins og þeir eru opinberaðir í Biblíunni. Þessi námsbók, sem þú ert að lesa, er samin til að hjálpa þér við þetta.

22 Þú sérð að bókin skiptist í fjóra meginhluta sem svara til höfuðeiginleika Jehóva – máttar, réttlætis, visku og kærleika. Hver hluti hefst á yfirliti yfir viðkomandi eiginleika. Í fyrstu köflum hvers hluta er fjallað um það hvernig Jehóva sýnir hina ýmsu þætti þessa eiginleika. Síðan kemur kafli um það hvernig eiginleikinn birtist í fari Jesú, og að lokum er kafli þar sem skoðað er hvernig við getum sýnt hann.

23, 24. (a) Til hvers er ramminn „Til íhugunar“? (b) Hvernig er íhugun hjálp til þess að nálgast Guð?

23 Frá og með þessum kafla er að finna spurningaramma með yfirskriftinni „Til íhugunar“. Líttu til dæmis á  rammann á blaðsíðu 24. Spurningarnar og ritningarstaðirnir eru ekki hugsaðir sem upprifjun kaflans heldur til að hjálpa þér að hugleiða aðra mikilvæga þætti efnisins. Hvernig geturðu notað þér spurningarammann? Flettu upp öllum ritningarstöðunum og lestu versin vandlega. Hugleiddu síðan spurninguna sem fylgir ritningarvísuninni. Veltu svarinu fyrir þér. Þú gætir leitað fanga í öðrum námsritum. Spyrðu þig nokkurra viðbótarspurninga: Hvað segir þetta mér um Jehóva? Hvaða áhrif hefur það á líf mitt? Hvernig get ég notað það til að hjálpa öðrum?

24 Slík hugleiðing getur styrkt samband okkar við Jehóva vegna þess að Biblían tengir hugleiðingu við hjartað. (Sálmur 19:14) Séum við þakklát fyrir það sem við lærum um Guð og veltum því fyrir okkur síast vitneskjan inn í hið óeiginlega hjarta þar sem hún orkar á hugann, hreyfir við tilfinningunum og knýr okkur síðan til verka. Kærleikur okkar til Jehóva styrkist þannig að okkur langar til að þóknast honum sem okkar kærasta vini. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Til að eignast slíkt samband þurfum við að kynnast eiginleikum Jehóva og vegum. En fyrst skulum við ræða um einn þátt í eðli Guðs sem gerir það knýjandi fyrir okkur að nálgast hann – heilagleika hans.

a Biblían talar til dæmis um auglit Guðs, eða andlit, augu, eyru, nasir, munn, hendur og fætur. (Sálmur 18:15; 27:8; 44:3; Jesaja 60:13; Matteus 4:4; 1. Pétursbréf 3:12) Þetta er myndmál sem ber ekki frekar að taka bókstaflega en það að Jehóva skuli vera kallaður „kletturinn“ eða „skjöldur“. – 5. Mósebók 32:4; Sálmur 84:11.