Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

3. KAFLI

„Heilagur, heilagur, heilagur er Jehóva“

„Heilagur, heilagur, heilagur er Jehóva“

1, 2. Hvaða sýn sá spámaðurinn Jesaja og hvað kennir hún okkur um Jehóva?

 JESAJA er frá sér numinn af hrifningu og lotningu. Hann sér sýn frá Guði og sýnin er ótrúlega raunveruleg! Síðar skrifar Jesaja að hann hafi ‚séð Jehóva‘ í háu og miklu hásæti og segir að neðsti hluti skikkju hans hafi fyllt hið mikla musteri í Jerúsalem. – Jesaja 6:1, 2.

2 Jesaja fyllist einnig lotningu við það sem hann heyrir – söng svo kraftmikinn að musterið nötrar allt niður í grunn. Söngurinn berst frá seröfum sem eru háttsettar andaverur. Í sterkum samhljómi syngja þeir einföld en tignarleg orð: „Heilagur, heilagur, heilagur er Jehóva hersveitanna. Öll jörðin er full af dýrð hans.“ (Jesaja 6:3, 4) Með því að þrítaka orðið „heilagur“ er því gefin sérstök áhersla og það með réttu vegna þess að Jehóva er öllum öðrum heilagri. (Opinberunarbókin 4:8) Biblían leggur áherslu á heilagleika hans allt frá upphafi til enda. Hundruð versa setja nafn hans í samband við orðin „heilagur“ og „heilagleiki“.

3. Hvernig virka ranghugmyndir um heilagleika Guðs fælandi á marga frekar en að laða þá að honum?

3 Það er því ljóst að Jehóva leggur mikla áherslu á að við skiljum að hann er heilagur. En mörgum þykir það fráhrindandi tilhugsun. Sumir leggja heilagleika að jöfnu við siðferðilega sjálfumgleði eða uppgerðarguðhræðslu sem er auðvitað ekki rétt. Þeim sem stríða við skerta sjálfsmynd kann að finnast heilagleiki Guðs letjandi frekar en aðlaðandi. Þeir óttast kannski að þeir geti aldrei reynst verðugir þess að eiga samband við þennan heilaga Guð. Margir forðast því Guð vegna þess að hann er heilagur. Það er miður því að heilagleiki Guðs er í rauninni ærin ástæða til að tengjast honum. Hvers vegna? Áður en við svörum því skulum við ræða hvað sannur heilagleiki er.

Hvað er heilagleiki?

4, 5. (a) Hvað merkir „heilagleiki“ og hvað ekki? (b) Á hvaða tvo mikilvægu vegu er Jehóva „aðgreindur“?

4 Að Guð skuli vera heilagur merkir ekki að hann sé sjálfumglaður, hrokafullur eða yfirlætislegur. Hann hefur andstyggð á öllu slíku. (Orðskviðirnir 16:5; Jakobsbréfið 4:6) Hvað merkir þá orðið „heilagur“? Í biblíulegri hebresku er það dregið af orði sem merkir „aðgreindur“. Í tengslum við tilbeiðslu er orðið „heilagur“ notað um það sem er aðgreint frá almennri notkun. Hugmyndin að vera hreinn og tær er líka sterkur þáttur í heilagleika. Hvað merkir orðið „heilagur“ þegar það er notað um Jehóva? Merkir það að hann sé „aðgreindur“ frá ófullkomnum mönnum, óskaplega fjarlægur okkur?

5 Alls ekki. Jehóva er „Hinn heilagi Ísraels“ en fullvissaði Ísraelsmenn um að hann væri á meðal þeirra þó að þeir væru syndugir. (Jesaja 12:6; Hósea 11:9) Heilagleikinn gerir hann því ekki fjarlægan. En hann er „aðgreindur“ á tvo mikilvæga vegu. Í fyrsta lagi er hann aðgreindur frá öllu sköpunarverkinu að því leyti að hann einn er hinn hæsti. Hreinleiki hans er alger og óendanlegur. (Sálmur 40:5; 83:18) Í öðru lagi er Jehóva algerlega aðgreindur frá syndsemi og það er hughreystandi til að vita. Af hverju?

6. Af hverju er hughreystandi að vita að Jehóva skuli vera fullkomlega laus við synd?

6 Við búum í heimi þar sem sannur heilagleiki er fágætur. Allt sem viðkemur mannlegu samfélagi, sem er fráhverft Guði, er mengað á einhvern hátt, spillt af synd og ófullkomleika. Við eigum öll í stríði við syndina innra með okkur. Og við eigum öll á hættu að syndin yfirbugi okkur ef við slökum á verðinum. (Rómverjabréfið 7:15–25; 1. Korintubréf 10:12) Jehóva er ekki í slíkri hættu. Hann er hafinn yfir syndsemi og það mun aldrei finnast snefill af synd hjá honum er setji á hann blett. Þetta staðfestir enn og aftur að Jehóva er hinn fullkomni faðir því að það þýðir að hann er algerlega áreiðanlegur. Jehóva verður aldrei spilltur, ósiðsamur eða hrottafenginn, ólíkt mörgum syndugum feðrum. Það er hreinlega óhugsandi af því að hann er heilagur. Jehóva hefur jafnvel stundum svarið eið við heilagleika sinn af því að ekkert er áreiðanlegra. (Amos 4:2) Er það ekki traustvekjandi?

7. Hvers vegna er hægt að segja að það sé í eðli Jehóva að vera heilagur?

7 Það er í eðli Jehóva að vera heilagur. Hvað merkir það? Tökum dæmi: Lítum á orðin „maður“ og „ófullkominn“. Það er ekki hægt að lýsa hinu fyrra án þess að hið síðara komi upp í hugann. Við erum svo gagnsýrð ófullkomleika að hann smitar allt sem við gerum. Lítum svo á tvö orð mjög ólík hinum fyrri, orðin „Jehóva“ og „heilagur“. Jehóva er heilagur á allan hátt. Allt sem honum viðkemur er hreint, tært og heiðvirt. Við getum ekki kynnst Jehóva eins og hann er í raun og veru án þess að setja okkur inn í djúptæka merkingu orðsins „heilagur“.

„Jehóva er heilagur“

8, 9. Hvað sýnir að Jehóva hjálpar ófullkomnum mönnum að verða heilagir í afstæðum skilningi?

8 Þar sem Jehóva er ímynd heilagleikans má réttilega segja að hann sé uppspretta alls heilagleika. Hann lúrir ekki eigingjarn á þessum dýrmæta eiginleika heldur gefur hann öðrum og er örlátur á hann. Þegar hann talaði við Móse fyrir milligöngu engils við þyrnirunnann brennandi varð jörðin umhverfis jafnvel heilög af nálægð hans! – 2. Mósebók 3:5.

9 Geta ófullkomnir menn orðið heilagir með hjálp Jehóva? Já, að vissu marki. Guð gaf þjóð sinni, Ísrael, kost á að verða „heilög þjóð“. (2. Mósebók 19:6) Hann gaf henni hreint tilbeiðsluform, þannig að heilagleikinn er eins og endurtekið stef í Móselögunum. Framan á vefjarhetti æðsta prestsins blasti meira að segja við glampandi gullskjöldur sem á var letrað: „Jehóva er heilagur.“ (2. Mósebók 28:36) Tilbeiðsla Ísraelsmanna, og reyndar allt líferni, átti því að einkennast af hreinleika. Jehóva sagði þeim: „Þið skuluð vera heilög því að ég, Jehóva Guð ykkar, er heilagur.“ (3. Mósebók 19:2) Meðan Ísraelsmenn lifðu eftir leiðbeiningum Guðs, í þeim mæli sem ófullkomnir menn geta, voru þeir heilagir í afstæðum skilningi.

10. Að hvaða leyti voru Ísraelsmenn að fornu gerólíkir grannþjóðum sínum hvað heilagleika snerti?

10 Þessi áhersla á heilagleika stakk mjög í stúf við tilbeiðsluathafnir þjóðanna umhverfis Ísrael. Hinar heiðnu þjóðir dýrkuðu guði sem voru hrein lygi og fals því að þeir voru ekki til, og guðir þessir voru álitnir ofbeldisfullir, ágjarnir og lauslátir. Þeir voru vanheilagir í hvaða skilningi sem verið gat. Og þeir sem tilbáðu þessa guði urðu vanheilagir. Jehóva áminnti því þjóna sína um að halda sig frá heiðingjum og óhreinum tilbeiðsluathöfnum þeirra. – 3. Mósebók 18:24–28; 1. Konungabók 11:1, 2.

11. Hvernig birtist heilagleiki hins himneska hluta safnaðar Jehóva í (a) englunum? (b) seröfunum? (c) Jesú?

11 Þegar best lét gat útvalin þjóð Jehóva aðeins gefið dauft endurskin af heilagleika hins himneska hluta safnaðar hans. Milljónir andavera þjóna Guði dyggilega og eru kallaðar „heilagar þúsundir“ hans. (5. Mósebók 33:2; Júdasarbréfið 14) Þær endurspegla fullkomlega hina tæru og hreinu fegurð sem býr í heilagleika Guðs. Og mundu eftir seröfunum í sýn Jesaja. Textinn, sem þessar voldugu andaverur sungu, gefur í skyn að þær gegni stóru hlutverki í því að kunngera heilagleika Jehóva um alheim allan. En ein andavera er þó ofar þeim öllum. Það er eingetinn sonur Guðs. Jesús er fegursta spegilmynd heilagleika Jehóva og er því með sanni nefndur „hinn heilagi Guðs.“ – Jóhannes 6:68, 69.

Heilagt nafn, heilagur andi

12, 13. (a) Hvers vegna er nafn Guðs réttilega kallað heilagt? (b) Af hverju þarf að hreinsa nafn Guðs?

12 Hvað um nafn Guðs? Eins og fram kom í 1. kafla er nafnið meira en titill eða heiti. Það lýsir Jehóva Guði og öllum eiginleikum hans. Þess vegna segir Biblían að hann beri „heilagt nafn“. (Jesaja 57:15) Samkvæmt Móselögunum var það dauðasök að lastmæla nafni Guðs. (3. Mósebók 24:16) Og þú veist hvað Jesús nefndi sem verðugasta bænarefnið: „Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist.“ (Matteus 6:9) Að helga eitthvað merkir að taka það frá eða lýsa heilagt og sýna því lotningu. En hvers vegna þarf að helga eitthvað sem er eins eðlishreint og nafn Guðs?

13 Nafn Guðs hefur verið lastað og rægt. Satan laug um Jehóva í Eden og ýjaði að því að hann væri ranglátur stjórnandi. (1. Mósebók 3:1–5) Síðan sá Satan, sem stjórnar þessum vanheilaga heimi, til þess að lygarnar um Guð fengju að vaxa og dafna. (Jóhannes 8:44; 12:31; Opinberunarbókin 12:9) Ýmis trúarbrögð hafa dregið upp þá mynd að Guð sé einræðislegur, grimmur og fáskiptinn. Þau hafa þóst eiga vísan stuðning hans í blóðugum styrjöldum. Oft fær hrein tilviljun – þróun – heiðurinn af stórfenglegum sköpunarverkum Guðs. Já, nafn Guðs hefur sætt illgjörnum ásökunum. Þess vegna þarf að helga það og veita því aftur þá upphefð sem því ber. Við þráum þann tíma þegar Jehóva hreinsar nafn sitt af öllu sem hann hefur verið sakaður um. Hann gerir það fyrir tilstilli ríkis síns þar sem sonur hans stjórnar. Við njótum þess að eiga einhvern smáþátt í því.

14. Hvers vegna er andi Guðs kallaður heilagur og af hverju er lastmæli gegn heilögum anda háalvarlegt?

14 Það er annað sem er nátengt Jehóva og er næstum undantekningarlaust kallað heilagt. Það er andi hans, eða kraftur. (1. Mósebók 1:2) Jehóva beitir þessum ómótstæðilega krafti til að hrinda fyrirætlunum sínum í framkvæmd. Allt sem hann gerir framkvæmir hann á heilagan, flekklausan og hreinan hátt þannig að það er eðlilegt að kraftur hans skuli nefndur heilagur andi. (Lúkas 11:13; Rómverjabréfið 1:4) Lastmæli gegn heilögum anda er meðal annars fólgið í því að vinna af ráðnum hug gegn fyrirætlunum Jehóva og það er ófyrirgefanleg synd. – Markús 3:29.

Heilagleiki Jehóva laðar okkur að honum – hvers vegna?

15. Af hverju er eðlilegt að heilagleiki Jehóva veki lotningu, eða guðsótta, og hvað felur það í sér?

15 Það er ekki vandséð hvers vegna Biblían tengir lotningu fyrir Guði, eða guðsótta, við heilagleika Guðs. Til dæmis segir í Sálmi 99:3: „Þær skulu lofa þitt mikla nafn því að það er mikilfenglegt og heilagt.“ Þetta lof er djúpstæð lotning og auðmýkt, þess konar virðing sem göfgar manninn mest. Það er mjög viðeigandi að vera þannig innanbrjósts því að Guð er svo langt yfir okkur hafinn í heilagleika sínum. Hann er skínandi hreinn, dýrlegur. En það ætti ekki að virka fráhrindandi á okkur heldur ætti rétt sýn á heilagleika Guðs að laða okkur að honum. Af hverju?

16. (a) Hvernig er heilagleiki tengdur dýrð, eða fegurð? Nefndu dæmi. (b) Hvernig er lögð áhersla á ljós og hreinleika þegar Jehóva hefur birst mönnum í sýn?

16 Biblían tengir fegurð við heilagleika. Í Jesaja 63:15 er himninum lýst sem „heilögum og dýrlegum [eða „fögrum“, neðanmáls] bústað“. Dýrð og fegurð er aðlaðandi. Sjáðu til dæmis myndina á blaðsíðu 33. Finnst þér þetta ekki aðlaðandi staður? Hvað veldur? Vatnið er tært og loftið virðist hreint af því að himinninn er blár og ljósið tindrandi. En segjum að staðnum yrði breytt – áin væri full af rusli, trén og steinarnir útkrotaðir og reykjarmóða í lofti. Þá væri hann ekki lengur aðlaðandi heldur fráhrindandi. Við setjum fegurð, eða dýrð, ósjálfrátt í samband við birtu og hreinleika. Þannig má líka lýsa heilagleika Jehóva. Engin furða að við skulum vera gagntekin af lýsingum þeirra sem hafa séð Jehóva í sýn. Dýrð, eða fegurð, hins heilaga Guðs geislar frá sér birtu, er skínandi sem gimsteinn, glóandi sem eldur og tær sem hreinasti eðalmálmur. – Esekíel 1:25–28; Opinberunarbókin 4:2, 3.

Heilagleiki ætti að virka aðlaðandi á okkur, ekki síður en fegurð.

17, 18. (a) Hvaða áhrif hafði sýn Jesaja á hann í fyrstu? (b) Hvernig notaði Jehóva serafa til að hughreysta Jesaja og hvaða þýðingu hafði það sem serafinn gerði?

17 En ættum við að finna til smæðar okkar andspænis heilagleika Jehóva? Já, auðvitað. Við erum Jehóva óæðri – og þá er vægt til orða tekið. En ætti þessi vitneskja að gera okkur afhuga honum? Sjáðu hvernig Jesaja brást við þegar hann heyrði serafana kunngera heilagleika Jehóva. „Þá sagði ég: ‚Það er úti um mig! Ég er dauðans matur því að ég er maður með óhreinar varir og bý meðal fólks með óhreinar varir, og nú hef ég séð konunginn, Jehóva hersveitanna!‘“ (Jesaja 6:5) Jehóva er óendanlega heilagur og það minnti Jesaja á hve ófullkominn og syndugur hann væri sjálfur. Þessi trúfasti maður var miður sín í fyrstu. En Jehóva skildi ekki við hann þannig.

18 Einn af seröfunum beið ekki boðanna að hughreysta spámanninn. Hvernig? Hinn voldugi andi flaug að altarinu, tók þaðan glóandi kolamola og snerti varir Jesaja með honum. Þetta virkar kannski meira kvalafullt en hughreystandi en mundu að þetta var sýn, auðug af táknum. Jesaja var trúfastur Gyðingur og vissi mætavel að fórnir voru bornar fram daglega á musterisaltarinu til að friðþægja fyrir syndir. Og serafinn minnti spámanninn vinsamlega á að hann gæti staðið hreinn frammi fyrir Guði þó að hann væri ófullkominn, „með óhreinar varir“. a Jehóva var fús til að líta á ófullkominn, syndugan mann sem heilagan – að minnsta kosti í afstæðri merkingu. – Jesaja 6:6, 7.

19. Hvernig getum við verið heilög að vissu marki þótt við séum ófullkomin?

19 Eins er það núna. Allar fórnir, sem bornar voru fram á altarinu í Jerúsalem, voru aðeins skuggi þess sem meira var – hinnar einu fullkomnu fórnar sem Jesús Kristur færði árið 33. (Hebreabréfið 9:11–14) Ef við iðrumst synda okkar í einlægni, snúum af rangri braut og sýnum í verki að við trúum á fórnina er okkur fyrirgefið. (1. Jóhannesarbréf 2:2) Við getum sömuleiðis staðið hrein frammi fyrir Guði. Þess vegna segir Pétur postuli: „Skrifað er: ‚Þið skuluð vera heilög því að ég er heilagur.‘“ (1. Pétursbréf 1:16) Við tökum eftir að Jehóva segir ekki að við verðum að vera eins heilög og hann, enda ætlast hann aldrei til hins ómögulega af okkur. (Sálmur 103:13, 14) Hann segir okkur að vera heilög af því að hann er heilagur. „Sem elskuð börn hans“ reynum við að líkja eins vel eftir honum og ófullkomnir menn geta. (Efesusbréfið 5:1) Það er því óslitin vinna að vera heilagur og „verða þannig æ heilagari“ jafnt og þétt eftir því sem við þroskumst andlega. – 2. Korintubréf 7:1.

20. (a) Hvers vegna er mikilvægt að átta sig á því að við getum verið hrein í augum hins heilaga Guðs? (b) Hvaða áhrif hafði það á Jesaja er hann komst að raun um að það var búið að friðþægja fyrir syndir hans?

20 Jehóva elskar það sem er hreint og flekklaust. Hann hatar syndina. (Habakkuk 1:13) En hann hatar okkur ekki, heldur fyrirgefur syndir okkar svo lengi sem við lítum syndina sömu augum og hann – hötum hið illa og elskum hið góða – og leggjum okkur í líma við að feta í fullkomin fótspor Jesú Krists. (Amos 5:15; 1. Pétursbréf 2:21) Sú hugsun að geta verið hrein í augum hins heilaga Guðs hefur djúpstæð áhrif á okkur. Munum að heilagleiki Jehóva minnti Jesaja fyrst á óhreinleika hans og hann hrópaði upp yfir sig: „Það er úti um mig!“ En viðhorf hans breyttist þegar hann áttaði sig á því að það var búið að friðþægja fyrir syndir hans. Þegar Jehóva óskaði eftir sjálfboðaliða til að sinna ákveðnu verkefni bauð Jesaja sig tafarlaust fram þó að hann vissi ekki einu sinni hvert verkefnið væri. Hann sagði hátt og skýrt: „Hér er ég! Sendu mig!“ – Jesaja 6:5–8.

21. Á hvaða grundvelli getum við treyst að við getum þroskað með okkur heilagleika?

21 Við erum sköpuð eftir mynd hins heilaga Guðs. Við höfum siðferðiskennd og erum fær um að skilja andlega hluti. (1. Mósebók 1:26) Við erum öll fær um að vera heilög. Jehóva er meira en fús til að hjálpa okkur að þroska heilagleikann. Um leið löðumst við að heilögum Guði okkar. Og þegar við fjöllum um eiginleika Jehóva í köflunum á eftir komumst við að raun um að við höfum margar góðar og gildar ástæður til að styrkja samband okkar við hann.

a Orðalagið „með óhreinar varir“ er vel til fundið því að varir eru oft notaðar í óeiginlegri merkingu í Biblíunni um tal eða tungumál. Að stórum hluta til má rekja syndir ófullkominna manna til þess hvernig þeir kjósa að nota talgáfuna. – Orðskviðirnir 10:19; Jakobsbréfið 3:2, 6.