Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

4. KAFLI

„Jehóva er ... máttugur mjög“

„Jehóva er ... máttugur mjög“

1, 2. Hvaða undur hafði Elía séð á lífsleiðinni en að hverju varð hann vitni úr hellinum á Hórebfjalli?

 ELÍA hafði séð ýmis undur um ævina. Hann hafði séð hrafna færa sér mat tvisvar á dag meðan hann var í felum. Hann hafði séð mjölkrukku og olíukrús sem tæmdust aldrei meðan langvinn hungursneyð geisaði. Hann hafði jafnvel séð eld falla af himni sem svar við bæn sinni. (1. Konungabók, 17. og 18. kafli.) En aldrei hafði hann séð nokkuð þessu líkt.

2 Hann sat í hnipri í hellismunna á Hórebfjalli þar sem hann varð vitni að tilkomumiklum atburðum. Fyrst skall á stormur. Gnýrinn hlýtur að hafa verið ærandi því að svo öflugur var stormurinn að hann klauf fjöll og molaði kletta. Því næst reið yfir jarðskjálfti sem leysti úr læðingi ógnarkrafta er bundnir voru í jarðskorpunni. Að síðustu kom eldur. Elía hefur líklega fundið brennandi hitabylgjuna þegar eldurinn æddi yfir svæðið. – 1. Konungabók 19:8–12.

3. Hvaða eiginleika Jehóva sá Elía að verki og í hverju sjáum við hann birtast?

3 Allt þetta, sem Elía varð vitni að, átti eitt sameiginlegt – þetta var sönnun fyrir hinum mikla mætti Jehóva Guðs. Við þurfum auðvitað ekki að sjá kraftaverk til að gera okkur ljóst að Guð er afar máttugur. Það blasir við. Biblían segir að sköpunarverkið sé sönnun fyrir ‚eilífum mætti og guðdómi‘ Jehóva. (Rómverjabréfið 1:20) Hugsaðu þér blindandi eldingarleiftur og ærandi þrumur, tignarlegan foss steypast niður í gljúfur eða yfirþyrmandi víðáttu stjörnuhiminsins. Sérðu ekki mátt Guðs birtast þar? Fáir í heimi nútímans vilja samt viðurkenna þennan mátt og enn færri sjá hann í réttu ljósi. En ef við skiljum þennan eiginleika Jehóva gefur það okkur margs konar tilefni til að nálgast hann. Í þessum bókarhluta kynnum við okkur óviðjafnanlegan mátt Jehóva í smáatriðum.

‚Jehóva gekk fram hjá.‘

Einn grundvallareiginleiki Jehóva

4, 5. (a) Hvernig er nafni Jehóva lýst? (b) Af hverju er viðeigandi að Jehóva skuli velja nautið sem tákn um mátt sinn?

4 Jehóva er einstakur að mætti. Jeremía 10:6 segir: „Enginn er eins og þú, Jehóva. Þú ert mikill og nafn þitt er mikið og máttugt.“ Eins og þú sérð er nafni Jehóva lýst sem miklu og máttugu. Og þú manst að nafnið er talið merkja „hann lætur verða“. Hvað gerir Jehóva kleift að skapa hvaðeina sem hann langar til og að verða hvaðeina sem honum þóknast? Meðal annars máttur hans. Já, athafnamáttur Jehóva er takmarkalaus; hann getur alltaf komið vilja sínum í framkvæmd. Þessi máttur er einn af grundvallareiginleikum hans.

5 Við eigum erfitt með að gera okkur í hugarlund hve víðtækur máttur Jehóva er. Þess vegna bregður hann upp líkingum til skilningsauka fyrir okkur. Eins og við höfum séð notar hann nautið sem tákn um mátt sinn. (Esekíel 1:4–10) Þetta er viðeigandi samlíking því að tamda nautið er stór og kröftug skepna. Ólíklegt er að Palestínubúar á biblíutímanum hafi nokkurn tíma komist í tæri við sterkara dýr. Þeir þekktu þó annars konar naut og ógurlegra, villinautið, eða úruxann, sem nú er útdautt. (Jobsbók 39:9–12) Júlíus Sesar, valdhafi í Róm, hafði einu sinni á orði að naut þessi væru litlu minni en fílar. „Þau eru mikil að mætti og frá á fæti,“ skrifaði hann. Þú getur rétt ímyndað þér hve smár og máttlítill þú værir í skugga slíkrar skepnu.

6. Hvers vegna er Jehóva einn kallaður hinn „almáttugi“?

6 Maðurinn er að sama skapi smár og máttlaus í samanburði við Jehóva, Guð máttarins. Í augum hans eru voldugar þjóðir rétt eins og ryklag á vogarskálum. (Jesaja 40:15) Ólíkt öllum sköpunarverum býr Jehóva yfir ótakmörkuðum mætti því að hann einn er nefndur hinn „almáttugi“. a (Opinberunarbókin 15:3) Jehóva býr yfir „gríðarlegum krafti og ógurlegum mætti“. (Jesaja 40:26) Kraftur hans er óþrjótandi og endalaus. Hann er ekki háður utanaðkomandi aflgjafa því að „styrkurinn á upptök sín hjá Guði“. (Sálmur 62:11) En hvernig beitir Jehóva mætti sínum?

Þannig beitir Jehóva mætti sínum

7. Hvað er heilagur andi Jehóva og hvað gefa frummálsorðin í skyn?

7 Heilagur andi streymir ótakmarkað frá Jehóva. Hann er kraftur Guðs að verki. Í 1. Mósebók 1:2 er hann nefndur „kraftur Guðs“. Hebresku og grísku frummálsorðin, sem þýdd eru „andi“, geta merkt „vindur“, „andardráttur“ og „blástur“ eftir samhengi. Orðabækur segja að frummálsorðin vísi til ósýnilegs kraftar að verki. Andi Guðs er okkur ósýnilegur líkt og vindurinn en áhrifin eru raunveruleg og merkjanleg.

8. Hvað er andi Guðs kallaður í óeiginlegri merkingu í Biblíunni og hvers vegna á það vel við?

8 Heilagur andi Guðs er óendanlega fjölhæfur. Jehóva getur beitt honum til að framkvæma hvaðeina sem hann hefur í huga. Það er því vel við hæfi að hann skuli í óeiginlegri merkingu kallaður ‚fingur‘ Guðs, ‚sterk hönd‘ hans eða ‚útréttur handleggur‘. (Lúkas 11:20; 5. Mósebók 5:15; Sálmur 8:3) Líkt og maður getur beitt hendi sinni við margvísleg störf sem útheimta mismikið átak eða lipurð, eins getur Guð beitt anda sínum til að hrinda í framkvæmd hvaða fyrirætlun sem er – eins og að skapa hið örsmáa atóm, kljúfa Rauðahafið eða gera frumkristnum mönnum kleift að tala framandi tungumál.

9. Hve umfangsmikið er vald Jehóva?

9 Jehóva er alheimsdrottinn og beitir líka mætti sínum og valdi sem slíkur. Geturðu ímyndað þér að eiga greinda og hæfa þegna í milljónatali sem eru auðfúsir að hlýða skipunum þínum? Jehóva fer með slíkt vald. Hann á sér mennska þjóna sem Biblían líkir oft við her. (Sálmur 68:11; 110:3) En maðurinn er lítils megnugur í samanburði við engil. Það sýndi sig vel þegar assýrískur her réðst á þjóð Guðs og einn engill banaði 185.000 hermönnum á einni nóttu. (2. Konungabók 19:35) Englar Guðs eru vissulega ‚voldugir‘. – Sálmur 103:19, 20.

10. (a) Hvers vegna er hinn almáttugi nefndur Jehóva hersveitanna? (b) Hver er voldugasta sköpunarvera Jehóva?

10 Hve margir eru englarnir? Spámaðurinn Daníel sá í sýn meira en 100 milljónir andavera frammi fyrir hásæti Jehóva. Ekkert bendir þó til þess að hann hafi séð alla englana sem Jehóva skapaði. (Daníel 7:10) Þeir gætu skipt hundruðum milljóna. Guð er þar af leiðandi kallaður Jehóva hersveitanna. Þessi titill lýsir valdamikilli stöðu hans sem foringi mikillar og voldugrar englafylkingar. Og yfir allar þessar andaverur hefur hann sett ástfólginn son sinn sem er „frumburður alls sem er skapað“. (Kólossubréfið 1:15) Jesús er erkiengillinn – höfðingi allra engla, serafa og kerúba – og er því voldugasta sköpunarvera Jehóva.

11, 12. (a) Á hvaða hátt er orð Guðs kröftugt? (b) Hve víðtækur er máttur Jehóva að sögn Jesú?

11 Máttur Jehóva birtist á fleiri vegu. „Orð Guðs er lifandi og kraftmikið,“ segir Hebreabréfið 4:12. Hefurðu tekið eftir hinum einstæða krafti í orði Guðs, í hinum innblásna boðskap sem er varðveittur í Biblíunni? Hann getur styrkt okkur, byggt upp trúna og hjálpað okkur að breyta okkur verulega til batnaðar. Páll postuli varaði trúsystkini sín við fólki sem lifði gróflega siðlausu lífi og bætti síðan við: „Þannig voruð þið sumir ykkar.“ (1. Korintubréf 6:9–11) „Orð Guðs“ hafði orkað sterkt á líf þeirra og hjálpað þeim að breyta sér.

12 Jehóva er svo feikilega máttugur og ræður yfir svo áhrifaríkum aðferðum til að beita mætti sínum að ekkert getur staðið í vegi hans. Jesús sagði: „Guð getur allt.“ (Matteus 19:26) Í hvaða tilgangi beitir Jehóva mætti sínum?

Hann beitir mætti sínum í ákveðnum tilgangi

13, 14. (a) Af hverju getum við sagt að Jehóva sé ekki ópersónuleg orkulind? (b) Hvernig notar Jehóva mátt sinn?

13 Andi Jehóva er annað og meira en einhver náttúrlegur kraftur og sjálfur er Jehóva ekki ópersónulegt afl eða orkulind. Hann er persóna, Guð sem hefur fulla stjórn á mætti sínum. En af hvaða hvötum beitir hann honum?

14 Eins og við sjáum síðar notar Guð mátt sinn til að skapa, eyða, vernda og endurnýja – í stuttu máli til að gera hvaðeina sem þjónar fullkomnum ásetningi hans. (Jesaja 46:10) Í sumum tilvikum notar Jehóva mátt sinn til að opinbera mælikvarða sinn og mikilvæga þætti persónuleika síns. En umfram allt beitir hann mætti sínum til að koma vilja sínum í framkvæmd – til að helga heilagt nafn sitt fyrir tilstuðlan Messíasarríkisins og sýna þannig að stjórnarhættir hans séu bestir. Ekkert getur hindrað að það nái fram að ganga.

15. Til hvers beitir Jehóva mætti sínum í þágu þjóna sinna og hvernig birtist það gagnvart Elía?

15 Jehóva notar líka mátt sinn til hagsbóta fyrir okkur hvert og eitt. Sjáðu hvað segir í 2. Kroníkubók 16:9: „Augu Jehóva skima um alla jörðina til að hann geti beitt mætti sínum í þágu þeirra sem eru heils hugar við hann.“ Lífsreynsla Elía, sem nefnd var í byrjun kaflans, er dæmi um það. Af hverju sýndi Jehóva honum mátt sinn með þessum mikilfenglega hætti? Hin grimma Jesebel drottning hafði strengt þess heit að taka Elía af lífi. Spámaðurinn átti fótum sínum fjör að launa. Hann var á flótta, einmana, hræddur og kjarklítill – rétt eins og allt erfiði hans hefði verið til einskis. Jehóva hughreysti þennan mædda mann með því að minna hann á mátt sinn með áhrifamiklum hætti. Stormurinn, jarðskjálftinn og eldurinn sýndu Elía fram á að voldugasta persóna alheims væri með honum. Ekki þurfti hann að óttast Jesebel fyrst alvaldur Guð studdi við bakið á honum. – 1. Konungabók 19:1–12. b

16. Hvers vegna er hughreystandi að íhuga hinn mikla mátt Jehóva?

16 Þó að Jehóva vinni ekki kraftaverk á okkar dögum er hann enn sá hinn sami og hann var á tímum Elía. (1. Korintubréf 13:8) Honum er jafnmikið í mun núna að beita mætti sínum í þágu þeirra sem elska hann. Víst býr hann í himinháum andaheimi en hann er samt ekki langt frá okkur. Máttur hans er takmarkalaus þannig að vegalengdir eru engin hindrun. „Jehóva er nálægur öllum sem ákalla hann“. (Sálmur 145:18) Einu sinni kallaði Daníel spámaður eftir hjálp Jehóva og engill var kominn til hans áður en hann náði að ljúka bæninni! (Daníel 9:20–23) Ekkert getur aftrað Jehóva frá að styrkja þá sem hann elskar og hjálpa þeim. – Sálmur 118:6.

Er Jehóva óaðgengilegur sökum valds og máttar?

17. Í hvaða skilningi vekur máttur Jehóva með okkur ótta en hvers konar ótta er ekki um að ræða?

17 Eigum við að óttast Guð sökum þess hve máttugur hann er og þar af leiðandi voldugur? Við verðum að svara því bæði játandi og neitandi. Við svörum játandi af því að þessi eiginleiki hans er meira en næg ástæða til að óttast hann með djúpstæðri lotningu og virðingu eins og við ræddum stuttlega í kaflanum á undan. Biblían segir að slíkur guðsótti sé „upphaf viskunnar“. (Sálmur 111:10) Við svörum líka neitandi af því að máttur Guðs og vald gefur okkur enga ástæðu til að vera dauðhrædd við hann eða feimin við að nálgast hann.

18. (a) Af hverju vantreysta margir hinum valdamiklu? (b) Hvernig vitum við að völd Jehóva geta ekki spillt honum?

18 „Allt vald spillir og algert vald spillir algerlega.“ Svo mælti enski sagnfræðingurinn Acton lávarður árið 1887. Orð hans hafa oft verið höfð eftir, kannski vegna þess að margir líta á þau sem óyggjandi sannindi. Ófullkomnir menn misnota oft vald eins og sagan hefur margsannað. (Prédikarinn 4:1; 8:9) Þess vegna vantreysta margir hinum voldugu og forðast þá. Nú hefur Jehóva algert vald. Hefur það spillt honum á einhvern hátt? Vissulega ekki. Eins og við höfum séð er hann heilagur og honum verður ekki spillt. Jehóva er ólíkur ófullkomnum körlum og konum sem fara með völd í spilltum heimi. Hann hefur aldrei misbeitt valdi sínu og mun aldrei gera það.

19, 20. (a) Í samræmi við hvaða eiginleika beitir Jehóva alltaf mætti sínum og hvers vegna er það traustvekjandi? (b) Lýstu sjálfstjórn Jehóva með dæmi. Hvers vegna höfðar hún til þín?

19 Mundu að máttur er ekki eini eiginleiki Jehóva. Við eigum enn eftir að kynna okkur réttlæti hans, visku og kærleika. En við skulum ekki gefa okkur að eiginleikar hans birtist strangir og vélrænir, rétt eins og hann beiti aðeins einum þeirra í einu. Í köflunum á eftir sjáum við einmitt að Jehóva beitir mætti sínum alltaf í samræmi við réttlæti sitt, visku og kærleika. Auk þess hefur Jehóva til að bera eiginleika sem er sjaldgæfur hjá valdhöfum heimsins – hann hefur sjálfstjórn.

20 Ímyndaðu þér að þú hittir fyrir mann sem er svo stór og sterkur að þér stafar ógn af honum. En þegar frá líður sérðu að hann er hið mesta ljúfmenni. Hann er alltaf boðinn og búinn að beita afli sínu til að hjálpa fólki og vernda það, ekki síst bágstöddum og varnarlausum. Hann misbeitir aldrei kröftum sínum. Hann er rægður án saka en heldur ró sinni, er virðulegur, vingjarnlegur en þó ákveðinn. Þú spyrð þig hvort þú gætir sýnt sams konar mildi og sjálfstjórn, ekki síst ef þú værir jafnsterkur og hann. Ef þú kynntist slíkum manni myndirðu líklega laðast að honum. Við höfum miklu ríkari ástæðu til að laðast að alvöldum Guði Jehóva. Líttu á setninguna sem heiti þessa kafla er sótt í: „Jehóva er seinn til reiði og máttugur mjög.“ (Nahúm 1:3) Hann er ekki fljótur til að beita mætti sínum gegn fólki, ekki einu sinni illmennum. Hann er mildur, góðlátur og „seinn til reiði“ þótt honum hafi verið ögrað á marga vegu. – Sálmur 78:37–41.

21. Hvers vegna neyðir Jehóva engan til að gera vilja sinn og hvað segir það okkur um hann?

21 Lítum á sjálfstjórn Jehóva frá öðrum sjónarhóli. Segjum að þú hefðir ótakmarkað vald. Heldurðu að þú myndir stundum freistast til að láta aðra gera hlutina eftir þínu höfði? Jehóva er alvaldur en neyðir þó engan til að þjóna sér. Þó að eina leiðin til eilífa lífsins sé sú að þjóna Guði þvingar hann okkur ekki til þess heldur sýnir hverjum manni þá virðingu að leyfa honum að velja sjálfur. Hann varar við afleiðingum þess að velja óskynsamlega og lýsir laununum sem fylgja því að velja skynsamlega. En hann eftirlætur okkur sjálfum að velja. (5. Mósebók 30:19, 20) Jehóva hefur einfaldlega engan áhuga á að sér sé þjónað af nauðung eða sjúklegum ótta við ógurlegt vald sitt. Hann leitar þeirra sem þjóna honum fúslega og af kærleika. – 2. Korintubréf 9:7.

22, 23. (a) Hvað sýnir að Jehóva hefur yndi af því að veita öðrum vald og mátt? (b) Hvað skoðum við í næsta kafla?

22 Lítum á eina ástæðu enn fyrir því að við þurfum ekki að vera hrædd við alvaldan Guð. Voldugir menn eru oft smeykir við að deila völdum sínum með öðrum. En Jehóva hefur yndi af því að fela dyggum dýrkendum sínum ýmis völd. Hann felur öðrum, til dæmis syni sínum, umtalsvert vald. (Matteus 28:18) Og hann gefur þjónum sínum líka mátt með öðrum hætti eins og Biblían segir: „Jehóva, þú ert mikill og voldugur, stórfenglegur, dýrlegur og vegsamlegur því að allt á himni og jörð er þitt … Í hendi þinni er máttur og styrkur og þú hefur vald til að upphefja og efla hvern sem er.“ – 1. Kroníkubók 29:11, 12.

23 Jehóva hefur ánægju af því að gefa þér mátt og styrk. Meira að segja gefur hann þeim sem vilja þjóna honum ‚kraft sem er ofar mannlegum mætti‘. (2. Korintubréf 4:7) Laðast þú ekki að þessum kraftmikla Guði sem beitir mætti sínum af slíkri gæsku og réttsýni? Í næsta kafla beinum við athyglinni að því hvernig Jehóva notar mátt sinn til að skapa.

a Gríska orðið, sem þýtt er ‚almáttugur‘, merkir bókstaflega „stjórnandi yfir öllu, sá sem fer með allt vald“.

b Biblían segir að ‚Jehóva hafi ekki verið í storminum, jarðskjálftanum eða eldinum‘. Þjónar Jehóva leita hans ekki í náttúruöflunum, líkt og dýrkendur ímyndaðra náttúruguða. Hann er margfalt meiri en svo að hann rúmist í nokkru sköpunarverki sínu. – 1. Konungabók 8:27.