Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

6. KAFLI

Eyðingarmáttur – „Jehóva er voldug stríðshetja“

Eyðingarmáttur – „Jehóva er voldug stríðshetja“

1–3. (a) Hvernig ógna Egyptar Ísraelsmönnum? (b) Hvernig barðist Jehóva fyrir fólk sitt?

 ÍSRAELSMENN voru í sjálfheldu, innikróaðir milli sjávar og ókleifra kletta. Egypski herinn var á hælum þeirra, miskunnarlaus drápsvél staðráðin í að tortíma þeim. a En Móse hvatti þá til að örvænta ekki og fullvissaði þá um að ‚Jehóva myndi sjálfur berjast fyrir þá‘. – 2. Mósebók 14:14.

2 En þrátt fyrir það hrópaði Móse til Jehóva og Jehóva svaraði: „Hvers vegna hróparðu til mín? … Þú skalt lyfta upp staf þínum, rétta höndina út yfir hafið og kljúfa það.“ (2. Mósebók 14:15, 16) Reyndu að sjá þetta fyrir þér. Jehóva gefur engli sínum skipun þegar í stað og skýstólpinn færist aftur fyrir Ísraelsmenn þar sem hann breiðir ef til vill úr sér eins og veggur og lokar árásarleiðinni fyrir Egyptum. (2. Mósebók 14:19, 20; Sálmur 105:39) Móse réttir út höndina. Hvass vindur klýfur hafið og sjórinn stirðnar einhvern veginn og stendur eins og veggur til beggja handa en á milli er nógu breiður vegur til að öll þjóðin komist yfir um. – 2. Mósebók 14:21; 15:8.

3 Andspænis þessum mikla mætti hefði faraó átt að skipa herliði sínu að snúa heim. En hann sýnir þann hroka að fyrirskipa árás. (2. Mósebók 14:23) Egyptar þeysast út á hafsbotninn en árásin fer fljótlega í handaskolum þegar stríðsvagnarnir byrja að ganga af hjólunum. Þegar Ísraelsmenn eru komnir heilu og höldnu yfir á ströndina hinum megin skipar Jehóva Móse: „Réttu höndina út yfir hafið þannig að sjórinn steypist yfir Egyptana, stríðsvagna þeirra og riddara.“ Sjávarveggirnir steypast yfir faraó og herlið hans og tortíma þeim öllum. – 2. Mósebók 14:24–28; Sálmur 136:15.

4. (a) Hvað reyndist Jehóva vera við Rauðahafið? (b) Hvernig gætu sumir brugðist við þessari lýsingu á Jehóva?

4 Frelsun Ísraelsmanna við Rauðahafið var stórviðburður í samskiptum Guðs við mannkynið. Þarna sýndi Jehóva að hann væri „voldug stríðshetja“. (2. Mósebók 15:3) En hvað finnst þér um þessa mynd sem hér er dregin upp af Jehóva? Við verðum að viðurkenna að stríð hafa valdið mannkyni ómældum þjáningum og hörmungum. Getur hugsast að eyðingarmáttur Guðs letji þig frekar en hvetji til þess að nálgast hann?

Jehóva var „voldug stríðshetja“ við Rauðahafið.

Stríð Guðs og styrjaldir manna

5, 6. (a) Hvers vegna er við hæfi að Guð skuli kallaður „Jehóva hersveitanna“? (b) Hvaða munur er á styrjöldum Guðs og manna?

5 Guði er gefinn titillinn „Jehóva hersveitanna“ um tvö hundruð og sextíu sinnum í Hebresku ritningunum og tvisvar í Grísku ritningunum. (1. Samúelsbók 1:11) Sem stjórnandi alheims ræður Jehóva yfir gríðarmiklum englaher. (Jósúabók 5:13–15; 1. Konungabók 22:19) Þessi englaher býr yfir ógurlegum eyðingarmætti. (Jesaja 37:36) Það er ekki skemmtileg tilhugsun að mönnum sé tortímt. En við verðum að hafa hugfast að stríð Guðs eru ólík lítilfjörlegum styrjöldum manna. Herforingjar og stjórnmálaleiðtogar reyna gjarnan að klæða yfirgang sinn í göfugan búning. En stríðsátök manna stjórnast næstum alltaf af ágirnd og eigingirni.

6 Jehóva lætur hins vegar ekki stjórnast af blindri tilfinningasemi. Í 5. Mósebók 32:4 segir: „Kletturinn, verk hans eru fullkomin því að allir vegir hans eru réttlátir. Trúfastur Guð sem er aldrei ranglátur, réttlátur er hann og ráðvandur.“ Orð Guðs fordæmir taumlausa reiði, grimmd og ofbeldi. (1. Mósebók 49:7; Sálmur 11:5) Jehóva lætur því aldrei til sín taka að ástæðulausu. Hann notar eyðingarmátt sinn sparlega og sem neyðarúrræði, enda sagði hann fyrir munn spámannsins Esekíels: „‚Hef ég einhverja ánægju af því að vondur maður deyi?‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva. ‚Vil ég ekki frekar að hann snúi baki við líferni sínu og haldi lífi?‘“ – Esekíel 18:23.

7, 8. (a) Hvað ályktaði Job ranglega um þjáningar sínar? (b) Hvernig leiðrétti Elíhú Job í þessu máli? (c) Hvaða lærdóm getum við dregið af reynslu Jobs?

7 Hvers vegna beitir Guð þá eyðingarmætti sínum? Áður en við svörum því skulum við minnast hins réttláta Jobs. Satan fullyrti að hvorki Job né nokkur annar maður sýndi Guði hollustu ef á reyndi. Jehóva svaraði þessum dylgjum með því að leyfa Satan að reyna trúfesti Jobs, og afleiðingin varð sú að Job missti börn sín, heilsuna og auðæfin. (Jobsbók 1:1–2:8) Hann vissi ekki af deilumálinu sem bjó að baki og ályktaði ranglega að þjáningar sínar stöfuðu af óréttmætri refsingu af hendi Guðs. Hann spurði Guð hvers vegna hann hefði gert hann að „skotspæni“ sínum og ‚óvini‘. – Jobsbók 7:20; 13:24.

8 Ungur maður er Elíhú hét benti Job á rökvillu hans og spurði: „Ertu svo sannfærður um að þú hafir rétt fyrir þér að þú segir: ‚Ég er réttlátari en Guð‘?“ (Jobsbók 35:2) Já, það er óviturlegt að halda að við vitum betur en Guð eða ganga út frá því að hann hafi verið ósanngjarn. „Það er óhugsandi að hinn sanni Guð geri nokkuð illt, að Hinn almáttugi geri nokkuð rangt!“ sagði Elíhú. Nokkru seinna sagði hann: „Okkur er ofviða að skilja Hinn almáttuga, hann er mikill og máttugur og hann víkur aldrei frá réttlæti sínu og réttvísi.“ (Jobsbók 34:10; 36:22, 23; 37:23) Við getum verið örugg um að Guð hafi fullgilda ástæðu til að berjast þegar hann gerir það. Með það í huga skulum við kanna nokkrar af ástæðunum fyrir því að Guð friðarins bregður sér stundum í gervi hermannsins. – 1. Korintubréf 14:33.

Hvers vegna er Guð friðarins tilneyddur til að berjast?

9. Af hverju berst Guð friðarins?

9 Eftir að hafa lofað Guð sem ‚volduga stríðshetju‘ sagði Móse: „Hver á meðal guðanna er eins og þú, Jehóva? Hver er eins og þú sem ert heilagastur allra?“ (2. Mósebók 15:11) Habakkuk spámaður tók í sama streng: „Augu þín eru of hrein til að horfa á hið illa og þú umberð ekki illsku.“ (Habakkuk 1:13) Þó að Jehóva sé Guð kærleikans er hann líka Guð heilagleikans og réttlætisins. Stundum er hann tilneyddur til að beita eyðingarmætti sínum af því að hann er heilagur og réttlátur. (Jesaja 59:15–19; Lúkas 18:7) Guð spillir því ekki heilagleika sínum þegar hann berst heldur berst hann af því að hann er heilagur. – 2. Mósebók 39:30.

10. Hver var eina leiðin til að binda enda á fjandskapinn sem spáð var í 1. Mósebók 3:15, og hvernig yrði það réttlátum mönnum til heilla?

10 Lítum á stöðuna sem kom upp eftir að fyrstu hjónin, Adam og Eva, gerðu uppreisn gegn Guði. (1. Mósebók 3:1–6) Ef hann hefði umborið ranglæti þeirra hefði hann grafið undan stöðu sjálfs sín sem alheimsdrottinn. Sem réttlátum Guði var honum skylt að dæma þau til dauða. (Rómverjabréfið 6:23) Í fyrsta spádómi Biblíunnar spáði hann fjandskap milli þjóna sinna og fylgjenda ‚höggormsins‘ Satans. (Opinberunarbókin 12:9; 1. Mósebók 3:15) Þessum fjandskap myndi ekki linna fyrr en Satan yrði tortímt. (Rómverjabréfið 16:20) Þessi dómur verður réttlátum mönnum til mikillar blessunar því að þá linnir áhrifum Satans á jörðinni og hægt verður að breyta henni í paradís. (Matteus 19:28) Þangað til myndi fólki Guðs stafa andleg og líkamleg hætta af þeim sem fylgdu Satan að málum og af og til þyrfti Guð að skerast í leikinn.

Guð upprætir illsku

11. Af hverju fannst Guði sér skylt að valda flóði um alla jörð?

11 Nóaflóðið er dæmi um slíka íhlutun Guðs. „Jörðin var orðin spillt í augum hins sanna Guðs og full af ofbeldi. Já, Guð sá að jörðin var spillt – allir menn á jörðinni höfðu spillt líferni sínu,“ segir 1. Mósebók 6:11, 12. Ætlaði Guð að leyfa hinum óguðlegu að kæfa það litla siðgæði sem eftir var á jörðinni? Nei, Jehóva fannst sér skylt að valda flóði um heim allan til að losa jörðina við þetta siðlausa og ofbeldisfulla fólk.

12. (a) Hverju spáði Jehóva um afkomanda Abrahams? (b) Hvers vegna átti að uppræta Amoríta úr landi þeirra?

12 Svipað er að segja um dóm Guðs yfir Kanaverjum. Jehóva upplýsti að allar ættkvíslir jarðar skyldu hljóta blessun af afkomanda Abrahams. Í samræmi við þessa fyrirætlun ákvað Guð að gefa niðjum Abrahams Kanaansland þar sem svonefndir Amorítar bjuggu. Hvernig var réttlætanlegt af Guði að reka þessa þjóð úr landi hennar? Hann boðaði að brottreksturinn kæmi ekki til framkvæmda næstu 400 árin eða svo, ekki fyrr en Amorítar hefðu „fyllt mæli sektar sinnar“. b (1. Mósebók 12:1–3; 13:14, 15; 15:13, 16; 22:18) Á þessu tímabili sukku Amorítar æ dýpra í siðspillingu. Kanaansland varð bæli skurðgoðadýrkunar, blóðsúthellinga og niðurlægjandi kynlífsathafna. (2. Mósebók 23:24; 34:12, 13; 4. Mósebók 33:52) Landsmenn drápu jafnvel börn sín í eldi til fórnar guðunum. Gat heilagur Guð gert fólk sitt berskjaldað fyrir illsku sem þessari? Nei, hann sagði: „Landið [er] óhreint. Ég ætla að refsa íbúum landsins fyrir syndir þeirra og landið mun spúa þeim.“ (3. Mósebók 18:21–25) En Jehóva tortímdi ekki öllum sem einum því að réttsinnuðum Kanverjum var þyrmt, þeirra á meðal Rahab og Gíbeonítum. – Jósúabók 6:25; 9:3–27.

Guð berst vegna nafns síns

13, 14. (a) Hvers vegna var Jehóva skylt að helga nafn sitt? (b) Hvernig hreinsaði Jehóva nafn sitt af ámæli?

13 Jehóva er heilagur svo að nafn hans er líka heilagt. (3. Mósebók 22:32) Jesús kenndi lærisveinunum að biðja: „Við biðjum að nafn þitt helgist.“ (Matteus 6:9) Uppreisnin í Eden vanhelgaði nafn Guðs og kastaði rýrð á orðstír hans og stjórnarhætti. Jehóva gat ekki látið slíkan róg og slíka uppreisn viðgangast. Honum var skylt að hreinsa nafn sitt af öllu ámæli. – Jesaja 48:11.

14 Snúum okkur aftur að Ísraelsmönnum. Guð hafði lofað Abraham að allar ættkvíslir jarðar skyldu hljóta blessun af afkomanda hans. Svo lengi sem Ísraelsmenn voru þrælar í Egyptalandi virtist þetta loforð vera orðin tóm. En með því að frelsa þá úr ánauðinni og gera þá að þjóð hreinsaði Jehóva nafn sitt af ámæli. Daníel spámaður gat því sagt í bæn til Guðs: „Jehóva Guð okkar, þú sem leiddir fólk þitt út úr Egyptalandi með máttugri hendi og skapaðir þér nafn.“ – Daníel 9:15.

15. Hvers vegna leysti Jehóva Gyðingana úr ánauð í Babýlon?

15 Það er athyglisvert að Daníel skyldi biðja þessarar bænar þegar Gyðingar þörfnuðust þess að Jehóva léti til sín taka á ný vegna nafns síns. Gyðingar höfðu verið óhlýðnir og voru aftur í ánauð, nú í Babýlon. Höfuðborg þeirra, Jerúsalem, var í rústum. Daníel vissi að það yrði nafni Jehóva til lofs ef Gyðingar fengju að snúa aftur til síns heima. Því bað hann: „Jehóva, fyrirgefðu okkur. Jehóva, veittu okkur athygli og láttu til þín taka! Frestaðu því ekki, Guð minn, sjálfs þín vegna því að borg þín og fólk þitt er kennt við nafn þitt.“ – Daníel 9:18, 19.

Guð berst fyrir þjóð sína

16. Útskýrðu hvers vegna áhugi Jehóva á að réttlæta nafn sitt þýðir ekki að hann sé kaldur og sjálfselskur.

16 Er áhugi Jehóva á að réttlæta nafn sitt merki þess að hann sé kaldur og sjálfselskur? Nei, því að hann verndar fólk sitt með því að berjast í samræmi við heilagleika sinn og réttlætisást. Í 14. kafla 1. Mósebókar lesum við um innrás fjögurra konunga sem rændu Lot, bróðursyni Abrahams, ásamt fjölskyldu. Með hjálp Guðs vann Abraham stórsigur á margfalt öflugra liði. Frásagan af þessum sigri er líklega það fyrsta sem skráð var í ‚bókina um bardaga Jehóva‘, en líklegt er að bókin sú hafi líka geymt frásögur af hernaði sem ekki er greint frá í Biblíunni. (4. Mósebók 21:14) Margir fleiri sigrar áttu eftir að fylgja í kjölfarið.

17. Hvað sýnir að Jehóva barðist fyrir Ísraelsmenn eftir að þeir gengu inn í Kanaansland? Nefndu dæmi.

17 Skömmu áður en Ísraelsmenn héldu inn í Kanaansland sagði Móse þeim: „Jehóva Guð ykkar fer á undan ykkur og berst fyrir ykkur rétt eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi.“ (5. Mósebók 1:30; 20:1) Jehóva barðist sannarlega fyrir þjóð sína. Á dögum Jósúa, eftirmanns Móse, á dómaratímanum og í stjórnartíð trúfastra konunga í Júda veitti hann þjóð sinni marga stórbrotna sigra á óvinum hennar. – Jósúabók 10:1–14; Dómarabókin 4:12–17; 2. Samúelsbók 5:17–21.

18. (a) Hvers vegna getum við verið Jehóva þakklát fyrir að hann skuli ekki hafa breyst? (b) Hvað gerist þegar fjandskapurinn, sem lýst er í 1. Mósebók 3:15, nær hámarki?

18 Jehóva hefur ekki breyst og sú fyrirætlun hans að gera jörðina að friðsælli paradís stendur óhögguð. (1. Mósebók 1:27, 28) Hann hatar illa breytni enn sem fyrr. Og honum þykir innilega vænt um fólk sitt og lætur bráðlega til sín taka í þágu þess. (Sálmur 11:7) Í náinni framtíð megum við búast við afdrifaríkum og ofsafengnum þáttaskilum í sögu fjandskaparins sem lýst er í 1. Mósebók 3:15. Jehóva ætlar að verða „voldug stríðshetja“ enn á ný til að helga nafn sitt og vernda fólk sitt. – Sakaría 14:3; Opinberunarbókin 16:14, 16.

19. (a) Lýstu með dæmi hvernig eyðingarmáttur Guðs getur laðað okkur að honum. (b) Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að Guð skuli vera fús til að berjast?

19 Tökum dæmi: Segjum að óargadýr hafi ráðist að fjölskyldu manns og hann hafi hlaupið til og drepið villidýrið. Varla myndu aðfarir hans vekja hrylling hjá konu hans og börnum. Þau yrðu eflaust snortin af ást hans og ósérhlífni. Okkur ætti ekki heldur að finnast það fráhrindandi að Guð skuli beita eyðingarmætti sínum. Okkur ætti að þykja enn vænna um hann fyrir það að hann skuli vera fús til að berjast og vernda okkur. Og virðing okkar fyrir takmarkalausum mætti hans ætti að vaxa. Þannig getum við „veitt Guði heilaga þjónustu á velþóknanlegan hátt með lotningu og guðsótta“. – Hebreabréfið 12:28.

Nálgastu ‚voldugu stríðshetjuna‘

20. Hvað ættum við að gera og hvers vegna þegar við lesum um bardaga Guðs en skiljum ekki alla málavexti?

20 Biblían útskýrir ekki alltaf í þaula ákvarðanir Jehóva um bardaga sína. Um eitt getum við þó verið viss: Jehóva er aldrei ranglátur eða grimmur þegar hann beitir eyðingarmætti sínum og hann gerir það aldrei án tilefnis. Oft sjáum við málið í réttu ljósi ef við kynnum okkur samhengi atburðarins sem Biblían segir frá eða skoðum bakgrunninn. (Orðskviðirnir 18:13) Jafnvel þegar við þekkjum ekki alla málavexti getum við eytt hugsanlegum efasemdum með því að lesa okkur meira til um Jehóva og hugleiða hina yndislegu eiginleika hans. Ef við gerum þetta uppgötvum við að við höfum fulla ástæðu til að treysta Jehóva Guði okkar. – Jobsbók 34:12.

21. Hvernig er Jehóva innst inni þó að hann sé stundum „voldug stríðshetja“?

21 Þó að Jehóva sé „voldug stríðshetja“ þegar aðstæður útheimta það má ekki skilja það svo að hann sé herskár innst inni. Í sýn Esekíels um himneska stríðsvagninn er Jehóva lýst þannig að hann sé reiðubúinn að berjast við óvini sína. Samt sem áður sá Esekíel regnboga umhverfis Guð og regnboginn er friðartákn. (1. Mósebók 9:13; Esekíel 1:28; Opinberunarbókin 4:3) Ljóst er að Jehóva er rór og friðsamur. „Guð er kærleikur,“ skrifaði Jóhannes postuli. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Allir eiginleikar hans eru í fullkomnu jafnvægi. Það er mikill heiður að fá að nálgast þennan máttuga en kærleiksríka Guð.

a Jósefus, sagnaritari Gyðinga, segir að „600 stríðsvagnar ásamt 50.000 riddurum og allt að 200.000 manna fótgönguliði“ hafi veitt Hebreunum eftirför. – Jewish Antiquities II., 324 [xv, 3].

b Ljóst er að heitið „Amorítar“ er í þessu samhengi notað um Kanverja í heild. – 5. Mósebók 1:6–8, 19–21, 27; Jósúabók 24:15, 18.