Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

7. KAFLI

Verndarmáttur – „Guð er skjól okkar“

Verndarmáttur – „Guð er skjól okkar“

1, 2. Í hvaða hættu voru Ísraelsmenn á Sínaískaga árið 1513 f.Kr. og hvernig hughreysti Jehóva þá?

 ÍSRAELSMENN héldu yfir á Sínaískaga snemma árs 1513 f.Kr. Fram undan var hættulegt ferðalag um „hinar miklu og ógurlegu óbyggðir þar sem eru eiturslöngur og sporðdrekar“. (5. Mósebók 8:15) Jafnframt áttu Ísraelsmenn á hættu að verða fyrir árásum óvinaþjóða. Það var Jehóva Guð þeirra sem hafði leitt þá á þennan stað. En var hann fær um að vernda þá?

2 Orð Jehóva voru einkar hughreystandi: „Þið hafið sjálf séð hvað ég gerði Egyptum, hvernig ég hef borið ykkur á arnarvængjum og flutt ykkur til mín.“ (2. Mósebók 19:4) Hann minnti þjóna sína á að hann hefði frelsað þá undan oki Egypta, rétt eins og hann hefði flutt þá á arnarvængjum í öruggt skjól. En það eru fleiri ástæður fyrir því að það er rétt að líkja vernd Guðs við ‚arnarvængi‘.

3. Hvers vegna eru ‚arnarvængir‘ viðeigandi til að lýsa vernd Guðs?

3 Örninn notar ekki aðeins sterka og breiða vængina til að svífa um loftin blá. Á heitasta tíma dagsins skýlir assan viðkvæmum hreiðurungunum fyrir brennheitri sólinni með útbreiddum vængjum – og vænghafið getur verið meira en tveir metrar. Í kulda og næðingi vefur hún vængjunum utan um ungana til að halda á þeim hita. Jehóva hafði skýlt Ísraelsmönnum og verndað þá líkt og örninn gætir unga sinna. Hann ætlaði að skýla þjóðinni í skugga vængja sinna úti í eyðimörkinni meðan hún sýndi honum tryggð. (5. Mósebók 32:9–11; Sálmur 36:7) En getum við vænst verndar Guðs nú á tímum?

Loforðið um vernd Guðs

4, 5. Hvers vegna getum við treyst fullkomlega loforði Guðs um að vernda okkur?

4 Jehóva er vissulega fær um að vernda þjóna sína. Hann er „almáttugur Guð“ sem minnir á að ekkert getur staðið gegn afli hans. (1. Mósebók 17:1) Máttur Jehóva er óstöðvandi eins og sjávarföllin. Hann getur gert allt sem vilji hans stendur til þannig að við getum spurt: Vill hann beita mætti sínum til að vernda þjóna sína?

5 Svarið er já. Jehóva fullvissar okkur um að hann ætli að vernda þjóna sína. „Guð er skjól okkar og styrkur, hann hjálpar okkur alltaf á neyðartímum,“ segir í Sálmi 46:1. Þar sem Guð „getur ekki logið“ getum við treyst fullkomlega á loforð hans um að vernda okkur. (Títusarbréfið 1:2) Lítum á nokkur dæmi um það myndmál sem Jehóva notar til að lýsa ástríkri vernd sinni.

6, 7. (a) Hvernig verndaði fjárhirðir sauði sína á biblíutímanum? (b) Hvernig lýsir Biblían einlægri löngun Jehóva til að vernda sauði sína og annast þá?

6 Jehóva er hirðir og „við erum fólk hans og sauðir á beitilandi hans“. (Sálmur 23:1; 100:3) Fá dýr eru eins hjálparvana og sauðkindin. Fjárhirðir á biblíutímanum þurfti að vera hugaður til að vernda sauði sína fyrir ljónum, úlfum, bjarndýrum og þjófum. (1. Samúelsbók 17:34, 35; Jóhannes 10:12, 13) En stundum þurfti milda hönd. Þegar ær bar fjarri sauðabyrginu gætti hirðirinn móðurinnar meðan hún var bjargarlaus og tók síðan varnarlaust lambið í fang sér og bar það inn í byrgið.

‚Hann ber þau í fangi sínu.‘

7 Með því að líkja sér við fjárhirði fullvissar Jehóva okkur um að honum sé mikið í mun að vernda okkur. (Esekíel 34:11–16) Þú manst hvernig Jehóva er lýst í Jesaja 40:11 og rætt var um í 2. kafla þessarar bókar. Þar segir: „Eins og hirðir annast hann hjörð sína. Hann smalar lömbunum saman með hendinni og ber þau í fangi sínu.“ Hvernig kemst lítið lamb í ‚fang‘ hirðisins eða fellingarnar í yfirhöfn hans? Lambið kemur kannski til hans og nuddar sér jafnvel utan í fótlegg hans. En það er hirðirinn sem þarf að beygja sig, taka lambið upp og koma því varlega fyrir í öruggum faðmi sínum. Þetta er falleg mynd sem lýsir því vel hve fús hinn mikli hirðir er til að skýla okkur og vernda.

8. (a) Hverjum lofar Guð vernd sinni og hvernig má ráða það af Orðskviðunum 18:10? (b) Hvað er fólgið í því að finna öruggt athvarf í nafni Guðs?

8 Loforð Guðs um að vernda sauðina er skilyrt – það nær aðeins til þeirra sem nálgast hann. Orðskviðirnir 18:10 segja: „Nafn Jehóva er sterkur turn, hinn réttláti hleypur þangað og hlýtur vernd.“ Á biblíutímanum voru stundum reistir turnar úti í óbyggðum þar sem hægt var að leita skjóls. En sá sem var í hættu staddur þurfti sjálfur að flýja upp í turninn til að komast í öruggt skjól. Að leita athvarfs í nafni Guðs er hliðstætt. Það er ekki nóg að nefna nafn Guðs hvað eftir annað því að nafn hans er í sjálfu sér ekkert töfraorð. Við þurfum að þekkja þann sem ber nafnið, treysta honum og lifa í samræmi við réttlátar lífsreglur hans. Jehóva lofar sem sagt að vera eins og turn þar sem við getum fundið skjól ef við leitum til hans í trú. Þetta er sérlega gæskuríkt af honum.

‚Guð okkar getur bjargað okkur‘

9. Hvað hefur Jehóva gert meira en að lofa vernd?

9 Jehóva lætur sér ekki nægja að lofa þjónum sínum vernd. Forðum daga sýndi hann líka með yfirnáttúrulegum hætti að hann er fær um að vernda þá. Oft hélt hann öflugum óvinum Ísraelsmanna í skefjum með voldugri ‚hendi‘ sinni. (2. Mósebók 7:4) En Jehóva notaði líka verndarmátt sinn í þágu einstaklinga.

10, 11. Hvaða dæmi í Biblíunni sýna að Jehóva notar mátt sinn til að vernda einstaklinga?

10 Þrír ungir Hebrear – þekktir sem Sadrak, Mesak og Abed-Negó – neita að hneigja sig fyrir gulllíkneski Nebúkadnesars konungs en hann er voldugasti einvaldur jarðar á þeim tíma. Konungur er hamstola af reiði og hótar að kasta þeim í ofurheitan eldsofn. „Hvaða guð getur bjargað ykkur úr höndum mínum?“ spyr hann háðslega. (Daníel 3:15) Ungu mennirnir þrír treysta fullkomlega að Guð sé nógu máttugur til að vernda þá en ganga ekki að því sem gefnu að hann geri það. Þeir svara þess vegna: „Guð okkar sem við þjónum [getur] bjargað okkur.“ (Daníel 3:17) Hinn almáttugi Guð, sem þeir tilbiðja, ræður líka fullkomlega við eldsofninn þótt hann sé kyntur sjöfalt heitar en venja er. Hann verndar þá líka og konungur neyðist til að viðurkenna: „Enginn annar guð er til sem getur bjargað eins og hann.“ – Daníel 3:29.

11 Jehóva sýndi líka verndarmátt sinn með undraverðum hætti þegar hann flutti líf einkasonar síns í móðurlíf meyjarinnar Maríu. Engill sagði henni að hún myndi ‚verða barnshafandi og fæða son‘ og útskýrði hvernig það myndi eiga sér stað: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta umlykja þig.“ (Lúkas 1:31, 35) Ætla má að sonur Guðs hafi aldrei verið svona berskjaldaður áður. Myndi synd og ófullkomleiki hinnar mennsku móður setja mark sitt á fóstrið? Myndi Satan geta skaðað þennan son eða drepið hann fyrir fæðingu? Óhugsandi! Jehóva myndaði eins konar verndarmúr kringum Maríu þannig að ekkert – hvorki ófullkomleiki, skaðleg öfl, maður í drápshug eða illur andi – gæti skaðað hið vaxandi fóstur frá getnaði til fæðingar. Jehóva verndaði Jesú áfram í uppvextinum. (Matteus 2:1–15) Enginn gat gert syni Guðs mein fyrir tímann.

12. Hvers vegna verndaði Jehóva ákveðna einstaklinga forðum daga með yfirnáttúrulegum hætti?

12 Hvers vegna verndaði Jehóva ákveðna menn með yfirnáttúrulegum hætti? Oft var það til þess gert að fyrirætlun hans, sem er mikilvægari en nokkuð annað, fengi framgang. Jesús þurfti til dæmis að ná fullorðinsaldri til að fyrirætlun Guðs næði fram að ganga og hún verður öllu mannkyni til blessunar. Frásögurnar af því hvernig Jehóva beitti mætti sínum til verndar eru hluti hinnar innblásnu Biblíu sem var rituð ‚til að við gætum lært af henni og það veitir okkur von þar sem Ritningarnar hughreysta og hjálpa okkur að vera þolgóð‘. (Rómverjabréfið 15:4) Þessi dæmi styrkja trúna á almáttugan Guð. En hvers konar verndar megum við vænta frá Guði nú á dögum?

Það sem er ekki fólgið í loforðinu um vernd Guðs

13. Ber Jehóva skylda til að vinna kraftaverk fyrir okkur? Skýrðu svarið.

13 Loforð Jehóva um að vernda þjóna sína þýðir ekki að honum sé skylt að vinna kraftaverk fyrir okkur. Guð lofar því ekki að lífið verði vandræðalaust meðan þetta gamla heimskerfi stendur. Margir dyggir þjónar Guðs þola alls konar mótlæti, svo sem fátækt, stríðsástand, veikindi og dauða. Jesús sagði lærisveinunum berum orðum að sumir þeirra yrðu kannski líflátnir vegna trúar sinnar. Þess vegna lagði hann áherslu á að þeir þyrftu að vera staðfastir allt til enda. (Matteus 24:9, 13) Ef Jehóva beitti mætti sínum og ynni kraftaverk til að frelsa hvern einasta þjón sinn myndi Satan án efa ögra honum og véfengja að þeir þjónuðu honum af heilindum. – Jobsbók 1:9, 10.

14. Hvaða dæmi sýna að Jehóva verndar ekki alla þjóna sína á sama hátt?

14 Jehóva beitti ekki mætti sínum forðum daga til að vernda hvern einasta þjón sinn. Heródes tók til dæmis Jakob postula af lífi árið 44 eða þar um bil, en skömmu síðar var Pétri bjargað „úr höndum Heródesar“. (Postulasagan 12:1–11) Og Jóhannes bróðir Jakobs lifði þá báða. Það er ljóst að við getum ekki vænst þess að Guð verndi alla þjóna sína með nákvæmlega sama hætti. Auk þess mætir „tími og tilviljun“ öllum mönnum. (Prédikarinn 9:11) Hvernig verndar Jehóva okkur núna?

Jehóva veitir líkamlega vernd

15, 16. (a) Hvað ber vitni um að Jehóva hafi veitt þjónum sínum í heild líkamlega vernd? (b) Hvers vegna getum við treyst að Jehóva verndi þjóna sína núna og í „þrengingunni miklu“?

15 Lítum fyrst á hina líkamlegu vernd sem Jehóva veitir. Þjónar hans geta vænst þess að hann verndi þá sem hóp. Að öðrum kosti yrðum við auðveld bráð fyrir Satan. Þú getur rétt ímyndað þér að Satan, ‚stjórnandi þessa heims‘, vill ekkert frekar en útrýma sannri tilbeiðslu. (Jóhannes 12:31; Opinberunarbókin 12:17) Sumar af voldugustu ríkisstjórnum heims hafa bannað okkur að boða trúna og reynt að útrýma okkur. Þjónar Jehóva hafa engu að síður verið staðfastir og haldið ótrauðir áfram að prédika. Hvers vegna hefur voldugum þjóðum ekki tekist að stöðva starfsemi þessara kristnu manna sem er tiltölulega fámennur hópur og varnarlaus að sjá? Vegna þess að Jehóva hefur skýlt okkur undir voldugum vængjum sínum. – Sálmur 17:7, 8.

16 Ætli Jehóva verndi okkur líkamlega í „þrengingunni miklu“ sem fram undan er? Við þurfum ekki að óttast þegar Guð fullnægir dómum sínum. „Jehóva veit hvernig hann á að bjarga hinum guðræknu úr prófraunum en geyma hina ranglátu til að tortíma þeim á dómsdegi.“ (Opinberunarbókin 7:14; 2. Pétursbréf 2:9) Þangað til getum við gefið okkur tvennt. Í fyrsta lagi leyfir Jehóva aldrei að dyggir þjónar sínir verði afmáðir af jörðinni. Í öðru lagi umbunar hann ráðvöndum mönnum með eilífu lífi í réttlátum nýjum heimi – með upprisu frá dauðum ef nauðsyn krefur. Þeir sem deyja eru hvergi óhultari en í minni Guðs. – Jóhannes 5:28, 29.

17. Hvernig verndar Jehóva okkur með orði sínu?

17 Jehóva verndar okkur líka núna með lifandi ‚orði‘ sínu sem býr yfir krafti til að breyta lífi fólks og græða hjörtu þess. (Hebreabréfið 4:12) Með því að fara eftir frumreglum Biblíunnar getum við verndað okkur fyrir líkamlegu tjóni að vissu marki. „Ég, Jehóva … kenni þér það sem er þér fyrir bestu,“ segir í Jesaja 48:17. Við getum tvímælalaust bætt heilsuna og lengt lífið með því að lifa í samræmi við orð Guðs. Biblían ráðleggur okkur til dæmis að forðast kynferðislegt siðleysi og hreinsa okkur af öllu sem óhreinkar okkur. Ef við hlýðum því forðumst við óhreinar athafnir og skaðlega siði sem fara illa með líf margra guðlausra manna. (Postulasagan 15:29; 2. Korintubréf 7:1) Erum við ekki þakklát fyrir verndina sem orð Guðs veitir?

Jehóva verndar okkur andlega

18. Hvaða andlegu vernd veitir Jehóva okkur?

18 Mikilvægast er þó að Jehóva verndar okkur andlega. Við eigum kærleiksríkan Guð sem verndar okkur gegn andlegum skaða með því að láta okkur í té allt sem þarf til að standast prófraunir og varðveita sambandið við hann. Þannig varðveitir Jehóva líf okkar, ekki aðeins um fáein skammvinn ár heldur um alla eilífð. Lítum á sumt af því sem hann hefur látið í té og getur verndað okkur andlega.

19. Hvernig getur andi Guðs hjálpað okkur að standast sérhverja raun sem við blasir?

19 Jehóva „heyrir bænir“. (Sálmur 65:2) Það getur verið mikill léttir að úthella hjarta sínu fyrir honum þegar álag lífsins virðist óbærilegt. (Filippíbréfið 4:6, 7) Það er óvíst að hann fjarlægi erfiðleikana frá okkur með yfirnáttúrulegum hætti en hann getur svarað einlægum bænum okkar með því að veita okkur visku til að takast á við þá. (Jakobsbréfið 1:5, 6) Og Jehóva gefur þeim heilagan anda sem biðja hann. (Lúkas 11:13) Hinn öflugi andi Guðs getur hjálpað okkur að standast sérhverja raun og hvern þann vanda sem við blasir. Hann getur gefið okkur ‚kraft sem er ofar mannlegum mætti‘ þannig að við getum haldið út uns Jehóva fjarlægir allar þrautir í nýja heiminum fram undan. – 2. Korintubréf 4:7.

20. Hvernig getur verndarmáttur Jehóva birst fyrir milligöngu trúsystkina?

20 Stundum birtist verndarmáttur Guðs fyrir milligöngu trúbræðra okkar. Jehóva hefur ‚dregið‘ fólk inn í „bræðralagið“ sem nær um allan heiminn. (Jóhannes 6:44; 1. Pétursbréf 2:17) Í hlýju bræðralagsins sjáum við lifandi vitnisburð um kraft heilags anda og jákvæð áhrif hans á fólk. Andinn gefur af sér ávöxt í lífi okkar – aðlaðandi og yndislega eiginleika eins og kærleika, góðvild og gæsku. (Galatabréfið 5:22, 23) Þegar á bjátar og trúsystkini finnur hvöt hjá sér til að leiðbeina okkur eða uppörva, þá getum við þakkað Jehóva fyrir að láta verndarhönd sína ná til okkar með þessum hætti.

21. (a) Hvaða tímabæru andlegu fæðu gefur Jehóva okkur fyrir milligöngu ‚hins trúa og skynsama þjóns‘? (b) Hvaða gagn hefur þú haft af því sem Jehóva hefur gert til að vernda okkur andlega?

21 Jehóva lætur okkur annað í té sem er til verndar. Þetta er andleg fæða á réttum tíma – það sem við þurfum þegar við þörfnumst þess. Hann hefur falið ‚hinum trúa og skynsama þjóni‘ að útbýta andlegri fæðu svo að við getum sótt styrk í orð hans. Trúi þjónninn færir okkur „mat á réttum tíma“ í prentuðu máli, þar á meðal í tímaritunum Varðturninn og Vaknið!, og auk þess á vefsíðunni jw.org, safnaðarsamkomum og mótum. (Matteus 24:45) Hefurðu einhvern tíma heyrt eitthvað á safnaðarsamkomu – í svari, ræðu eða jafnvel í bæn – sem styrkti þig og uppörvaði einmitt eins og þú þurftir á að halda? Hefurðu einhvern tíma verið snortinn af ákveðinni grein í öðru hvoru tímaritinu okkar? Mundu að Jehóva lætur allt þetta í té til að vernda okkur andlega.

22. Hvernig notar Jehóva alltaf mátt sinn og hvers vegna er það okkur fyrir bestu?

22 Jehóva er vissulega skjöldur „öllum sem leita athvarfs hjá honum“. (Sálmur 18:30) Við gerum okkur ljóst að hann beitir ekki mætti sínum núna til að vernda okkur fyrir öllum erfiðleikum. Hins vegar notar hann verndarmátt sinn alltaf til að tryggja að fyrirætlun sín nái fram að ganga. Til langs tíma litið er það fólki hans fyrir bestu. Ef við nálgumst Jehóva og höldum okkur í kærleika hans gefur hann okkur fullkomleika og eilíft líf. Með hliðsjón af þessari framtíðarvon getum við litið þannig á allar þjáningar í þessu heimskerfi að þær ‚standi stutt og séu léttbærar‘. – 2. Korintubréf 4:17.