Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

8. KAFLI

Endurnýjunarmáttur – Jehóva gerir „alla hluti nýja“

Endurnýjunarmáttur – Jehóva gerir „alla hluti nýja“

1, 2. Hvaða tjón og missi mega mennirnir þola og hvaða áhrif hefur það á okkur?

 LEIKFANG brotnar eða týnist. Barnið grætur svo sárt að nístir merg og bein. En pabbi eða mamma gera við leikfangið eða finna það og barnið ljómar af gleði. Það er kannski lítið mál fyrir fullorðna fólkið að finna týnt leikfang eða jafnvel gera við það, en barnið er undrunin uppmáluð og brosir út að eyrum. Það hefur endurheimt leikfang sem virtist glatað fyrir fullt og allt.

2 Jehóva, faðirinn á himnum, hefur mátt til að endurnýja það sem börnum hans á jörð virðist glatað fyrir fullt og allt. Við erum auðvitað ekki að tala um leikföng því að á þeim ‚hættulegu og erfiðu tímum‘, sem við lifum, verðum við fyrir margs konar missi sem er mun alvarlegri. (2. Tímóteusarbréf 3:1–5) Megnið af því sem fólki er kært virðist í hættu – heimili, eignir, vinna og jafnvel heilsa. Og mörgum þykir ónotalegt að hugsa um umhverfisspjöll og útrýmingu margra tegunda jurta og dýra. Ekkert er þó sárara fyrir okkur en að missa ástvin. Söknuðurinn og vanmátturinn verður stundum yfirþyrmandi. – 2. Samúelsbók 18:33.

3. Hvaða hughreystandi loforð er gefið í Postulasögunni 3:21 og hvað notar Jehóva til að efna það?

3 Það er því einkar hughreystandi að fræðast um endurnýjunarmátt Jehóva. Það er sannast að segja ótrúlegt hvað Guð getur endurnýjað og mun endurnýja í þágu jarðneskra barna sinna. Reyndar segir Biblían að Jehóva ætli að ‚endurreisa allt‘. (Postulasagan 3:21) Til þess beitir hann Messíasarríkinu sem sonur hans, Jesús Kristur, stjórnar. Öll rök hníga að því að þetta ríki hafi tekið til starfa á himnum árið 1914. a (Matteus 24:3–14) Hvað verður endurreist? Við skulum líta á nokkur dæmi um stórfenglegt endurnýjunar- og endurreisnarstarf Jehóva. Reyndar getum við séð og upplifað eitt þeirra núna. Í framtíðinni sjáum við svo aðra og umfangsmeiri endurreisn.

Hrein tilbeiðsla endurreist

4, 5. Hvað kom fyrir þjóð Guðs árið 607 f.Kr. og hvaða von veitti hann henni?

4 Hrein tilbeiðsla er eitt af því sem Jehóva er búinn að endurreisa. Til að skilja hvað er fólgið í því skulum við kynna okkur sögu Júdaríkisins í stuttu máli. Þar fáum við hrífandi innsýn í það hvernig endurreisnarmáttur Jehóva birtist. – Rómverjabréfið 15:4.

5 Þú getur ímyndað þér hvernig trúum Gyðingum var innanbrjósts þegar Jerúsalem var eytt árið 607 f.Kr. Hin hjartkæra borg var í rústum og múrarnir brotnir. Og ofan á allt saman var musterið dýrlega, sem Salómon hafði reist, þessi fyrrverandi miðstöð hreinnar tilbeiðslu á jörðinni, rústir einar. (Sálmur 79:1) Hinir eftirlifandi voru fluttir í útlegð til Babýlonar og ættjörð þeirra skilin eftir í reiðileysi sem athvarf villidýra. (Jeremía 9:11) Frá mannlegum bæjardyrum séð var allt glatað. (Sálmur 137:1) En Jehóva hafði spáð þessari eyðingu löngu áður og gaf mönnum von um endurreisn síðar meir.

6–8. (a) Hvaða endurtekna stef er að finna í ritum hebresku spámannanna og hvernig rættust þessir spádómar í byrjun? (b) Hvernig hafa margir endurreisnarspádómar ræst hjá fólki Guðs nú á tímum?

6 Endurreisn er margendurtekið stef í ritum hebresku spámannanna. b Jehóva lét þá flytja fyrirheit um endurreisn og endurbyggingu, um frjósamt land varið gegn villidýrum og árásum óvina. Hann lýsti hinu endurbyggða landi sem sannri paradís. (Jesaja 65:25; Esekíel 34:25; 36:35) Aðalatriðið var þó að sönn tilbeiðsla yrði tekin upp að nýju og musterið endurbyggt. (Míka 4:1–5) Þessir spádómar veittu hinum útlægu Gyðingum von og hjálpuðu þeim að þrauka í 70 ára útlegð í Babýlon.

7 Að lokum rann endurreisnartíminn upp. Gyðingar voru leystir úr útlegðinni í Babýlon og sneru heim til Jerúsalem og byggðu musteri Jehóva að nýju. (Esrabók 1:1, 2) Jehóva blessaði þá meðan þeir héldu sig við hreina tilbeiðslu og gerði landið frjósamt og gjöfult. Hann verndaði þá gegn óvinum og gegn villidýrum sem höfðu breiðst út um landið áratugina á undan. Endurnýjunarmáttur Jehóva hlýtur að hafa glatt þá ósegjanlega. En þetta var aðeins byrjunaruppfylling endurreisnarspádómanna, takmörkuð uppfylling. Þeir áttu að uppfyllast með mun stórfenglegri hætti „á síðustu dögum“, á okkar tímum þegar hinn langþráði erfingi Davíðs konungs yrði krýndur. – Jesaja 2:2–4; 9:6, 7.

8 Skömmu eftir að Jesús tók við konungdómi í ríkinu á himnum árið 1914 sneri hann sér að andlegum þörfum dyggra þjóna Guðs á jörðinni. Hann leysti leifar andlegra Gyðinga – fylgjendur sína – undan áhrifavaldi ‚Babýlonar hinnar miklu‘ sem er heimsveldi falskra trúarbragða, rétt eins og persneski sigurvegarinn Kýrus leysti leifar Gyðinga úr ánauð Babýlonar árið 537 f.Kr. (Opinberunarbókin 18:1–5; Rómverjabréfið 2:29) Síðan 1919 hefur hrein tilbeiðsla verið endurvakin og skipar nú réttan sess í lífi sannkristinna manna. (Malakí 3:1–5) Æ síðan hefur fólk Jehóva tilbeðið hann í hreinsuðu andlegu musteri hans sem er fyrirkomulag hans til að við getum tilbeðið hann á réttan hátt. Hvers vegna er þetta mikilvægt fyrir okkur?

Hvers vegna er andleg endurreisn mikilvæg?

9. Hvað gerði klerkastéttin eftir postulatímann en hvað hefur Jehóva Guð gert á okkar tímum?

9 Lítum á málið í sögulegu samhengi. Kristnir menn á fyrstu öld bjuggu við margs konar andlega blessun. En Jesús og postularnir sögðu fyrir að sönn tilbeiðsla myndi spillast og hverfa af sjónarsviðinu. (Matteus 13:24–30; Postulasagan 20:29, 30) Eftir postulatímann varð stórfellt fráhvarf frá sannri kristni. Klerkastétt þessarar fráhvarfskristni tók upp heiðnar kenningar og siði. Hún gerði Guð næstum óaðgengilegan með því að útlista hann sem óskiljanlega þrenningu og kenna fólki að játa syndir sínar fyrir prestum og biðja til Maríu og ýmissa „dýrlinga“ í stað Jehóva. Hvað hefur Jehóva gert núna eftir þessa aldalöngu afskræmingu? Í heimi nútímans – heimi þar sem synd og villutrú veður uppi – hefur hann látið til sín taka og endurvakið hreina tilbeiðslu. Við getum ýkjulaust sagt að þessi endurvakning sé eitt það mikilvægasta sem gerst hefur á seinni tímum.

10, 11. (a) Hvað tvennt er fólgið í andlegu paradísinni og hvaða áhrif hefur það á þig? (b) Hvers konar fólki hefur Jehóva safnað inn í andlegu paradísina og hvað fær það að sjá?

10 Sannkristnir menn nú á dögum búa þess vegna í andlegri paradís sem verður sífellt betri. Í hverju er þessi paradís fólgin? Fyrst og fremst í tvennu. Annars vegar er hún fólgin í hreinni tilbeiðslu á hinum sanna Guði, Jehóva. Þessi tilbeiðsla er laus við afskræmingu og lygar og það er mikil blessun. Hann hefur gefið okkur andlega fæðu þannig að við getum fræðst um föður okkar á himnum, þóknast honum og styrkt samband okkar við hann. (Jóhannes 4:24) Hins vegar byggist andlega paradísin á fólkinu sem býr í henni. Eins og Jesaja spáði hefur Jehóva kennt tilbiðjendum sínum „á síðustu dögum“ að ástunda frið og taka ekki þátt í hernaði. Hann hjálpar okkur að „íklæðast hinum nýja manni“ þó að við séum ófullkomin. Hann blessar viðleitni okkar með því að gefa okkur heilagan anda sem ber yndislegan ávöxt í lífi okkar. (Efesusbréfið 4:22–24; Galatabréfið 5:22, 23) Þegar þú lifir og starfar í samræmi við anda Guðs tilheyrir þú andlegu paradísinni.

11 Jehóva hefur safnað inn í þessa andlegu paradís þess konar fólki sem hann elskar – fólki sem elskar hann, elskar frið og ‚skynjar andlega þörf sína‘. (Matteus 5:3) Þetta fólk verður síðan vitni að enn tilkomumeiri endurreisn þegar mannkynið endurheimtir fullkomleikann og öll jörðin verður paradís.

„Ég geri alla hluti nýja“

12, 13. (a) Hvers vegna hljóta endurreisnarspádómarnir að uppfyllast að nýju? (b) Hvað ætlast Jehóva fyrir með jörðina eins og fram kom í Eden og hvers vegna gefur það okkur bjarta framtíðarvon?

12 Margir af endurreisnarspádómunum virðast lýsa meiru en andlegri endurreisn. Jesaja sagði til dæmis að veikir, haltir, blindir og heyrnarlausir myndu læknast og dauðinn yrði jafnvel afmáður fyrir fullt og allt. (Jesaja 25:8; 35:1–7) Slík fyrirheit rættust ekki bókstaflega í Ísrael forðum daga. Og þó að við höfum séð þau rætast andlega á okkar tímum er full ástæða til að trúa að þau rætist bókstaflega og fullkomlega í framtíðinni. Hvernig vitum við það?

13 Jehóva tók það fram í Eden forðum daga hvað hann ætlaðist fyrir með jörðina: Hún átti að vera byggð sameinuðu, heilbrigðu og hamingjusömu mannkyni. Karlar og konur áttu að annast jörðina og dýrin, og gera allan hnöttinn að paradís. (1. Mósebók 1:28) Núverandi ástand er langur vegur frá því. En þú mátt treysta að fyrirætlun Jehóva nái fram að ganga. (Jesaja 55:10, 11) Jehóva hefur skipað Jesú Messíasarkonung og falið honum að gera alla jörðina að paradís. – Lúkas 23:43.

14, 15. (a) Hvernig mun Jehóva gera „alla hluti nýja“? (b) Hvernig verður lífið í paradís og hvað höfðar sérstaklega til þín?

14 Hugsaðu þér að sjá alla jörðina breytast í paradís. „Ég geri alla hluti nýja,“ segir Jehóva um þessa breytingu. (Opinberunarbókin 21:5) Hugleiddu hvað þetta þýðir. Þegar Jehóva er búinn að beita mætti sínum til að eyða hinu gamla og illa heimskerfi sem nú er, standa eftir ‚nýir himnar og ný jörð‘. Það þýðir að ný stjórn með aðsetur á himnum ræður yfir nýju samfélagi manna á jörð sem elska Jehóva og gera vilja hans. (2. Pétursbréf 3:13) Satan og illir andar hans verða teknir úr umferð. (Opinberunarbókin 20:3) Í fyrsta sinn í mörg þúsund ár verður mannkynið laust við spillandi, andstyggileg og skaðleg áhrif þeirra. Léttirinn, sem fylgir því, verður eflaust ólýsanlegur.

15 Loksins getum við annast þessa fallegu reikistjörnu eins og okkur var ætlað í upphafi. Jörðin býr yfir ótrúlegri hæfni til að endurnýja sig. Menguð vötn og fljót geta hreinsað sig ef mengunarvaldinum er útrýmt og styrjaldarsár jarðar gróa ef styrjaldir leggjast af. Það verður unaðslegt að vinna með vistkerfi jarðar, að hjálpast að við að breyta henni í yndislegan lystigarð, í Eden sem teygir sig um allan hnöttinn. Maðurinn hættir að eyða dýra- og jurtategundum og við tekur friður milli manna og annarra lífvera jarðar. Börnin þurfa ekki einu sinni að óttast villidýrin. – Jesaja 9:6, 7; 11:1–9.

16. Hvaða endurnýjun á sér stað í paradís hjá öllum sem eru Guði trúir?

16 Sjálf verðum við líka endurnýjuð. Þeir sem lifa gegnum Harmagedón munu sjá undraverðar lækningar um alla jörð. Jesús beitir þá krafti Guðs til að gefa blindum sýn, heyrnarlausum heyrn og lömuðum og fötluðum heilbrigðan líkama, líkt og hann gerði þegar hann var hér á jörð. (Matteus 15:30) Aldraðir endurheimta æskuþróttinn. (Jobsbók 33:25) Hrukkur hverfa, það réttist úr bognum limum og vöðvar spennast af nýjum krafti. Allir trúfastir menn finna áhrif syndar og ófullkomleika fjara út og hverfa smám saman. Þá munum við þakka Jehóva Guði þennan undursamlega endurnýjunarmátt. En snúum okkur nú að sérstaklega hrífandi þætti þessa endurreisnartíma.

Hinir dánu vaktir upp til lífs

17, 18. (a) Hvers vegna ávítaði Jesús saddúkeana? (b) Af hvaða tilefni bað Elía Jehóva um að vekja barn upp frá dauðum?

17 Á fyrstu öld var flokkur trúarleiðtoga sem trúðu ekki á upprisu. Þetta voru saddúkear. Jesús ávítaði þá og sagði: „Ykkur skjátlast því að þið þekkið hvorki Ritningarnar né mátt Guðs.“ (Matteus 22:29) Já, Ritningin sýnir fram á að Jehóva hefur mátt til að reisa látna upp frá dauðum. Hvernig þá?

18 Hverfum aftur í tímann til daga Elía. Ekkja heldur á máttlausum líkama einkasonar síns. Drengurinn er dáinn. Þetta hlýtur að hafa fengið á spámanninn Elía sem hafði verið gestur á heimili ekkjunnar um tíma. Hann hafði átt sinn þátt í að bjarga drengnum frá hungurdauða. Kannski þótti honum orðið vænt um drenginn. Móðirin er auðvitað niðurbrotin. Drengurinn var eina lifandi manneskjan sem minnti hana á látinn eiginmann hennar. Sjálfsagt hafði hún vonast til þess að sonurinn myndi sjá fyrir henni í ellinni. Hún er örvilnuð. Er kannski verið að refsa henni fyrir einhverjar ávirðingar? Elía afber ekki að horfa upp á þennan harmleik sem er þó nægur fyrir. Hann tekur líkið blíðlega úr fangi móðurinnar, ber það upp í herbergi sitt og biður Jehóva Guð um að endurvekja líf barnsins. – 1. Konungabók 17:8–21.

19, 20. (a) Hvernig sýndi Abraham að hann trúði á endurnýjunarmátt Jehóva og á hvaða grunni var þessi trú reist? (b) Hvernig umbunaði Jehóva Elía trúna?

19 Elía var þó ekki fyrstur manna til að trúa á upprisu frá dauðum. Öldum áður trúði Abraham á endurnýjunarmátt Jehóva – og ekki að ástæðulausu. Þegar Abraham var tíræður og Sara níræð endurvakti Jehóva getnaðarmátt þeirra þannig að Sara gæti eignast son. (1. Mósebók 17:17; 21:2, 3) Síðar, þegar drengurinn var orðinn fullvaxta, sagði Jehóva Abraham að fórna honum. Abraham sýndi trú og treysti að Jehóva gæti reist ástkæran son hans upp frá dauðum. (Hebreabréfið 11:17–19) Þessi sterka trú er kannski skýringin á því hvers vegna Abraham fullvissaði þjóna sína, áður en hann hélt upp á fjallið til að fórna drengnum, um að þeir Ísak myndu báðir koma til baka. – 1. Mósebók 22:5.

„Sjáðu, sonur þinn er lifandi!“

20 Jehóva þyrmdi lífi Ísaks þannig að það þurfti ekki að reisa hann upp frá dauðum á þeim tíma. Sonur ekkjunnar, sem Elía var hjá, var hins vegar látinn – en ekki lengi. Jehóva launaði spámanninum trúna með því að reisa drenginn upp frá dauðum. Síðan fékk Elía móðurinni drenginn og sagði þessi ógleymanlegu orð: „Sjáðu, sonur þinn er lifandi!“ – 1. Konungabók 17:22–24.

21, 22. (a) Í hvaða tilgangi var fólk reist upp frá dauðum eins og Biblían segir frá? (b) Hve umfangsmikil verður upprisan í paradís og hver annast hana?

21 Þetta er í fyrsta sinn sem Biblían lýsir því hvernig Jehóva notar mátt sinn til að vekja mannveru upp frá dauðum. Síðar gaf hann Elísa, Jesú, Páli og Pétri kraft til að reisa upp dána. En þeir sem reistir voru upp dóu auðvitað aftur fyrr eða síðar. Frásögur af þessu tagi gefa okkur engu að síður unaðslega innsýn í það sem koma skal.

22 Jesús er „upprisan og lífið“ og í paradís gerir hann því hlutverki sínu full skil. (Jóhannes 11:25) Þar mun hann reisa milljónir manna upp frá dauðum og veita þeim tækifæri til að lifa að eilífu í paradís á jörð. (Jóhannes 5:28, 29) Þú getur rétt ímyndað þér hvílíkir endurfundir verða þegar ættingjar og ástvinir faðmast, utan við sig af fögnuði eftir langan aðskilnað dauðans. Allt mannkyn mun þá lofa Guð fyrir endurnýjunarmátt hans.

23. Hvert er mikilfenglegasta dæmið um mátt Jehóva og hvaða trygging er það fyrir framtíðarvon okkar?

23 Jehóva hefur gefið bjargfasta tryggingu fyrir því að þessi von sé áreiðanleg. Mikilfenglegasta dæmið um mátt hans er að hann reisti son sinn Jesú upp frá dauðum sem volduga andaveru og skipaði hann næstan sér að mætti og tign. Jesús birtist hundruðum sjónarvotta eftir upprisuna. (1. Korintubréf 15:5, 6) Það er vitnisburður sem ætti jafnvel að nægja efunarmönnum. Jehóva hefur mátt til að vekja dána til lífs.

24. Af hverju getum við treyst að Jehóva reisi látna upp frá dauðum og hvaða von ættum við öll að hlúa að?

24 Það er ekki aðeins að Jehóva hafi máttinn til að reisa látna upp frá dauðum. Hann langar einnig til þess. Hinum trúfasta Job var innblásið að segja að Jehóva bókstaflega þrái að lífga þá sem látnir eru. (Jobsbók 14:15) Laðast þú ekki að Guði sem er svo mikið í mun að nota kraft sinn á svona kærleiksríkan hátt? En mundu að upprisan er aðeins einn þáttur í hinu mikla endurnýjunarstarfi Jehóva sem fram undan er. Þegar þú nálgast hann skaltu hlúa að þeirri dýrmætu von að þú getir verið viðstaddur til að sjá hann ‚gera alla hluti nýja‘. – Opinberunarbókin 21:5.

a Sá tími sem „allt verður endurreist“ hófst þegar Messíasarríkið var stofnsett og erfingi Davíðs, hins trúa konungs, settist í hásæti. Jehóva hafði heitið Davíð erfingja sem skyldi ríkja að eilífu. (Sálmur 89:35–37) En enginn mennskur niðji Davíðs sat í hásæti Guðs eftir að Babýloníumenn eyddu Jerúsalem árið 607 f.Kr. Jesús fæddist á jörð sem erfingi Davíðs og varð hinn fyrirheitni konungur þegar hann settist í hásæti á himnum.

b Svo dæmi sé tekið fjölluðu Móse, Jesaja, Jeremía, Esekíel, Hósea, Jóel, Amos, Óbadía, Míka og Sefanía allir um þetta stef að einhverju marki.