Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

11. KAFLI

„Allir vegir hans eru réttlátir“

„Allir vegir hans eru réttlátir“

1, 2. (a) Hvaða magnaða óréttlæti mátti Jósef þola? (b) Hvernig leiðrétti Jehóva óréttlætið?

 ÞETTA var magnað óréttlæti. Ungur, myndarlegur maður var ranglega ákærður fyrir nauðgunartilraun og varpað í fangelsi án þess að hafa nokkuð til saka unnið. En þetta voru ekki fyrstu kynni hans af ranglætinu. Þessi ungi maður, er Jósef hét, var svikinn af bræðrum sínum 17 ára gamall. Við lá að þeir myrtu hann en ákváðu svo að selja hann sem þræl til framandi lands. Eiginkona húsbónda hans fór á fjörurnar við hann en hann neitaði. Henni var stórlega misboðið og hún laug upp á hann sökum með þeim afleiðingum að hann var hnepptur í varðhald. Því miður virtist Jósef ekki eiga sér neinn málsvara.

2 En Jehóva Guð, sem „elskar réttlæti og réttvísi“, fylgdist með því sem fram fór. (Sálmur 33:5) Hann hófst handa við að leiðrétta þetta óréttlæti og lét málin skipast svo að Jósef var að lokum leystur úr haldi. Og ekki nóg með það. Jósef, sem setið hafði í „fangelsi“, var að lokum veitt einstök virðing og hann var skipaður í háa ábyrgðarstöðu. (1. Mósebók 40:15; 41:41–43; Sálmur 105:17, 18) Hann fékk uppreisn æru og notaði háa stöðu sína til að vinna að því að fyrirætlun Guðs næði fram að ganga. – 1. Mósebók 45:5–8.

Jósef þjáðist saklaus í fangelsi.

3. Hvers vegna er ekkert undarlegt að við skulum öll vilja fá réttláta meðferð?

3 Frásaga sem þessi höfðar óneitanlega sterkt til okkar. Allir hafa einhvern tíma horft upp á ranglæti eða orðið fyrir því sjálfir. Öll viljum við fá réttláta og sanngjarna meðferð. Það er ekkert undarlegt því að Jehóva gaf okkur eiginleika sem endurspegla persónuleika hans sjálfs, og réttlætiskenndin er einn af höfuðeiginleikum hans. (1. Mósebók 1:27) Til að þekkja Jehóva vel þurfum við að skilja réttlætiskennd hans. Þá fáum við enn meiri mætur á dásamlegum vegum hans og löðumst sterkar að honum.

Hvað er réttlæti?

4. Hvernig líta menn oft á réttlæti?

4 Frá mannlegum sjónarhóli er oft litið svo á að réttlæti sé einungis sanngjörn beiting laga. Bókin Right and Reason – Ethics in Theory and Practice segir að „réttlæti tengist lögum, skuldbindingum, réttindum og skyldum og deili út dómum sínum eftir verðleikum og án hlutdrægni“. En réttlæti Jehóva er annað og meira en kaldir og vélrænir úrskurðir byggðir á skyldukvöð.

5, 6. (a) Hvað merkja frummálsorðin sem notuð eru um réttlæti? (b) Hvað merkir það að Guð sé réttlátur?

5 Við getum glöggvað okkur á breiddinni og dýptinni í réttlæti Jehóva með því að skoða orðin sem notuð eru um réttlæti á frummálum Biblíunnar. Í Hebresku ritningunum eru einkum notuð þrjú orð. Það orð sem er oftast þýtt ‚réttlæti‘ má einnig þýða „það sem er rétt“. (1. Mósebók 18:25). Hin tvö eru yfirleitt þýdd ‚réttur‘, ‚réttlæti‘ eða ‚réttvísi‘. Í Grísku ritningunum er notað orð sem er skilgreint ‚það sem er rétt eða réttsýnt‘. Efnislega er lítill merkingarmunur á þessum orðum. – Amos 5:24.

6 Þegar Biblían segir að Guð sé réttlátur er því átt við að hann geri það sem er rétt og sanngjarnt, að hann geri það stöðugt og án manngreinarálits. (Rómverjabréfið 2:11) Allt annað er í rauninni óhugsandi. Elíhú fullyrti: „Það er óhugsandi að hinn sanni Guð geri nokkuð illt, að Hinn almáttugi geri nokkuð rangt!“ (Jobsbók 34:10) Já, það er óhugsandi að Jehóva fremji ranglæti. Af hverju? Það eru tvær meginástæður fyrir því.

7, 8. (a) Af hverju er óhugsandi að Jehóva geri nokkuð sem er óréttlátt? (b) Hvað er það sem gerir Jehóva réttlátan í samskiptum við aðra?

7 Í fyrsta lagi er Guð heilagur. Eins og fram kom í 3. kafla er Jehóva óendanlega hreinn og heiðvirður. Þess vegna getur hann ekki gert neitt sem er óréttlátt. Hugleiddu aðeins hvað það felur í sér. Þar sem faðirinn á himnum er heilagur höfum við ærna ástæðu til að treysta að hann fari aldrei illa með börnin sín. Jesús treysti því og bað nóttina áður en hann dó: „Heilagi faðir, gættu þeirra [lærisveinanna] vegna nafns þíns“. (Jóhannes 17:11) Í Biblíunni er ávarpið „heilagi faðir“ aðeins notað um Jehóva. Það er viðeigandi því að enginn mennskur faðir er heilagur á borð við hann. Jesús treysti að lærisveinarnir væru öruggir í höndum föðurins sem er fullkomlega hreinn og kemur ekki nærri nokkru sem er syndugt eða syndsamlegt. – Matteus 23:9.

8 Í öðru lagi er óeigingjarn kærleikur þáttur í eðli Guðs. Kærleikurinn gerir hann réttlátan í samskiptum við aðra. En ranglæti, til dæmis kynþáttafordómar, mismunun og hlutdrægni, er oft sprottið af ágirnd og sjálfselsku sem eru andstæður kærleikans. Biblían fullvissar okkur um að Jehóva, Guð kærleikans, sé ‚réttlátur og elski réttlæti‘. (Sálmur 11:7) Hann segir um sjálfan sig: „Ég, Jehóva, elska réttlæti.“ (Jesaja 61:8) Er ekki hughreystandi til þess að vita að Guð skuli hafa yndi af því að gera það sem er rétt og réttlátt? – Jeremía 9:24.

Miskunn og fullkomið réttlæti Jehóva

9–11. (a) Hvaða samband er milli réttlætis Jehóva og miskunnar hans? (b) Hvernig er réttlæti Jehóva og miskunn augljós af samskiptum hans við synduga menn?

9 Réttlæti Jehóva er fullkomið og algert, líkt og allir aðrir þættir hins óviðjafnanlega persónuleika hans. Móse lofaði Jehóva og skrifaði: „Kletturinn, verk hans eru fullkomin því að allir vegir hans eru réttlátir. Trúfastur Guð sem er aldrei ranglátur, réttlátur er hann og ráðvandur.“ (5. Mósebók 32:3, 4) Réttlæti Jehóva er lýtalaust. Það er aldrei of slakt og aldrei of strangt.

10 Það er náið samband milli réttlætis Jehóva og miskunnar hans. Sálmur 116:5 segir: „Jehóva sýnir samúð og er réttlátur, Guð okkar er miskunnsamur.“ Já, Jehóva er bæði réttlátur og miskunnsamur. Þessir eiginleikar stangast ekki á. Þegar hann sýnir miskunn er hann ekki að útvatna réttlæti sitt eins og það væri að öðrum kosti of strangt. Oft sýnir hann bæði réttlæti og miskunn samtímis, jafnvel í einum og sama verknaðinum. Lítum á dæmi.

11 Allir menn hafa fengið það í arf að vera syndarar og verðskulda því þá refsingu sem fylgir syndinni – að deyja. (Rómverjabréfið 5:12) En Jehóva hefur enga ánægju af því að syndarar deyi. Hann er ‚Guð sem fyrirgefur fúslega, er samúðarfullur og miskunnsamur‘. (Nehemíabók 9:17) En þar sem hann er heilagur getur hann ekki horft fram hjá ranglætinu. Hvernig gat hann þá miskunnað mönnum sem höfðu tekið syndina í arf? Svarið er að finna í einum dýrmætustu sannindum Biblíunnar – þeirri ráðstöfun Jehóva að leggja fram lausnargjald til bjargar mannkyni. Við lærum meira um þessa kærleiksráðstöfun í 14. kafla, en hún er hvort tveggja í senn ákaflega réttlát og yfirmáta miskunnsöm. Hún er leið Jehóva til að sýna iðrandi syndurum miskunn án þess að hvika frá mælikvarða sínum um fullkomið réttlæti. – Rómverjabréfið 3:21–26.

Réttlæti Jehóva er hjartnæmt

12, 13. (a) Af hverju er réttlæti Jehóva aðlaðandi? (b) Hvað ályktaði Davíð um réttlæti Jehóva og af hverju er það traustvekjandi?

12 Réttlæti Jehóva er ekki kuldalegt og fráhrindandi heldur geðfelldur eiginleiki sem laðar okkur að honum. Biblían lýsir greinilega hvernig samúð og umhyggja er samofin réttlæti hans. Skoðum nokkur dæmi um það hvernig Jehóva beitir réttlæti sínu með hlýlegum hætti.

13 Fullkomið réttlæti Jehóva gerir að verkum að hann er trúr og tryggur þjónum sínum. Sálmaskáldið Davíð kynntist þessari hlið á réttlæti hans af eigin raun. Hvað ályktaði hann eftir að hafa kynnt sér starfshætti Guðs? Hann staðhæfði: „Jehóva elskar réttlæti og yfirgefur ekki sína trúu. Þeir njóta alltaf verndar.“ (Sálmur 37:28) Þetta er ákaflega traustvekjandi. Guð yfirgefur ekki eitt andartak þá sem eru honum trúir. Réttlæti hans tryggir að við getum reitt okkur á nálægð hans og ástúðlega umhyggju. – Orðskviðirnir 2:7, 8.

14. Hvernig birtist umhyggja Jehóva fyrir bágstöddum í lögmálinu sem hann gaf Ísrael?

14 Réttlæti Guðs er næmt á þarfir nauðstaddra. Lögmálið, sem hann gaf Ísrael, ber greinilega vitni um umhyggju hans fyrir bágstöddum. Til dæmis voru þar sérstök ákvæði til að tryggja hag ekkna og munaðarleysingja. (5. Mósebók 24:17–21) Jehóva vissi hve erfið lífsbaráttan gæti verið fyrir slíkar fjölskyldur og gerðist því föðurlegur dómari þeirra og verndari. Hann ætlaði sjálfur að ‚sjá um að föðurlaus börn og ekkjur nytu réttlætis‘. a (5. Mósebók 10:18; Sálmur 68:5) Hann varaði Ísraelsmenn við því að leggjast á varnarlausar konur og börn og kvaðst mundu heyra hróp þeirra ef þau væru órétti beitt. „Reiði mín blossar upp,“ sagði hann. (2. Mósebók 22:22–24) Þó að reiði sé ekki ríkjandi eiginleiki Jehóva vekja vísvitandi rangindi réttláta reiði hans, ekki síst ef þolendurnir eiga bágt og eru hjálparvana. – Sálmur 103:6.

15, 16. Hvaða einstaka merki um óhlutdrægni Jehóva er hægt að nefna?

15 Jehóva fullvissar okkur einnig um að hann sé „Guð sem mismunar engum og þiggur ekki mútur“. (5. Mósebók 10:17) Hann horfir ekki á efnislegan auð eða ytra útlit, ólíkt mörgum áhrifa- og valdamönnum. Hann er fullkomlega laus við hleypidóma og hlutdrægni. Lítum á einstakt dæmi um óhlutdrægni Jehóva. Það eru ekki aðeins fáeinir útvaldir sem fá að tilbiðja hann í sannleika og eignast von um eilíft líf, heldur „tekur hann á móti hverjum þeim sem óttast hann og gerir rétt, sama hverrar þjóðar hann er“. (Postulasagan 10:34, 35) Þessi dásamlega von stendur öllum til boða, óháð þjóðfélagsstöðu, hörundslit og heimalandi. Er það ekki ósvikið réttlæti eins og það gerist best?

16 Það er önnur hlið á fullkomnu réttlæti Jehóva sem verðskuldar umhugsun okkar og virðingu, en hún er sú hvernig hann tekur á þeim sem brjóta gegn réttlátum stöðlum hans.

Engin undanþága frá hegningu

17. Útskýrðu hvers vegna ranglætið í heiminum breytir engu um það að Jehóva er réttlátur.

17 Sumum er kannski spurn hvernig hægt sé að skýra allt það ranglæti og þjáningar og þá spillingu sem er í heiminum, úr því að Jehóva lítur ekki fram hjá óréttlætinu. En þetta ranglæti breytir engu um það að Jehóva er réttlátur. Hið margvíslega ranglæti í þessum illa heimi er afleiðing syndarinnar sem mennirnir hafa erft frá Adam. Ófullkomnir menn hafa sjálfir valið að stunda syndina og skapað heim þar sem ranglætið ræður ríkjum – en ekki miklu lengur. – 5. Mósebók 32:5.

18, 19. Hvað sýnir að Jehóva umber ekki endalaust þá sem brjóta réttlát lög hans af ásettu ráði?

18 Þó að Jehóva sýni þeim mikla miskunn sem nálgast hann í einlægni umber hann ekki endalaust það ástand sem kastar rýrð á heilagt nafn hans. (Sálmur 74:10, 22, 23) Guð réttlætisins lætur ekki að sér hæða; hann hlífir ekki þrjóskum syndurum við þeim dómi sem þeir verðskulda vegna breytni sinnar. Jehóva er „miskunnsamur og samúðarfullur Guð sem er seinn til reiði, sýnir tryggan kærleika í ríkum mæli og er alltaf sannorður … Hann lætur hinum seka þó ekki órefsað.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Eins og þessi orð bera með sér hefur Jehóva stundum talið nauðsynlegt að fullnægja refsidómi yfir þeim sem fótum troða réttlát lög hans af ásettu ráði.

19 Tökum sem dæmi samskipti Guðs við Ísraelsmenn forðum daga. Þeir gerðu sig ítrekað seka um ótrúmennsku, jafnvel eftir að þeir voru sestir að í fyrirheitna landinu. Þó að þeir „særðu“ Jehóva með spilltri hegðun sinni hafnaði hann þeim ekki þegar í stað heldur sýndi þá miskunn að gefa þeim hvað eftir annað tækifæri til að snúa af rangri braut. (Sálmur 78:38–41) Hann sagði þeim: „Ég [hef] enga ánægju af því að vondur maður deyi heldur vil ég að hinn vondi breyti um stefnu og haldi lífi. Snúið við. Snúið baki við illsku ykkar! Hvers vegna ættuð þið að deyja, Ísraelsmenn?“ (Esekíel 33:11) Lífið er dýrmætt í augum Jehóva svo að hann sendi spámenn sína hvað eftir annað til þeirra í von um að þeir sæju að sér og sneru baki við illskunni. En Ísraelsmenn voru harðsvíraðir og neituðu flestir að hlusta og iðrast. Jehóva gaf þá að lokum í hendur óvina þeirra vegna síns heilaga nafns og alls þess sem það táknar. – Nehemíabók 9:26–30.

20. (a) Hvað má læra um Jehóva af samskiptum hans við Ísrael? (b) Af hverju er viðeigandi að ljónið skuli vera sett í samband við nærveru Guðs og hásæti hans?

20 Samskipti Jehóva við Ísraelsmenn segja okkur margt um hann. Það er til dæmis ljóst að alsjáandi augu hans taka eftir ranglætinu og það sem hann sér snertir hann djúpt. (Orðskviðirnir 15:3) Það er líka uppörvandi til að vita að hann leitast við að sýna miskunn ef einhver grundvöllur er fyrir því. Og við sjáum að hann fullnægir aldrei réttlætinu í fljótfærni. Að Jehóva skuli vera þolinmóður veldur því að margir álykta að hann muni aldrei fullnægja dómi yfir illum mönnum. En það er fjarri sanni því að samskipti Guðs við Ísraelsmenn kenna okkur líka að þolinmæði hans eru takmörk sett. Jehóva stendur fastur á réttlætinu. Hann er ólíkur mönnum að því leytinu til að hann veigrar sér aldrei við að framfylgja réttlætinu. Hann skortir aldrei hugrekki til að verja réttlætið. Það er vel við hæfi að ljónið, sem er tákn hugrekkis og réttlætis, skuli vera sett í samband við nærveru Guðs og hásæti hans. b (Esekíel 1:10; Opinberunarbókin 4:7) Við getum því treyst að hann standi við fyrirheit sitt um að losa jörðina við allt óréttlæti. Það má lýsa framgöngu Jehóva sem dómara þannig: festa sé hún nauðsynleg, miskunn sé hún möguleg. – 2. Pétursbréf 3:9.

Að nálgast Guð réttlætisins

21. Hvernig ættum við að hugsa um Jehóva með hliðsjón af réttlæti hans og hvers vegna?

21 Þegar við hugleiðum hvernig Jehóva fullnægir réttlætinu ættum við ekki að sjá hann fyrir okkur sem kuldalegan og strangan dómara sem hugsar um það eitt að kveða upp dóma yfir afbrotamönnum. Við ættum að hugsa um hann sem kærleiksríkan en ákveðinn föður sem fer alltaf með börnin sín eins og best verður á kosið. Eins og réttsýnn og réttlátur faðir sýnir hann jarðneskum börnum sínum umhyggju og samúð, enda þarfnast þau hjálpar hans og fyrirgefningar, en hann stendur jafnframt fastur á því sem er rétt. – Sálmur 103:10, 13.

22. Hvers konar von hefur Jehóva veitt okkur í réttlæti sínu, og hvers vegna kemur hann svona fram við okkur?

22 Við getum verið innilega þakklát fyrir að réttlæti Guðs er annað og meira en það að fella dóma yfir syndurum. Jehóva hefur í réttlæti sínu gefið okkur ótrúlega von um fullkomið, eilíft líf í heimi þar sem ‚réttlæti mun búa‘. (2. Pétursbréf 3:13) Þetta gerir Guð vegna þess að réttlæti hans leitast við að bjarga frekar en fordæma. Við getum ekki annað en laðast að Guði þegar við fáum betri skilning á réttlæti hans. Í næstu köflum lítum við nánar á það hvernig Jehóva lætur þennan frábæra eiginleika í ljós.

a Orðalagið „föðurlaus börn“ sýnir að Jehóva lætur sér innilega annt um bæði föðurlausa drengi og stúlkur. Jehóva lét skrá í lögin frásögu af dómsmáli þar sem föðurlausum dætrum Selofhaðs var tryggður arfur. Dómurinn hafði fordæmisgildi sem tryggði réttindi föðurlausra stúlkna. – 4. Mósebók 27:1–8.

b Það er eftirtektarvert að Jehóva líkir sér við ljón þegar hann fullnægir dómi yfir hinum ótrúa Ísrael. – Jeremía 25:38; Hósea 5:14.