Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

13. KAFLI

„Lög Jehóva eru fullkomin“

„Lög Jehóva eru fullkomin“

1, 2. Hvers vegna bera margir litla virðingu fyrir lögum en hvernig getum við lært að meta lög Guðs?

 „MÁLAFERLI eru eins og botnlaus hít, þau … gleypa allt,“ segir í bók sem kom fyrst út árið 1712. Höfundurinn hafði megna vanþóknun á réttarkerfi þar sem málaferli drógust stundum á langinn svo árum skipti, og þeir sem leituðu réttar síns sátu eftir slyppir og snauðir. Réttar- og dómskerfi sumra landa eru svo flókin og svo gagnsýrð ranglæti, fordómum og misræmi að lögin eru víða lítils virt.

2 Til samanburðar er athyglisvert hvað maður einn skrifaði fyrir um það bil 2.700 árum. „Ég elska lög þín heitt,“ sagði hann. (Sálmur 119:97) Hvers vegna þótti sálmaritaranum svona vænt um lög Guðs? Vegna þess að lögin, sem hann var svo hrifinn af, voru ekki sett af veraldlegum löggjafa heldur Jehóva Guði. Ef þú kynnir þér lög Jehóva geturðu lært að meta þau eins og sálmaritarinn. Með því að rannsaka þau færðu innsýn í hugarheim æðsta löggjafa alheimsins.

Æðsti löggjafinn

3, 4. Hvernig hefur Jehóva reynst vera löggjafi?

3 „Það er aðeins einn löggjafi og dómari,“ segir Biblían. (Jakobsbréfið 4:12) Já, Jehóva er hinn eini sanni löggjafi. Hreyfingar himintunglanna stjórnast jafnvel af ‚lögum himinsins‘ sem hann hefur sett. (Jobsbók 38:33) Heilagar englasveitir Jehóva lúta einnig lögum hans því að englarnir þjóna honum hver í sinni tignarstöðu sem þeir eru skipaðir í. – Sálmur 104:4; Hebreabréfið 1:7, 14.

4 Jehóva hefur einnig sett mannkyninu lög. Öll erum við gædd samvisku sem endurspeglar réttlætiskennd Jehóva. Samviskan er eins konar innbyggð lög sem hjálpa okkur að greina rétt frá röngu. (Rómverjabréfið 2:14) Foreldrum mannkyns var gefin fullkomin samviska svo að þeir þurftu aðeins fáein lagaákvæði til leiðsagnar. (1. Mósebók 2:15–17) En ófullkomnir menn þurfa fleiri lagaboð til að geta gert vilja Guðs. Ættfeður eins og Nói, Abraham og Jakob fengu lög frá Jehóva Guði sem þeir miðluðu til fjölskyldna sinna. (1. Mósebók 6:22; 9:3–6; 18:19; 26:4, 5) Jehóva gerðist löggjafi með áður óþekktum hætti þegar hann gaf Ísraelsmönnum lögin fyrir milligöngu Móse. Þessi löggjöf veitir okkur víðtæka innsýn í réttlætiskennd Jehóva.

Yfirlit yfir Móselögin

5. Voru Móselögin flókin og mikil að vöxtum? Skýrðu svarið.

5 Margir virðast halda að Móselögin hafi verið flókin og mikil að vöxtum. Það er fjarri sanni. Alls eru rúmlega 600 lög í öllu lagasafninu. Við fyrstu sýn gæti það virst býsna mikið en til samanburðar má nefna að lög bandarísku alríkisstjórnarinnar fylltu heilar 150.000 blaðsíður undir lok 20. aldar. Á hverjum tveim árum bætast við um 600 ný lög! Móselögin eru því fá og smá að vöxtum í samanburði við þau ógrynni laga sem mennskir löggjafar hafa sett. Lög Guðs voru Ísraelsmönnum hins vegar til leiðsagnar á ýmsum sviðum sem er hvergi vikið að í nútímalögum. Rennum stuttlega yfir Móselögin.

6, 7. (a) Hvaða munur er á Móselögunum og annarri löggjöf og hvert er æðsta boðorð laganna? (b) Hvernig gátu Ísraelsmenn sýnt að þeir viðurkenndu drottinvald Jehóva?

6 Lögin upphófu drottinvald Jehóva. Að því leytinu til eru Móselögin gerólík allri annarri löggjöf. Æðsta lagaákvæðið var þetta: „Hlustaðu, Ísrael: Jehóva er Guð okkar og það er aðeins einn Jehóva. Þú skalt elska Jehóva Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál þinni og öllum mætti þínum.“ Hvernig áttu þjónar Guðs að tjá honum kærleika sinn? Með því að þjóna honum og lúta drottinvaldi hans. – 5. Mósebók 6:4, 5; 11:13.

7 Ísraelsmaður sýndi að hann viðurkenndi drottinvald Jehóva með því að vera undirgefinn þeim sem voru yfir hann settir. Foreldrar, höfðingjar, dómarar, prestar og síðar konungar voru fulltrúar guðlegs valds. Jehóva leit svo á að uppreisn gegn þeim sem fóru með yfirráð væri uppreisn gegn sér. Þeir sem fóru með yfirráð gátu hins vegar kallað yfir sig reiði Jehóva ef þeir voru ranglátir eða hrokafullir í framkomu við þjóna hans. (2. Mósebók 20:12; 22:28; 5. Mósebók 1:16, 17; 17:8–20; 19:16, 17) Það var því hlutverk beggja aðila að styðja drottinvald Guðs.

8. Hvernig héldu lögin heilagleikakröfu Jehóva á loft?

8 Lögin héldu heilagleikakröfu Jehóva á loft. Hebresku orðin, sem eru yfirleitt þýdd ‚heilagur‘ og ‚heilagleiki‘, standa yfir 280 sinnum í Móselögunum. Lögin hjálpuðu fólki Guðs að greina milli þess sem var hreint og óhreint og nefnir um 70 hluti sem gátu gert Ísraelsmann trúarlega óhreinan. Þessi lagaákvæði fjalla um hreinlæti, mataræði og meira að segja meðferð úrgangs, og stuðluðu mjög að heilbrigði þjóðarinnar. a En þau höfðu líka annan og göfugri tilgang. Hann var sá að þjóðin varðveitti velþóknun Jehóva og héldi sér frá syndsamlegu og spilltu hátterni þjóðanna umhverfis. Lítum á dæmi.

9, 10. Hvaða ákvæði voru í lagasáttmálanum um kynmök og barnsburð og hvers vegna voru þau til góðs?

9 Í lagasáttmálanum voru ákvæði þess efnis að fólk væri óhreint um tíma eftir barnsburð og kynmök, jafnvel milli hjóna. (3. Mósebók 12:2–4; 15:16–18) Þessi ákvæði köstuðu alls ekki rýrð á þessar hreinu gjafir Guðs heldur héldu á loft heilagleika Jehóva og varðveittu dýrkendur hans hreina af spillingu. (1. Mósebók 1:28; 2:18–25) Athygli vekur að grannþjóðir Ísraels blönduðu tilbeiðslunni gjarnan saman við kynlíf og frjósemisdýrkun. Bæði karlar og konur stunduðu vændi meðal Kanverja og var það þáttur í trúardýrkun þeirra. Eins og nærri má geta stuðlaði þetta að stórfelldri siðspillingu. Í Móselögunum voru kynferðismál hins vegar algerlega aðskilin frá tilbeiðslunni á Jehóva. b Þetta gerði Ísraelsmönnum einnig gott á aðra vegu.

10 Þessi lagaákvæði kenndu fólki mikilvægan sannleika. c Hvernig berast áhrifin af synd Adams frá einni kynslóð til annarrar? Er það ekki við kynmök og barnsburð? (Rómverjabréfið 5:12) Lög Guðs minntu fólk hans stöðugt á tilveru syndarinnar. Öll erum við reyndar fædd í synd. (Sálmur 51:5) Við þörfnumst fyrirgefningar og endurlausnar til að nálgast heilagan Guð.

11, 12. (a) Hvaða mikilvægu réttarreglu studdu lögin? (b) Hvaða ákvæði voru í lögunum til varnar gegn réttarglæpum?

11 Lögin héldu fullkomnu réttlæti Jehóva á loft. Móselögin studdu meginregluna um jöfnuð í dómi. Í lögunum segir: „Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd og fót fyrir fót.“ (5. Mósebók 19:21) Refsing þurfti að samsvara glæpnum sem framinn var. Þessi þáttur í réttvísi Guðs var áberandi í lögunum og er enn þann dag í dag forsenda þess að við skiljum lausnarfórn Jesú Krists, eins og fram kemur í 14. kafla. – 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6.

12 Lögin veittu einnig vörn gegn réttarglæpum. Til dæmis þurfti minnst tvö vitni til að staðfesta ákæru. Ströng viðurlög voru við ljúgvitni. (5. Mósebók 19:15, 18, 19) Spilling og mútur voru harðbannaðar. (2. Mósebók 23:8; 5. Mósebók 27:25) Fólk Guðs átti meira að segja að halda hinn háa réttlætisstaðal Jehóva í viðskiptum. (3. Mósebók 19:35, 36; 5. Mósebók 23:19, 20) Það var mikil blessun fyrir Ísrael að eiga þessa göfugu og réttlátu löggjöf.

Lög sem lögðu áherslu á miskunn og sanngirni í dómi

13, 14. Hvernig stuðluðu lögin að sanngjarnri og réttlátri meðferð þjófs og þolanda?

13 Voru Móselögin ströng og miskunnarlaus? Alls ekki. Davíð konungi var innblásið að skrifa: „Lög Jehóva eru fullkomin.“ (Sálmur 19:7) Hann vissi mætavel að lögin aðhylltust miskunn og sanngirni. Hvernig vissi hann það?

14 Í löggjöf sumra landa virðist meira tillit tekið til afbrotamanna en fórnarlamba þeirra. Þjófur er kannski dæmdur til fangavistar en fórnarlambið fær ekki bætt það sem stolið var og þarf auk þess að greiða skatta til að halda fanganum uppi. Í Forn-Ísrael voru engin fangelsi eins og við þekkjum þau og skýr mörk voru sett hve hörð refsing mátti vera. (5. Mósebók 25:1–3) Þjófur þurfti að bæta þolandanum hið stolna með vissu álagi. Hve mikið var álagið? Það var breytilegt. Að því er virðist fengu dómarar svigrúm til að vega og meta ýmsa þætti, svo sem iðrunarhug syndarans. Það er hugsanlega skýringin á því að álagið, sem þjófi var gert að greiða samkvæmt 3. Mósebók 6:1–7, er mun lægra en tiltekið er í 2. Mósebók 22:7.

15. Hvernig tryggðu lögin bæði miskunn og réttlæti ef maður varð öðrum að bana fyrir slysni?

15 Lögin tóku tillit til þess að brot voru ekki öll framin af ásetningi. Ef maður varð öðrum að bana fyrir slysni þurfti hann ekki að gjalda líf fyrir líf ef hann gerði viðeigandi ráðstafanir og flúði til einhverrar af griðaborgunum sem dreifðar voru um Ísrael. Eftir að hæfir dómarar höfðu rannsakað málið varð hann að búa í griðaborginni uns æðsti presturinn dó. Þá var honum frjálst að búa hvar sem hann vildi. Þannig naut hann góðs af miskunn Guðs. En samtímis lögðu lögin áherslu á hve verðmætt mannslífið væri. – 4. Mósebók 15:30, 31; 35:12–25.

16. Hvernig stóðu lögin vörð um persónuleg réttindi fólks?

16 Lögin stóðu vörð um persónuleg réttindi fólks, til dæmis þeirra sem skulduðu fé. Bannað var að fara inn á heimili skuldarans til að leggja hald á eigur hans til tryggingar skuldinni. Skuldareigandi varð að bíða utan dyra og leyfa skuldaranum að koma út með það sem hann vildi leggja að veði. Friðhelgi heimilisins var því tryggð. Ef skuldareigandi tók yfirhöfn manns að veði varð hann að skila henni um sólsetur því að skuldarinn þurfti hana líklega til að halda á sér hita. – 5. Mósebók 24:10–14.

17, 18. Hvað var ólíkt með Ísrael og öðrum þjóðum varðandi hernað, og hvers vegna?

17 Í lögunum voru jafnvel ákvæði um hernað. Þjóð Guðs mátti ekki heyja stríð til að fullnægja valdafíkn eða löngun í landvinninga heldur átti hún að vera fulltrúi Guðs í ‚bardögum Jehóva‘. (4. Mósebók 21:14) Í mörgum tilfellum urðu Ísraelsmenn að bjóða uppgjafarskilmála fyrst. Ef borgin hafnaði boðinu máttu Ísraelsmenn setjast um hana, en þeir urðu að gera það samkvæmt reglum Guðs. Ólíkt því sem oft hefur gerst í sögunni máttu hermenn Ísraels ekki nauðga konum né drepa eins og þá lysti. Þeir áttu jafnvel að virða umhverfið og máttu ekki fella ávaxtatré óvinarins. d Slíkar hömlur þekktust ekki hjá herjum annarra þjóða. – 5. Mósebók 20:10–15, 19, 20; 21:10–13.

18 Hrýs þér hugur við að sums staðar í heiminum skuli börn vera þjálfuð til hermennsku? Í Ísrael fortíðar mátti ekki kalla menn í herinn fyrr en þeir náðu tvítugu. (4. Mósebók 1:2, 3) Og fullorðinn maður var jafnvel undanþeginn herþjónustu ef hann var óeðlilega hræddur. Nýkvæntir menn voru undanþegnir herþjónustu í heilt ár til að þeir gætu eignast erfingja áður en þeir gengust undir þessa hættulegu þjónustu. Þannig gat ungur eiginmaður ‚verið heima, eiginkonu sinni til ánægju‘, eins og það var orðað í lögunum. – 5. Mósebók 20:5, 6, 8; 24:5.

19. Hvernig héldu lögin hlífiskildi yfir konum, börnum, fjölskyldum, ekkjum og munaðarleysingjum?

19 Lögin héldu hlífiskildi yfir konum, börnum og fjölskyldum og sá þeim borgið. Foreldrum var fyrirskipað að sinna börnum sínum vel og fræða þau um andleg mál. (5. Mósebók 6:6, 7) Hvers kyns sifjaspell var stranglega bannað og lá dauðarefsing við. (3. Mósebók, 18. kafli) Hórdómur var sömuleiðis bannaður en hann sundrar oft fjölskyldum og rænir þær friði og reisn. Lögin veittu ekkjum og munaðarleysingjum skjól og harðbannaði að farið væri illa með þau. – 2. Mósebók 20:14; 22:22–24.

20, 21. (a) Hvers vegna heimiluðu Móselögin fjölkvæni meðal Ísraelsmanna? (b) Af hverju var munur á ákvæðum laganna um hjónaskilnað og þeim ákvæðum sem Jesús kom á?

20 En í þessu sambandi spyrja sumir hvers vegna boðið hafi verið upp á fjölkvæni samkvæmt lögunum. (5. Mósebók 21:15–17) Við verðum að sjá slík lagaákvæði í ljósi þess á hvaða tíma þau voru sett. Séu Móselögin dæmd eftir viðmiðum og menningu nútímans er óhjákvæmilegt að þau séu misskilin. (Orðskviðirnir 18:13) Jehóva setti það viðmið í Eden forðum daga að hjónabandið ætti að vera varanlegt samband eins manns og einnar konu. (1. Mósebók 2:18, 20–24) Þegar hann gaf Ísrael lögin löngu síðar hafði fjölkvæni verið stundað um aldaraðir og var orðið rótgróið. Jehóva vissi mætavel að þjóð hans var „þrjóskt fólk“ og myndi oft óhlýðnast grundvallarboðorðum, eins og til dæmis banninu við skurðgoðadýrkun. (2. Mósebók 32:9) Hann kaus því að láta umbætur í hjúskaparmálum þeirra bíða betri tíma. Höfum samt hugfast að það var ekki Jehóva sem kom fjölkvæninu á. Hann notaði hins vegar Móselögin til að hafa stjórn á fjölkvæni meðal þjóðar sinnar og koma í veg fyrir að það væri misnotað.

21 Móselögin heimiluðu manni einnig að skilja við eiginkonu sína af ýmsum alvarlegum ástæðum. (5. Mósebók 24:1–4) Jesús sagði að Guð hefði leyft Gyðingum þetta ‚vegna þess hve harðbrjósta þeir voru‘. En þessar tilslakanir voru tímabundnar. Jesús kom aftur á þeirri reglu meðal fylgjenda sinna sem Jehóva setti um hjónabandið í upphafi. – Matteus 19:8.

Lögin hvöttu til kærleika

22. Hvernig hvöttu Móselögin til kærleika og gagnvart hverjum?

22 Geturðu ímyndað þér einhverja nútímalöggjöf þar sem fólk væri hvatt til að stunda kærleika? Móselögin hvöttu mjög eindregið til kærleika. Svo dæmi sé tekið stendur hebreska orðið, sem þýtt er ‚elska‘, meira en 20 sinnum í 5. Mósebók. Þú skalt „elska náunga þinn eins og sjálfan þig,“ var annað mesta boðorð laganna. (3. Mósebók 19:18; Matteus 22:37–40) Fólk Guðs átti bæði að elska hvert annað og búfasta útlendinga í landinu, minnugir þess að þeir höfðu sjálfir verið útlendingar í öðru landi forðum daga. Þeir áttu að vera kærleiksríkir við fátæka og bágstadda, hjálpa þeim af efnum sínum og ekki misnota sér bágindi þeirra. Þeim var jafnvel sagt að vera tillitssamir og góðir við burðar- og dráttardýr. – 2. Mósebók 23:6; 3. Mósebók 19:14, 33, 34; 5. Mósebók 22:4, 10; 24:17, 18.

23. Hvað gerði höfundur 119. sálmsins og hvað getum við einsett okkur?

23 Engin önnur þjóð hefur átt löggjöf sem þessa. Það er ofur eðlilegt að sálmaskáldið skyldi segja: „Ég elska lög þín heitt!“ En þessi ást var meira en tilfinningin ein. Hún hvatti hann til verka því að hann lagði sig allan fram um að hlýða lögunum og lifa eftir þeim. Hann heldur áfram: „Ég hugleiði þau allan liðlangan daginn.“ (Sálmur 119:11, 97) Já, hann tók sér tíma að staðaldri til að skoða lög Jehóva og íhuga þau. Þetta varð til þess að hann elskaði þau enn heitar, og jafnhliða því dýpkaði ást hans á löggjafanum, Jehóva Guði. Þú getur líka styrkt tengslin við Jehóva, löggjafann mikla og Guð réttlætisins, með því að halda áfram að kynna þér lög hans.

a Í lögunum var kveðið á um að grafa skyldi saur manna, setja smitbera í sóttkví og að þvo sér eftir að hafa snert lík. Þessi ákvæði voru mörgum öldum á undan sinni samtíð. – 3. Mósebók 13:4–8; 4. Mósebók 19:11–13, 17–19; 5. Mósebók 23:13, 14.

b Í kanverskum hofum voru herbergi sem ætluð voru til kynlífsathafna, en í Móselögunum var tekið fram að óhrein manneskja mætti ekki einu sinni koma inn í musterið. Þar sem fólk var óhreint um tíma eftir kynmök var ekki hægt lögum samkvæmt að blanda kynlífi inn í tilbeiðsluna sem fram fór í húsi Jehóva.

c Kennsla var eitt meginmarkmið laganna. Alfræðibókin Encyclopaedia Judaica bendir á að hebreska orðið tóra, sem þýtt er ‚lög‘, merki ‚fræðsla‘.

d Í lögunum er spurt vafningalaust: „Af hverju ættirðu að sitja um tré merkurinnar eins og þau væru menn?“ (5. Mósebók 20:19) Gyðingurinn og fræðimaðurinn Fílon, sem var uppi á fyrstu öld, vísaði til þessa ákvæðis og benti á að Guð telji „ranglátt að reiðin, sem beinist að mönnum, skuli koma niður á hlutum sem hafa ekkert til saka unnið“.