Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

14. KAFLI

Jehóva gefur „lausnargjald fyrir marga“

Jehóva gefur „lausnargjald fyrir marga“

1, 2. Hvernig lýsir Biblían ástandi mannkyns og hver er eina leiðin út úr því?

 „ÖLL sköpunin stynur stöðugt og er kvalin.“ (Rómverjabréfið 8:22) Þannig lýsir Páll postuli aumkunarverðu ástandi okkar. Frá mannlegum bæjardyrum séð virðist engin undankomuleið frá þjáningum, synd og dauða. En Jehóva er ekki háður sömu takmörkum og við mennirnir. (4. Mósebók 23:19) Guð réttlætisins hefur opnað okkur leið út úr ógöngunum. Hún er kölluð lausnargjaldið.

2 Lausnargjaldið er mesta gjöf Jehóva til mannkyns. Vegna þess höfum við tækifæri til að losna undan oki syndar og dauða. (Efesusbréfið 1:7) Það er grundvöllur vonarinnar um eilíft líf, annaðhvort á himni eða í paradís á jörð. (Lúkas 23:43; Jóhannes 3:16; 1. Pétursbréf 1:4) En hvað er lausnargjaldið? Hvað segir það okkur um óviðjafnanlegt réttlæti Jehóva?

Hvers vegna skapaðist þörf fyrir lausnargjald?

3. (a) Af hverju var lausnargjaldið nauðsynlegt? (b) Hvers vegna gat Guð ekki einfaldlega mildað dauðadóminn yfir afkomendum Adams?

3 Synd Adams olli því að þörf skapaðist fyrir lausnargjald. Með því að óhlýðnast Guði arfleiddi Adam afkomendur sína að sjúkdómum, sorgum, sársauka og dauða. (1. Mósebók 2:17; Rómverjabréfið 8:20) Guð gat ekki látið tilfinningarnar ráða ferðinni og mildað hreinlega dóminn. Ef hann hefði gert það hefði hann sniðgengið lagaákvæðið „launin sem syndin greiðir eru dauði“ sem hann setti sjálfur. (Rómverjabréfið 6:23) Og ef Jehóva hefði ógilt sinn eigin réttlætisstaðal hefði það valdið upplausn og lögleysi um alheim allan!

4, 5. (a) Hvernig rægði Satan Jehóva og hvers vegna var Jehóva skylt að svara ásökunum hans? (b) Um hvað sakaði Satan trúa þjóna Jehóva?

4 Eins og fram kom í 12. kafla komu upp önnur og alvarlegri deilumál með uppreisninni í Eden. Með henni varpaði Satan dimmum skugga á nafn Guðs. Í reynd sakaði hann Jehóva um að vera grimmur einvaldur og lygari og synja sköpunarverum sínum um frelsi. (1. Mósebók 3:1–5) Og þar sem Satan virtist hafa hindrað Guð í að uppfylla jörðina réttlátum mönnum leit út fyrir að Guði hefði mistekist. (1. Mósebók 1:28; Jesaja 55:10, 11) Ef Jehóva hefði látið þessum ásökunum ósvarað er hugsanlegt að margar sköpunarverur hans hefðu hætt að treysta honum fyllilega sem stjórnanda.

5 Satan hafði einnig sakað trúa þjóna Jehóva um að þjóna honum aðeins af eigingjörnum hvötum, og fullyrt að enginn þeirra myndi vera honum trúr ef á hann reyndi. (Jobsbók 1:9–11) Þetta voru margfalt alvarlegri mál en ógöngur mannsins. Jehóva taldi sér réttilega skylt að svara rógi og ákærum Satans. En hvernig gat hann útkljáð þessi deilumál og jafnframt bjargað mannkyninu?

Lausnargjald – jafngildi

6. Með hvaða orðum lýsir Biblían lausn Guðs til bjargar mannkyni?

6 Lausn Jehóva var bæði framúrskarandi miskunnsöm og fullkomlega réttlát – lausn sem enginn maður hefði getað upphugsað. Samt var hún snilldarlega einföld. Það er talað um hana með ýmsum hætti í Biblíunni, til dæmis sem friðþægingu, kaup og sátt. (Daníel 9:24; Galatabréfið 3:13; Kólossubréfið 1:20; Hebreabréfið 2:17) En sennilega notaði Jesús besta orðið til að lýsa þessari ráðstöfun þegar hann sagði: „Mannssonurinn … kom ekki til að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt sem lausnargjald [á grísku: lýʹtron] fyrir marga.“ – Matteus 20:28.

7, 8. (a) Hvað merkir hugtakið ‚lausnargjald‘ í Biblíunni? (b) Hvers konar jafngildi er fólgið í lausnargjaldi?

7 Hvað er lausnargjald? Gríska orðið er myndað af sögn sem merkir ‚að leysa, láta lausan‘. Orðið var notað um gjald sem greitt var til að kaupa stríðsfanga lausa. Lausnargjald er því gjald sem greitt er til að kaupa eitthvað til baka. Hebreska orðið koʹfer, sem þýtt er ‚lausnargjald‘, er dregið af sögn sem merkir ‚að breiða yfir‘. Það hjálpar okkur að skilja að greiðsla lausnargjalds felur einnig í sér að breiða yfir syndir okkar. – Sálmur 65:3, neðanmáls.

8 Biblíuorðabókin Theological Dictionary of the New Testament nefnir að orðið koʹfer „tákni alltaf jafngildi“ eða samsvörun. Til að leysa frá syndinni eða breiða yfir hana þurfti að sama skapi að greiða gjald sem samsvaraði nákvæmlega tjóninu sem syndin olli, það er segja breiddi yfir það að fullu. Þess vegna stóð í lögmálinu sem Guð gaf Ísrael: „Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd og fót fyrir fót.“ – 5. Mósebók 19:21.

9. Hvers vegna færðu trúaðir menn dýrafórnir og hvernig leit Jehóva á þær?

9 Trúaðir menn allt frá Abel færðu Guði dýrafórnir. Þannig sýndu þeir að þeir væru sér meðvita um syndina og lausnargjaldsþörfina, og þeir sýndu að þeir trúðu á frelsunarloforð Guðs sem birtist í spádóminum um ‚afkomandann‘. (1. Mósebók 3:15; 4:1–4; 3. Mósebók 17:11; Hebreabréfið 11:4) Jehóva hafði velþóknun á þessum fórnum og tilbiðjendum sínum sem báru þær fram. En mennirnir eru meira virði en dýrin svo að dýrafórnir gátu ekki friðþægt fyrir syndir mannanna í raun og veru heldur voru þær einungis táknrænar. (Sálmur 8:4–8) Þess vegna segir Biblían: „Blóð nauta og geita getur með engu móti afmáð [syndir].“ (Hebreabréfið 10:1–4) Þessar fórnir voru aðeins tákn hinnar sönnu lausnarfórnar sem koma átti.

„Samsvarandi lausnargjald“

10. (a) Hverjum þurfti lausnarinn að samsvara og hvers vegna? (b) Af hverju þurfti aðeins að fórna einum manni?

10 „Allir deyja vegna sambands síns við Adam,“ segir Páll postuli. (1. Korintubréf 15:22) Þess vegna þurfti fullkominn maður að deyja til að greiða lausnargjaldið – maður sem væri jafningi Adams að öllu leyti. (Rómverjabréfið 5:14) Engin önnur sköpunarvera gat jafnað vogarskálar réttvísinnar. Aðeins fullkominn maður, sem var ekki dæmdur til að deyja Adamsdauðanum, gat greitt „samsvarandi lausnargjald fyrir alla“, sem svaraði fullkomlega til Adams. (1. Tímóteusarbréf 2:6) Það þurfti ekki að fórna ótal milljónum manna til að samsvara öllum afkomendum Adams. Páll postuli sagði: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni [Adam] og dauðinn með syndinni.“ (Rómverjabréfið 5:12) Og „þar sem dauðinn kom vegna manns“ endurleysti Guð mannkynið „vegna manns“. (1. Korintubréf 15:21) Hvernig?

„Samsvarandi lausnargjald fyrir alla.“

11. (a) Hvernig átti lausnarinn að ‚deyja fyrir alla‘? (b) Hvers vegna hefðu Adam og Eva ekki getað nýtt sér lausnargjaldið? (Sjá neðanmálsgrein.)

11 Jehóva gerði ráðstafanir til þess að fullkominn maður fórnaði lífi sínu af fúsu geði. „Launin sem syndin greiðir eru dauði,“ samkvæmt Rómverjabréfinu 6:23. Með því að fórna lífi sínu myndi lausnarinn ‚deyja fyrir alla‘. Hann myndi með öðrum orðum greiða launin fyrir synd Adams. (Hebreabréfið 2:9; 2. Korintubréf 5:21; 1. Pétursbréf 2:24) Þetta myndi hafa djúpstæðar lagalegar afleiðingar. Með því að ógilda dauðadóminn yfir hlýðnum afkomendum Adams myndi lausnargjaldið stöðva eyðingarafl syndarinnar við upptök hennar. aRómverjabréfið 5:16.

12. Lýstu með dæmi hvernig uppgjör einnar skuldar getur verið mörgum til góðs.

12 Lýsum þessu með dæmi: Segjum að flestir í bænum, þar sem þú býrð, vinni í stórri verksmiðju. Þú og aðrir starfsmenn fáið ágætis laun og lifið þægilegu lífi, það er að segja þangað til verksmiðjunni er lokað einn góðan veðurdag. Og hver er ástæða lokunarinnar? Forstjórinn gerðist sekur um spillingu og gerði fyrirtækið gjaldþrota. Þú og nágrannar þínir eruð skyndilega atvinnulausir og eigið ekki fyrir daglegum útgjöldum og afborgunum. Makar starfsmanna, börn og skuldareigendur líða fyrir spillingu þessa eina manns. Er einhver leið út úr vandanum? Já, auðugur velgerðamaður ákveður að láta málið til sín taka. Hann veit hve verðmætt fyrirtækið er og kennir í brjósti um starfsmennina og fjölskyldur þeirra. Hann gerir því upp skuld fyrirtækisins og opnar verksmiðjuna að nýju. Með því að taka á sig þessa einu skuld kemur hann öllum starfsmönnunum, fjölskyldum þeirra og skuldareigendum til bjargar. Á sama hátt er það ótal milljónum manna til bjargar að skuld Adams skuli vera felld niður.

Hver útvegar lausnargjaldið?

13, 14. (a) Hvernig sá Jehóva fyrir lausnargjaldi handa mannkyni? (b) Hverjum er lausnargjaldið greitt og hvers vegna var það nauðsynlegt?

13 Enginn nema Jehóva gat útvegað „lamb … sem tekur burt synd heimsins“. (Jóhannes 1:29) En hann valdi ekki einhvern engil af handahófi til að bjarga mannkyninu heldur þann sem gat gefið endanlegt svar við ákæru Satans á hendur þjónum Jehóva. Já, Jehóva færði þá miklu fórn að senda einkason sinn sem „var honum yndisauki“. (Orðskviðirnir 8:30) Sonur Guðs „afsalaði sér“ himnesku eðli fúslega. (Filippíbréfið 2:7) Jehóva vann það kraftaverk að flytja líf frumgetins sonar síns frá himnum í móðurlíf gyðingameyjar sem hét María. (Lúkas 1:27, 35) Sem maður átti hann að heita Jesús. En í lagalegum skilningi var hægt að kalla hann hinn síðari Adam því að hann samsvaraði Adam fullkomlega. (1. Korintubréf 15:45, 47) Hann gat þess vegna fórnað sjálfum sér sem lausnargjaldi fyrir syndugt mannkyn.

14 Hverjum átti að greiða lausnargjaldið? Sálmur 49:7 tekur greinilega fram að það sé „greitt Guði“. En er það ekki Jehóva sem lætur lausnargjaldið í té í upphafi? Jú, en það gerir lausnargjaldið ekki að tilgangslausum málamyndagjörningi – rétt eins og verið væri að færa peninga úr einum vasa í annan. Hafa verður í huga að lausnargjaldið var ekki greitt með fjármunum heldur var það lagagerningur. Með því að sjá fyrir lausnargjaldinu, þó að það væri honum feikilega dýrt, staðfesti Jehóva að hann hvikaði ekki frá fullkomnu réttlæti sínu. – 1. Mósebók 22:7, 8, 11–13; Hebreabréfið 11:17; Jakobsbréfið 1:17.

15. Hvers vegna þurfti Jesús að þjást og deyja?

15 Vorið 33 gekk Jesús Kristur fúslega gegnum eldraun sem varð til þess að lausnargjaldið var greitt. Hann leyfði að hann væri handtekinn á röngum forsendum, dæmdur sekur og negldur á aftökustaur. Þurfti Jesús virkilega að þjást svona? Já, vegna þess að það þurfti að útkljá deiluna um ráðvendni þjóna Guðs. Höfum hugfast að Guð leyfði ekki að Heródes myrti Jesú á barnsaldri. (Matteus 2:13–18) En þegar Jesús var orðinn fullorðinn gat hann staðist árásir Satans vitandi um þessi deilumál. b Með því að reynast „trúr, saklaus, flekklaus [og] aðgreindur frá syndurum“, þrátt fyrir hrottalega meðferð, sannaði Jesús svo ekki varð um villst að Jehóva á sér þjóna sem eru honum trúir í prófraunum. (Hebreabréfið 7:26) Það var þess vegna sem Jesús hrópaði sigri hrósandi andartaki áður en hann dó: „Því er lokið.“ – Jóhannes 19:30.

Jesús lýkur lausnarverkinu

16, 17. (a) Hvernig hélt Jesús lausnarverkinu áfram? (b) Af hverju þurfti Jesús að „ganga fram fyrir Guð í okkar þágu“?

16 En Jesús átti eftir að ljúka lausnarverkinu. Jehóva reisti hann upp frá dauðum á þriðja degi eftir dauða hans. (Postulasagan 3:15; 10:40) Með þessari þýðingarmiklu aðgerð umbunaði hann syni sínum trúfestina og gaf honum jafnframt færi á að ljúka lausnarverkinu sem æðstiprestur Guðs. (Rómverjabréfið 1:4; 1. Korintubréf 15:3–8) Páll postuli útskýrir þetta: „Þegar Kristur kom sem æðstiprestur … gekk [hann] inn í hið allra helgasta, ekki með blóð geita og ungnauta heldur með sitt eigið blóð í eitt skipti fyrir öll og sá okkur fyrir eilífri lausn. Kristur gekk ekki inn í hið allra helgasta sem gert var með höndum manna og er eftirlíking veruleikans heldur inn í sjálfan himininn til að ganga fram fyrir Guð í okkar þágu.“ – Hebreabréfið 9:11, 12, 24.

17 Kristur gat ekki farið bókstaflega með blóð sitt til himna heldur tók hann með sér það sem blóðið táknaði: lagalegt andvirði hins fullkomna mannslífs sem hann fórnaði. (1. Korintubréf 15:50) Hann gekk síðan fram fyrir auglit Guðs og lagði formlega fram andvirði þessa lífs til lausnargjalds fyrir syndugt mannkyn. Viðurkenndi Jehóva þessa fórn? Já, og það sýndi sig á hvítasunnu árið 33 þegar heilögum anda var úthellt yfir um það bil 120 lærisveina í Jerúsalem. (Postulasagan 2:1–4) Þetta var spennandi atburður en aðeins upphaf þess sem lausnargjaldið átti að koma til leiðar.

Gagnið af lausnargjaldinu

18, 19. (a) Hvaða tveir hópar manna njóta góðs af þeirri sátt sem blóð Krists kemur til leiðar? (b) Hvað hefur lausnargjaldið í för með sér fyrir ‚múginn mikla‘ nú þegar og í framtíðinni?

18 Páll útskýrir í bréfi sínu til Kólossumanna að Guði hafi þóknast að koma öllu í sátt við sig með blóðinu sem Jesús úthellti á kvalastaurnum. Páll bendir einnig á að þessi sátt nái til tveggja aðgreindra hópa manna, og hann kallar þá ‚það sem er á himnum‘ og ‚það sem er á jörðinni‘. (Kólossubréfið 1:19, 20; Efesusbréfið 1:10) Í fyrrnefnda hópnum eru 144.000 kristnir menn sem fá þá von að þjóna sem himneskir prestar og ríkja sem konungar yfir jörðinni ásamt Kristi Jesú. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 7:4; 14:1–3) Fyrir atbeina þeirra verður lausnargjaldinu beitt smám saman í þágu hlýðins mannkyns á þúsund ára tímabili. – 1. Korintubréf 15:24–26; Opinberunarbókin 20:6; 21:3, 4.

19 ‚Það sem er á jörðinni‘ eru þeir menn sem eiga fyrir sér fullkomið líf í paradís á jörð. Opinberunarbókin 7:9–17 kallar þá „mikinn múg“ sem kemst lifandi gegnum ‚þrenginguna miklu‘. En þar sem þeir iðka trú á lausnargjaldið njóta þeir strax góðs af þessari kærleiksríku ráðstöfun. Þeir hafa nú þegar „þvegið skikkjur sínar skjannahvítar í blóði lambsins“ og eru lýstir réttlátir sem vinir Guðs. (Jakobsbréfið 2:23) Vegna fórnar Jesú geta þeir ‚gengið fram fyrir hásæti Guðs sem sýnir einstaka góðvild og talað óhikað‘. (Hebreabréfið 4:14–16) Þeim er fyrirgefið þegar þeim verður eitthvað á. (Efesusbréfið 1:7) Þeir hafa hreina samvisku þó að þeir séu ófullkomnir. (Hebreabréfið 9:9; 10:22; 1. Pétursbréf 3:21) Sáttin við Guð er því orðin að veruleika en er ekki ókominn atburður sem þeir eru að bíða eftir. (2. Korintubréf 5:19, 20) Í þúsundáraríkinu verða þeir smám saman ‚leystir úr þrælkun forgengileikans‘ og hljóta að lokum „dýrlegt frelsi barna Guðs“. – Rómverjabréfið 8:21.

20. Hvaða áhrif hefur það á þig að hugleiða lausnargjaldið?

20 „Ég þakka Guði sem bjargar mér fyrir milligöngu Jesú Krists“ fyrir að láta lausnargjaldið í té! (Rómverjabréfið 7:25) Það er í meginatriðum einfalt en er samt svo djúphugsað að það vekur lotningu okkar. (Rómverjabréfið 11:33) Við löðumst að Guði réttlætisins þegar við hugleiðum þetta stórkostlega verk hans. Það hreyfir við hjörtum okkar. Líkt og sálmaskáldið höfum við ærna ástæðu til að lofa Jehóva sem „elskar réttlæti og réttvísi“. – Sálmur 33:5.

a Adam og Eva hefðu ekki getað nýtt sér lausnargjaldið. Í Móselögunum var eftirfarandi grundvallarregla um mann sem framdi morð af ásettu ráði: „Þið megið ekki taka lausnargjald fyrir líf morðingja sem er dauðasekur.“ (4. Mósebók 35:31) Ljóst er að Adam og Eva voru dauðasek af því að þau óhlýðnuðust Guði af ásettu ráði, vitandi vits. Þar með afsöluðu þau sér möguleikanum á eilífu lífi.

b Jesús þurfti að deyja sem fullkominn maður en ekki fullkomið barn til að vega upp á móti synd Adams. Munum að Adam syndgaði vitandi vits. Hann vissi mætavel hve alvarlegur verknaðurinn var og hvaða afleiðingar hann hafði. Til að verða „hinn síðari Adam“ og breiða yfir þessa synd þurfti Jesús að taka yfirvegaða og upplýsta ákvörðun um að vera Jehóva trúr. (1. Korintubréf 15:45, 47) Trúfastur lífsferill Jesú – og fórnardauði – var þannig eins og „eitt réttlætisverk“. – Rómverjabréfið 5:18, 19.