Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

17. KAFLI

‚Hve djúpstæð er ekki viska Guðs!‘

‚Hve djúpstæð er ekki viska Guðs!‘

1, 2. Hvað ætlaðist Jehóva fyrir með sjöunda daginn og hvernig reyndi á visku hans snemma á þeim degi?

 HVÍLÍKT ÁFALL! Mannkynið, meistaraverk Guðs á sjötta sköpunardeginum, steyptist snögglega niður í ófullkomleika. Jehóva hafði lýst „allt sem hann hafði gert … mjög gott“, þar á meðal mannkynið. (1. Mósebók 1:31) En snemma á sjöunda sköpunardeginum ákváðu Adam og Eva að fylgja Satan í uppreisn hans. Þau steyptu sér út í synd og kölluðu yfir sig ófullkomleika og dauða.

2 Það var engu líkara en að fyrirætlun Jehóva varðandi sjöunda daginn væri runnin út í sandinn. Sjöundi dagurinn átti að vera nokkur þúsund ára langur líkt og sköpunardagarnir sex á undan. Jehóva hafði helgað hann og öll jörðin átti að vera orðin paradís, byggð fullkomnu mannkyni, áður en hann væri á enda. (1. Mósebók 1:28; 2:3) En hvernig gat það orðið eftir þessa uppreisn og hrikalegar afleiðingar hennar? Hvað ætlaði Guð að gera? Nú reyndi svo sannarlega á visku Jehóva – sennilega meira en nokkru sinni fyrr.

3, 4. (a) Hvers vegna eru viðbrögð Jehóva við uppreisninni í Eden einstakt dæmi um óviðjafnanlega visku hans? (b) Hvers ættum við að vera minnug þegar við kynnum okkur visku Jehóva?

3 Jehóva brást skjótt við. Hann felldi dóm yfir uppreisnarseggjunum í Eden og brá jafnframt upp leiftursýn af stórkostlegum hlut: Hann ætlaði að bæta allt tjónið sem uppreisnin hafði hleypt af stað. (1. Mósebók 3:15) Framsýn fyrirætlun hans teygir sig allt frá Eden, gegnum árþúsundir mannkynssögunnar og langt fram í tímann. Hún er snilldarlega einföld en þó svo djúpvitur að lesendur Biblíunnar gætu eytt allri ævinni í að rannsaka hana og íhuga. Auk þess er algerlega öruggt að fyrirætlun Jehóva nær fram að ganga. Illska, synd og dauði munu líða undir lok. Allir trúir menn verða fullkomnir. Og allt gerist þetta áður en sjöunda deginum lýkur, þannig að þrátt fyrir allt nær fyrirætlun Jehóva með jörðina og mannkynið fram að ganga samkvæmt áætlun!

4 Slík viska fyllir okkur lotningu. Páll postuli fann sig tilknúinn að skrifa: ‚Hve djúpstæð er ekki viska Guðs!‘ (Rómverjabréfið 11:33) Við skulum nú kynna okkur þennan eiginleika Guðs frá ýmsum hliðum en verum nógu auðmjúk til að viðurkenna eitt – viska Jehóva er svo mögnuð að við getum rétt skoðað yfirborðið. (Jobsbók 26:14) Byrjum á því að skilgreina hvað viska er.

Hvað er viska Guðs?

5, 6. Hvaða samband er milli þekkingar og visku og hversu víðtæk er þekking Jehóva?

5 Viska er ekki það sama og þekking. Hægt er að geyma gríðarmikla þekkingu í tölvum en engum dettur í hug að kalla tölvurnar vitrar. Viska og þekking eru þó tengd. (Orðskviðirnir 10:14) Ef þú vildir fá viturleg ráð við alvarlegum sjúkdómi myndirðu tæplega leita til manns sem hefði litla eða enga þekkingu í læknisfræði. Nákvæm þekking er því nauðsynleg undirstaða sannrar visku.

6 Jehóva er óþrjótandi þekkingarlind. Hann er „konungur eilífðar“ og hefur einn verið til frá eilífð. (Opinberunarbókin 15:3) Og allan þennan óendanlega tíma hefur hann fylgst með öllu sem gerst hefur. Biblían segir: „Ekkert skapað er hulið augum hans heldur er allt bert og blasir við honum, en honum þurfum við að standa reikningsskap.“ (Hebreabréfið 4:13; Orðskviðirnir 15:3) Jehóva er skapari alls og hefur fullkominn skilning á því sem hann hefur gert, og hann hefur fylgst með athöfnum mannanna allt frá öndverðu. Hann rannsakar hjörtu allra manna og ekkert fer fram hjá honum. (1. Kroníkubók 28:9) Hann áskapaði okkur frjálsan vilja og er ánægður að sjá okkur taka viturlegar ákvarðanir í lífinu. Hann „heyrir bænir“ og getur hlýtt á ótal þjóna sína samtímis. (Sálmur 65:2) Og að sjálfsögðu er minnisgáfa hans fullkomin.

7, 8. Hvernig sýnir Jehóva skilning, hyggindi og visku?

7 En Jehóva býr yfir meiru en þekkingu. Hann skilur líka hvernig hlutir tengjast innbyrðis og sér hvernig ótal smáatriði skapa eina heildarmynd. Hann metur hluti, dæmir milli þeirra og greinir á milli þess sem er gott og illt, mikilvægt og lítilvægt. Og hann sér undir yfirborðið og horfir beint inn í hjartað. (1. Samúelsbók 16:7) Jehóva hefur því bæði næman skilning og hyggindi sem er þekkingunni æðra. En viskan er öllu þessu fremri.

8 Viskan virkjar þekkinguna, hyggindin og skilninginn þannig að þau vinna saman. Sum af frummálsorðum Biblíunnar, sem þýdd eru „viska“, merkja bókstaflega „áhrifarík starfsemi“ eða „hagnýt viska“. Viska Jehóva er ekki aðeins fræðileg. Hún er hagnýt og hún virkar. Jehóva býr yfir víðtækri þekkingu og djúpum skilningi þannig að ákvarðanir hans eru alltaf þær bestu sem hugsast getur, og hann framkvæmir þær síðan eins og best verður á kosið. Það er sönn viska! „Viskan sannast af verkum sínum,“ sagði Jesús, og Jehóva er lifandi dæmi um það. (Matteus 11:19) Verk Jehóva um allan alheim vitna kröftuglega um visku hans.

Merki um visku Guðs

9, 10. (a) Hvers konar visku sýnir Jehóva og hvernig hefur hún birst? (b) Hvernig vitnar fruman um visku Jehóva?

9 Hefurðu einhvern tíma dáðst að snjöllum handverksmanni sem býr til fallega nytjahluti? Slík færni vitnar um visku af ákveðnu tagi. (2. Mósebók 31:1–3) Jehóva býr yfir slíkri visku öllum öðrum fremur og er höfundur hennar. Davíð konungur sagði um hann: „Ég lofa þig fyrir að ég er frábærlega hannaður og ég fyllist lotningu. Verk þín eru einstök, það veit ég mætavel.“ (Sálmur 139:14) Því betur sem við kynnum okkur mannslíkamann, þeim mun meiri lotningu berum við fyrir visku Jehóva.

10 Tökum dæmi: Þú hófst lífið sem ein fruma – eggfruma frá móður þinni sem var frjóvguð með sæði frá föður þínum. Innan skamms tók fruman að skipta sér og fullskapaður ertu gerður úr hér um bil 100 billjónum frumna. Svo smáar eru þær að hér um bil 10.000 meðalstórar frumur kæmust fyrir á títuprjónshaus. Og þó er hver fruma nánast óskiljanlega flókin, margfalt flóknari en nokkur vél eða verksmiðja gerð af mannahöndum. Vísindamenn líkja frumunni við víggirta borg þar sem stýrt er hvað fer út og inn, borg með samgöngukerfi, fjarskiptakerfi, orkuverum, verksmiðjum, sorphreinsun, endurvinnslu, hervörnum og jafnvel eins konar miðstjórn með aðsetur í kjarnanum. Og í þokkabót getur fruman búið til fullkomna eftirmynd af sjálfri sér á fáeinum klukkustundum!

11, 12. (a) Hvað veldur því að fósturfrumur greinast í ólíkar tegundir og hvernig kemur það heim og saman við Sálm 139:16? (b) Hvernig vitnar mannsheilinn um að við séum ‚frábærlega hönnuð‘?

11 Í fyrstu eru allar frumur fósturvísisins sömu gerðar en síðan taka þær að greinast í mjög ólíkar tegundir, svo sem taugafrumur, beinfrumur, vöðvafrumur, blóðfrumur og augnfrumur. Öll þessi sérhæfing er skrásett fyrir fram á „vinnuteikningum“ og í „verklýsingum“ frumunnar, í erfðaefninu DNA. Það er athyglisvert að Davíð skyldi vera innblásið að segja við Jehóva: „Augu þín sáu mig meðan ég enn var fóstur. Í bók þinni var skrifað um alla líkamshluta mína.“ – Sálmur 139:16.

12 Sumir líkamshlutar eru óheyrilega flóknir. Heilinn er einn þeirra. Hann hefur verið kallaður flóknasti hlutur sem fundist hefur í alheiminum. Hann er samsettur úr um það bil 100 milljörðum taugafrumna en það svarar ef til vill til fjölda stjarna í Vetrarbrautinni. Hver taugafruma myndar síðan þúsundir tenginga við aðrar frumur. Vísindamenn segja að mannsheilinn gæti geymt allar upplýsingar sem er að finna í öllum bókasöfnum heims, og að minnisgetan sé hugsanlega ómælanleg. Þó að vísindamenn hafi rannsakað þetta ‚frábærlega hannaða‘ líffæri áratugum saman viðurkenna þeir að þeir eigi kannski aldrei eftir að skilja til fulls hvernig það virkar.

13, 14. (a) Hvernig reynast maurar og fleiri dýr „vitur af eðlishvöt“ og hvað segir það okkur um skapara þeirra? (b) Hvers vegna er hægt að segja að sköpunarverk eins og köngulóarvefur sé gert „af visku“?

13 En við mennirnir erum aðeins eitt dæmi um viskuna í sköpunarverki Jehóva. Sálmur 104:24 segir: „Hversu mörg eru ekki verk þín, Jehóva! Þú gerðir þau öll af visku. Jörðin er full af því sem þú hefur skapað.“ Viska Jehóva er greinileg alls staðar í sköpunarverkinu umhverfis okkur. Svo dæmi sé tekið eru maurarnir ‚vitrir af eðlishvöt‘. (Orðskviðirnir 30:24) Samfélög þeirra eru þaulskipulögð. Sumar tegundir maura hafa blaðlýs sem „búpening“ og nærast á þeim. Sumar tegundir stunda „garðyrkju“ og rækta sveppi til matar. Margar aðrar tegundir dýra geta gert ótrúlegustu hluti af eðlishvöt. Húsfluga leikur fluglistir sem bestu flugvélar manna geta ekki leikið eftir. Farfuglar rata eftir stjörnum, segulsviði jarðar eða einhvers konar innbyggðum siglingakortum. Árum saman rannsaka líffræðingar hið margbrotna atferli sem þessum dýrum er áskapað. Skaparinn, sem „forritaði“ þau í upphafi, hlýtur að vera óendanlega vitur.

14 Vísindamenn hafa lært margt af þeirri visku sem sköpunarverk Jehóva vitnar um. Það er jafnvel til grein innan verkfræðinnar sem kallast lífhermitækni og er fólgin í því að rannsaka og líkja eftir hönnunarlausnum sem er að finna í ríki náttúrunnar. Þú hefur eflaust einhvern tíma dáðst að köngulóarvef. Þú hrífst af fegurðinni en verkfræðingurinn hrífst af hönnuninni. Í vefnum eru næfurþunnir þræðir sem eru hlutfallslega sterkari en stál og seigari en trefjar í skotheldu vesti. Hve sterkir eru þeir eiginlega? Hugsaðu þér að köngulóarvefur sé stækkaður svo að hann samsvari stóru fiskineti. Með vef af þessari stærðargráðu væri hægt að fanga farþegaþotu á flugi! Já, Jehóva hefur gert allt „af visku“.

Hver gerði dýr jarðarinnar „vitur af eðlishvöt“?

Viska úti í geimnum

15, 16. (a) Hvernig vitnar stjörnuhiminninn um visku Jehóva? (b) Hvernig vitnar forræði yfir miklum englasveitum um stjórnvisku Jehóva?

15 Viska Jehóva er augljós af verkum hans út um allan alheim. Stjörnunum, sem við fjölluðum allítarlega um í 5. kafla, er ekki tvístrað af handahófi um himingeiminn. Viska Jehóva birtist í ‚lögum himinsins‘ þar sem stjörnunum er raðað fagurlega í vetrarbrautir sem er síðan skipað niður í þyrpingar, og þyrpingarnar mynda svo reginþyrpingar. (Jobsbók 38:33) Það er ósköp eðlilegt að Jehóva skuli tala um að himintunglin séu „eins og her“. (Jesaja 40:26) En það er til annar her sem lýsir visku Jehóva enn betur.

16 Eins og fram kom í 4. kafla er Guð nefndur Jehóva hersveitanna vegna þess að hann ræður yfir miklum her sem í eru hundruð milljóna andavera. Það er sönnun fyrir því að Jehóva er máttugur. En hvernig kemur það visku hans við? Höfum hugfast að Jehóva og Jesús sitja aldrei auðum höndum. (Jóhannes 5:17) Það gefur því augaleið að englarnir, sem þjóna hinum hæsta, hljóta einnig að vera iðjusamir. Og munum að þeir eru manninum æðri, bæði að vitsmunum og mætti. (Hebreabréfið 1:7; 2:7) Jehóva hefur um milljarða ára haldið öllum þessum englum uppteknum af ánægjulegu og gefandi starfi – því að fylgja „fyrirmælum hans“ og gera „vilja hans“. (Sálmur 103:20, 21) Það þarf óendanlega vitran stjórnanda til.

Jehóva „einn er vitur“

17, 18. Hvers vegna segir Biblían að Jehóva ‚einn sé vitur‘ og hvers vegna ætti viska hans að vekja lotningu okkar?

17 Er nokkur furða, þegar á allt þetta er litið, að Biblían skuli nota hástemmd orð um visku Jehóva? Hún segir til dæmis að hann ‚einn sé vitur‘. (Rómverjabréfið 16:27) Hann einn býr yfir allri visku. Öll sönn viska er komin frá honum. (Orðskviðirnir 2:6) Það var þess vegna sem Jesús reiddi sig ekki á eigin visku, þótt hann væri öllum öðrum sköpunarverum vitrari, heldur talaði eins og faðir hans sagði honum að gera. – Jóhannes 12:48–50.

18 Páll postuli tekur djúpt í árinni þegar hann lýsir því hve einstæð viska Jehóva er: „Hve ríkuleg er ekki blessun Guðs og djúpstæð viska hans og þekking! Dómar hans eru ofar okkar skilningi og vegir hans órekjandi.“ (Rómverjabréfið 11:33) Páll lýsir djúpri lotningu sinni með því að nota orðið „hve“. Gríska orðið, sem þýtt er „djúpstæð“, er náskylt orði sem merkir ‚hyldýpi‘. Þannig dregur hann upp sterka mynd með orðavali sínu. Þegar við ígrundum visku Jehóva er rétt eins og við störum ofan í botnlaust regindjúp, svo djúpt og mikið að við getum hvorki skilið það né skynjað, og þaðan af síður dregið upp mynd af því né kortlagt það í smáatriðum. (Sálmur 92:5) Við finnum til smæðar okkar við tilhugsunina.

19, 20. (a) Hvers vegna er örninn viðeigandi tákn um visku Guðs? (b) Hvernig hefur Jehóva sýnt fram á að hann geti séð fram í tímann?

19 Jehóva „einn er vitur“ í öðrum skilningi. Hann einn er fær um að sjá fram í tímann. Eins og þú manst notar Jehóva örninn, með sína skörpu sjón, sem tákn um visku sína. Gullörninn getur verið um fimm kílógrömm á þyngd en augun eru stærri en augu fullvaxta manns. Örninn hefur svo skarpa sjón að hann getur séð smávaxna bráð úr mörg hundruð metra hæð, hugsanlega meira en eins kílómetra fjarlægð. „Augu hans sjá langar leiðir,“ sagði Jehóva einu sinni um örninn. (Jobsbók 39:29) Jehóva getur að sama skapi séð „langar leiðir“ fram í tímann.

20 Í Biblíunni er fjöldi dæma sem staðfestir þetta. Hún inniheldur hundruð spádóma, það er að segja þætti úr sögu mannkyns skrifaða fyrir fram. Biblían segir fyrir uppgang og fall heimsvelda, lyktir styrjalda og jafnvel herkænskubrögð einstakra herforingja – í sumum tilfellum með margra alda fyrirvara. – Jesaja 44:25–45:4; Daníel 8:2–8, 20–22.

21, 22. (a) Af hverju er enginn grundvöllur fyrir þeirri hugmynd að Jehóva hafi séð fyrir allar ákvarðanir þínar í lífinu? Skýrðu svarið með dæmi. (b) Hvernig vitum við að viska Jehóva er ekki köld og kærleikslaus?

21 En merkir þetta að Guð viti nú þegar hvaða ákvarðanir þú átt eftir að taka í lífinu? Sumir eru forlagatrúar og halda því fram að svo sé. En forlagahugmyndin gerir í raun og veru lítið úr visku Jehóva því að hún gerir ráð fyrir að hann geti ekki stjórnað þeim hæfileika sínum að sjá fram í tímann. Tökum dæmi: Segjum að þú hefðir óviðjafnanlega söngrödd. Ættirðu þá ekki um annað að velja en að syngja daginn út og daginn inn? Það er auðvitað fráleitt! Þó að Jehóva sé fær um að sjá framtíðina fyrir notar hann ekki þennan hæfileika öllum stundum. Ef hann gerði það myndi hann um leið skerða hinn frjálsa vilja sem hann gaf okkur, en það gerir hann aldrei. – 5. Mósebók 30:19, 20.

22 Forlagahugmyndin gefur auk þess í skyn að viska Jehóva sé köld og kærleikslaus, tillitslaus og miskunnarlaus. En það er alger fjarstæða! Biblían kennir að Jehóva sé „vitur í hjarta“. (Jobsbók 9:4) Ekki svo að skilja að hann hafi bókstaflegt hjarta heldur er þetta algengt myndmál í Biblíunni til að lýsa innsta eðli persónunnar, hvötum hennar og tilfinningum eins og til dæmis kærleika. Jehóva lætur sem sagt kærleikann stjórna viskunni eins og öðrum eiginleikum sínum. – 1. Jóhannesarbréf 4:8.

23. Hvað ættum við að gera í ljósi þess hve viska Jehóva er mögnuð?

23 Visku Jehóva er auðvitað treystandi í hvívetna. Hún er svo langt yfir okkar eigin visku hafin að orð hans hvetur: „Treystu Jehóva af öllu hjarta og reiddu þig ekki á eigin vitsmuni. Hafðu hann alltaf með í ráðum, þá mun hann greiða götu þína.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) Við skulum nú kafa enn dýpra í visku Jehóva til að styrkja samband okkar við hann.