Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

18. KAFLI

Viskan í „orði Guðs“

Viskan í „orði Guðs“

1, 2. Hvaða „bréf“ hefur Jehóva skrifað okkur og hvers vegna?

 MANSTU hvernig þér var innanbrjósts síðast þegar þú fékkst bréf frá ástvini sem býr einhvers staðar fjarri? Fátt er ánægjulegra en hlýlegt bréf frá manneskju sem okkur þykir vænt um. Það gleður okkur að frétta að henni líði vel, heyra hvað hefur drifið á daga hennar og fá að vita hvað hún er með á prjónunum. Bréfaskipti styrkja ástvinaböndin, óháð fjarlægð.

2 Hvað gæti glatt okkur meira en að fá skrifleg boð frá Guði sem við elskum? Jehóva hefur í vissum skilningi skrifað okkur „bréf“, það er að segja orð sitt Biblíuna. Þar segir hann okkur hver hann er, hvað hann hefur gert, hvað hann ætlar sér að gera og ótalmargt annað. Hann hefur gefið okkur orð sitt af því að hann vill að við finnum til nálægðar við sig. Hinn alvitri Guð valdi bestu hugsanlegu leiðina til að eiga tjáskipti við okkur. Bæði efni Biblíunnar og hvernig hún er skrifuð ber vitni um óviðjafnanlega visku.

Hvers vegna skrifleg boð?

3. Hvernig miðlaði Jehóva lögunum til Móse?

3 Einhverjum kann að vera spurn hvers vegna Jehóva hafi ekki notað áhrifameiri aðferð til að tjá sig við mennina, til dæmis talað af himni ofan. Reyndar talaði Jehóva stundum við mennina af himni ofan fyrir milligöngu engla, til dæmis þegar hann gaf Ísrael lögin. (Galatabréfið 3:19) Svo ógnþrungin var röddin af himni að Ísraelsmenn skelfdust og báðu um að Jehóva talaði ekki lengur til þeirra með þessum hætti heldur fyrir milligöngu Móse. (2. Mósebók 20:18–20) Lögunum, með hér um bil 600 lagaboðum, var því miðlað munnlega til Móse, orð fyrir orð.

4. Hvers vegna hefði ekki verið öruggt að varðveita lög Guðs í munnlegri geymd?

4 En hugsaðu þér ef lögin hefðu aldrei verið færð í letur. Hefði Móse getað munað þessi ítarlegu ákvæði nákvæmlega orðrétt og flutt þjóðinni hnökralaust? Hvað um síðari kynslóðir? Áttu þær að treysta á munnlega geymd? Það var tæplega örugg aðferð til að koma lögum Guðs á framfæri. Segjum sem svo að þú ætlir að segja hópi fólks sögu. Þú byrjar á því að segja hana einhverjum einum úr hópnum sem segir hana öðrum og þannig koll af kolli. Það er hætt við því að sá síðasti í hópnum fái talsvert aðra útgáfu af sögunni en sá fyrsti. Þannig gat ekki farið fyrir lögum Guðs.

5, 6. Hvað átti Móse að gera og hvers vegna er það okkur til góðs að hafa orð Jehóva skrifleg?

5 Í visku sinni ákvað Jehóva að láta skrásetja orð sín. Hann sagði Móse: „Skrifaðu niður þessi orð því að ég geri sáttmála við þig og Ísrael byggðan á þeim.“ (2. Mósebók 34:27) Þar með var ritun Biblíunnar hafin. Þetta var árið 1513 f.Kr. og næstu 1.610 árin „talaði Guð oft og á marga vegu“ til um það bil 40 biblíuritara. (Hebreabréfið 1:1) Dyggir afritarar gættu þess síðan að gera hárnákvæm eftirrit af Ritningunni svo að hún varðveittist óbrengluð. – Esrabók 7:6; Sálmur 45:1.

6 Það er mikil blessun að Jehóva skuli hafa komið boðum sínum til okkar skriflega. Hefurðu einhvern tíma fengið uppörvandi bréf sem þér þótti svo vænt um að þú geymdir það og last það aftur og aftur? Þannig er „bréf“ Jehóva til okkar. Við getum lesið orð hans reglubundið og hugleitt þau vegna þess að þau voru skrifuð niður. (Sálmur 1:2) Við getum látið „Ritningarnar hughreysta og hjálpa okkur“ hvenær sem við viljum. – Rómverjabréfið 15:4.

Hvers vegna notaði Jehóva menn sem ritara?

7. Hvernig vitnar það um visku Jehóva að nota menn til að skrifa Biblíuna?

7 Í visku sinni notaði Jehóva menn til að færa orð sitt í letur. Ætli Biblían hefði höfðað jafnsterkt til okkar ef hann hefði notað engla til að skrifa hana? Englar hefðu auðvitað getað lýst Jehóva frá sínum háa sjónarhóli, lýst hollustu sinni við hann og sagt frá trúum mönnum sem þjónuðu honum. En hefðum við getað sett okkur í spor fullkominna andavera sem standa okkur miklu framar að þekkingu, reynslu og krafti? – Hebreabréfið 2:6, 7.

8. Hvernig fengu biblíuritararnir að beita huganum? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

8 Jehóva notaði mennska ritara til að láta okkur í té það sem við þurfum – bók sem er „innblásin af Guði“ en er með sterkum mannlegum þætti. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hvernig gerði hann þetta? Oft er nokkuð ljóst að hann leyfði riturunum að beita huganum til að velja „falleg orð og skrá niður sannleiksorð“. (Prédikarinn 12:10, 11) Það er skýringin á því að ritstíll Biblíunnar er æði fjölbreyttur og endurspeglar ólíkan uppruna og persónuleika ritaranna. a Engu að síður „töluðu menn það sem kom frá Guði, knúnir af heilögum anda“. (2. Pétursbréf 1:21) Þess vegna er bókin, sem til varð, réttilega nefnd ‚orð Guðs‘. – 1. Þessaloníkubréf 2:13.

„Öll Ritningin er innblásin af Guði.“

9, 10. Hvers vegna gerir það Biblíuna einkar hlýlega og aðlaðandi að Jehóva skyldi nota menn til að skrifa hana?

9 Biblían er einstaklega hlýleg og aðlaðandi vegna þess að Jehóva notaði menn til að skrifa hana. Þetta voru menn með sams konar tilfinningar og við. Þeir voru ófullkomnir og urðu fyrir sams konar álagi og prófraunum og við. Í sumum tilfellum innblés Jehóva þeim að segja frá eigin tilfinningum og baráttu. (2. Korintubréf 12:7–10) Þeir skrifuðu því í fyrstu persónu, orð sem engill hefði ekki getað sagt.

10 Davíð konungur í Ísrael er dæmi um þetta. Eftir að hafa syndgað alvarlega orti hann sálm þar sem hann úthellti hjarta sínu og sárbændi Guð að fyrirgefa sér. „Hreinsaðu mig af synd minni,“ orti hann, „því að ég veit að ég hef brotið af mér og synd mín þjakar mig stöðugt. Ég hef verið sekur frá því að ég fæddist og syndugur frá því að ég var getinn í móðurlífi. Kastaðu mér ekki burt frá augliti þínu og taktu ekki heilagan anda þinn frá mér. Fórnir sem Guð kann að meta eru iðrunarfullur andi. Guð, þú hafnar ekki hjarta sem er brotið og kramið.“ (Sálmur 51:2, 3, 5, 11, 17) Skynjarðu ekki angist ritarans? Gat nokkur lýst slíkum tilfinningum nema ófullkominn maður?

Hvers vegna fjallar hún um fólk?

11. Hvers konar raunsannar lýsingar er að finna í Biblíunni ‚til að við getum lært af þeim‘?

11 Annað sem gerir Biblíuna aðlaðandi er að hún fjallar að miklu leyti um fólk, raunverulegar persónur sem ýmist þjónuðu Guði eða þjónuðu honum ekki. Við sjáum hvað dreif á daga þessa fólks og lesum um gleði þess og sorgir. Við lesum um ákvarðanir sem það tók og afleiðingar þeirra. Þessar frásagnir voru skrifaðar ‚til að við gætum lært af þeim‘. (Rómverjabréfið 15:4) Þetta eru raunsannar lýsingar sem Jehóva notar til að kenna okkur og snerta hjörtu okkar. Lítum á fáein dæmi.

12. Hvers vegna er gagnlegt að lesa frásagnir í Biblíunni af ótrúum mönnum?

12 Biblían fjallar um ótrúa og jafnvel vonda menn og lýsir afdrifum þeirra. Við sjáum óæskilega eiginleika að verki og eigum auðveldara með að skilja eðli þeirra. Frásagan af Júdasi, sem sveik Jesú, er til dæmis miklu sterkari viðvörun gegn ótryggð og sviksemi en einfalt bann við því. (Matteus 26:14–16, 46–50; 27:3–10) Frásagnir af þessu tagi ná miklu betur til okkar en einföld boð og bönn, og þær auðvelda okkur að bera kennsl á skaðlega eiginleika og forðast þá.

13. Hvernig auðveldar Biblían okkur að skilja hvað felst í æskilegum eiginleikum?

13 Biblían fjallar einnig um marga trúa þjóna Guðs. Við lesum um tryggð þeirra og hollustu. Við sjáum ljóslifandi dæmi um þá eiginleika sem við þurfum að temja okkur til að nálgast Guð. Tökum trúna sem dæmi. Biblían skilgreinir hvað trú sé og bendir á hve nauðsynleg hún sé til að þóknast Guði. (Hebreabréfið 11:1, 6) En Biblían inniheldur einnig ljóslifandi dæmi um trú í verki. Hugsaðu þér hvílíka trú Abraham sýndi þegar hann ætlaði að fórna Ísak. (1. Mósebók 22. kafli; Hebreabréfið 11:17–19) Hugtakið „trú“ fær nýja merkingu og verður auðskildara þegar þú lest frásagnir af þessu tagi. Það var viturlegt af Jehóva að segja frá raunsönnum dæmum um æskilega eiginleika í fari manna, auk þess að hvetja okkur til að tileinka okkur þá.

14, 15. Hvað segir Biblían um konu nokkra sem kom í musterið og hvað lærum við af því um Jehóva?

14 Oft segja frásögur Biblíunnar okkur sitthvað um það hvers konar persóna Jehóva er. Tökum sem dæmi frásögu af konu sem Jesús sá í musterinu. Hann sat nálægt söfnunarbaukunum í musterinu og fylgdist með fólki koma með framlög sín. Margt efnafólk gaf gjafir „af allsnægtum sínum“. En Jesús tók sérstaklega eftir fátækri ekkju sem gaf „tvo smápeninga sem voru varla nokkurs virði“. b Þetta var allt sem hún átti en Jesús, sem endurspeglaði nákvæmlega sjónarmið Jehóva, sagði: „þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir sem létu peninga í baukana,“ það er að segja meira en þeir allir samanlagt. – Markús 12:41–44; Lúkas 21:1–4; Jóhannes 8:28.

15 Það er athyglisvert að þessi ekkja skyldi vera valin úr hópi allra sem komu í musterið þennan dag og nefnd sérstaklega í Biblíunni. Þetta dæmi segir okkur að Jehóva sé þakklátur Guð. Hann tekur fúslega við þeim gjöfum sem við gefum af allri sálu og gildir þá einu hvert verðmæti þeirra er í samanburði við gjafir annarra. Jehóva gat tæpast fundið betri leið til að kenna okkur þennan hjartnæma sannleika.

Það sem stendur ekki í Biblíunni

16, 17. Hvernig er það til marks um visku Jehóva að hann skuli sleppa vissum upplýsingum úr orði sínu?

16 Þegar þú skrifar ástvini eru takmörk fyrir því sem þú getur sagt í einu bréfi, þannig að þú velur og hafnar. Jehóva ákvað líka að nefna ákveðnar persónur og atburði í orði sínu en hann segir ekki alltaf frá öllum smáatriðum. (Jóhannes 21:25) Svo dæmi sé tekið er ekki víst að við fáum svör við öllum spurningum okkar þegar við lesum um dóma Guðs. Það er til marks um visku Jehóva að hann skuli sleppa vissum upplýsingum úr orði sínu. Hvernig þá?

17 Biblían er skrifuð þannig að hún dregur fram hvað býr í hjörtum okkar. Hebreabréfið 4:12 segir: „Orð Guðs [eða boðskapur] er lifandi og kraftmikið og beittara en nokkurt tvíeggjað sverð. Það smýgur svo langt inn að það skilur á milli sálar og anda … og getur dæmt hugsanir og áform hjartans.“ Boðskapur Biblíunnar þrengir sér djúpt inn í okkur og dregur fram raunverulegar hvatir okkar og hugsanir. Þeir sem lesa hana með gagnrýnum huga eiga það til að hneykslast á frásögum sem þeim finnst ekki gefa nægar upplýsingar. Þeir véfengja jafnvel að Jehóva sé í raun og veru kærleiksríkur, vitur og réttlátur.

18, 19. (a) Hvers vegna ættum við ekki að láta það trufla okkur þó að viss frásaga í Biblíunni veki spurningar sem við finnum ekki svör við á augabragði? (b) Hvað er nauðsynlegt til að skilja orð Guðs og hvernig vitnar það um hina miklu visku hans?

18 Ef við þaullesum Biblíuna með einlægu hjarta kynnumst við Jehóva eins og Biblían í heild lýsir honum. Þá látum við það ekki trufla okkur þó að einstaka frásaga veki spurningar sem við finnum ekki svör við á augabragði. Lýsum þessu með dæmi: Segjum að þú sért að raða saman stóru púsluspili. Kannski finnurðu ekki ákveðinn bút eða áttar þig ekki á því hvar einhver bútur á heima. Þú ert samt búinn að raða saman nógu mörgum bútum til að átta þig á heildarmyndinni. Biblíunám er að mörgu leyti sambærilegt því að við kynnumst smám saman hvers konar Guð Jehóva er og heildarmyndin skýrist hægt og hægt. Jafnvel þó að við skiljum ekki ákveðna frásögu í fyrstu eða áttum okkur ekki á því hvernig hún kemur heim og saman við persónuleika Guðs, þá erum við samt búin að læra meira en nóg um Jehóva af biblíunáminu til að vita með vissu að hann er alltaf kærleiksríkur, sanngjarn og réttlátur.

19 Til að skilja orð Guðs verðum við sem sagt að lesa það og rannsaka með einlægu hjarta og opnum huga. Er það ekki augljóst merki um hina miklu visku Jehóva? Gáfumenn geta skrifað bækur sem engir skilja nema ‚hinir vitru og gáfuðu‘. En að skrifa bók sem menn skilja ekki nema hjartalagið sé rétt – það útheimtir snilligáfu Guðs! – Matteus 11:25.

Biblían er viskubrunnur

20. Hvers vegna getur enginn nema Jehóva sagt okkur hvernig best sé að lifa lífinu og hvað inniheldur Biblían okkur til hjálpar?

20 Jehóva kennir okkur í orði sínu hvernig best sé að lifa lífinu. Hann skapaði okkur svo að hann þekkir þarfir okkar betur en við sjálf. Og frumþarfir manna, eins og þörfin að vera elskaður, finna hamingjuna og eiga gott samband við annað fólk, hafa ekkert breyst. Biblían inniheldur mikinn sjóð hagnýtrar visku sem getur hjálpað okkur að gera lífið gæfuríkt. (Orðskviðirnir 2:7) Í hverjum meginhluta þessarar bókar er einn kafli þar sem rætt er um hvernig við getum farið eftir viturlegum ráðum Biblíunnar. En við skulum taka eitt dæmi hér.

21–23. Hvaða viturlegu ráð geta hjálpað okkur að forðast reiði og gremju?

21 Hefurðu veitt því athygli að þeir sem ala með sér óvild og gremju í garð annarra eru oft sjálfum sér verstir? Gremja er ákaflega íþyngjandi byrði. Langvinn gremja getur heltekið hugsanir okkar og rænt okkur friði og gleði. Rannsóknir benda til þess að langvarandi reiði geti aukið hættuna á hjartasjúkdómum og mörgum öðrum langvinnum sjúkdómum. Biblían gaf viturleg ráð um þetta löngu áður en þessar rannsóknir komu til. Hún sagði: „Láttu af reiðinni og segðu skilið við heiftina.“ (Sálmur 37:8) En hvernig gerum við það?

22 Orð Guðs segir: „Skynsamur maður er seinn til reiði og það er honum til sóma að leiða hjá sér mistök.“ (Orðskviðirnir 19:11) Með skynsemi er átt við hæfileikann til að sjá undir yfirborðið. Skynsemi hjálpar okkur að skilja aðra og átta okkur á því hvers vegna þeir tala eða hegða sér á ákveðinn hátt. Ef við leitumst við að skilja raunverulegar hvatir annarra, tilfinningar þeirra og kringumstæður getur það auðveldað okkur að hugsa ekki neikvætt um þá.

23 Biblían ráðleggur einnig: „Haldið áfram að umbera hvert annað og fyrirgefa hvert öðru fúslega.“ (Kólossubréfið 3:13) Að „umbera hvert annað“ merkir að vera þolinmóð við aðra, að þola þeim eitthvað sem fer kannski í taugarnar á okkur. Þannig getum við forðast að ómerkileg smáatriði valdi óvild og gremju. Að „fyrirgefa“ felur í sér að láta af gremjunni. Guð veit að við þurfum að fyrirgefa öðrum þegar góðar og gildar ástæður eru fyrir því. Bæði er það þeim til góðs og eins veitir það sjálfum okkur hugarró og frið í hjarta. (Lúkas 17:3, 4) Það er mikil viska sem orð Guðs hefur að geyma.

24. Hvað gerist þegar við lifum í samræmi við visku Guðs?

24 Jehóva langaði til að eiga tjáskipti við okkur vegna þess hve heitt hann elskar sköpunarverk sitt. Hann valdi bestu leiðina til þess – að láta þjóna sína á jörð skrifa „bréf“ undir leiðsögn heilags anda. Þar af leiðandi er það viska Jehóva sem stendur í Biblíunni og hún er ‚alltaf áreiðanleg‘. (Sálmur 93:5) Með því að lifa í samræmi við visku hennar og segja öðrum frá henni löðumst við sjálfkrafa að hinum alvitra Guði sem við tilbiðjum. Í næsta kafla fjöllum við um annað einstakt dæmi um framsýna visku Jehóva – hann getur sagt framtíðina fyrir og hrint því í framkvæmd sem hann ætlar sér.

a Davíð var fjárhirðir, svo dæmi sé nefnt, og notar gjarnan dæmi úr lífi fjárhirðis. (Sálmur 23) Matteus hafði verið skattheimtumaður og nefnir oft tölur og fjárupphæðir. (Matteus 17:27; 26:15; 27:3) Lúkas var læknir og orðfæri hans endurspeglar það. – Lúkas 4:38; 14:2; 16:20.

b Þessir smápeningar voru leptonar, smæsta mynt Gyðinga sem var í umferð á þeim tíma. Tveir leptonar jafngiltu 1/64 úr daglaunum og dugðu ekki einu sinni til að kaupa einn spörva en hann var ódýrasti fuglinn sem fátækir notuðu til matar.