Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

19. KAFLI

‚Viska Guðs sem er hulin í heilögum leyndardómi‘

‚Viska Guðs sem er hulin í heilögum leyndardómi‘

1, 2. Hvaða ‚heilagi leyndardómur‘ ætti að vekja áhuga okkar og hvers vegna?

 LEYNDARMÁL hafa löngum heillað manninn og vakið forvitni hans. Þess vegna eiga menn stundum erfitt með að þegja yfir leyndarmáli. Biblían segir hins vegar: „Það er Guði til dýrðar að hann fer leynt með mál.“ (Orðskviðirnir 25:2) Jehóva, alheimsdrottinn og skapari alls, á þann rétt að halda sumu leyndu fyrir mönnum uns það er tímabært að opinbera það.

2 En Jehóva hefur opinberað hrífandi og áhugaverðan leyndardóm í orði sínu. Hann er kallaður ‚heilagur leyndardómur vilja Guðs‘. (Efesusbréfið 1:9) Og með því að kynna þér hann gerirðu meira en að svala forvitninni. Með því að þekkja leyndardóminn geturðu hlotið hjálpræði og færð innsýn í takmarkalausa visku Jehóva.

Opinberaður smám saman

3, 4. Hvernig vakti spádómurinn í 1. Mósebók 3:15 von og hvaða ‚heilagi leyndardómur‘ fólst í honum?

3 Þegar Adam og Eva syndguðu leit kannski út fyrir að búið væri að ónýta þá fyrirætlun Jehóva að jörðin yrði paradís, byggð fullkomnum mönnum. En Guð tók á málinu þegar í stað. Hann sagði: „Ég set fjandskap milli þín [höggormsins] og konunnar og milli afkomenda þinna og afkomanda hennar. Hann mun kremja höfuð þitt og þú munt höggva hann í hælinn.“ – 1. Mósebók 3:15.

4 Þetta voru torræð og leyndardómsfull orð. Hver var þessi kona? Hver var höggormurinn? Hver var ‚afkomandinn‘ sem átti að kremja höfuð höggormsins? Adam og Eva höfðu ekki hugmynd um það. Engu að síður vöktu orð Guðs von í brjósti trúaðra afkomenda þessara ótrúu hjóna. Réttlætið myndi sigra. Fyrirætlun Jehóva yrði að veruleika. En hvernig? Í því lá leyndardómurinn! Biblían kallar þetta „visku Guðs sem er hulin í heilögum leyndardómi“. – 1. Korintubréf 2:7.

5. Lýstu með dæmi hvers vegna Jehóva opinberaði leyndardóminn smám saman.

5 Það er Jehóva sem „opinberar leyndardóma“ og hann ætlaði að upplýsa ýmsa mikilvæga þætti þessa leyndardóms þegar þar að kæmi. (Daníel 2:28) En það myndi gerast smám saman, stig af stigi, ekki ósvipað og ástríkur faðir svarar þegar litli drengurinn hans spyr: „Pabbi, hvernig varð ég til?“ Vitur faðir gefur ekki meiri upplýsingar en drengurinn getur meðtekið. Eftir því sem drengurinn þroskast gefur pabbi hans honum meiri upplýsingar. Jehóva ákveður sömuleiðis hvenær fólk hans er tilbúið til að meðtaka opinberanir á vilja hans og fyrirætlunum. – Orðskviðirnir 4:18; Daníel 12:4.

6. (a) Hvaða tilgangi þjónar sáttmáli, eða samningur? (b) Hvað er merkilegt við að Jehóva skuli gera sáttmála við menn?

6 Jehóva opinberaði margt varðandi vilja sinn og fyrirætlanir með sáttmálum, eða samningum. Sennilega hefurðu einhvern tíma gert einhvers konar samning – til dæmis um lán eða kaup á húsnæði. Samningurinn veitti lagalega tryggingu fyrir því að staðið yrði við það sem um var samið. En hvers vegna þurfti Jehóva að gera formlega sáttmála, eða samninga, við menn? Eru ekki orð hans nægileg trygging fyrir því sem hann lofar? Jú, en engu að síður hefur Jehóva margsinnis sýnt þá góðvild að staðfesta orð sín með lagalega bindandi samningum. Þessir óhagganlegu samningar gefa okkur, ófullkomnum mönnum, bjargfastan grundvöll til að treysta loforðum Jehóva. – Hebreabréfið 6:16–18.

Sáttmálinn við Abraham

7, 8. (a) Hvaða sáttmála gerði Jehóva við Abraham og hvaða ljósi varpaði hann á heilaga leyndardóminn? (b) Hvernig afmarkaði Jehóva smám saman ættlegg hins fyrirheitna afkomanda?

7 Meira en tvö þúsund árum eftir að maðurinn var rekinn úr paradís sagði Jehóva trúum þjóni sínum, Abraham: „Ég [mun] … gera afkomendur þína eins marga og stjörnur á himni … Vegna afkomanda þíns munu allar þjóðir jarðar hljóta blessun því að þú hlýddir á mig.“ (1. Mósebók 22:17, 18) Þetta var meira en loforð því að Jehóva setti það fram sem lagalega bindandi sáttmála og staðfesti það með órjúfanlegum eiði. (1. Mósebók 17:1, 2; Hebreabréfið 6:13–15) Það er sérstakt til þess að hugsa að alvaldur Drottinn skuli hafa gert samning um að blessa mannkynið.

„Ég [mun] … gera afkomendur þína eins marga og stjörnur á himni.“

8 Abrahamssáttmálinn opinberaði að fyrirheitni afkomandinn myndi koma fram sem maður því að hann átti að koma af Abraham. En hver var maðurinn? Seinna opinberaði Jehóva að hann hefði valið Ísak meðal sona Abrahams til að vera forfaðir afkomandans. Ísak átti tvo syni og Jehóva valdi Jakob. (1. Mósebók 21:12; 28:13, 14) Seinna meir fór Jakob með þessi spádómlegu orð yfir einum af 12 sonum sínum: „Veldissprotinn hverfur ekki frá Júda né stafurinn frá fótum hans, ekki fyrr en Síló [eða, sá sem á tilkall til þess] kemur, en honum eiga þjóðirnar að hlýða.“ (1. Mósebók 49:10) Nú var ljóst að afkomandinn yrði konungur og afkomandi Júda.

Sáttmálinn við Ísrael

9, 10. (a) Hvaða sáttmála gerði Jehóva við Ísraelsmenn og hvaða vernd veitti hann? (b) Hvernig sýndu lögin fram á að mannkynið þarfnaðist lausnargjalds?

9 Árið 1513 f.Kr. gerði Jehóva ráðstafanir sem voru undanfari þess að fleira yrði opinberað varðandi heilaga leyndardóminn. Hann gerði sáttmála við afkomendur Abrahams, Ísraelsmenn. Þó að lagasáttmáli Móse sé fallinn úr gildi núna gegndi hann mikilvægu hlutverki í því að leiða fram hinn fyrirheitna afkomanda. Hvernig þá? Með þrennum hætti. Í fyrsta lagi mynduðu lögin eins konar varnarmúr umhverfis Ísraelsmenn. (Efesusbréfið 2:14) Réttlát ákvæði hans voru eins og múr milli Gyðinga og annarra þjóða. Þannig stuðluðu lögin að því að varðveita ættlegg fyrirheitna afkomandans. Það var að miklu leyti þessari vernd að þakka að Ísraelsþjóðin var enn þá til þegar kom að því að Messías skyldi fæðast af ættkvísl Júda.

10 Í öðru lagi vöktu lögin athygli á að mannkynið þarfnaðist lausnargjalds. Lögin voru fullkomin og sýndu fram á að syndugir menn gátu ekki haldið þau að öllu leyti. „Þeim var bætt við til að afbrotin kæmu í ljós og þau áttu að gilda þar til afkomandinn kæmi sem loforðið hafði verið gefið.“ (Galatabréfið 3:19) Lögin kváðu á um dýrafórnir sem friðþægðu tímabundið fyrir syndir manna. En eins og Páll skrifaði gat „blóð nauta og geita … með engu móti afmáð þær“ þannig að þessar fórnir voru aðeins fyrirmynd um lausnarfórn Krists. (Hebreabréfið 10:1–4) Lögmálið var því „gæslumaður“ trúfastra Gyðinga þangað til Kristur kom. – Galatabréfið 3:24.

11. Hvaða stórkostlega möguleika bauð lagasáttmálinn Ísrael upp á en hvernig fyrirgerði þjóðin honum?

11 Í þriðja lagi bauð sáttmálinn Ísraelsmönnum upp á stórkostlegan möguleika. Jehóva sagði þeim að þeir myndu verða „konungsríki presta og heilög þjóð“ ef þeir héldu sáttmálann dyggilega. (2. Mósebók 19:5, 6) Með tíð og tíma komu fram í Ísrael þeir fyrstu sem tilheyrðu hinu himneska konungsríki presta. Þjóðin í heild gerði hins vegar uppreisn gegn lagasáttmálanum, hafnaði afkomandanum, Messíasi, og fyrirgerði þessu tækifæri. Hverjir gátu þá fullnað tölu þeirra sem áttu að mynda prestaríkið? Og hvernig myndi þessi þjóð tengjast hinum fyrirheitna afkomanda? Þessir þættir heilaga leyndardómsins yrðu opinberaðir í fyllingu tímans.

Sáttmálinn um konungdóm Davíðs

12. Hvaða sáttmála gerði Jehóva við Davíð og hvaða ljósi varpaði sáttmálinn á heilagan leyndardóm Guðs?

12 Á 11. öld f.Kr. varpaði Jehóva skærara ljósi á heilaga leyndardóminn þegar hann gerði enn einn sáttmála. Hann lofaði hinum trúfasta Davíð konungi: „Ég [geri] afkomanda þinn … að konungi eftir þig og staðfesti konungdóm hans … ég mun staðfesta konunglegt hásæti hans að eilífu.“ (2. Samúelsbók 7:12, 13; Sálmur 89:3) Þannig var opinberað að fyrirheitni afkomandinn skyldi koma af ætt Davíðs. En hvernig gat venjulegur maður ríkt „að eilífu“? (Sálmur 89:20, 29, 34–36) Og gat mennskur konungur frelsað mannkynið úr greipum syndar og dauða?

13, 14. (a) Hverju lofar Jehóva smurðum konungi sínum, samkvæmt Sálmi 110? (b) Hvað annað opinberuðu spámenn Jehóva um fyrirheitna afkomandann?

13 Davíð var innblásið að skrifa: „Jehóva sagði við Drottin minn: ‚Sittu mér til hægri handar þar til ég legg óvini þína eins og skemil undir fætur þína.‘ Jehóva hefur svarið eið og hann skiptir ekki um skoðun: ‚Þú ert prestur að eilífu á sama hátt og Melkísedek.‘“ (Sálmur 110:1, 4) Þessi orð Davíðs fjalla beinlínis um fyrirheitna afkomandann, Messías. (Postulasagan 2:35, 36) Þessi konungur átti ekki að stjórna í Jerúsalem heldur sitja á himni við ‚hægri hönd‘ Jehóva. Þannig gæti hann ráðið yfir allri jörðinni, ekki aðeins Ísraelslandi. (Sálmur 2:6–8) En hér kemur fleira fram. Við tökum eftir að Jehóva sver þess eið að Messías verði „prestur … á sama hátt og Melkísedek“. Melkísedek var uppi á dögum Abrahams og var bæði konungur og prestur. Hinn fyrirheitni afkomandi yrði sömuleiðis skipaður beint af Guði sem konungur og prestur. – 1. Mósebók 14:17–20.

14 Jehóva notaði spámenn sína til að opinbera sitthvað fleira varðandi heilagan leyndardóm sinn. Jesaja opinberaði til dæmis að afkomandinn myndi deyja sem fórn. (Jesaja 53:3–12) Míka sagði fyrir hvar Messías myndi fæðast. (Míka 5:2) Daníel spáði meira að segja nákvæmlega hvenær afkomandinn myndi koma fram og hvenær hann myndi deyja. – Daníel 9:24–27.

Heilagi leyndardómurinn opinberaður!

15, 16. (a) Hvernig atvikaðist það að sonur Jehóva „fæddist af konu“? (b) Hvað erfði Jesús frá mennskum foreldrum sínum og hvenær kom hann fram sem fyrirheitni afkomandinn?

15 Það var ekki fyrr en afkomandinn sjálfur kom fram sem ljóst varð hvernig þessir spádómar myndu rætast. Galatabréfið 4:4 segir: „Á tilsettum tíma sendi Guð son sinn, sem fæddist af konu.“ Árið 2 f.Kr. birtist engill gyðingamey er María hét og sagði: „Þú verður barnshafandi og fæðir son. Þú skalt láta hann heita Jesú. Hann verður mikill og verður kallaður sonur Hins hæsta, og Jehóva Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans … Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta umlykja þig. Þess vegna verður barnið sem fæðist kallað heilagt, sonur Guðs.“ – Lúkas 1:31, 32, 35.

16 Síðar flutti Jehóva líf sonar síns frá himnum í móðurlíf Maríu þannig að hann fæddist af konu. María var ófullkomin en Jesús erfði ekki ófullkomleikann frá henni vegna þess að hann var „sonur Guðs“. Auk þess voru mennskir foreldrar hans afkomendur Davíðs þannig að hann var bæði lögmætur og réttborinn erfingi Davíðs. (Postulasagan 13:22, 23) Þegar Jesús skírðist árið 29 smurði Jehóva hann með heilögum anda og sagði: „Þetta er sonur minn sem ég elska.“ (Matteus 3:16, 17) Afkomandinn var loksins kominn fram! (Galatabréfið 3:16) Nú var kominn tími til að halda áfram að opinbera heilaga leyndardóminn. – 2. Tímóteusarbréf 1:10.

17. Hvernig var ljósi varpað á merkingu 1. Mósebókar 3:15?

17 Í boðun sinni benti Jesús á að höggormurinn í 1. Mósebók 3:15 væri Satan og afkomendur höggormsins væru fylgjendur Satans. (Matteus 23:33; Jóhannes 8:44) Síðar var opinberað hvernig þeim yrði öllum tortímt endanlega. (Opinberunarbókin 20:1–3, 10, 15) Og bent var á að konan væri „Jerúsalem í hæðum“, eða eiginkona Guðs, það er að segja himneskur hluti safnaðar Jehóva, sem samanstendur af andaverum. aGalatabréfið 4:26; Opinberunarbókin 12:1–6.

Nýi sáttmálinn

18. Hver er tilgangur ‚nýja sáttmálans‘?

18 Ein stórbrotnasta opinberunin átti sér stað kvöldið áður en Jesús dó, en þá sagði hann lærisveinunum frá ‚nýja sáttmálanum‘. (Lúkas 22:20) Nýi sáttmálinn átti að leiða fram „konungsríki presta“ eins og Móselögin, sem á undan voru, höfðu átt að gera. (2. Mósebók 19:6; 1. Pétursbréf 2:9) En þessi nýi sáttmáli átti ekki að vera grundvöllur holdlegrar þjóðar heldur andlegrar. Hún er kölluð „Ísrael Guðs“ og í henni eru eingöngu trúfastir smurðir fylgjendur Jesú. (Galatabréfið 6:16) Ásamt Jesú áttu þeir að vera öllu mannkyni til blessunar.

19. (a) Hvers vegna megnar nýi sáttmálinn að skapa „konungsríki presta“? (b) Af hverju er sagt að smurðir kristnir menn séu „ný sköpun“ og hversu margir munu þjóna með Kristi á himnum?

19 En hvers vegna getur nýi sáttmálinn skapað „konungsríki presta“ til blessunar mannkyni? Vegna þess að hann fordæmir ekki lærisveina Krists sem syndara heldur býður þeim upp á að fá syndir sínar fyrirgefnar vegna fórnarinnar sem Kristur færði. (Jeremía 31:31–34) Þegar þeir standa hreinir frammi fyrir Jehóva ættleiðir hann þá svo að þeir tilheyra fjölskyldu hans á himni og hann smyr þá með heilögum anda. (Rómverjabréfið 8:15–17; 2. Korintubréf 1:21) Þannig ‚endurfæðast þeir til lifandi vonar sem þeim er geymd á himnum‘. (1. Pétursbréf 1:3, 4) Þessi upphafning er alger nýlunda fyrir menn, þannig að það er orðað svo að andagetnir smurðir kristnir menn séu „ný sköpun“. (2. Korintubréf 5:17) Biblían opinberar að 144.000 manns muni taka þátt í því að stjórna endurleystu mannkyni af himni ofan. – Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1–4.

20. (a) Hvað var opinberað árið 36 varðandi heilaga leyndardóminn? (b) Hverjir hljóta blessunina sem Abraham var heitið?

20 Hinir smurðu verða „afkomendur Abrahams“ ásamt Jesú. b (Galatabréfið 3:29) Fyrst var valið fólk meðal Gyðinga en árið 36 var opinberaður enn einn þáttur heilaga leyndardómsins. Hann var sá að aðrar þjóðir en Gyðingar fengju einnig hlutdeild í himnesku voninni. (Rómverjabréfið 9:6–8; 11:25, 26; Efesusbréfið 3:5, 6) En áttu engir nema smurðir kristnir menn að hljóta blessunina sem Abraham var heitið? Jú, því að fórn Jesú er öllum heiminum til góðs. (1. Jóhannesarbréf 2:2) Seinna opinberaði Jehóva að óteljandi fjöldi manna, nefndur ‚mikill múgur‘, myndi komast af þegar heimskerfi Satans liði undir lok. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Og mikill fjöldi til viðbótar yrði reistur upp frá dauðum og ætti von um eilíft líf í paradís. – Lúkas 23:43; Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 20:11–15; 21:3, 4.

Viska Guðs og heilagi leyndardómurinn

21, 22. Hvernig ber heilagur leyndardómur Jehóva vitni um visku hans?

21 Heilagi leyndardómurinn er stórmerkilegt dæmi um ‚margþætta visku Guðs‘. (Efesusbréfið 3:8–10) Það ber vott um einstaka visku Jehóva hvernig hann setti fram þennan leyndardóm og opinberaði hann síðan skref fyrir skref. Í visku sinni tók hann tillit til þeirra takmarka, sem mönnum eru sett, og leyfði þeim að sýna hvað byggi í hjörtum þeirra. – Sálmur 103:14.

22 Að Jehóva skyldi velja Jesú sem konung er annað dæmi um óviðjafnanlega visku hans. Sonur Jehóva er traustari en nokkur önnur sköpunarvera í alheiminum. Jesús fékk að reyna margs konar mótlæti sem maður af holdi og blóði svo að hann skilur mannleg vandamál fullkomlega. (Hebreabréfið 5:7–9) Og hvað um meðstjórnendur Jesú? Í aldanna rás hefur Jehóva smurt bæði karla og konur af öllum kynþáttum, tungum og uppruna. Það er ekkert það vandamál til sem einstaklingar í þessum hópi hafa ekki kynnst og sigrast á. (Efesusbréfið 4:22–24) Það verður unaðslegt að búa undir stjórn þessara miskunnsömu konunga og presta.

23. Hvaða blessun hafa kristnir menn fengið í sambandi við heilagan leyndardóm Jehóva?

23 Páll postuli talar um „hinn heilaga leyndardóm sem var hulinn öldum saman og hulinn fyrri kynslóðum. En núna er hann opinberaður Guðs heilögu.“ (Kólossubréfið 1:26) Já, hinir heilögu, sem Jehóva hefur smurt, hafa fengið góðan skilning á heilaga leyndardómnum og komið þekkingu sinni á framfæri við milljónir manna. Það er mikil blessun fyrir okkur öll. Jehóva „kunngerði okkur heilagan leyndardóm vilja síns“. (Efesusbréfið 1:9) Við skulum segja öðrum frá þessum stórkostlega leyndardómi og hjálpa þeim að skyggnast inn í óendanlega visku Jehóva Guðs!

a „Heilagur leyndardómur guðrækninnar“ opinberaðist einnig í Jesú. (1. Tímóteusarbréf 3:16) Það hafði lengi verið leyndardómur hvort nokkur maður gæti sýnt Jehóva fullkomna ráðvendni. Jesús opinberaði svarið. Hann varðveitti ráðvendni í öllum þeim prófraunum sem Satan lét yfir hann ganga. – Matteus 4:1–11; 27:26–50.

b Jesús gerði einnig „sáttmála … um ríki“ við þennan sama hóp. (Lúkas 22:29, 30) Það má komast svo að orði að Jesús hafi samið við þessa ‚litlu hjörð‘ um að ríkja með sér á himnum sem aðrir afkomendur Abrahams. – Lúkas 12:32.