Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

20. KAFLI

„Vitur í hjarta“ en lítillátur

„Vitur í hjarta“ en lítillátur

1–3. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva er lítillátur?

 FAÐIR vill kenna ungu barni sínu mikilvægan hlut. Hann vill umfram allt ná til barnsins. Hvernig á hann að bera sig að? Á hann að standa ógnandi yfir barninu og tala hranalega til þess? Eða á hann að setjast á hækjur sér svo að hann sé í sömu hæð og barnið og vera mildur og biðjandi í máli? Vitur og lítillátur faðir velur auðvitað mildu leiðina.

2 Hvers konar faðir er Jehóva – er hann hrokafullur eða lítillátur, hranalegur eða mildur? Jehóva er alvitur. En þú hefur kannski veitt því eftirtekt að þekking og gáfur stuðla ekki endilega að auðmýkt og lítillæti þegar menn eiga í hlut. „Þekking blæs menn upp,“ eins og Biblían segir. (1. Korintubréf 3:19; 8:1) En Jehóva, sem er „vitur í hjarta“, er einnig lítillátur. (Jobsbók 9:4) Ekki svo að skilja að hann sé lágt settur á nokkurn hátt eða að eitthvað vanti á tign hans, heldur er hann einfaldlega hrokalaus. Hvers vegna?

3 Jehóva er heilagur. Þess vegna getur hann ekki verið hrokafullur af því að hroki saurgar. (Markús 7:20–22) Og spámaðurinn Jeremía sagði við Jehóva: „Þú munt minnast þess og beygja þig niður til mín.“ a (Harmljóðin 3:20) Hugsaðu þér. Jehóva, Drottinn alheims, var fús til að ‚beygja sig niður‘ á sama stig og Jeremía var á til að sýna þessum ófullkomna manni vinsemd og athygli. (Sálmur 113:7) Já, Jehóva er lítillátur. En hvernig birtist lítillæti hans? Hvernig tengist það viskunni? Og hvers vegna er það mikilvægt fyrir okkur?

Þannig sýnir Jehóva lítillæti

4, 5. (a) Hvað er lítillæti, hvernig birtist það og hvers vegna má ekki rugla því saman við veikleika eða kjarkleysi? (b) Hvernig sýndi Jehóva lítillæti í samskiptum við Davíð og hversu mikilvægt er það fyrir okkur að Jehóva skuli vera lítillátur?

4 Lítillæti er það sama og hógværð og hrokaleysi. Lítillæti á sér rætur í hjartanu og birtist út á við í mildi, þolinmæði og sanngirni. (Galatabréfið 5:22, 23) En það má ekki rugla þessum eiginleikum saman við veikleika eða kjarkleysi. Þeir stangast ekki á við það að Jehóva sýni réttláta reiði eða beiti eyðingarmætti sínum. Jehóva sýnir einmitt gífurlegan styrk með því að vera lítillátur og mildur. Hann hefur fullkomna sjálfstjórn. (Jesaja 42:14) Hvernig tengjast lítillæti og viska? Biblíuhandbók segir: „Lítillæti er að endingu skilgreint … sem óeigingirni og er frumskilyrði allrar visku.“ Sönn viska fyrirfinnst því ekki án lítillætis. Hvernig er lítillæti Jehóva til góðs fyrir okkur?

Vitur faðir er lítillátur og mildur í samskiptum við börnin.

5 Davíð konungur ávarpaði Jehóva í sálmi og sagði: „Þú bjargar mér með skildi þínum, hægri hönd þín styður mig, auðmýkt þín gerir mig mikinn.“ (Sálmur 18:35) Það má orða það svo að Jehóva hafi lotið niður til að hjálpa þessum ófullkomna manni, vernda hann og halda honum uppi dag frá degi. Davíð gerði sér grein fyrir að hann hlyti ekki hjálpræði – né yrði mikill sem konungur – nema vegna þess að Jehóva sýndi þetta lítillæti. Raunar ætti ekkert okkar von um hjálpræði ef Jehóva væri ekki lítillátur og fús til að lúta niður að okkur eins og mildur og ástríkur faðir.

6, 7. (a) Hvers vegna talar Biblían hvergi um að Jehóva sé hógvær? (b) Hver eru tengslin milli mildi og visku og hver er besta fyrirmyndin?

6 Það er vert að taka eftir því að það er munur á lítillæti og hógværð. Hógværð er fagur eiginleiki sem þjónar Guðs ættu að tileinka sér. Hún er nátengd visku, rétt eins og lítillæti. Orðskviðirnir 11:2 segja til dæmis: „Hjá hógværum er viska.“ En Biblían talar hvergi um að Jehóva sé hógvær. Hvers vegna? Þegar Biblían talar um að menn séu hógværir gefur það í skyn að þeir séu sér meðvita um takmörk sín. Hinum alvalda eru engin takmörk sett nema þau sem hann setur sér sjálfur til að halda réttláta staðla sína. (Markús 10:27; Títusarbréfið 1:2) Og þar sem hann er hinn hæsti er enginn yfir hann settur. Hugtakið hógværð á því ekki við Jehóva.

7 Jehóva er engu að síður lítillátur og mildur. Hann kennir þjónum sínum að mildi sé nauðsynleg til að sýna sanna visku. Biblían talar því um „mildi sem er sprottin af visku“. b (Jakobsbréfið 3:13, neðanmáls) Jehóva er besta fyrirmyndin. Lítum nánar á málið.

Jehóva hlustar og felur öðrum verkefni

8–10. (a) Hvers vegna er sérstakt að Jehóva skuli vera fús til að hlusta á aðra og fela þeim verkefni? (b) Hvernig hefur hinn alvaldi sýnt lítillæti gagnvart englunum?

8 Það vitnar um lítillæti Jehóva að hann skuli vera fús til að hlusta á aðra og fela þeim ábyrgð. Það er í rauninni undravert að hann skuli gera það yfirleitt því að hann þarf svo sannarlega ekki að leita ráða eða hjálpar annarra. (Jesaja 40:13, 14; Rómverjabréfið 11:34, 35) Engu að síður segir Biblían frá mörgum dæmum þar sem Jehóva sýndi þetta lítillæti.

9 Við finnum eitt dæmi í samskiptum hans við Abraham. Þrír gestir komu til Abrahams og hann ávarpaði einn þeirra „Jehóva“. Gestirnir voru reyndar englar en einn þeirra kom í nafni Jehóva og starfaði í nafni hans. Það var í raun og veru eins og Jehóva væri að segja og gera það sem engillinn sagði og gerði. Þannig kom Jehóva þeim boðum til Abrahams að hann hefði heyrt „ópin gegn Sódómu og Gómorru“. Hann sagði: „Ég ætla að stíga niður til að kanna hvort íbúarnir séu eins vondir og ópin gefa til kynna. Ef ekki þá vil ég vita það.“ (1. Mósebók 18:3, 20, 21) Þetta þýddi auðvitað ekki að hinn alvaldi ætlaði að „stíga niður“ í eigin persónu heldur sendi hann engla aftur sem fulltrúa sína. (1. Mósebók 19:1) Hvers vegna? Þurfti Jehóva, sem sér allt, hjálp til að vita hvað var að gerast á svæðinu? Nei, auðvitað ekki, en hann sýndi það lítillæti að fela englunum að kanna ástandið og heimsækja Lot og fjölskyldu hans í Sódómu.

10 Jehóva hlustar líka á aðra. Einu sinni bað hann engla sína að leggja til hvernig ætti að koma hinum illa Akab konungi frá. Ekki svo að skilja að Jehóva hafi þarfnast hjálpar. Engu að síður samþykkti hann tillögu eins af englunum og fól honum síðan að framkvæma hana. (1. Konungabók 22:19–22) Ber það ekki vott um lítillæti?

11, 12. Hvernig kynntist Abraham lítillæti Jehóva?

11 Jehóva er meira að segja fús til að hlusta á ófullkomna menn og það sem þeim liggur á hjarta. Tökum dæmi. Abraham var ráðvilltur fyrst í stað þegar Jehóva sagði honum að hann hygðist eyða Sódómu og Gómorru. „Þér dytti það ekki í hug!“ sagði Abraham og spurði: „Gerir ekki dómari allrar jarðarinnar það sem er rétt?“ Hann spurði Jehóva hvort hann myndi þyrma borgunum ef þar fyndust 50 réttlátir menn. Jehóva sagðist myndu gera það. En Abraham spurði þá aftur og lækkaði töluna fyrst í 45, síðan 40 og svo koll af kolli. Jehóva svaraði alltaf játandi en Abraham hætti ekki fyrr en talan var komin niður í tíu. Kannski skildi hann ekki til fulls hve miskunnsamur Jehóva er. En hvað sem því líður var Jehóva þolinmóður og lítillátur og leyfði vini sínum og þjóni að lýsa áhyggjum sínum með þessum hætti. – 1. Mósebók 18:23–33.

12 Hversu margir lærdóms- og gáfumenn myndu hlusta svona þolinmóðir á mann sem stæði þeim langt að baki? c En Guð er svona lítillátur. Í þessu sama samtali komst Abraham að raun um að Jehóva er „seinn til reiði“. (2. Mósebók 34:6) Kannski gerði hann sér grein fyrir að hann hafði engan rétt til að véfengja gerðir hins hæsta því að tvívegis sagði hann: „Jehóva, ég bið þig að reiðast mér ekki.“ (1. Mósebók 18:30, 32) Jehóva reiddist auðvitað ekki því að hann sýnir „mildi sem er sprottin af visku“.

Jehóva er sanngjarn

13. Hvað merkir orðið ‚sanngjarn‘, eins og það er notað í Biblíunni, og hvers vegna lýsir það Jehóva vel?

13 Lítillæti Jehóva birtist einnig í sanngirni hans. Sanngirni er því miður fágæt meðal ófullkominna manna. En Jehóva er bæði fús til að hlusta á menn og engla, og eins að gefa eftir þegar það stangast ekki á við réttlátar meginreglur hans. Orðið, sem þýtt er ‚sanngjarn‘ í Biblíunni, merkir bókstaflega ‚eftirgefanlegur‘. Þessi eiginleiki er enn eitt merki um visku Guðs. „Viskan sem kemur ofan að er … sanngjörn,“ segir Jakobsbréfið 3:17. Í hvaða skilningi er hinn alvitri Jehóva sanngjarn? Hann lagar sig til dæmis að aðstæðum. Við munum að nafnið Jehóva gefur til kynna að hann verði hvaðeina sem á þarf að halda til að hrinda fyrirætlun sinni í framkvæmd. (2. Mósebók 3:14) Er það ekki merki þess að hann er sanngjarn og lagar sig að aðstæðum?

14, 15. Hvað lærum við af sýn Esekíels um himneskan hluta safnaðar Jehóva og hvernig er hann ólíkur stofnunum heimsins?

14 Í Biblíunni er athyglisverður kafli sem gefur okkur svolitla hugmynd um hve auðveldlega Jehóva lagar sig að aðstæðum. Spámaðurinn Esekíel fékk að sjá himneskan hluta safnaðar Jehóva í sýn, en hann samanstendur af andaverum. Hann sá firnastóran stríðsvagn sem Jehóva stjórnaði. Það er sérstaklega athyglisvert að taka eftir hvernig vagninn færðist úr stað. Hjólin voru risastór og gátu gengið til allra fjögurra hliða þannig að vagninn gat breytt um stefnu á augabragði án þess að nema staðar eða beygja. Hjólin voru alsett augum svo að þau gátu séð til allra átta. Og þessi mikli stríðsvagn var ekki þunglamalegur eins og sum farartæki mannanna heldur gat hann færst stað úr stað með leifturhraða og jafnvel tekið vinkilbeygjur! (Esekíel 1:1, 14–28) Já, söfnuður Jehóva getur lagað sig að aðstæðum á augabragði, rétt eins og alvaldur alheims sem stjórnar honum. Söfnuðurinn bregst skjótt við síbreytilegum þörfum og aðstæðum.

15 Mennirnir geta vissulega reynt að líkja eftir þessari fullkomnu aðlögunarhæfni. Hins vegar er býsna algengt að þeir séu stífir og ósanngjarnir frekar en sveigjanlegir og sanngjarnir, og hið sama er að segja um stofnanir þeirra. Lýsum þessu með dæmi: Risaolíuskip eða flutningalest geta verið ógurlega stór og öflug. En geta þau brugðist skyndilega við breyttum aðstæðum? Flutningalestin getur ekki beygt fram hjá hindrun sem verður skyndilega á brautarteinunum. Og það er ekki mikið auðveldara að stöðva hana snögglega. Hemlunarvegalengd þunghlaðinnar flutningalestar getur verið langt á annan kílómetra. Risaolíuskip getur þurft átta kílómetra til að stöðvast eftir að slökkt er á vélunum. Og jafnvel þó að vélarnar séu settar á fullt aftur á bak getur það tekið olíuskipið heila þrjá kílómetra að stöðvast! Það er eins með stofnanir mannanna. Þeim hættir til að vera ósanngjarnar og þungar í vöfum. Stolt og stífni hindrar oft að menn lagi sig að breytilegum þörfum og aðstæðum. Fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota og ríkisstjórnir fallið vegna ósveigjanleika. (Orðskviðirnir 16:18) Við megum vera þakklát fyrir að hvorki Jehóva né söfnuður hans skuli vera þannig.

Þannig sýnir Jehóva sanngirni

16. Hvernig sýndi Jehóva Lot sanngirni áður en Sódómu og Gómorru var eytt?

16 Snúum okkur aftur að eyðingu Sódómu og Gómorru. Lot og fjölskylda hans fengu skýr fyrirmæli frá engli Jehóva um að ‚flýja til fjalla‘. En Lot leist ekki á það. „Æ nei, Jehóva, ekki þangað!“ sagði hann í bænarrómi. Hann var sannfærður um að hann myndi deyja ef hann yrði að flýja til fjalla og bað um að mega flýja ásamt fjölskyldunni til Sóar sem var borg í grenndinni. Jehóva hafði reyndar ætlað sér að eyða Sóar og Lot hafði auk þess enga ástæðu til að óttast. Ekki var það Jehóva nein ofraun að vernda Lot á fjöllum uppi. Engu að síður lét hann undan og gerði eins og Lot bað hann um. „Gott og vel … ég skal gera eins og þú biður um og ekki eyða bænum sem þú nefndir,“ sagði engillinn við Lot. (1. Mósebók 19:17–22) Vitnar þetta ekki um sanngirni Jehóva?

17, 18. Hvernig sýndi Jehóva Nínívemönnum sanngirni?

17 Jehóva viðurkennir einnig einlæga iðrun og er alltaf miskunnsamur og réttvís. Tökum dæmi. Jónas spámaður var sendur til borgarinnar Níníve sem var full af illsku og ofbeldi. Hann gekk um götur borgarinnar og flutti einfaldan boðskap frá Jehóva: Þessari miklu borg verður eytt eftir 40 daga. En aðstæður breyttust aldeilis því að Nínívebúar iðruðust. – Jónas, 3. kafli.

18 Það er athyglisvert að bera saman viðbrögð Jehóva og Jónasar við þessum breyttu aðstæðum. Jehóva lagaði sig að þeim og fyrirgaf syndir í stað þess að koma fram sem „voldug stríðshetja“. d (2. Mósebók 15:3) Jónas var hins vegar ósveigjanlegur og miskunnarlaus, ólíkt Jehóva. Hann var ekki sanngjarn heldur brást við líkt og flutningalest eða risaolíuskip. Hann hafði boðað eyðingu og annað kom ekki til greina! En Jehóva var þolinmóður við bráðlátan spámanninn og kenndi honum eftirminnilega lexíu í sanngirni og miskunn. – Jónas, 4. kafli.

Jehóva er sanngjarn og skilur takmörk okkar.

19. (a) Hvernig getum við treyst að Jehóva ætlast ekki til meira af okkur en sanngjarnt er? (b) Hvernig sýna Orðskviðirnir 19:17 að Jehóva er ‚góður og sanngjarn‘ húsbóndi og einkar lítillátur?

19 Að síðustu nefnum við að Jehóva ætlast ekki til meira af okkur en sanngjarnt er. Davíð konungur sagði: „Hann veit vel hvernig við erum sköpuð, hann minnist þess að við erum mold.“ (Sálmur 103:14) Jehóva skilur takmörk okkar og ófullkomleika betur en við sjálf. Hann ætlast aldrei til meira af okkur en við getum gert. Biblían talar bæði um ‚góða og sanngjarna‘ húsbændur og þá „sem er erfitt að gera til geðs“. (1. Pétursbréf 2:18) Hvers konar húsbóndi er Jehóva? Orðskviðirnir 19:17 segja: „Sá sem er góður við bágstadda lánar Jehóva.“ Það þarf góðan og sanngjarnan húsbónda til að taka eftir því þegar þjónar hans eru hugulsamir við fátæka. Og ritningarstaðurinn gefur einnig í skyn að skapari alheims telji sig standa í þakkarskuld við smáa mennina sem miskunna öðrum í verki. Hvílíkt lítillæti!

20. Hvers vegna getum við treyst að Jehóva bænheyri okkur?

20 Jehóva er ekki síður mildur og sanngjarn við þjóna sína nú á tímum. Hann hlustar þegar við biðjum í trú. Og þó að hann sendi ekki engla til að tala við okkur skulum við ekki halda að hann bænheyri okkur ekki. Páll postuli hvatti trúsystkini sín til að ‚halda áfram að biðja‘ svo að honum yrði sleppt úr haldi. Síðan sagði hann: „Ég hvet ykkur sérstaklega til að biðja þess að ég komist sem fyrst til ykkar aftur.“ (Hebreabréfið 13:18, 19) Með bænum okkar getum við sem sagt fengið Jehóva til að gera hluti sem hann hefði ekki gert að öðrum kosti. – Jakobsbréfið 5:16.

21. Hvernig ættum við aldrei að hugsa um lítillæti Jehóva og hvað ættum við að gera okkur ljóst í sambandi við hann?

21 En þó að Jehóva sé lítillátur – það er að segja mildur, fús til að hlusta, þolinmóður og sanngjarn – merkir það ekki að hann hviki frá réttlátum meginreglum sínum. Prestar kristna heimsins halda kannski að þeir sýni sanngirni þegar þeir útvatna siðferðisreglur Jehóva til að kitla eyru sóknarbarnanna. (2. Tímóteusarbréf 4:3) En sú tilhneiging manna að gefa eftir þegar það virðist þjóna hagsmunum þeirra á ekkert skylt við sanngirni Guðs. Jehóva er heilagur og brýtur aldrei réttlátar meginreglur sínar. (3. Mósebók 11:44) Við skulum því elska sanngirni Jehóva vegna þess að hún er sönnun fyrir því að hann sé lítillátur. Er ekki hrífandi til þess að hugsa að Jehóva Guð, sem er vitrastur allra í alheimi, skuli líka vera lítillátastur allra? Það er unaðslegt að nálgast þennan mikla en jafnframt milda, þolinmóða og sanngjarna Guð!

a Skrifarar fortíðar, nefndir Sóferím, breyttu þessu versi á þann veg að það væri Jeremía en ekki Jehóva sem laut niður. Þeim mun hafa þótt óviðeigandi að eigna Guði slíka auðmýkt. Þar af leiðandi tapast kjarninn í þessu fagra versi í mörgum þýðingum Biblíunnar. The New English Bible fer þó rétt með versið og lætur Jeremía ávarpa Guð: „Mundu, ó mundu og beygðu þig niður til mín.“

b Aðrar biblíuþýðingar tala um „lítillæti sem sprettur af visku“ og „blíðu sem er aðalsmerki viskunnar“.

c Athygli vekur að Biblían nefnir þolinmæði og stolt sem andstæður. (Prédikarinn 7:8) Þolinmæði Jehóva er enn eitt merki um lítillæti hans. – 2. Pétursbréf 3:9.

d Sálmur 86:5 segir að Jehóva sé „góður og fús til að fyrirgefa“. Þegar sálmurinn var þýddur á grísku var orðasambandið „fús til að fyrirgefa“ þýtt epíeikesʹ eða „sanngjarn“.