Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

21. KAFLI

Jesús opinberar „visku Guðs“

Jesús opinberar „visku Guðs“

1–3. Hvernig brugðust fyrrverandi nágrannar Jesú við kennslu hans og hverju gerðu þeir sér ekki grein fyrir?

 ÁHEYRENDUR eru agndofa. Ungur maður stendur frammi fyrir þeim í samkunduhúsinu og kennir. Þeir þekkja hann vel – hann heitir Jesús. Hann er uppalinn í bænum og hefur unnið meðal þeirra um árabil sem smiður. Sumir þeirra búa kannski í húsum sem hann vann við að byggja eða rækta landið með plógum og oktrjám sem hann smíðaði. a En hvernig bregðast þeir við því sem smiðurinn fyrrverandi kennir?

2 Flestir eru furðu lostnir og spyrja: „Hvaðan hefur maðurinn þessa visku?“ en bæta svo við: „Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu?“ (Matteus 13:54–58; Markús 6:1–3) Því miður hugsuðu fyrrverandi nágrannar Jesú sem svo: ‚Þessi smiður er bara heimamaður eins og við.‘ Þeir höfnuðu honum þrátt fyrir viskuna í orðum hans. Þeir skildu ekki að viska hans var ekki frá hans eigin brjósti.

3 Hvaðan fékk Jesús visku sína? „Það sem ég kenni kemur ekki frá mér,“ sagði hann, „heldur þeim sem sendi mig.“ (Jóhannes 7:16) Páll postuli benti á að Jesús hefði ‚birt okkur visku Guðs‘. (1. Korintubréf 1:30) Jehóva opinberaði visku sína fyrir milligöngu Jesú, sonar síns, í slíkum mæli að Jesús gat sagt: „Ég og faðirinn erum eitt.“ (Jóhannes 10:30) Við skulum líta á þrjú svið þar sem Jesús sýndi að hann bjó yfir „visku Guðs“.

Boðskapur hans

4. (a) Hvert var inntakið í boðskap Jesú og hvers vegna var það afar mikilvægt? (b) Af hverju voru ráð Jesú alltaf raunhæf og gagnleg fyrir þá sem á hann hlýddu?

4 Við skulum byrja á því að líta á boðskap Jesú. Inntakið í boðun hans var ‚fagnaðarboðskapurinn um ríki Guðs‘. (Lúkas 4:43) Þetta var mjög þýðingarmikið vegna þess hve stóru hlutverki ríkið átti að gegna í því að helga nafn Jehóva – sem felur meðal annars í sér orðstír hans sem réttláts stjórnanda – og því að blessa mannkynið til frambúðar. Jesús gaf fólki líka viturleg ráð varðandi daglega lífið. Hann reyndist vera „Undraráðgjafi“ eins og spáð hafði verið. (Jesaja 9:6) Hvernig gat annað verið? Hann hafði djúpstæða þekkingu á orði Guðs og vilja, næman skilning á mannlegu eðli og sterka ást til mannanna. Þess vegna voru ráð hans alltaf raunhæf og gagnleg fyrir þá sem á hann hlýddu. Jesús hafði „orð eilífs lífs“. Já, ráðleggingar hans vísa veginn til hjálpræðis. – Jóhannes 6:68.

5. Um hvað fjallaði Jesús meðal annars í fjallræðunni?

5 Fjallræðan er afbragðsdæmi um þá óviðjafnanlegu visku sem Jesús miðlaði. Fjallræðan er skráð í Matteusi 5:3–7:27 og það tæki sennilega ekki nema 20 mínútur að flytja hana. En efni hennar er sígilt – það á jafnmikið erindi til fólks núna eins og forðum daga þegar hún var flutt. Jesús kom víða við í ræðunni. Hann ræddi meðal annars um hvernig hægt væri að bæta samskipti manna (5:23–26, 38–42; 7:1–5, 12), vera siðferðilega hreinn (5:27–32) og lifa innihaldsríku lífi (6:19–24; 7:24–27). En auk þess að segja áheyrendum hvað væri viturlegt sýndi hann þeim fram á það með því að gefa skýringar, koma með rök og benda á sannanir.

6–8. (a) Hvers vegna ættum við ekki að vera áhyggjufull, að sögn Jesú? (b) Hvernig sjáum við að ráð Jesú endurspegla viskuna að ofan?

6 Lítum á dæmi: Jesús gaf það viturlega ráð í 6. kaflanum hjá Matteusi að gera sér ekki óþarfaáhyggjur af efnislegum hlutum. „Hættið að hafa áhyggjur af því hvað þið eigið að borða eða drekka til að viðhalda lífi ykkar, eða hverju þið eigið að klæðast,“ ráðlagði hann. (Vers 25) Fæði og klæði eru lífsnauðsynjar og það er ekki nema eðlilegt að láta sér annt um að útvega hvort tveggja. En Jesús segir okkur að ‚hætta að hafa áhyggjur‘ út af því. b Af hverju?

7 Hlustaðu á sannfærandi rök Jesú: Jehóva gefur okkur lífið og líkamann. Getur hann þá ekki líka gefið okkur fæðu til að viðhalda lífinu og föt til að klæða líkamann? (Vers 25) Fyrst Guð fóðrar fuglana og klæðir blómin fögrum búningi hlýtur hann ekki síður að annast mennina sem tilbiðja hann! (Vers 26, 28–30) Það er hvort eð er tilgangslaust að vera með óþarfaáhyggjur. Ekki getum við lengt lífið um eina alin með því. c (Vers 27) En hvernig getum við forðast áhyggjur? Jesús ráðleggur okkur að láta tilbeiðsluna á Guði sitja í fyrirrúmi í lífinu. Þeir sem gera það geta treyst að faðirinn á himnum veiti þeim daglegar nauðsynjar „að auki“. (Vers 33) Að lokum gefur Jesús einstaklega gott ráð – tökum einn dag í einu. Er einhver ástæða til að bæta áhyggjum morgundagsins við áhyggjur dagsins í dag? (Vers 34) Og hvers vegna að gera sér óþarfaáhyggjur af einhverju sem gerist kannski aldrei? Þessi viturlegu ráð geta hlíft okkur við miklu hugarangri í allri streitu og álagi umheimsins.

8 Ljóst er að ráðleggingar Jesú eru ekki síður raunhæfar núna en þær voru fyrir næstum 2.000 árum. Er það ekki merki um visku af himni ofan? Ráðleggingar manna, þótt góðar séu, úreldast gjarnan eða víkja fyrir nýjum. Kenningar Jesú hafa hins vegar staðist tímans tönn. En það ætti ekki að koma á óvart því að Undraráðgjafinn talaði ‚orð Guðs‘. – Jóhannes 3:34.

Kennsluaðferðir hans

9. Hvað sögðu hermenn um kennslu Jesú og hvers vegna voru það engar ýkjur?

9 Kennsluaðferðir Jesú eru annað svið þar sem hann endurspeglaði visku Guðs. Einu sinni höfðu hermenn verið sendir til að handtaka hann en sneru tómhentir til baka og sögðu: „Enginn maður hefur nokkurn tíma talað eins og hann.“ (Jóhannes 7:45, 46) Þetta voru engar ýkjur. Af öllum mönnum, sem lifað hafa, bjó Jesús yfir mestum reynslu- og þekkingarsjóði, enda var hann „ofan að“. (Jóhannes 8:23) Enginn maður gat kennt í líkingu við hann. Sem dæmi skulum við líta á tvær af aðferðum þessa vitra kennara.

‚Mannfjöldinn var agndofa yfir kennslu hans.‘

10, 11. (a) Hvers vegna getum við ekki annað en dáðst að því hvernig Jesús beitti dæmisögum og líkingum? (b) Hvað er dæmisaga og hvers vegna eru dæmisögur afar áhrifarík kennsluaðferð? Nefndu dæmi.

10 Áhrifaríkar líkingar og dæmisögur. Okkur er sagt að Jesús hafi talað „í dæmisögum“ til fólksins. „Hann talaði reyndar ekki til mannfjöldans án dæmisagna.“ (Matteus 13:34) Við getum ekki annað en dáðst að því hve snilldarlega hann notaði hversdagslega hluti til að kenna djúpstæð sannindi – bónda að sá, konu að hnoða í brauð, börn að leik á markaðstorgi, fiskimenn að draga net eða fjárhirði að leita að týndum sauð. Áheyrendur hans höfðu margséð allt þetta. Þegar mikilvæg sannindi eru tengd við kunnuglega hluti greypast þau hratt og djúpt í hugann og hjartað. – Matteus 11:16–19; 13:3–8, 33, 47–50; 18:12–14.

11 Oft sagði Jesús dæmisögur, stuttar sögur sem fluttu siðrænan eða trúarlegan boðskap. Það er auðveldara að skilja og muna sögur en óhlutstæðar hugmyndir, þannig að kennsla Jesú varðveittist vel. Í mörgum af dæmisögunum lýsti Jesús föður sínum með sterkum samlíkingum sem menn gátu tæplega gleymt. Allir skilja til dæmis hver er kjarninn í dæmisögunni um týnda soninn – sá að Jehóva finnur til með iðrandi manni sem hefur farið afvega en snýr svo við, og hann tekur blíðlega á móti honum. – Lúkas 15:11–32.

12. (a) Hvernig beitti Jesús spurningum þegar hann kenndi? (b) Hvernig þaggaði Jesús niður í þeim sem véfengdu að hann hefði umboð frá Guði?

12 Snillingur í að beita spurningum. Jesús spurði spurninga til að hjálpa áheyrendum að draga ályktanir, skoða hvatir sínar eða taka ákvarðanir. (Matteus 12:24–30; 17:24–27; 22:41–46) Þegar trúarleiðtogarnir véfengdu að hann hefði umboð frá Guði spurði hann þá: „Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum?“ Þetta kom þeim í opna skjöldu og þeir tóku að ráðgast hver við annan: „Ef við segjum: ‚Frá himni,‘ segir hann: ‚Hvers vegna trúðuð þið honum þá ekki?‘ En þorum við að segja: ‚Frá mönnum‘?“ En „þeir óttuðust mannfjöldann vegna þess að allir töldu að Jóhannes hefði verið sannur spámaður“. Að síðustu svöruðu þeir: „Við vitum það ekki.“ (Markús 11:27–33; Matteus 21:23–27) Jesús þaggaði niður í þeim með einfaldri spurningu og afhjúpaði sviksemina sem bjó í hjörtum þeirra.

13–15. Hvernig lýsir dæmisagan um miskunnsama Samverjann visku Jesú?

13 Stundum beitti Jesús báðum aðferðum samtímis og fléttaði umhugsunarverðum spurningum inn í dæmisögur og líkingar. Þegar löglærður Gyðingur spurði hvað hann þyrfti að gera til að hljóta eilíft líf benti Jesús honum á ákvæði Móselaganna um að elska Guð og náungann. Maðurinn vildi réttlæta sig og spurði: „Hver er þá náungi minn?“ Jesús svaraði honum með sögu. Gyðingur var einn á ferð þegar ræningjar réðust á hann og skildu hann eftir hálfdauðan. Tveir Gyðingar áttu leið hjá skömmu síðar, fyrst prestur og síðan levíti. Báðir sveigðu fram hjá honum. Loks bar þar að Samverja nokkurn. Hann kenndi í brjósti um manninn, bjó um sár hans og fór með hann á gistihús svo að hann gæti náð sér. Að lokum spurði Jesús: „Hver þessara þriggja finnst þér hafa reynst náungi mannsins sem ræningjarnir réðust á?“ Löglærði maðurinn neyddist til að svara: „Sá sem vann miskunnarverkið.“ – Lúkas 10:25–37.

14 Hvernig vitnar þessi dæmisaga um visku Jesú? Í hugum Gyðinga á þeim tíma náði hugtakið „náungi“ aðeins yfir þá sem héldu erfikenningar þeirra – alls ekki Samverja. (Jóhannes 4:9) Hefði Jesú tekist að brjóta niður þessa fordóma ef fórnarlambið í sögunni hefði verið Samverji en hinn hjálpfúsi verið Gyðingur? Í visku sinni lét Jesús Samverja annast Gyðing. Og taktu eftir spurningu Jesú í lok sögunnar. Með henni beinir hann athyglinni að því hver sé náungi hvers. Löglærði maðurinn hafði eiginlega spurt: ‚Hverjum ætti ég að sýna náungakærleika?‘ En Jesús spurði: „Hver þessara þriggja finnst þér hafa reynst náungi mannsins?“ Jesús beindi athyglinni að Samverjanum sem sýndi umhyggjuna, en ekki að særða manninum sem naut hennar. Sannur náungakærleikur felst í því að sýna öðrum kærleika óháð uppruna þeirra og þjóðerni. Jesús hefði tæplega getað sagt það með áhrifameiri hætti.

15 Það er engin furða að fólk skuli hafa undrast hvernig Jesús kenndi og laðast að honum. (Matteus 7:28, 29) Einu sinni var „mikill mannfjöldi“ með honum í heila þrjá daga og var jafnvel orðinn matarlaus! – Markús 8:1, 2.

Líferni hans

16. Hvernig sannaði Jesús „með verkum sínum“ að hann hafði visku Guðs að leiðarljósi?

16 Að síðustu endurspeglaði Jesús visku Jehóva með líferni sínu. Viska er raunhæf, hún virkar. „Hver er vitur og skynsamur á meðal ykkar?“ spyr lærisveinninn Jakob og svarar síðan: „Hann ætti að hegða sér vel og sýna þannig með verkum sínum að hann búi yfir … visku.“ (Jakobsbréfið 3:13) Jesús sannaði „með verkum sínum“ að hann hafði visku Guðs að leiðarljósi. Við skulum líta á dæmi sem sýna fram á góða dómgreind hans, bæði í samskiptum við aðra og eins í því hvernig hann lifði.

17. Hvað bendir til þess að Jesús hafi verið fullkomlega öfgalaus?

17 Hefurðu veitt því athygli að fólki hættir til að fara út í öfgar á ýmsum sviðum ef það hefur ekki góða dómgreind? Það þarf visku til að viðhalda jafnvægi í lífinu. Jesús hafði visku Guðs að leiðarljósi og varðveitti fullkomið jafnvægi. Hann lét andlegu málin ganga fyrir öðru og var óþreytandi við að boða fagnaðarboðskapinn. „Til þess er ég kominn,“ sagði hann. (Markús 1:38) Eins og við er að búast skiptu efnislegir hlutir ekki mestu máli fyrir hann og hann virðist hafa haft úr litlu að spila. (Matteus 8:20) En Jesús neitaði sér ekki um allt. Hann var glaðlyndur eins og faðir hans, „hinn hamingjusami Guð“, og stuðlaði að gleði annarra. (1. Tímóteusarbréf 1:11; 6:15) Þegar hann sótti brúðkaupsveislu, þar sem venja var að gleðjast við söng og tónlist, kom hann ekki til að spilla gleði annarra. Þegar vínið gekk til þurrðar breytti hann vatni í eðalvín, enda ‚gleður vínið hjarta mannsins‘. (Sálmur 104:15; Jóhannes 2:1–11) Jesús þáði oft matarboð og notaði tækifærið gjarnan til að kenna. – Lúkas 10:38–42; 14:1–6.

18. Hvernig sýndi Jesús fullkomna dómgreind í samskiptum við lærisveinana?

18 Jesús sýndi fullkomna dómgreind í samskiptum við fólk. Hann var glöggur á mannlegt eðli og raunsær í mati sínu á lærisveinunum. Hann vissi mætavel að þeir voru ekki fullkomnir en sá samt kosti þeirra. Hann vissi hvað bjó í þessum mönnum sem Jehóva hafði dregið til hans. (Jóhannes 6:44) Þrátt fyrir galla þeirra hafði Jesús trú á þeim og sýndi það með því að fela þeim mikla ábyrgð. Hann fól þeim að boða fagnaðarboðskapinn og treysti að þeir gætu gert því góð skil. (Matteus 28:19, 20) Postulasagan ber vitni um að þeir gerðu því dyggilega skil sem hann fól þeim. (Postulasagan 2:41, 42; 4:33; 5:27–32) Það var því greinilega viturlegt af Jesú að treysta þeim.

19. Hvernig sýndi Jesús að hann var „ljúfur í lund og lítillátur í hjarta“?

19 Biblían setur lítillæti og mildi í samband við visku eins og fram kom í 20. kafla. Jehóva er auðvitað besta fyrirmyndin. En hvað um Jesú? Það er ánægjulegt að sjá hve auðmjúkur og lítillátur hann var í samskiptum við lærisveina sína. Hann var fullkominn og var þeim því fremri á allan hátt. Samt leit hann aldrei niður á þá. Hann reyndi aldrei að vekja með þeim minnimáttarkennd. Hann tók tillit til þess að þeir höfðu sín takmörk og var þolinmóður við þá þegar þeim varð eitthvað á. (Markús 14:34–38; Jóhannes 16:12) Talar það ekki sínu máli að börnum skyldi meira að segja líða vel í návist hans? Þau löðuðust að honum, eflaust vegna þess að þau skynjuðu að hann var „ljúfur í lund og lítillátur í hjarta“. – Matteus 11:29; Markús 10:13–16.

20. Hvernig sýndi Jesús sanngirni í samskiptum við móður stúlku sem var haldin illum anda?

20 Jesús endurspeglaði lítillæti Guðs á annan hátt. Hann var sanngjarn og sveigjanlegur þegar við átti. Manstu til dæmis eftir konu sem sárbændi hann að lækna dóttur sína sem var mjög kvalin af illum anda? Konan var ekki Gyðingur og Jesús gaf til kynna á þrjá vegu að hann ætlaði ekki að liðsinna henni. Fyrst svaraði hann henni ekki, síðan sagði hann henni beint að hann væri ekki sendur til heiðingja heldur Gyðinga, og að síðustu brá hann upp líkingu til að benda henni vinsamlega á hið sama. En konan gaf sig ekki sem vitnaði um einstaka trú hennar. Hvernig brást Jesús við þessum óvenjulegu aðstæðum? Hann gerði einmitt það sem hann var nýbúinn að segja að hann ætlaði ekki að gera og læknaði dóttur konunnar. (Matteus 15:21–28) Var þetta ekki merki um einstakt lítillæti? Og við skulum hafa hugfast að lítillæti er frumskilyrði sannrar visku.

21. Af hverju ættum við að leggja okkur fram um að líkja eftir persónuleika Jesú, tali hans og breytni?

21 Við getum verið þakklát fyrir að guðspjöllin skuli greina frá orðum og athöfnum vitrasta manns sem lifað hefur. Og höfum hugfast að Jesús var fullkomin eftirmynd föður síns. Með því að líkja eftir persónuleika Jesú, tali hans og breytni erum við að tileinka okkur viskuna að ofan. Í næsta kafla skoðum við hvernig við getum nýtt okkur visku Guðs í lífinu.

a Smiðir á biblíutímanum smíðuðu hús, húsgögn og jarðyrkjuverkfæri. Jústínus píslarvottur, sem var uppi á annarri öld, skrifaði um Jesú: „Hann vann sem trésmiður meðal manna og smíðaði plóga og oktré.“

b Gríska sögnin, sem þýdd er „að hafa áhyggjur“, merkir ‚að vera annars hugar‘. Í Matteusi 6:25 er hún notuð um áhyggjublandinn ótta sem rænir manninn lífsgleðinni og á athygli hans alla þannig að honum finnst hann tvískiptur.

c Rannsóknir hafa reyndar sýnt að óhóflegar áhyggjur og streita geta aukið hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum og ótal öðrum hættulegum kvillum sem geta stytt ævina.