Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

22. KAFLI

Er „viskan sem kemur ofan að“ að verki í lífi þínu?

Er „viskan sem kemur ofan að“ að verki í lífi þínu?

1–3. (a) Hvernig sýndi Salómon einstaka visku þegar hann skar úr deilu tveggja kvenna? (b) Hvað lofar Jehóva að gefa okkur og hvaða spurningar vekur það?

 ÞETTA var erfitt mál. Tvær konur deildu um hvor þeirra ætti ákveðið barn. Þær bjuggu í sama húsi og höfðu báðar alið son með nokkurra daga millibili. Svo dó annað barnið og nú þóttust báðar konurnar eiga hitt sem eftir lifði. a Engin önnur vitni voru að því sem gerst hafði. Sennilega hafði málið verið tekið fyrir á lægra dómstigi án þess að tækist að skera úr því. Loks var það lagt fyrir Salómon, konung Ísraels. Gat hann dregið fram sannleikann í málinu?

2 Eftir að hafa hlustað á konurnar þrátta um stund lætur Salómon færa sér sverð og fyrirskipar að barnið skuli höggvið í tvennt og konunum fenginn sinn helmingurinn hvorri. Rétta móðirin sárbænir þá konung þegar í stað að gefa hinni konunni barnið, sem er henni svo kært, en hin konan krefst þess að barnið sé höggvið í tvennt. Nú veit Salómon hið sanna í málinu. Hann veit hve sterk móðurástin er og nýtir sér þekkingu sína til að útkljá deiluna. Við getum rétt ímyndað okkur hve móðurinni léttir þegar Salómon segir: „Hún er móðir þess,“ og fyrirskipar að henni skuli fengið barnið. – 1. Konungabók 3:16–27.

3 Hvílík viska! Fólk fylltist lotningu þegar það frétti hvernig Salómon hafði útkljáð þetta mál því að menn „skildu að Guð hafði gefið honum visku“. Já, viska Salómons var gjöf frá Guði. Jehóva hafði gefið honum „viturt og skynugt hjarta“. (1. Konungabók 3:12, 28) En hvað um okkur? Getum við líka fengið visku frá Guði? Já, því að Salómon var innblásið að skrifa að ‚Jehóva veiti visku‘. (Orðskviðirnir 2:6) Jehóva lofar að gefa þeim visku sem sækjast eftir henni í einlægni, en viska er hæfileikinn til að nota þekkingu sína, skilning og dómgreind. Hvernig getum við fengið viskuna að ofan og hvernig getum við notfært okkur hana í lífinu?

„Aflaðu þér visku“ – hvernig?

4–7. Hvað fernt þarf að gera til að afla sér visku?

4 Þurfum við að vera fluggáfuð eða hámenntuð til að fá viskuna frá Guði? Nei, Jehóva er fús til að gefa okkur hlutdeild í visku sinni óháð uppruna okkar og menntun. (1. Korintubréf 1:26–29) En við verðum að eiga frumkvæðið því að Biblían hvetur okkur til að ‚afla okkur visku‘. (Orðskviðirnir 4:7) Hvernig förum við að því?

5 Í fyrsta lagi þurfum við að óttast Guð. „Að óttast Jehóva er upphaf viskunnar [„fyrsta skrefið í áttina til viskunnar“, The New English Bible],“ segja Orðskviðirnir 9:10 (neðanmáls). Guðsótti er undirstaða sannrar visku. Hvers vegna? Eins og þú manst er viska fólgin í því að kunna að nota þekkingu. Að óttast Guð er ekki að skelfast frammi fyrir honum heldur að lúta honum í lotningu, virðingu og trausti. Slíkur ótti er heilnæmur og knýr fólk til verka. Hann vekur sterka löngun með manninum til að laga líf sitt að þekkingunni á vilja Guðs og vegum. Það er viturlegasta lífsstefnan vegna þess að fólki er alltaf fyrir bestu að fylgja mælikvarða Jehóva.

6 Í öðru lagi verðum við að vera auðmjúk og hógvær. Við getum ekki fengið visku Guðs nema við séum það. (Orðskviðirnir 11:2) Hver er ástæðan? Ef við erum auðmjúk og lítillát erum við tilbúin til að viðurkenna að við vitum ekki allt, að skoðanir okkar séu ekki alltaf réttar og að við þurfum að vita hvernig Jehóva lítur á málin. Jehóva „stendur gegn hrokafullum“ en er meira en fús til að gefa þeim visku sem eru auðmjúkir í hjarta. – Jakobsbréfið 4:6.

7 Í þriðja lagi þurfum við að kynna okkur ritað orð Guðs og rannsaka það vel. Viska Jehóva er opinberuð í orði hans. Til að afla okkur hennar þurfum við að leggja það á okkur að grafa eftir henni. (Orðskviðirnir 2:1–5) Í fjórða lagi þurfum við að biðja. Guð gefur okkur örlátlega af visku sinni ef við biðjum hann í einlægni. (Jakobsbréfið 1:5) Hann bænheyrir okkur ef við biðjum um hjálp heilags anda. Og andi hans auðveldar okkur að finna fjársjóðina í orði hans sem geta hjálpað okkur að leysa úr vandamálum, forðast hættur og taka viturlegar ákvarðanir. – Lúkas 11:13.

Við verðum að leggja það á okkur að grafa eftir visku Guðs til að hljóta hana.

8. Hvernig birtist viska Guðs ef við höfum tileinkað okkur hana?

8 Viska Jehóva er hagnýt eins og fram kom í 17. kafla. Ef við höfum aflað okkur hennar birtist hún í hegðun okkar og framferði. Lærisveinninn Jakob lýsti ávöxtunum af visku Guðs er hann skrifaði: „Viskan sem kemur ofan að er fyrst og fremst hrein, síðan friðsöm, sanngjörn, fús til að hlýða, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg og hræsnislaus.“ (Jakobsbréfið 3:17) Við fjöllum nú nánar um mismunandi hliðar á visku Guðs og skulum þá spyrja okkur hvort spekin að ofan sé að verki í lífi okkar.

„Hrein, síðan friðsöm“

9. Hvað merkir það að vera hreinn og hvers vegna er viðeigandi að hreinleikinn sé nefndur fyrstur af eiginleikum viskunnar?

9 „Fyrst og fremst hrein.“ Að vera hreinn merkir að vera tær og laus við óhreinindi, bæði hið ytra og innra. Biblían setur viskuna í samband við hjartað, en viskan að ofan kemst ekki inn í hjarta sem er óhreint af illum hugsunum, löngunum og hvötum. (Orðskviðirnir 2:10; Matteus 15:19, 20) Sé hjartað hins vegar hreint – að því marki sem mögulegt er hjá ófullkomnum mönnum – ‚forðumst við hið illa og gerum það sem er gott‘. (Sálmur 37:27; Orðskviðirnir 3:7) Er ekki viðeigandi að hreinleikinn skuli nefndur fyrstur af eiginleikum viskunnar? Jú, því að ef við erum ekki siðferðilega og andlega hrein getum við ekki sýnt hina eiginleika viskunnar að ofan.

10, 11. (a) Hvers vegna er mikilvægt að vera friðsamur? (b) Hvernig geturðu keppt eftir friði ef þú finnur á þér að þú hefur móðgað einhvern í söfnuðinum? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

10 „Síðan friðsöm.“ Viskan að ofan fær okkur til að sækjast eftir friði sem er hluti af ávexti anda Guðs. (Galatabréfið 5:22) Við reynum að spilla ekki „bandi friðarins“ sem sameinar fólk Jehóva. (Efesusbréfið 4:3) Og við gerum allt sem við getum til að koma á friði á nýjan leik ef honum er raskað. Hvers vegna er það mikilvægt? Biblían segir: „Lifið saman í friði. Guð kærleikans og friðarins verður þá með ykkur.“ (2. Korintubréf 13:11) Guð friðarins verður með okkur svo framarlega sem við erum friðsöm. Framkoma okkar við trúsystkini hefur bein áhrif á samband okkar við Jehóva. Hvernig getum við sýnt að við keppum eftir friði? Lítum á dæmi.

11 Hvað ættirðu að gera ef þú finnur á þér að þú hefur móðgað einhvern í söfnuðinum? Jesús sagði: „Ef þú ert að koma með fórn þína að altarinu og manst þá að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér skaltu því skilja fórnina eftir fyrir framan altarið. Farðu fyrst og sæstu við bróður þinn. Komdu síðan aftur og færðu fórnina.“ (Matteus 5:23, 24) Þú getur farið eftir þessu með því að fara til bróður þíns að eigin frumkvæði í þeim tilgangi að ‚sættast við hann‘. b Þú þarft að viðurkenna særðar tilfinningar hans. Reyndu ekki að gera lítið úr þeim. Ef þú ferð til hans í þeim tilgangi að koma á friði og viðhalda honum, þá er að öllum líkindum hægt að eyða misskilningi, biðjast afsökunar og fyrirgefa. Ef þú leggur lykkju á leið þína til að semja frið sýnirðu að þú hefur visku Guðs að leiðarljósi.

„Sanngjörn, fús til að hlýða“

12, 13. (a) Hvað merkir orðið sem þýtt er ‚sanngjarn‘ í Jakobsbréfinu 3:17? (b) Hvernig getum við sýnt að við séum sanngjörn?

12 „Sanngjörn.“ Hvað merkir það að vera sanngjarn? Fræðimenn benda á að gríska orðið í Jakobsbréfinu 3:17 sé vandþýtt. Orðið ber með sér þá hugmynd að vera sveigjanlegur, eða eftirgefanlegur. Algengt er að það sé þýtt „blíður“, „umburðarlyndur“ og „nærgætinn“. Hvernig getum við sýnt þennan þátt viskunnar að ofan í fari okkar?

13„Verið þekkt fyrir að vera sanngjörn,“ segir í Filippíbréfinu 4:5. Eins og þú sérð snýst málið ekki aðallega um það hvernig við sjáum okkur sjálf heldur hvernig aðrir sjá okkur, hvaða álit þeir hafa á okkur. Sanngjarn maður heimtar ekki alltaf að lagabókstafnum sé framfylgt eða að hann fái sínu framgengt. Hann er tilbúinn til að hlusta á aðra og fara að óskum þeirra þegar við á. Hann er líka nærgætinn í samskiptum við aðra en hvorki hastur né hvass í viðmóti. Það er mikilvægt fyrir alla kristna menn að gæta að þessu en sérstaklega fyrir öldunga safnaðarins. Mildi er aðlaðandi. Safnaðarmenn eiga auðveldara með að leita til öldunganna ef þeir eru mildir. (1. Þessaloníkubréf 2:7, 8) Við ættum öll að spyrja okkur hvort við höfum það orð á okkur að vera tillitssöm, sveigjanleg og mild.

14. Hvernig getum við sýnt að við séum „fús til að hlýða“?

14 „Fús til að hlýða.“ Gríska orðið, sem svo er þýtt, kemur hvergi annars staðar fyrir í Grísku ritningunum. Að sögn fræðimanns er orðið „oft notað um heraga“. Það gefur til kynna hugmyndina „undirgefinn“ og „auðvelt að sannfæra“. Sá sem fylgir viskunni að ofan fer fúslega eftir því sem Biblían segir. Hann er ekki þekktur fyrir að bíta eitthvað í sig og neita að taka mark á staðreyndum sem eru honum í óhag. Hann er fljótur að skipta um skoðun ef honum er bent á skýr, biblíuleg rök fyrir því að ákvörðun hans sé röng eða hann hafi rangt fyrir sér. Er það þessi mynd sem aðrir hafa af þér?

„Full miskunnar og góðra ávaxta“

15. Hvað er miskunn og hvers vegna er viðeigandi að ‚miskunn‘ skuli vera nefnd ásamt ‚góðum ávöxtum‘ í Jakobsbréfinu 3:17?

15 „Full miskunnar og góðra ávaxta.“ c Miskunn er mikilvægur þáttur viskunnar sem kemur ofan að því að viskan er sögð vera „full miskunnar“. Þú tekur eftir að miskunn er nefnd ásamt góðum ávöxtum. Þetta á vel við því að orðið miskunn, eins og það er notað í Biblíunni, lýsir oftast vakandi áhuga á öðrum, umhyggju sem gefur af sér ríkulega uppskeru í mynd góðra verka. Uppsláttarrit skilgreinir miskunn sem „meðaumkun með öðrum vegna báginda þeirra, og viðleitni til að gera eitthvað í málinu“. Viska Guðs er því ekki kuldaleg, harðbrjósta eða fræðileg heldur hlý, næm og hjartanleg. Hvernig getum við sýnt að við séum full miskunnar?

16, 17. (a) Hvað annað en kærleikurinn til Guðs er okkur hvöt til að boða fagnaðarboðskapinn, og hvers vegna? (b) Hvernig getum við sýnt að við séum full miskunnar?

16 Að segja öðrum frá fagnaðarboðskapnum um ríkið er ein mikilvæg leið. Af hvaða hvötum gerum við það? Fyrst og fremst af því að við elskum Guð. En við gerum það líka vegna miskunnar og umhyggju fyrir öðrum. (Matteus 22:37–39) Margt fólk er „hrjáð og hrakið eins og sauðir án hirðis“. (Matteus 9:36) „Fjárhirðar“ falstrúarbragðanna hafa vanrækt það og blindað með þeim afleiðingum að það þekkir ekki viturlegar ráðleggingar Biblíunnar og veit ekki af blessuninni sem Guðsríki veitir jarðarbúum innan tíðar. Þegar við veltum fyrir okkur andlegum þörfum fólks í kringum okkur knýr hjartað okkur til að gera allt sem við getum til að segja því frá fyrirætlun Jehóva og kærleika hans.

Við endurspeglum ‚viskuna sem kemur ofan að‘ með því að vera miskunnsöm og umhyggjusöm.

17 Á hvaða aðra vegu getum við sýnt að við séum full miskunnar? Þú manst eftir dæmisögu Jesú um Samverjann sem fann ferðamann við veginn, illa leikinn eftir árás ræningja. Samverjinn fann til með manninum og ‚vann miskunnarverk‘ með því að binda um sár hans og annast hann. (Lúkas 10:29–37) Sýnir þetta ekki að miskunn sé meðal annars fólgin í því að veita þeim hjálp í verki sem þarfnast hennar? Biblían talar um að „gera öllum gott … en þó sérstaklega trúsystkinum okkar“. (Galatabréfið 6:10) Veltum nokkrum möguleikum fyrir okkur. Aldraður trúbróðir þarf að fá far á safnaðarsamkomur og heim aftur. Ekkja í söfnuðinum þarf að fá aðstoð við að viðhalda húsinu. (Jakobsbréfið 1:27) Niðurdreginn boðberi þarf að heyra „uppbyggjandi orð“ sér til uppörvunar. (Orðskviðirnir 12:25) Með því að sýna miskunn með þessum hætti sönnum við að viskan að ofan er að verki í okkur.

„Óhlutdræg og hræsnislaus“

18. Hvað verðum við að reyna að uppræta úr hjörtum okkar ef við höfum viskuna að ofan að leiðarljósi, og hvers vegna?

18 „Óhlutdræg.“ Viska Guðs er hafin yfir kynþáttafordóma og þjóðernishroka. Ef við höfum hana að leiðarljósi kappkostum við að uppræta úr hjarta okkar sérhverja tilhneigingu til að mismuna fólki. (Jakobsbréfið 2:9) Við hyglum ekki fólki vegna menntunar þess, fjárhags eða stöðu í söfnuðinum, og við lítum ekki niður á eitt einasta trúsystkini okkar, þó að það sé fátækt eða lágt sett. Fyrst Jehóva hefur sýnt trúsystkinum okkar kærleika sinn ættum við svo sannarlega að álíta þau verðug kærleika okkar.

19, 20. (a) Hver er uppruni gríska orðsins sem þýtt er „hræsnari“? (b) Hvernig sýnum við „hræsnislausa bróðurást“ og hvers vegna er það mikilvægt?

19 „Hræsnislaus.“ Gríska orðið, sem þýtt er „hræsnari“, getur merkt „leikari sem leikur hlutverk“. Leikarar hjá Grikkjum og Rómverjum til forna báru stórar grímur á leiksýningum. Gríska orðið fyrir „hræsnara“ fékk því merkinguna að sýna uppgerð eða að villa á sér heimildir. Þessi þáttur í visku Guðs ætti bæði að hafa áhrif á framkomu okkar við trúsystkini og eins á tilfinningar okkar til þeirra.

20 Pétur postuli bendir á að ‚hræsnislaus bróðurást‘ sé sprottin af því að „hlýða sannleikanum“. (1. Pétursbréf 1:22) Bróðurástin má ekki vera uppgerð. Við setjum ekki upp grímu eða bregðum okkur í hlutverk til að blekkja aðra. Bróðurástin verður að vera innileg og ósvikin. Ef hún er það ávinnum við okkur traust trúsystkina okkar af því að þau vita að við erum það sem við sýnumst. Slík einlægni greiðir fyrir opinskáu og heiðarlegu sambandi milli trúsystkina og stuðlar að trausti í söfnuðinum.

„Varðveittu visku“

21, 22. (a) Hvers vegna mistókst Salómon að varðveita viskuna? (b) Hvernig getum við varðveitt viskuna og hvernig er það okkur til gagns?

21 Viskan er gjöf frá Jehóva sem við ættum að gæta vel. „Sonur minn … Varðveittu visku og skarpskyggni,“ sagði Salómon. (Orðskviðirnir 3:21) Því miður tókst Salómon ekki að gera það sjálfur. Hann varðveitti viskuna meðan hann var hlýðinn í hjarta. Um síðir fór hins vegar svo að erlendar konur hans, sem voru margar, sneru hjarta hans frá hreinni tilbeiðslu á Jehóva. (1. Konungabók 11:1–8) Afdrif Salómons eru áminning um að þekking er lítils virði sé hún ekki notuð rétt.

22 Hvernig getum við varðveitt viskuna? Við þurfum að lesa að staðaldri í Biblíunni og biblíutengdum ritum frá ‚hinum trúa og skynsama þjóni‘ og jafnframt að leggja okkur sem best fram við að fara eftir því sem við lærum. (Matteus 24:45) Við höfum ærna ástæðu til að fara eftir visku Guðs. Hún bætir lífið núna og gerir okkur kleift að ‚halda fast í vonina um hið sanna líf‘ í nýjum heimi Guðs. (1. Tímóteusarbréf 6:19) Síðast en ekki síst löðumst við að uppsprettu viskunnar, Jehóva Guði, með því að tileinka okkur viskuna að ofan.

a Fyrri Konungabók 3:16 segir að konurnar tvær hafi verið vændiskonur. Bókin Insight on the Scriptures segir: „Óvíst er að þær hafi verið vændiskonur í þeim skilningi að þær hafi selt sig. Hugsanlegt er að þær hafi gerst sekar um skírlífisbrot, og þær hafi verið Gyðingar eða, sem er vel líklegt, af erlendum uppruna.“ – Gefin út af Vottum Jehóva.

b Gríska sagnorðið, sem er þýtt ‚sættast‘, hefur verið skilgreint sem það „að breyta fjandskap í vináttu; að koma á sáttum; að endurheimta eðlilegt samband eða sátt og samlyndi“. Markmiðið er því að valda breytingu, að fjarlægja óvild úr hjarta hins móðgaða ef þess er kostur. – Rómverjabréfið 12:18.

c Í annarri biblíuþýðingu er notað orðalagið „full samúðar og góðra verka“. – Charles B. Williams. A Translation in the Language of the People.