Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

26. KAFLI

Guð sem er „fús til að fyrirgefa“

Guð sem er „fús til að fyrirgefa“

1–3. (a) Hvaða byrði hvíldi á sálmaskáldinu Davíð og hvað gat linað kvölina í hjarta hans? (b) Hvaða byrði getur hvílt á okkur þegar við syndgum en um hvað fullvissar Jehóva okkur?

 „SEKT mín hefur vaxið mér yfir höfuð, hún er eins og þung byrði sem ég get ekki borið. Ég er dofinn og sundurkraminn.“ (Sálmur 38:4, 8) Þannig orti sálmaskáldið Davíð. Hann vissi hve þung og þjakandi slæm samviska getur verið. En hann vissi líka hvað gat linað kvölina í hjarta hans. Hann gerði sér ljóst að Jehóva hatar að vísu syndina en hann hatar ekki syndara sem iðrast í einlægni og snýr baki við rangri stefnu sinni. Hann treysti því fullkomlega að Jehóva vildi miskunna iðrandi mönnum og sagði: „Þú, Jehóva, ert … fús til að fyrirgefa.“ – Sálmur 86:5.

2 Þegar við syndgum getur samviskubitið verið sárt og þjakandi. En iðrun og eftirsjá eru heilnæmar tilfinningar því að þær geta verið okkur hvatning til að gera það sem gera þarf til að bæta fyrir mistök okkar. Sektarkenndin getur samt orðið yfirþyrmandi. Hjartað getur dæmt okkur svo hart að okkur finnist Jehóva aldrei munu fyrirgefa okkur, hversu einlæg sem iðrun okkar er. Ef við ‚látum bugast af hryggð‘ gæti Satan reynt að fá okkur til að gefast upp og telja okkur trú um að við séum einskis virði í augum Jehóva og óhæf til að þjóna honum. – 2. Korintubréf 2:5–11.

3 Hugsar Jehóva þannig? Alls ekki, því að fyrirgefning er sterkur þáttur í kærleika hans. Hann fullvissar okkur um það í orði sínu að hann er fús til að fyrirgefa ef við sýnum sanna og einlæga iðrun. (Orðskviðirnir 28:13) Við skulum kanna hvers vegna og hvernig Jehóva fyrirgefur, til að fullvissa okkur um að fyrirgefning hans sé ekki utan seilingar.

Hvers vegna er Jehóva „fús til að fyrirgefa“?

4. Hvað þekkir Jehóva og hvaða tökum tekur hann okkur þar af leiðandi?

4 Jehóva þekkir takmörk okkar mætavel. „Hann veit vel hvernig við erum sköpuð, hann minnist þess að við erum mold,“ segir í Sálmi 103:14. Hann gleymir ekki að við erum gerð úr mold og erum veikleikum háð vegna ófullkomleikans. Þegar sagt er að hann viti „hvernig við erum sköpuð“ er á það minnt að Biblían líkir Jehóva við leirkerasmið og okkur við kerin sem hann mótar. (Jeremía 18:2–6) Leirkerasmiðurinn mikli fer mildum höndum um okkur því að við erum syndug og brothætt, og hann tekur tillit til þess hvernig við bregðumst við handleiðslu hans.

5. Hvernig lýsir Rómverjabréfið sterku taki syndarinnar?

5 Jehóva skilur hve máttug syndin er. Orð hans líkir henni við sterkt afl sem heldur manninum í heljargreipum. Hversu sterk eru tök syndarinnar eiginlega? Páll postuli lýsir því í Rómverjabréfinu: Við erum „á valdi syndarinnar“ eins og hermenn undir stjórn liðsforingja (Rómverjabréfið 3:9); hún hefur ‚ríkt‘ yfir mannkyninu eins og konungur (Rómverjabréfið 5:21); hún „býr“ í okkur (Rómverjabréfið 7:17, 20); „lögmál“ hennar, eða ‚lög‘, er stöðugt að verki í okkur og reynir að ráða stefnu okkar. (Rómverjabréfið 7:23, 25) Já, syndin hefur heljartak á föllnu holdi okkar. – Rómverjabréfið 7:21, 24.

6, 7. (a) Hvernig lítur Jehóva á þá sem leita miskunnar hans með iðrandi hjarta? (b) Af hverju megum við ekki syndga upp á náð Guðs?

6 Jehóva veit þess vegna að við getum ekki hlýtt honum fullkomlega, hversu heitt sem við þráum það. Hann fullvissar okkur hlýlega um að hann fyrirgefi okkur þegar við leitum miskunnar hans með iðrandi hjarta. Sálmur 51:17 segir: „Fórnir sem Guð kann að meta eru iðrunarfullur andi. Guð, þú hafnar ekki hjarta sem er brotið og kramið.“ Jehóva hafnar aldrei né vísar á bug hjarta sem er „brotið og kramið“ af sektarkennd.

7 En merkir þetta að við getum syndgað upp á náðina og afsakað okkur með því að við séum syndug að eðlisfari? Auðvitað ekki. Jehóva lætur ekki stjórnast af tilfinningum einum saman. Miskunn hans á sér takmörk. Hann fyrirgefur alls ekki þeim sem stunda synd af ásetningi og þrjósku og iðrast einskis. (Hebreabréfið 10:26) Hann er hins vegar fús til að fyrirgefa þegar hann sér iðrandi hjarta. Við skulum nú skoða nokkur dæmi um myndmál Biblíunnar þegar hún lýsir þessum frábæra þætti í kærleika Jehóva.

Hve alger er fyrirgefning Jehóva?

8. Hvað gerir Jehóva í reynd þegar hann fyrirgefur syndir okkar og hvaða traust ætti það að veita okkur?

8 Davíð sagði iðrunarfullur: „Loks játaði ég synd mína fyrir þér og faldi ekki sekt mína … Og þú fyrirgafst mér sekt mína og synd.“ (Sálmur 32:5) Sögnin „fyrirgafst“ er þýðing á hebresku sagnorði sem merkir að ‚lyfta upp‘ eða ‚bera‘. Hér táknar hún að taka burt „sekt, synd [eða] afbrot“. Það má orða það þannig að Jehóva hafi lyft upp syndum Davíðs og borið þær burt. Þetta hefur eflaust dregið úr sektarkenndinni sem hvíldi á Davíð. (Sálmur 32:3) Við getum líka treyst fullkomlega á Guð sem ber burt syndir þeirra er leita fyrirgefningar hans vegna trúar á lausnarfórn Jesú. – Matteus 20:28.

9. Hversu langt burt fer Jehóva með syndir okkar?

9 Davíð notar aðra sterka myndlíkingu til að lýsa fyrirgefningu Jehóva: „Eins langt og sólarupprásin er frá sólsetrinu, eins langt hefur hann fjarlægt afbrot okkar frá okkur.“ (Sálmur 103:12) Sólin rís í austri og sest í vestri. Hve langt er austrið frá vestrinu? Í vissum skilningi er austrið alltaf mesta hugsanlega fjarlægð frá vestrinu. Austrið og vestrið geta aldrei mæst. Fræðimaður segir þetta orðalag merkja „eins fjarlægt og hægt er, eins langt og hægt er að ímynda sér“. Innblásin orð Davíðs merkja að þegar Jehóva fyrirgefur fjarlægir hann syndir okkar og kemur þeim eins langt í burtu og við getum ímyndað okkur.

‚Syndir ykkar skulu verða hvítar sem snjór.‘

10. Hvers vegna ætti okkur ekki að finnast við bera bletti af syndum okkar það sem eftir er ævinnar, eftir að Jehóva hefur fyrirgefið þær?

10 Hefurðu einhvern tíma reynt að ná bletti úr ljósri flík? Þú reyndir þitt besta en bletturinn vildi ekki hverfa alveg. Sjáðu hvernig Jehóva lýsir fyrirgefningu sinni: „Þó að syndir ykkar séu skarlatsrauðar skulu þær verða hvítar sem snjór. Þótt þær séu skærrauðar verða þær hvítar eins og ull.“ (Jesaja 1:18) ‚Skarlatsrauður‘ lýsir sterkum, rauðum lit a og ‚skærrauði‘ liturinn var oft notaður til að lita fatnað. (Nahúm 2:3) Við getum aldrei afmáð blett syndarinnar af eigin rammleik. En Jehóva getur tekið syndir, sem eru skarlatsrauðar og skærrauðar, og gert þær hvítar sem snjó og sem ólitaða ull. Þegar Jehóva fyrirgefur syndir okkar þurfum við ekki að hafa á tilfinningunni að við séum blettuð af syndinni til æviloka.

11. Í hvaða skilningi kastar Jehóva syndum okkar aftur fyrir sig?

11 Hiskía orti hrífandi þakkarljóð eftir að hann læknaðist af banvænum sjúkdómi. Hann sagði við Jehóva: „Þú hefur kastað öllum syndum mínum aftur fyrir þig.“ (Jesaja 38:17) Hér er Jehóva lýst þannig að hann taki syndir iðrandi manns og kasti þeim aftur fyrir sig þar sem hann hvorki sér þær né gefur gaum að þeim framar. Uppsláttarrit segir að það megi orða hugmyndina þannig: „Þú hefur farið með [syndir mínar] eins og þær hafi aldrei átt sér stað.“ Er það ekki hughreystandi?

12. Hvernig gefur Míka spámaður í skyn að Jehóva afmái syndir okkar fyrir fullt og allt þegar hann fyrirgefur?

12 Í endurreisnarspádómi lýsir Míka spámaður þeirri sannfæringu sinni að Jehóva fyrirgefi iðrandi fólki sínu. Hann segir: „Hvaða guð er eins og þú? Þú … horfir fram hjá misgerðum þeirra sem eftir eru af fólki þínu … Þú kastar öllum syndum okkar í djúp hafsins.“ (Míka 7:18, 19) Hugsaðu þér hvað þessi orð þýddu fyrir fólk á biblíutímanum. Var nokkur leið að endurheimta það sem hent var „í djúp hafsins“? Orð Míka bera þannig með sér að Jehóva afmái syndir okkar fyrir fullt og allt þegar hann fyrirgefur.

13. Hvað merkja orð Jesú: „fyrirgefðu skuldir okkar“?

13 Jesús notaði samband skuldara og lánardrottna til að lýsa því hvernig Jehóva fyrirgefur. Hann líkti syndum við skuldir og hvatti okkur til að biðja: „Fyrirgefðu skuldir okkar.“ (Matteus 6:12; Lúkas 11:4) Við komumst í skuld við Jehóva þegar við syndgum. Uppsláttarrit segir að gríska sögnin, sem þýdd er ‚fyrirgefa‘, merki „að gefa eftir eða gefa upp skuld með því að krefjast ekki greiðslu“. Þegar Jehóva fyrirgefur er hann í vissum skilningi að fella niður skuldina sem annars yrði færð á okkar reikning. Iðrandi syndarar geta því látið huggast. Jehóva krefst aldrei greiðslu skuldar sem hann er búinn að fella niður! – Sálmur 32:1, 2.

14. Af hverju er líkingin dregin þegar talað er um að ‚afmá syndir‘?

14 Í Postulasögunni 3:19 er notuð önnur líking til að lýsa fyrirgefningu Jehóva: „Iðrist því og snúið við til að syndir ykkar verði afmáðar.“ Sögnin ‚að afmá‘ er þýðing grískrar sagnar sem getur merkt „að þurrka út … ógilda eða eyðileggja“. Að sögn sumra fræðimanna er líkingin dregin af því að stroka út skrift. Hvernig var það gert? Til forna var blek yfirleitt búið til úr blöndu af kolefni, gúmmíkvoðu og vatni. Hægt var að þurrka út skrift með rökum svampi áður en blekið þornaði. Hér er dregin upp falleg mynd af miskunn Jehóva. Þegar hann fyrirgefur syndir okkar er eins og hann taki svamp og þurrki þær út.

15. Hvað vill Jehóva að við vitum um sig?

15 Er ekki ljóst af þessum fjölbreytilegu líkingum að Jehóva vill sýna okkur fram á að hann sé virkilega reiðubúinn að fyrirgefa syndir okkar, svo framarlega sem hann sér að við iðrumst í einlægni? Við þurfum ekki að óttast að hann erfi þessar syndir við okkur í framtíðinni. Það er ljóst af öðru sem Biblían opinberar varðandi hina miklu miskunn Jehóva: Hann gleymir þegar hann fyrirgefur.

Jehóva vill að við vitum að hann er „fús til að fyrirgefa“.

„Ég mun … ekki framar minnast synda þeirra“

16, 17. Hvað á Biblían við þegar hún segir að Jehóva minnist ekki synda okkar? Skýrðu svarið.

16 Jehóva lofaði eftirfarandi um þá sem ættu aðild að nýja sáttmálanum: „Ég mun fyrirgefa afbrot þeirra og ekki framar minnast synda þeirra.“ (Jeremía 31:34) Merkir þetta að Jehóva geti alls ekki munað eftir syndunum eftir að hann fyrirgefur? Það getur tæplega verið rétt. Biblían segir frá syndum margra sem Jehóva fyrirgaf, til dæmis Davíðs. (2. Samúelsbók 11:1–17; 12:13) Augljóst er að Jehóva veit enn af syndunum sem þeir drýgðu. Það er sagt frá syndum þeirra okkur til gagns, og einnig frá iðrun þeirra og fyrirgefningu Guðs. (Rómverjabréfið 15:4) Hvað á Biblían þá við þegar hún segir að Jehóva minnist ekki framar synda þeirra sem hann fyrirgefur?

17 Hebreska sagnorðið, sem þýtt er „ekki framar minnast“, felur ekki aðeins í sér að muna liðna atburði. Samkvæmt orðabók merkir það „einnig að grípa til viðeigandi aðgerða“. (Theological Wordbook of the Old Testament) Að „minnast“ syndar merkir því í þessum skilningi að einnig sé gripið til aðgerða gegn syndurum. (Hósea 9:9) En þegar Guð segist „ekki framar minnast synda þeirra“ er hann að fullvissa okkur um að hann refsi ekki iðrandi syndurum einhvern tíma síðar fyrir syndir sem hann er búinn að fyrirgefa þeim. (Esekíel 18:21, 22) Jehóva gleymir í þeim skilningi að hann rifjar ekki upp syndir okkar aftur og aftur til að ásaka okkur eða refsa æ ofan í æ. Er ekki hughreystandi til þess að vita að Guð bæði fyrirgefur og gleymir?

Hvað um afleiðingarnar?

18. Hvers vegna hefur fyrirgefning ekki í för með sér að iðrandi syndari sleppi við allar afleiðingar rangrar breytni sinnar?

18 Sleppur syndarinn þá við allar afleiðingar rangrar breytni sinnar fyrst Jehóva er fús til að fyrirgefa? Nei, við getum ekki syndgað okkur að meinalausu. „Það sem maður sáir, það uppsker hann,“ skrifaði Páll. (Galatabréfið 6:7) Verk okkar geta haft vissar afleiðingar. En það merkir ekki að Jehóva kalli einhverja ógæfu yfir okkur eftir að hann hefur fyrirgefið okkur. Þegar kristinn maður lendir í erfiðleikum ætti hann ekki að ímynda sér að nú sé Jehóva kannski að refsa honum fyrir gamlar syndir. (Jakobsbréfið 1:13) Jehóva hlífir okkur hins vegar ekki við öllum afleiðingum rangra verka okkar. Hjónaskilnaður, óvelkomin þungun, samræðissjúkdómur eða missir trausts og virðingar – synd getur haft þessar dapurlegu en óhjákvæmilegu afleiðingar. Jehóva fyrirgaf Davíð syndir hans í tengslum við Batsebu og Úría en hlífði honum samt ekki við átakanlegum afleiðingum þeirra. – 2. Samúelsbók 12:9–12.

19–21. (a) Hvernig voru ákvæðin í 3. Mósebók 6:1–7 til góðs bæði fyrir fórnarlambið og syndarann? (b) Hvernig getum við glatt Jehóva eftir að hafa valdið öðrum tjóni eða sárindum með synd okkar?

19 Syndir okkar geta haft ýmsar aðrar afleiðingar, ekki síst ef þær hafa komið niður á öðrum. Tökum dæmi úr 3. Mósebók 6. kafla. Þar er að finna ákvæði í Móselögunum um mann sem drýgir alvarlega synd með því að ræna eigum meðbróður síns eða ná þeim af honum með ofríki eða svikum. Syndarinn neitar síðan sekt sinni og er jafnvel svo ósvífinn að sverja rangan eið. Þar stendur orð gegn orði. En síðan slær samviskan hinn seka og hann játar synd sína. Til að hljóta fyrirgefningu Guðs þarf hann að gera þrennt til viðbótar: skila því sem hann tók eða endurgreiða það, greiða fórnarlambinu fimmtung af andvirði þess í sekt og færa hrút að sektarfórn. Síðan segir í lögunum: „Presturinn á að friðþægja fyrir hann frammi fyrir Jehóva og honum verður fyrirgefið.“ – 3. Mósebók 6:1–7.

20 Þetta ákvæði vitnar vel um miskunn Guðs. Fórnarlambið fékk tjónið bætt og létti eflaust þegar hinn brotlegi játaði loks synd sína. Ákvæðið var einnig til góðs fyrir manninn sem fékk að lokum samviskubit og játaði sekt sína og bætti fyrir brotið. Ef hann hefði ekki gert það hefði Guð ekki fyrirgefið honum.

21 Þó að við séum ekki sett undir Móselögin gefa þau okkur verðmæta innsýn í það hvernig Jehóva hugsar, þar á meðal um fyrirgefningu. (Kólossubréfið 2:13, 14) Það gleður Guð ef við gerum það sem við getum til að bæta fyrir hið ranga eftir að hafa syndgað gegn öðrum og valdið þeim tjóni eða sárindum. (Matteus 5:23, 24) Þetta getur falist í því að viðurkenna syndina, játa sekt okkar og biðja jafnvel fórnarlambið fyrirgefningar. Síðan getum við beðið til Jehóva í trú á fórn Jesú og fengið vissu fyrir því að hann hafi fyrirgefið okkur. – Hebreabréfið 10:21, 22.

22. Hvað getur fylgt fyrirgefningu Jehóva?

22 Jehóva er eins og ástríkur faðir sem veitir stundum einhverja ögun samfara fyrirgefningunni. (Orðskviðirnir 3:11, 12) Iðrandi kristinn maður getur þurft að afsala sér því að þjóna sem öldungur, safnaðarþjónn eða boðberi í fullu starfi. Það getur verið sárt fyrir hann að missa um tíma þjónustuverkefni sem var honum kært. En slík ögun merkir ekki að Jehóva hafi ekki fyrirgefið. Höfum hugfast að ögun frá Jehóva er sönnun þess að hann elski okkur. Það er okkur fyrir bestu að taka við öguninni og læra af henni. – Hebreabréfið 12:5–11.

23. Af hverju ættum við aldrei að ímynda okkur að við séum svo langt leidd að miskunn Jehóva nái ekki til okkar og hvers vegna ættum við að líkja eftir fyrirgefningu hans?

23 Það er einstaklega uppörvandi til þess að vita að Guð er „fús til að fyrirgefa“. Þó að við höfum gert ýmis mistök ættum við aldrei að ímynda okkur að við séum svo langt leidd að miskunn Jehóva nái ekki til okkar. Við getum treyst að Jehóva fyrirgefi okkur ef við iðrumst í einlægni, gerum ráðstafanir til að bæta fyrir hið ranga og biðjum innilega um fyrirgefningu í trú á úthellt blóð Jesú. (1. Jóhannesarbréf 1:9) Við skulum líkja eftir fyrirgefningu hans í samskiptum okkar hvert við annað. Fyrst Jehóva, sem syndgar ekki, fyrirgefur okkur fúslega ættum við, sem erum syndug, að gera okkar besta til að fyrirgefa hvert öðru.

a Fræðimaður segir að skarlat hafi verið „litekta. Hvorki dögg, regn, þvottur né langvinn notkun vann á litnum.“