Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

29. KAFLI

‚Að kynnast kærleika Krists‘

‚Að kynnast kærleika Krists‘

1–3. (a) Hvers vegna langaði Jesú til að líkjast föður sínum? (b) Hvaða þætti í kærleika Jesú ætlum við að skoða?

 HEFURÐU séð lítinn dreng reyna að líkja eftir pabba sínum? Ef til vill reyndi sá stutti að herma eftir göngulagi hans, tala eins og hann eða bera sig eins að. Með tímanum drekkur drengurinn kannski í sig siðferðisgildi og andleg sjónarmið pabba síns. Já, ást og aðdáun sonarins er slík að hann langar til að líkjast pabba.

2 Hvað um samband Jesú og föður hans á himnum? „Ég elska föðurinn,“ sagði Jesús einu sinni. (Jóhannes 14:31) Enginn getur elskað Jehóva heitar en sonurinn sem var með honum löngu áður en nokkur önnur vera varð til. Svo sterk var ást sonarins að hann langaði til að líkjast föður sínum. – Jóhannes 14:9.

3 Fyrr í þessari bók var rætt um það hve fullkomlega Jesús endurspeglaði mátt Jehóva, réttlæti og visku. En hvernig endurspeglaði hann kærleika föður síns? Við skulum virða fyrir okkur hvernig kærleikur Jesú birtist með þrennum hætti – í fórnfýsi hans, innilegri samúð og löngun til að fyrirgefa.

„Enginn á meiri kærleika“

4. Með hverju vann Jesús mesta og fórnfúsasta kærleiksverk sem maður hefur unnið?

4 Jesús er afbragðsdæmi um fórnfúsan kærleika. Fórnfýsi er það að taka þarfir og hag annarra fram yfir sinn eigin. Hvernig sýndi Jesús slíkan kærleika? Hann sagði sjálfur: „Enginn á meiri kærleika en sá sem leggur lífið í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:13) Jesús gaf fullkomið líf sitt fúslega fyrir okkur. Það var mesta kærleiksverk sem nokkur maður hefur unnið. En Jesús sýndi líka fórnfúsan kærleika með ýmsum öðrum hætti.

5. Hvers vegna var það kærleiksrík fórn fyrir einkason Guðs að yfirgefa himnana?

5 Einkasonur Guðs var í óviðjafnanlegri og hárri stöðu á himnum. Hann átti afar náið samband við Jehóva og fjölda annarra andavera. En þrátt fyrir þessa sérstöðu ‚afsalaði hann sér öllu og varð eins og þræll, eins og hver annar maður‘. (Filippíbréfið 2:7) Hann kom fúslega til jarðar til að búa meðal syndugra manna í heimi sem var „á valdi hins vonda“. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Var það ekki kærleiksrík fórn af hálfu sonar Guðs?

6, 7. (a) Hvernig sýndi Jesús óeigingjarnan kærleika meðan hann þjónaði á jörðinni? (b) Frá hvaða hjartnæma dæmi um óeigingjarnan kærleika er sagt í Jóhannesi 19:25–27?

6 Jesús sýndi fórnfúsan kærleika á ýmsa vegu meðan hann þjónaði hér á jörð. Hann var fullkomlega óeigingjarn. Svo upptekinn var hann af þjónustu sinni að hann fórnaði eðlilegum þægindum sem menn eru vanir að veita sér. „Refir eiga greni og fuglar himins hreiður,“ sagði hann, „en Mannssonurinn á hvergi stað til að halla höfði sínu.“ (Matteus 8:20) Hann var góður smiður og hefði getað gefið sér tíma til að byggja sér þægilegt hús eða til að smíða vönduð húsgögn sem hann hefði getað selt til að eiga handbæra peninga. En Jesús notaði ekki hæfileika sína til að afla sér efnislegra hluta.

7 Í Jóhannesi 19:25–27 er sagt frá hjartnæmu dæmi um fórnfúsan kærleika Jesú. Þú getur rétt ímyndað þér hve margt hlýtur að hafa hvílt á huga hans og hjarta síðustu klukkustundirnar áður en hann dó. Meðan hann kvaldist á staurnum var hann að hugsa um lærisveina sína, boðunina og ráðvendni sína. Honum var sérstaklega hugleikið hvaða ljósi ráðvendni hans myndi varpa á nafn föðurins. Í rauninni hvíldi öll framtíð mannkyns á herðum hans! En fáeinum andartökum áður en hann dó sýndi hann einnig umhyggju sína fyrir Maríu móður sinni sem var þá orðin ekkja, að því er best verður séð. Hann bað Jóhannes postula að annast hana sem væri hún móðir hans sjálfs, og Jóhannes tók hana inn á heimili sitt eftir það. Þannig sá Jesús móður sinni borgið bæði líkamlega og andlega. Þetta er fagurt dæmi um óeigingjarnan kærleika.

„Hann kenndi í brjósti um fólkið“

8. Hvað merkir gríska orðið sem Biblían notar til að lýsa samúð Jesú?

8 Jesús var samúðarfullur líkt og faðir hans. Biblían dregur upp þá mynd af Jesú að hann hafi lagt sig sérstaklega fram um að hjálpa þeim sem áttu bágt. Biblían lýsir samúð Jesú með grísku orði sem þýtt er ‚að kenna í brjósti um‘. Fræðimaður segir: „Það lýsir … kennd sem snertir innstu tilfinningar mannsins. Þetta er sterkasta gríska orðið sem notað er um samúð.“ Lítum á nokkur dæmi þar sem Jesús fann til sterkrar samúðar sem knúði hann til verka.

9, 10. (a) Af hverju vildu Jesús og postularnir fara á óbyggðan stað? (b) Hvernig brást Jesús við þegar mannfjöldinn kom í veg fyrir að þeir gætu verið einir og hvers vegna?

9 Hann vildi sinna andlegum þörfum annarra. Frásagan í Markúsi 6:30–34 sýnir fram á hvað það var, öðru fremur, sem vakti samúð Jesú. Sjáðu aðstæðurnar fyrir þér. Postularnir voru nýkomnir úr langri boðunarferð. Þeir komu til Jesú og sögðu honum fullir eldmóðs og ákafa frá því sem þeir höfðu séð og heyrt. En mikill mannfjöldi safnaðist kringum Jesú og postulana svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast. Jesús var athugull eins og venjulega og sá að postularnir voru þreyttir. „Komið með mér á óbyggðan stað þar sem við getum verið einir og þið getið hvílt ykkur aðeins,“ sagði hann við þá. Þeir stigu á bát og sigldu þvert yfir norðurenda Galíleuvatns í átt að friðsælum stað. En mannfjöldinn sá þá fara og það spurðist út hvert þeir hefðu farið. Allur hópurinn hraðaði sér meðfram norðurenda vatnsins og var kominn á staðinn á undan bátnum!

10 Var Jesús gramur yfir því að fá ekki að vera í friði? Alls ekki. Hann var snortinn í hjarta sér af því að sjá þessar þúsundir manna sem biðu hans. Markús skrifar: „Þegar hann steig á land sá hann mikinn mannfjölda. Hann kenndi í brjósti um fólkið því að það var eins og sauðir án hirðis og hann fór að kenna því margt.“ Í augum Jesú voru þetta einstaklingar sem höfðu andlegar þarfir. Þeir voru eins og ráðvilltir sauðir sem höfðu engan hirði til að leiða sig eða vernda. Jesús vissi að trúarleiðtogarnir, sem áttu að vera umhyggjusamir hirðar, voru kaldlyndir og vanræktu almenning. (Jóhannes 7:47–49) Hann kenndi í brjósti um fólkið og tók því til við að fræða það „um ríki Guðs“. (Lúkas 9:11) Þú tekur eftir að Jesús fann til með fólki áður en hann sá viðbrögð þess við því sem hann kenndi. Samúð hans og umhyggja kviknaði ekki eftir að hann hafði kennt fólkinu heldur var hún ástæðan fyrir því að hann kenndi.

‚Hann rétti út höndina og snerti hann.‘

11, 12. (a) Hvernig var litið á holdsveika á biblíutímanum en hvernig brást Jesús við þegar maður „altekinn holdsveiki“ kom til hans? (b) Hvaða áhrif kann snerting Jesú að hafa haft á holdsveika manninn og hvernig má sjá það af frásögu læknis nokkurs?

11 Hann vildi lina þjáningar annarra. Fólk, haldið alls konar sjúkdómum, skynjaði samúð Jesú og laðaðist að honum. Þetta sýndi sig mjög greinilega þegar maður „altekinn holdsveiki“ kom til hans einhverju sinni þegar mikill mannfjöldi var í fylgd með honum. (Lúkas 5:12) Á biblíutímanum voru holdsveikir settir í sóttkví til að þeir smituðu ekki aðra. (4. Mósebók 5:1–4) Þegar tímar liðu ýttu rabbínaleiðtogar undir miskunnarleysi gagnvart holdsveikum og settu þeim íþyngjandi reglur. a En taktu eftir hvernig Jesús brást við þegar ‚holdsveikur maður kom til hans, féll á kné og sárbændi hann: „Þú getur hreinsað mig ef þú bara vilt!“‘ Jesús „kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snerti hann og sagði við hann: ‚Ég vil! Vertu hreinn.‘ Samstundis hvarf holdsveikin af honum og hann varð hreinn.“ (Markús 1:40–42) Jesús vissi að lögum samkvæmt mátti holdsveikur maður alls ekki vera í fjölmenni. En í stað þess að senda hann burt kenndi Jesús svo í brjósti um hann að hann gerði það sem menn hefðu talið óhugsandi. Hann snerti manninn!

12 Geturðu ímyndað þér hvað þessi snerting þýddi fyrir holdsveika manninn? Lýsum því með dæmi. Paul Brand, læknir og sérfræðingur í holdsveiki, segir frá holdsveikum manni á Indlandi sem hann annaðist. Eftir að hafa skoðað manninn lagði hann hönd sína á öxl hans og útskýrði fyrir honum með aðstoð túlks hvernig læknismeðferð hann myndi fá. Skyndilega brast hinn holdsveiki í grát. „Sagði ég eitthvað rangt?“ spurði læknirinn. Túlkurinn spurði unga manninn á móðurmáli hans og svaraði svo: „Nei, læknir. Hann segist gráta vegna þess að þú tókst um öxl hans. Þetta er í fyrsta sinn í mörg ár sem nokkur maður hefur snert hann.“ Snerting Jesú hafði enn meiri þýðingu fyrir holdsveika manninn sem kom til hans, því að eftir þessa einu snertingu hvarf sjúkdómurinn sem olli því að honum hafði verið útskúfað úr mannlegu samfélagi!

13, 14. (a) Hverju mætti Jesús í útjaðri Nain og af hverju voru aðstæður einstaklega sorglegar? (b) Hvað gerði Jesús fyrir ekkjuna í Nain?

13 Hann vildi sefa sorg annarra. Jesús var djúpt snortinn þegar aðrir syrgðu. Lítum á frásöguna í Lúkasi 7:11–15 sem dæmi. Þjónusta Jesú var um það bil hálfnuð þegar þetta gerðist, og hann var staddur í útjaðri borgarinnar Nain í Galíleu. Hann var að nálgast borgarhliðið þegar hann mætti líkfylgd. Þarna hafði mikill harmleikur átt sér stað. Ungur maður var dáinn, einkasonur ekkju nokkurrar. Hún hafði staðið í svipuðum sporum einu sinni áður, þegar hún missti manninn sinn. En nú var það sonur hennar sem var borinn til grafar. Kannski átti hún engan annan að sem gat séð fyrir henni. Vera má að í líkfylgdinni hafi verið syrgjendur sem fóru með kveinstafi og hljóðfæraleikarar sem léku sorgarlög. (Jeremía 9:17, 18; Matteus 9:23) En Jesús festi augun á hinni harmþrungnu móður sem gekk eflaust næst börunum sem lík sonarins lá á.

14 Jesús ‚kenndi í brjósti um‘ hina sorgmæddu móður og sagði í hughreystandi tón: „Gráttu ekki.“ Óboðinn gekk hann að líkbörunum og snerti þær. Þeir sem báru námu staðar og kannski líkfylgdin öll. Þá sagði Jesús hárri rödd: „Ungi maður, ég segi þér: Rístu upp!“ Hvað gerðist svo? „Hinn látni settist þá upp og fór að tala,“ rétt eins og hann hefði verið vakinn af djúpum svefni. Síðan kemur hjartnæmasta setningin: „Og Jesús gaf hann móður hans.“

15. (a) Hvernig lýsa frásögurnar af Jesú sambandinu milli samúðar og verka? (b) Hvernig getum við líkt eftir þessum þætti í fari Jesú?

15 Hvað lærum við af þessum frásögum? Í öllum tilfellum birtist samúðin í verki. Jesús gat ekki horft upp á neyð annarra án þess að kenna í brjósti um þá, og hann gat ekki kennt í brjósti um aðra án þess að aðhafast eitthvað. Hvernig getum við líkt eftir honum? Þar sem við erum kristin er okkur skylt að boða fagnaðarboðskapinn og gera fólk að lærisveinum. Hvötin að baki því er fyrst og fremst kærleikur til Guðs. En höfum samt hugfast að boðunin byggist einnig á samúð. Þegar við kennum í brjósti um fólk eins og Jesús gerði, þá knýr hjartað okkur til að gera allt sem við getum til að segja því frá fagnaðarboðskapnum. (Matteus 22:37–39) Og hvað um samúð í garð trúsystkina sem eru þjáð eða sorgmædd? Við getum ekki unnið kraftaverk og læknað sjúkdóma eða reist upp látna. Við getum hins vegar látið samúðina birtast í verki með því að tjá þeim umhyggju okkar eða veita þeim viðeigandi aðstoð af einhverju tagi. – Efesusbréfið 4:32.

„Faðir, fyrirgefðu þeim“

16. Hvernig sýndi Jesús, jafnvel á kvalastaurnum, að hann var fús til að fyrirgefa?

16 Jesús endurspeglaði kærleika föður síns fullkomlega með öðrum mikilvægum hætti. Hann var „fús til að fyrirgefa“. (Sálmur 86:5) Þetta kom jafnvel skýrt fram þegar hann varð að deyja smánarlegum dauða. Um hvað talaði Jesús, negldur á höndum og fótum á aftökustaur? Ákallaði hann Jehóva og bað hann að refsa þeim sem voru að taka hann af lífi? Nei, einhver síðustu orð hans voru: „Faðir, fyrirgefðu þeim því að þeir vita ekki hvað þeir eru að gera.“ – Lúkas 23:34. b

17–19. Hvernig sýndi Jesús að hann fyrirgaf Pétri postula að hafa afneitað honum þrisvar?

17 Líklega þykir okkur þó enn hjartnæmara að sjá hvernig Jesús fyrirgaf Pétri postula. Það leikur enginn vafi á því að Pétri þótti ákaflega vænt um Jesú. Hinn 14. nísan, síðasta kvöldið sem Jesús var á lífi, sagði Pétur við hann: „Drottinn, ég er tilbúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“ En aðeins fáeinum klukkustundum síðar þvertók Pétur þrívegis fyrir að hann þekkti Jesú! Biblían segir hvað gerðist þegar Pétur afneitaði honum í þriðja skiptið: „Drottinn sneri sér þá við og horfði beint á Pétur.“ Pétur var miður sín yfir þessari alvarlegu synd, „gekk út og grét beisklega“. Þegar Jesús dó, síðar sama dag, er ekki ólíklegt að postulinn hafi spurt sig að því hvort Drottinn hefði fyrirgefið sér. – Lúkas 22:33, 61, 62.

18 Hann þurfti ekki að bíða svarsins lengi. Jesús var reistur upp að morgni 16. nísan og heimsótti Pétur sama dag, að því er best verður séð. (Lúkas 24:34; 1. Korintubréf 15:4–8) Hvers vegna sýndi Jesús postulanum, sem hafði afneitað honum svo kröftuglega, þessa athygli? Kannski vildi hann fullvissa hinn iðrandi postula um að Drottinn hans elskaði hann enn og mæti hann mikils. En Jesús gerði meira en það til að uppörva Pétur.

19 Nokkru síðar birtist Jesús lærisveinunum við Galíleuvatn. Þessu sinni spurði hann Pétur (sem hafði þrisvar afneitað Drottni sínum) þrisvar hvort hann elskaði hann. Í þriðja skiptið svaraði Pétur: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að mér þykir ákaflega vænt um þig.“ Jesús gat lesið hjörtu mannanna og vissi mætavel að Pétur elskaði hann. Engu að síður gaf hann honum tækifæri til að játa kærleika sinn. Hann fól Pétri meira að segja að fóðra lömb sín og gæta þeirra. (Jóhannes 21:15–17) Pétur hafði fengið það verkefni að prédika. (Lúkas 5:10) En núna sýndi Jesús honum það einstaka traust að fela honum enn meiri ábyrgð – þá að annast væntanlega fylgjendur sína. Skömmu seinna fékk hann Pétri áberandi hlutverk meðal lærisveinanna. (Postulasagan 2:1–41) Það hlýtur að hafa verið mikill léttir fyrir Pétur að vita að Jesús hafði fyrirgefið honum og treysti honum enn.

Hefur þú „kynnst kærleika Krists“?

20, 21. Hvernig getum við „kynnst kærleika Krists“ til fullnustu?

20 Orð Jehóva lýsir kærleika Krists mjög svo fagurlega. En hvernig eigum við að bregðast við kærleika hans? Biblían hvetur okkur til að ‚kynnast kærleika Krists sem er hafinn yfir þekkinguna‘. (Efesusbréfið 3:19) Eins og við höfum séð segja guðspjöllin okkur margt um kærleika Jesú. En til að ‚kynnast kærleika Krists‘ til fullnustu þarf meira en að læra hvað Biblían segir um ævi hans og þjónustu.

21 Gríska orðið, sem hér er þýtt ‚kynnast‘, merkir að þekkja „í reynd, af eigin raun“. Þegar við sýnum kærleika á sama hátt og Jesús – gefum öðrum fúslega af sjálfum okkur, sýnum þeim samúð og reynum að uppfylla þarfir þeirra, og fyrirgefum þeim af heilu hjarta – þá skiljum við tilfinningar hans í alvöru. Það er þannig sem við ‚kynnumst kærleika Krists sem er hafinn yfir þekkinguna‘. Og gleymum aldrei að því meir sem við líkjumst Kristi, þeim mun meira nálgumst við Jehóva, Guð kærleikans, sem Jesús líkti svo fullkomlega eftir.

a Samkvæmt reglum rabbína var skylt að halda sig í minnst fjögurra álna (um 1,8 metra) fjarlægð frá holdsveikum manni. Í vindi varð hinn holdsveiki hins vegar að halda sig í að minnsta kosti 100 álna (45 metra) fjarlægð. Mídras rabba segir frá rabbína sem faldi sig fyrir holdsveikum, og frá öðrum sem kastaði grjóti að holdsveikum til að halda þeim frá sér. Holdsveikir þekktu því sársaukann sem fylgdi því að vera hafnað, vera fyrirlitnir og óvelkomnir.

b Fyrri hluta Lúkasar 23:34 vantar í sum forn handrit. En orðin er að finna í mörgum áreiðanlegum handritum og standa því í mörgum þýðingum Biblíunnar, þar á meðal Nýheimsþýðingunni. Jesús átti líklega við rómversku hermennina sem líflétu hann. Þeir höfðu enga hugmynd um hver Jesús var og vissu þar af leiðandi ekki hvað þeir voru að gera. Ef til vill hafði hann líka í huga Gyðinga sem vildu láta taka hann af lífi en myndu seinna taka trú á hann. (Postulasagan 2:36–38) Trúarleiðtogarnir, sem hvöttu til aftökunnar, voru miklu sekari því að þeir gerðu það vitandi vits og af hreinni illmennsku. Mörgum þeirra var engrar fyrirgefningar auðið. – Jóhannes 11:45–53.