Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

31. KAFLI

‚Nálgastu Guð og þá mun hann nálgast þig‘

‚Nálgastu Guð og þá mun hann nálgast þig‘

1–3. (a) Hvað getum við lært um mannlegt eðli af samspili foreldra og barns? (b) Hvað gerist eðlilega þegar okkur er sýnd ást og hvaða mikilvægu spurningar getum við spurt okkur?

 FORELDRUM finnst yndislegt að sjá ungbarnið sitt brosa. Þau lúta niður að barninu, hjala við það og brosa breitt. Og viðbrögð barnsins láta ekki á sér standa – varirnar viprast, spékoppar myndast í kinnunum og svo breiðist brosið yfir andlitið. Á sinn hátt virðist þetta bros lýsa ástinni sem er að kvikna í hjarta barnsins – viðbrögðum þess við ást foreldranna.

2 Bros barnsins minnir okkur á mikilvægan þátt í mannlegu eðli. Það er í eðli okkar að endurgjalda ást með ást. Við erum einfaldlega þannig úr garði gerð. (Sálmur 22:9) Eftir því sem við stækkum þroskast hæfnin til að endurgjalda ást annarra. Þú manst kannski hvernig foreldrar þínir, ættingjar eða vinir sýndu þér ást sína meðan þú varst barn. Hlý tilfinning festi rætur í hjarta þér, kennd sem dafnaði og blómgaðist og birtist svo í verki. Þú svaraðir ástinni með því að elska á móti. Er samband þitt við Jehóva Guð að þroskast á svipaðan hátt?

3 „Við elskum því að hann elskaði okkur að fyrra bragði,“ segir Biblían. (1. Jóhannesarbréf 4:19) Í fyrsta til þriðja hluta þessarar bókar var minnt á það að Jehóva Guð hefur sýnt mátt sinn, réttlæti og visku á kærleiksríkan hátt þér til góðs. Og í fjórða hluta kom fram að hann hefur sýnt mannkyninu – og þér persónulega – kærleika sinn á einstakan hátt. En nú vaknar spurning. Að vissu leyti er þetta mikilvægasta spurningin sem þú getur spurt þig. Hún er þessi: Hvernig ætla ég að bregðast við kærleika Jehóva?

Hvað merkir það að elska Guð?

4. Hvaða ranga skilning virðast margir hafa á því hvað það sé að elska Guð?

4 Jehóva, höfundur kærleikans, veit mætavel að kærleikurinn býr yfir óhemjusterku afli til að laða fram hið besta í fari annarra. Þrátt fyrir þrálátan uppreisnarhug ótrúrra manna hefur hann alltaf treyst því að kærleikur hans nái að snerta suma. Og hann hefur snortið milljónir manna. En því miður hafa trúarbrögð þessa spillta heims ruglað fólk svo að margir vita ekki hvað það er að elska Guð. Þeir eru óteljandi sem segjast elska Guð en virðast halda að það sé nóg að tjá þessa ást með orðum. Og það er kannski þannig sem kærleikurinn til Guðs birtist í byrjun, rétt eins og ást barnsins á foreldrunum byrjar með brosinu. En hjá fullorðnu fólki er ástin meira en þetta.

5. Hvernig skýrir Biblían hvað það merkir að elska Guð og af hverju ætti það að höfða til okkar?

5 Jehóva skýrir fyrir okkur hvað það merkir að elska hann. Orð hans segir: „Að elska Guð felur í sér að halda boðorð hans.“ Kærleikurinn til Guðs þarf því að birtast í verki. Mörgum geðjast reyndar miður að tilhugsuninni um að hlýða. En versið bætir við: „Og boðorð [Guðs] eru ekki þung.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Lög Jehóva og meginreglur eru gerð okkur til góðs en ekki til þyngsla. (Jesaja 48:17, 18) Orð hans er sneisafullt af meginreglum sem hjálpa okkur að nálgast hann. Lítum á þrjár hliðar á sambandi okkar við Guð. Þetta eru samskipti, tilbeiðsla og það að líkja eftir honum.

Samskipti við Jehóva

6–8. (a) Hvernig getum við hlustað á Jehóva? (b) Hvernig getum við gert Biblíuna lifandi þegar við lesum í henni?

6 Fyrsti kaflinn hófst með spurningunni: „Geturðu ímyndað þér hvernig það væri að eiga samtal við Guð?“ Bent var á að þetta væri ekki fráleit hugmynd. Segja má að Móse hafi átt samtal við Guð. Hvað um okkur? Jehóva sendir ekki engla sína nú á tímum til að ræða við mennina. Hins vegar hefur hann afbragðsleiðir til að eiga samskipti við okkur. Hvernig getum við hlustað á hann?

7 „Öll ritningin er innblásin af Guði“ þannig að við hlustum á Guð með því að lesa orð hans, Biblíuna. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Sálmaritarinn hvatti því þjóna Jehóva til að lesa „dag og nótt“ í orði hans. (Sálmur 1:1, 2) Þetta kostar töluverða vinnu en það er þess virði. Eins og bent var á í 18. kafla er Biblían eins og kærkomið bréf frá föður okkar á himnum. Við ættum því ekki að líta á það sem hversdagslegt vanaverk að lesa í Biblíunni heldur þurfum við að gæða hana lífi þegar við lesum. Hvernig er það hægt?

8 Sjáðu fyrir þér atburðina sem þú lest um. Reyndu að gera þér mynd í huganum af persónum Biblíunnar. Glöggvaðu þig á uppruna þeirra, aðstæðum og hvötum. Hugsaðu síðan vel um það sem þú lest og spyrðu spurninga eins og: Hvað læri ég um Jehóva af þessari frásögu? Hvaða eiginleika hans sé ég að verki? Hvaða meginreglu vill hann að ég læri og hvernig get ég nýtt mér hana? Lestu, hugleiddu og heimfærðu. Þá verður orð Guðs lifandi fyrir þér. – Sálmur 77:12; Jakobsbréfið 1:23–25.

9. Hver er „hinn trúi og skynsami þjónn“ og hvers vegna er mikilvægt að hlusta með athygli á hann?

9 Jehóva talar líka til okkar fyrir milligöngu ‚hins trúa og skynsama þjóns‘. Eins og Jesús sagði fyrir hefur fámennum hópi andasmurðra karlmanna verið falið það verkefni að útbýta andlegum „mat á réttum tíma“ núna á síðustu dögum. (Matteus 24:45–47) Við erum að þiggja andlega næringu hjá þessum þjóni þegar við sækjum safnaðarsamkomur og mót og þegar við lesum rit sem eru samin til að miðla nákvæmri biblíuþekkingu. Þar sem þessi hópur er þjónn Krists ættum við að taka til okkar orð Jesú: „Gætið … að hvernig þið hlustið.“ (Lúkas 8:18) Við hlustum með athygli af því að við gerum okkur grein fyrir því að trúi þjónninn er ein af leiðum Jehóva til að eiga samskipti við okkur.

10–12. (a) Hvers vegna er bænin óviðjafnanleg gjöf frá Jehóva? (b) Hvernig getum við beðið þannig að Jehóva geðjist bænir okkar og hvers vegna megum við treysta að hann kunni að meta þær?

10 En hvaða möguleika eigum við á því að segja Jehóva hvað okkur liggur á hjarta? Getum við talað við hann? Tilhugsunin vekur hálfpartinn óttablandna lotningu með okkur. Hvaða möguleika heldurðu að þú ættir á því að fá áheyrn hjá voldugasta ráðamanni þjóðarinnar til að viðra einhver persónuleg hugðarefni? Í sumum löndum væri hreinlega hættulegt að reyna það! Á dögum Esterar og Mordekaís var hægt að lífláta fólk sem reyndi að ná tali af persneska einvaldinum óboðið. (Esterarbók 4:10, 11) Hugsaðu þér þá að ganga fram fyrir Drottin alheims sem er svo hár og mikill að voldugustu menn eru „eins og engisprettur“ í samanburði við hann. (Jesaja 40:22) Ættum við að vera hrædd við að nálgast hann? Nei, alls ekki.

11 Jehóva hefur gefið okkur greiða og einfalda leið til að koma að máli við sig. Þetta er bænin. Lítið barn getur meira að segja beðið til hans í trú í nafni Jesú. (Jóhannes 14:6; Hebreabréfið 11:6) En bænin gefur okkur líka tækifæri til að segja honum frá innstu hugsunum okkar og kenndum – jafnvel þeim sem eru sársaukafullar og okkur finnst erfitt að koma orðum að. (Rómverjabréfið 8:26) Það er til einskis að reyna að heilla Jehóva með mælsku og málskrúði eða með löngum orðaflaumi. (Matteus 6:7, 8) Því eru hins vegar engin takmörk sett hve lengi við fáum að tala við hann eða hve oft. Biblían hvetur okkur jafnvel til að ‚biðja stöðugt‘. – 1. Þessaloníkubréf 5:17.

12 Við skulum hafa hugfast að enginn nema Jehóva er kallaður „þú sem heyrir bænir“, og hann hlustar með ósvikinni samúð. (Sálmur 65:2) Það er ekki svo að hann einungis umberi bænir trúrra þjóna sinna heldur hefur hann hreinlega yndi af þeim. Orð hans líkir bænum þeirra við reykelsi sem sendir sætan og róandi ilm upp til himins þegar það er brennt. (Sálmur 141:2; Opinberunarbókin 5:8; 8:4) Er ekki hughreystandi til að vita að einlægar bænir okkar skuli stíga upp til alheimsdrottins, honum til þægðar? Ef þú vilt nálgast Jehóva skaltu biðja til hans í auðmýkt oft á dag. Úthelltu hjarta þínu fyrir honum, hikaðu ekki við að segja honum allt. (Sálmur 62:8) Segðu himneskum föður þínum frá gleði þinni, tjáðu honum áhyggjur þínar, færðu honum þakkir og lofaðu hann. Það styrkir böndin milli þín og hans.

Tilbeiðslan á Jehóva

13, 14. Hvað merkir það að tilbiðja Jehóva og hvers vegna er viðeigandi að gera það?

13 Þegar við eigum tjáskipti við Jehóva Guð er það ekki eins og við séum einfaldlega að hlusta á og tala við vin eða ættingja. Við erum í rauninni að tilbiðja Jehóva, að sýna honum þá djúpu lotningu sem hann verðskuldar svo mjög. Sönn tilbeiðsla stjórnar öllu lífi okkar. Hún er leiðin til að tjá Jehóva að við elskum hann og dáum af allri sálu, og hún sameinar alla trúa þjóna Jehóva á himni og jörð. Jóhannes postuli sá sýn þar sem hann heyrði engil segja hárri rödd: „Tilbiðjið hann sem hefur gert himininn, jörðina, hafið og allar uppsprettur vatnsins.“ – Opinberunarbókin 14:7.

14 Af hverju eigum við að tilbiðja Jehóva? Hugsaðu um eiginleika hans sem við höfum fjallað um í þessari bók, um heilagleika hans, mátt, sjálfstjórn, réttlæti, hugrekki, miskunn, visku, lítillæti, kærleika, samúð, trúfesti og góðvild. Við höfum séð að allir göfugustu eiginleikar ná hátindi hjá honum. Þegar við reynum að skilja heild allra eiginleika hans skynjum við að hann er margfalt meira en háleit og aðdáunarverð tignarpersóna. Hann er óendanlega hærri en við, dýrð hans er takmarkalaus. (Jesaja 55:9) Jehóva er tvímælalaust réttmætur Drottinn okkar og verðskuldar tilbeiðslu okkar. En hvernig eigum við að tilbiðja hann?

15. Hvernig getum við tilbeðið Jehóva „í anda og sannleika“ og hvernig bjóða safnaðarsamkomur upp á tækifæri til þess?

15 „Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika,“ sagði Jesús. (Jóhannes 4:24) Til að tilbiðja Guð „í anda“ þarf andi hans að vera með okkur og leiðbeina okkur. Við þurfum líka að tilbiðja hann í samræmi við sannleikann, hina nákvæmu þekkingu sem er að finna í orði hans. Við höfum verðmætt tækifæri til að tilbiðja Jehóva „í anda og sannleika“ þegar við söfnumst saman ásamt trúsystkinum okkar. (Hebreabréfið 10:24, 25) Við tjáum honum ást okkar í hreinni tilbeiðslu þegar við syngjum honum lof, sameinum hugi okkar í bæn og hlýðum á umræður um orð hans og tökum þátt í þeim.

Safnaðarsamkomur eru ánægjuleg tækifæri til að tilbiðja Jehóva.

16. Hvert er eitt mesta boðorðið sem sannkristnum mönnum ber að fara eftir, og hvers vegna viljum við hlýða því?

16 Við tilbiðjum líka Jehóva þegar við segjum öðrum frá honum, þegar við lofum hann meðal almennings. (Hebreabréfið 13:15) Að boða fagnaðarboðskapinn um ríkið er eitt mikilvægasta boðorðið sem sannkristnum mönnum ber að fara eftir. (Matteus 24:14) Við hlýðum fúslega vegna þess að við elskum Jehóva. Þegar við hugsum til þess hvernig „guð þessa heims“, Satan djöfullinn, „hefur blindað huga hinna vantrúuðu“ og útbreitt svívirðilegar lygar um Jehóva, þráum við þá ekki að vera vottar Guðs og andmæla róginum? (2. Korintubréf 4:4; Jesaja 43:10–12) Og langar okkur ekki til að segja öðrum frá Jehóva þegar við ígrundum stórfenglega eiginleika hans? Það er varla hægt að hugsa sér meiri heiður en þann að hjálpa öðrum að kynnast föðurnum á himnum og elska hann eins og við gerum.

17. Hvað er fólgið í því að tilbiðja Jehóva og hvers vegna verðum við að tilbiðja hann í ráðvendni?

17 Og tilbeiðslan á Jehóva er meira en þetta því að hún kemur inn á hvert einasta svið lífsins. (Kólossubréfið 3:23) Ef við viðurkennum Jehóva sem alvaldan Drottin, þá leggjum við okkur fram um að gera vilja hans í einu og öllu – í fjölskyldulífinu, vinnunni, samskiptum við aðra og í frístundum. Þá reynum við okkar besta til að þjóna Jehóva „af heilu hjarta“ og í ráðvendni. (1. Kroníkubók 28:9) Slík tilbeiðsla gefur ekkert svigrúm til þess að vera með tvískipt hjarta eða lifa tvöföldu lífi – að þjóna Jehóva á yfirborðinu en stunda alvarlegar syndir í laumi. Ráðvendni útilokar slíka hræsni og kærleikurinn vekur viðbjóð á henni. Guðhræðslan er okkur líka til hjálpar því að Biblían setur slíka lotningu í samhengi við langvarandi trúnaðarsamband við Jehóva. – Sálmur 25:14.

Líktu eftir Jehóva

18, 19. Af hverju er það raunhæft að ófullkomnir menn geti líkt eftir Jehóva Guði?

18 Hverjum hluta þessarar bókar lýkur með kafla þar sem rætt er um hvernig við getum ‚líkt eftir Guði sem elskuð börn hans‘. (Efesusbréfið 5:1) Það er mikilvægt að hafa hugfast að við getum, þótt ófullkomin séum, líkt eftir Jehóva sem fer fullkomlega rétt með mátt sinn, réttlæti, visku og kærleika. Hvernig vitum við að við getum í raun og veru líkt eftir hinum alvalda? Eins og við munum felur nafn Jehóva það í sér að hann getur orðið hvaðeina sem hann vill til að hrinda áformum sínum í framkvæmd. Þessi hæfileiki hans vekur vissulega lotningu okkar, en er það okkur um megn að líkja eftir honum að þessu leyti? Nei.

19 Við erum gerð eftir mynd Guðs. (1. Mósebók 1:26) Við mennirnir erum því ólíkir öllum öðrum sköpunarverum jarðar. Við látum ekki stjórnast aðeins af eðlishvöt, erfðum eða umhverfisáhrifum. Jehóva hefur gefið okkur frjálsan vilja sem er dýrmæt gjöf. Þrátt fyrir að við séum ófullkomin og höfum okkar takmörk er okkur frjálst að velja hvað við viljum verða. Og mundu að nafn Guðs merkir líka að hann getur látið þjóna sína verða hvað sem hann vill. Langar þig til að vera kærleiksrík, vitur og réttlát manneskja sem kann að fara rétt með vald sitt? Svo er anda Guðs fyrir að þakka að þú getur það. Og hugsaðu þér allt hið góða sem þú getur komið til leiðar með því.

20. Hverju áorkum við með því að líkja eftir Jehóva?

20 Þú þóknast himneskum föður þínum og gleður hjarta hans. (Orðskviðirnir 27:11) Þú getur meira að segja „þóknast honum í einu og öllu“ vegna þess að hann skilur takmörk þín. (Kólossubréfið 1:9, 10) Og þegar þú heldur áfram að líkja eftir góðum eiginleikum föður þíns á himnum hlotnast þér einstakt tækifæri. Þú verður ljósberi í myrkum heimi sem er fjarlægur Guði. (Matteus 5:1, 2, 14) Þú stuðlar að því að endurkasta ljómanum af dýrlegum persónuleika Jehóva um alla jörðina. Hvílíkur heiður!

‚Nálgastu Guð og þá mun hann nálgast þig‘

Haltu áfram að nálgast Jehóva um alla framtíð.

21, 22. Hvaða endalausa ferðalag er fram undan hjá öllum sem elska Jehóva?

21 Hin látlausa hvatning í Jakobsbréfinu 4:8 er ekki aðeins markmið. Hún er óendanlegt ferðalag, svo framarlega sem við erum trúföst. Við hættum aldrei að nálgast Jehóva því að við eigum alltaf eitthvað ólært um hann. Við skulum ekki ímynda okkur að þessi bók hafi kennt okkur allt sem hægt er að vita um Jehóva. Við erum ekki nema rétt byrjuð að rannsaka það sem Biblían segir um hann! Og Biblían segir okkur hvergi nærri allt sem hægt er að vita um Jehóva. Jóhannes postuli mat það svo að væri allt fært í letur sem Jesús gerði meðan hann þjónaði á jörðinni myndi „heimurinn … ekki rúma allar bókrollurnar sem þá yrðu skrifaðar“. (Jóhannes 21:25) Fyrst hægt var að segja þetta um soninn, hvað þá um föðurinn!

22 Eilífa lífið nægir ekki einu sinni til að vita allt sem hægt er að vita um Jehóva. (Prédikarinn 3:11) Hugsaðu þér hvað við eigum í vændum. Eftir að hafa lifað í hundruð, þúsundir, milljónir og jafnvel milljarða ára verðum við búin að læra margfalt meira um Jehóva Guð en við vitum núna. Samt verður ótalmargt sem við eigum ólært. Og okkur mun langa til að læra meira því að okkur verður alltaf innanbrjósts eins og sálmaskáldinu sem söng: „Það gerir mér gott að vera nálægt Guði.“ (Sálmur 73:28) Eilíft líf verður innihaldsríkara og fjölbreyttara en okkur órar fyrir, og ekkert verður eins gefandi og að nálgast Jehóva.

23. Hvað ert þú hvattur til að gera?

23 Sýndu að þú kunnir að meta kærleika Jehóva núna með því að elska hann af öllu hjarta, sál, huga og mætti. (Markús 12:29, 30) Vertu stöðugur og tryggur í kærleikanum. Láttu daglegar ákvarðanir þínar, jafnt smáar sem stórar, endurspegla sömu meginregluna – að þú veljir alltaf þá leið sem stuðlar að sterkara sambandi við föður þinn á himnum. Umfram allt skaltu nálgast Jehóva jafnt og þétt, og megi hann nálgast þig – um alla eilífð!