Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

3. KAFLI

Sá sem skapaði allt

Sá sem skapaði allt

Hver bjó til allar lifandi verur?

MIG langar til að segja þér svolítið sérstakt. Langar þig til að heyra það? — Líttu á hendurnar á þér. Beygðu fingurna. Taktu svo eitthvað upp. Hendurnar geta gert margt og þær geta gert það vel. Veistu hver skapaði hendurnar? —

Já, það er sá sami og skapaði munninn, nefið og augun. Það var Guð, faðir kennarans mikla. Erum við ekki ánægð að Guð skuli hafa gefið okkur augu? — Við getum séð margt með augunum. Við getum horft á blómin. Við getum horft á græna grasið og bláa himininn. Við getum meira að segja séð litla svanga unga eins og þá sem eru á myndinni. Er ekki stórkostlegt að geta séð allt þetta? —

En hver bjó þetta allt til? Var það einhver maður? Nei, menn geta smíðað hús en enginn maður getur búið til gras sem vex. Menn geta hvorki búið til unga, blóm né nokkrar aðrar lifandi verur. Vissirðu það? —

Það var Guð sem bjó þetta allt til. Hann skapaði himininn og jörðina. Hann skapaði líka fólkið. Hann skapaði fyrsta manninn og fyrstu konuna alveg eins og Jesús, kennarinn mikli, kenndi. — Matteus 19:4-6.

Hvernig vissi Jesús að Guð skapaði manninn og konuna? Sá hann Guð gera það? — Já, Jesús var með Guði þegar Guð skapaði manninn og konuna. Guð skapaði Jesú á undan öllum öðrum. Jesús var engill og var á himnum hjá föður sínum.

Biblían segir að Guð hafi sagt: ,Við viljum skapa mann.‘ (1. Mósebók 1:26) Veistu við hvern Guð var að tala? — Hann var að tala við son sinn. Hann var að tala við þann sem kom seinna til jarðarinnar og var kallaður Jesús.

Er ekki gaman að vita þetta? Hugsaðu þér! Þegar við hlustum á Jesú erum við að læra hjá kennara sem var með Guði þegar Guð skapaði jörðina og allt annað. Jesús lærði margt þegar hann vann með föður sínum á himnum. Það er því ekkert skrýtið að Jesús skuli vera kennarinn mikli.

Heldurðu að Guð hafi verið óánægður með að vera einn áður en hann skapaði son sinn? — Nei, það var hann ekki. Hvers vegna skapaði hann þá aðrar lifandi verur fyrst hann var ekki óánægður? — Hann gerði það vegna þess að hann er kærleiksríkur Guð. Hann vildi að aðrir gætu notið þess að lifa. Við ættum að þakka Guði fyrir að hafa gefið okkur lífið.

Allt sem Guð hefur gert sýnir að hann er kærleiksríkur. Hann bjó til sólina. Sólin lýsir okkur og heldur á okkur hita. Ef við hefðum ekki sólina væri jörðin köld og ekkert líf á henni. Finnst þér ekki gott að Guð skuli hafa skapað sólina? —

Guð lætur líka rigna. Það getur verið að þér finnist ekki alltaf skemmtilegt þegar rignir. En rigningin hjálpar blómunum að vaxa. Hverjum þökkum við þegar við sjáum falleg blóm? — Guði. Og hverjum þökkum við þegar við borðum bragðgóða ávexti og grænmeti? — Við ættum að þakka Guði af því að hann á sólina og rigninguna sem lætur allt vaxa.

Ímyndaðu þér að einhver spyrji þig: ,Skapaði Guð manninn og dýrin?‘ Hverju myndirðu svara? — Rétta svarið er: „Já, Guð bjó til manninn og dýrin.“ En ef einhver trúir ekki að Guð hafi búið manninn til? Ef hann segir að maðurinn sé kominn af dýrunum? Biblían kennir það ekki. Hún segir að Guð hafi skapað allar lifandi verur. — 1. Mósebók 1:26-31.

Einhver smíðaði húsið, en hver bjó til blómin, trén og dýrin?

Hvað myndir þú segja ef einhver segðist ekki trúa á Guð? — Hvers vegna ekki að benda á hús og spyrja svo: „Hver smíðaði þetta hús?“ Einhver hefur þurft að smíða það. Það vita allir. Húsið smíðaði sig auðvitað ekki sjálft. — Hebreabréfið 3:4.

Næst skaltu fara með hann út í garð og sýna honum blóm. Spyrðu hann svo: „Hver bjó þetta til?“ Það var ekki maður. Alveg eins og húsið smíðaði sig ekki sjálft þá varð þetta blóm ekki heldur til af sjálfu sér. Einhver bjó það til. Það var Guð sem gerði það.

Biddu þann sem þú ert að tala við að hlusta á fuglana syngja. Spyrðu hann síðan: „Hver skapaði fuglana og kenndi þeim að syngja?“ Það var Guð. Það er Guð sem skapaði himininn og jörðina og allar lifandi verur! Það er hann sem gefur lífið.

En kannski segir einhver að hann trúi aðeins á það sem hann getur séð og segir ef til vill: ,Ég trúi ekki á það sem ég get ekki séð.‘ Sumir segjast þess vegna ekki trúa á Guð af því að þeir geta ekki séð hann.

Það er rétt að við getum ekki séð Guð. Biblían segir: ,Enginn maður getur séð Guð.‘ Hvorki menn, konur né börn geta séð Guð. Þess vegna ætti enginn að reyna að búa til mynd eða styttu af Guði. Guð bannar okkur meira að segja að búa til eftirmynd af sér. Hann yrði þess vegna ekki ánægður ef við hefðum slíka hluti heima hjá okkur. — 2. Mósebók 20:4, 5; 33:20; Jóhannes 1:18.

Hvernig veistu að Guð er raunverulega til fyrst þú getur ekki séð hann? Við skulum taka dæmi. Geturðu séð vindinn? — Nei, enginn getur séð vindinn. En þú sérð það sem vindurinn gerir. Þú sérð laufið á trjánum hreyfast þegar vindurinn blæs. Þess vegna trúirðu að vindurinn sé til.

Hvernig veistu að vindurinn er til?

Þú getur líka séð það sem Guð hefur gert. Þegar þú horfir á lifandi blóm eða fugl ertu að horfa á það sem Guð hefur búið til. Þess vegna trúirðu að Guð sé til.

Kannski spyr einhver þig: ,Hver bjó til sólina og jörðina?‘ Biblían segir: ,Guð skapaði himin og jörð.‘ (1. Mósebók 1:1) Já, Guð bjó allt þetta undursamlega til! Hvað finnst þér um það? —

Er ekki yndislegt að vera lifandi? Við getum heyrt fallegan fuglasöng. Við getum séð blómin og margt fleira sem Guð hefur búið til. Við getum líka borðað matinn sem Guð hefur gefið okkur.

Við ættum að þakka Guði fyrir allt þetta. Fyrst og fremst ættum við að þakka honum fyrir að gefa okkur lífið. Hvað ættum við að gera ef við erum þakklát Guði? — Við ættum að hlusta á hann og gera það sem hann segir okkur í Biblíunni. Þannig getum við sýnt að við elskum þann sem skapaði allt.

Við ættum að sýna þakklæti fyrir allt sem Guð hefur gert. Hvernig? Lestu það sem skrifað er í Sálmi 139:14; Jóhannesi 4:23, 24; 1. Jóhannesarbréfi 5:21 og Opinberunarbókinni 4:11