Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

5. KAFLI

,Þetta er sonur minn‘

,Þetta er sonur minn‘

DUGLEG börn gleðja foreldra sína. „Þetta er dóttir mín,“ segir stoltur faðir þegar stelpan hans gerir eitthvað vel. Og þegar strákurinn hans stendur sig vel segir hann: „Þetta er sonur minn.“

Jesús gerir alltaf það sem faðir hans á himnum vill að hann geri. Þess vegna er faðir hans stoltur af honum. Manstu hvað faðir Jesú gerði einu sinni þegar Jesús var með þremur fylgjendum sínum? — Já, Guð talaði til þeirra alla leið frá himnum og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ — Matteus 17:5.

Jesús hefur alltaf ánægju af því að gera vilja föður síns. Veistu af hverju? Það er af því að hann elskar föður sinn. Ef við gerum eitthvað eingöngu af því að við verðum að gera það, þá finnst okkur það erfitt. En ef við erum fús til þess verður það strax auðveldara. Veistu hvað það þýðir að vera fús? — Það þýðir að vilja gjarnan gera eitthvað.

Jesús var líka fús til að gera allt sem faðir hans bað hann um áður en hann kom til jarðarinnar. Honum leið mjög vel á himnum hjá föður sínum. En Guð fékk honum sérstakt verkefni. Til að sinna þessu verkefni varð Jesús að fara frá himnum og fæðast á jörðinni sem barn. Hann var fús til gera þetta af því að faðir hans vildi það og hann elskaði föður sinn.

Hvað sagði engillinn Gabríel við Maríu?

Jesús varð að eiga móður til að geta fæðst sem barn á jörðinni. Veistu hver hún var? — Hún hét María. Jehóva sendi engilinn Gabríel frá himnum til að tala við Maríu. Gabríel sagði henni að hún myndi eignast dreng. Hann átti að heita Jesús. En hver yrði faðir hans? — Engillinn sagði að Jehóva Guð yrði faðir drengsins. Þess vegna yrði Jesús kallaður sonur Guðs.

Hvað heldurðu að Maríu hafi fundist um þetta? — Ætli hún hafi sagt: „Mig langar ekki til að verða móðir Jesú“? Nei, María var reiðubúin til að gera það sem Guð vildi. En hvernig gat sonur Guðs á himnum fæðst sem barn á jörðinni? Á hvaða hátt var fæðing Jesú ólík fæðingu allra annarra barna? Veistu það? —

Guð skapaði Adam og Evu, fyrstu foreldrana, þannig að þau gætu verið saman á sérstakan hátt. Eftir það gat myndast barn í móðurkviði konunnar. Fólk segir að þetta sé kraftaverk. Þú ert örugglega sammála því.

Guð gerði enn stórkostlegra kraftaverk þegar hann flutti líf sonar síns frá himnum í móðurkvið Maríu. Guð hafði aldrei gert slíkt áður og hefur heldur ekki gert það síðan. Eftir þetta kraftaverk fór Jesús að þroskast í móðurkviði Maríu alveg eins og önnur börn vaxa í kviði mæðra sinna. Síðan giftist María Jósef.

Þegar að því kom að Jesús átti að fæðast voru María og Jósef gestkomandi í bænum Betlehem. En bærinn var yfirfullur af fólki. María og Jósef gátu ekki einu sinni fengið herbergi svo að þau urðu að gista í gripahúsi sem er útihús fyrir dýr. Þar fæddist Jesús og var lagður í jötu, eins og þú getur séð hérna. Jata er eins konar kassi undir hey fyrir kýr og önnur dýr.

Af hverju eru þau að leggja Jesú í jötu?

Margt spennandi gerðist nóttina sem Jesús fæddist. Engill birtist nokkrum fjárhirðum nálægt Betlehem. Hann sagði þeim að Jesús væri mjög mikilvæg persóna. Engillinn sagði: ,Sjá, ég segi ykkur góðar fréttir sem munu gleðja fólk. Í dag fæddist frelsari fólksins.‘ — Lúkas 2:10, 11.

Hvaða góðu fréttir er engillinn að færa fjárhirðunum?

Engillinn sagði fjárhirðunum að þeir gætu fundið Jesú í Betlehem þar sem hann lægi í jötu. Síðan komu skyndilega fleiri englar sem lofuðu Guð ásamt fyrsta englinum. „Dýrð sé Guði,“ sungu englarnir, „og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ — Lúkas 2:12-14.

Þegar englarnir voru farnir fóru fjárhirðarnir til Betlehem og fundu Jesú. Þeir sögðu Jósef og Maríu frá öllu sem þeir höfðu heyrt. Geturðu ímyndað þér hvað María var ánægð að hafa verið fús til að vera móðir Jesú?

Seinna fóru Jósef og María með Jesú til borgarinnar Nasaret. Þar ólst Jesús upp. Þegar hann var orðinn fullorðinn hóf hann mikið kennslustarf. Það var hluti af verkefninu sem Jehóva Guð vildi að sonur sinn ynni á jörðinni. Jesús var fús til að sinna þessu verkefni af því að hann elskaði himneskan föður sinn innilega.

Áður en Jesús hóf starf sitt sem kennarinn mikli lét hann skírast hjá Jóhannesi skírara í ánni Jórdan. Þá gerðist undraverður atburður. Þegar Jesús kom upp úr vatninu talaði Jehóva af himnum og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:17) Líður þér ekki vel þegar mamma þín og pabbi segja að þau elski þig? — Við getum verið viss um að Jesú leið líka vel.

Jesús gerði alltaf það sem er rétt. Hann þóttist ekki vera einhver annar en hann var. Hann sagði fólki ekki að hann væri Guð. Engillinn Gabríel hafði sagt Maríu að Jesús yrði kallaður sonur Guðs. Jesús sjálfur sagðist vera sonur Guðs. Hann sagði fólki ekki að hann vissi meira en faðir sinn heldur sagði: „Faðirinn er mér meiri.“ — Jóhannes 14:28.

Þegar Jesús var á himnum gerði hann líka allt sem faðir hans bað hann um. Hann sagðist ekki aðeins ætla að gera það og gerði síðan eitthvað annað. Hann elskaði föður sinn. Þess vegna hlustaði hann á það sem faðir hans sagði. Þegar Jesús kom til jarðar gerði hann það sem faðir hans á himnum sendi hann til að gera. Hann eyddi ekki tímanum í eitthvað annað. Það er því skiljanlegt að Jehóva sé ánægður með son sinn.

Viljum við ekki líka gleðja Jehóva? — Þá verðum við að sýna að við hlustum á hann eins og Jesús gerði. Guð notar Biblíuna til að tala við okkur. Væri nokkuð rétt að þykjast hlusta á Guð en trúa síðan einhverju öðru og gera það sem stangast á við Biblíuna? — Mundu líka að okkur finnst gaman að gleðja Jehóva ef við elskum hann í raun og veru.

Lestu eftirfarandi ritningarstaði. Þeir benda okkur á hvað við þurfum að vita og hverju við þurfum að trúa um Jesú: Matteus 7:21-23; Jóhannes 4:25, 26; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6.