Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

16. KAFLI

Hvað skiptir mestu máli í lífinu?

Hvað skiptir mestu máli í lífinu?

Hvað var að hugarfari mannsins?

DAG einn kom maður til Jesú. Hann vissi að Jesús var mjög vitur og sagði við hann: ,Meistari, segðu bróður mínum að gefa mér hluta af því sem hann á.‘ Manninum fannst að hann ætti að fá hluta af eigum bróður síns.

Hverju hefðir þú svarað ef þú hefðir verið Jesús? — Jesús gerði sér grein fyrir því að hugarfar mannsins var ekki rétt. Hann vantaði ekki það sem bróðir hans átti heldur vissi hann ekki hvað skipti mestu máli í lífinu.

Veltum þessu aðeins fyrir okkur. Hvað ætti að vera mikilvægast í lífi okkar? Ætti það að vera skemmtileg leikföng, ný föt eða eitthvað svoleiðis? — Nei, það er annað sem er miklu mikilvægara. Jesús vildi kenna manninum það, svo að hann sagði honum sögu um mann sem gleymdi Guði. Langar þig til að heyra hana? —

Maðurinn var mjög ríkur. Hann átti bæði land og hlöður. Landið var svo frjósamt að það var ekki nóg pláss í hlöðunum fyrir alla uppskeruna. Hvað gat hann þá gert? Hann sagði við sjálfan sig: ,Ég ríf hlöðurnar og reisi stærri hlöður. Svo safna ég allri uppskerunni og öllum auðæfum mínum í þær.‘

Ríka manninum fannst þetta vera mjög skynsamlegt. Hann hélt að það væri viturlegt af sér að safna miklu. Hann sagði við sjálfan sig: ,Núna á ég mikinn auð. Hann endist í mörg ár svo að núna ætla ég að taka lífinu með ró, borða og drekka og vera glaður.‘ Veistu hvað var rangt við hugarfar ríka mannsins? — Hann hugsaði bara um sjálfan sig og sína eigin vellíðan. Hann gleymdi Guði.

Um hvað er ríki maðurinn að hugsa?

Þess vegna sagði Guð við ríka manninn: ,Heimskingi, þú deyrð í nótt. Hver fær þá það sem þú hefur safnað?‘ Gat ríki maðurinn notað auðæfi sín eftir að hann var dáinn? — Nei, einhver annar myndi fá þau. ,Þannig fer fyrir þeim sem safnar peningum en er ekki ríkur hjá Guði‘, sagði Jesús. — Lúkas 12:13-21.

Þú myndir ekki vilja vera eins og ríki maðurinn, er það nokkuð? — Hann hugsaði bara um að eignast efnislega hluti. Það voru mistök. Hann vildi alltaf fá meira og meira. En hann var ekki „ríkur hjá Guði“.

Það eru margir eins og þessi ríki maður. Þeir vilja alltaf eignast meira og meira. En það getur leitt til mikilla vandræða. Tökum dæmi. Þú átt leikföng, er það ekki? — Hvaða leikföng áttu? — Kannski á vinur þinn eða vinkona bolta eða dúkku eða eitthvert annað leikfang sem þú átt ekki. Ættirðu þá að reyna að fá foreldra þína til að kaupa eins leikfang handa þér? —

Stundum getur ákveðið leikfang virst vera mjög spennandi. En hvað verður um það með tímanum? — Það verður gamalt. Kannski skemmist það og þig langar ekki einu sinni til að eiga það lengur. En þú átt eitt sem er miklu dýrmætara en leikföng. Veistu hvað það er? —

Hvað áttu sem er dýrmætara en leikföng?

Það er lífið. Lífið er mjög dýrmætt af því að án þess geturðu ekki gert neitt. En er líf okkar ekki háð því að við gerum vilja Guðs? — Þess vegna skulum við ekki vera eins og ríki maðurinn sem gleymdi Guði.

Það eru ekki bara börn sem hegða sér heimskulega eins og ríki maðurinn. Margir fullorðnir gera það líka. Sumir vilja alltaf eignast meira en þeir eiga. Þeir eiga ef til vill nægan mat, föt til að klæðast og stað til að búa á. En þeir vilja samt meira. Þeir vilja eignast fullt af fötum og stærri hús. Það kostar peninga og þess vegna vinna þeir mikið til að eignast mikið af þeim. Og því meira sem þeir eignast, þeim mun meira vilja þeir fá.

Sumt fullorðið fólk verður svo upptekið af því að eignast peninga að það hefur engan tíma til að vera með fjölskyldunni. Það hefur ekki heldur neinn tíma fyrir Guð. Geta peningar komið í veg fyrir að fólk deyi? — Nei, þeir geta það ekki. Getur fólk notað peningana þegar það er dáið? — Nei, þeir sem eru dánir geta ekki gert neitt. — Prédikarinn 9:5, 10.

Er þá rangt að eiga peninga? — Nei, við getum keypt mat og föt fyrir þá. Biblían segir að peningar verndi okkur. (Prédikarinn 7:12) En ef við elskum peninga þá eigum við eftir að lenda í vandræðum. Þá verðum við eins og ríki maðurinn sem safnaði sér fjársjóði en var ekki ríkur hjá Guði.

Hvað þýðir það að vera ríkur hjá Guði? — Það þýðir að láta vilja hans ganga fyrir öllu öðru í lífinu. Sumir segjast trúa á Guð. Þeir halda að það sé nóg að trúa. En eru þeir í raun og veru ríkir hjá Guði? — Nei, þeir eru eins og ríki maðurinn sem gleymdi Guði.

Jesús gleymdi aldrei himneskum föður sínum. Hann reyndi ekki að eignast mikið af peningum og hann átti ekki miklar efnislegar eigur. Hann vissi hvað skipti mestu máli í lífinu. Veist þú hvað það er? — Það er að vera ríkur hjá Guði.

Hvað er þessi duglega stelpa að gera?

Hvernig getum við verið rík hjá Guði? — Við getum það með því að gera vilja hans. Jesús sagði: ,Ég geri alltaf það sem Guði þóknast.‘ (Jóhannes 8:29) Guð er ánægður þegar við gerum vilja hans. Hvað getur þú gert til að gleðja Guð? — Já, þú getur lesið í Biblíunni, farið á samkomur, beðið til hans og hjálpað öðrum að kynnast honum. Það er þetta sem skiptir mestu máli í lífinu.

Jesús var ríkur hjá Guði og þess vegna hugsaði Guð vel um hann. Hann launaði Jesú með því að gefa honum eilíft líf. Jehóva elskar okkur líka og hugsar vel um okkur ef við líkjum eftir Jesú. Við skulum því feta í fótspor hans en aldrei vera eins og ríki maðurinn sem gleymdi Guði.

Hér eru nokkur vers í Biblíunni sem sýna hvernig við getum séð efnislega hluti í réttu ljósi: Orðskviðirnir 23:4; 28:20; 1. Tímóteusarbréf 6:6-10 og Hebreabréfið 13:5.