Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

18. KAFLI

Manstu eftir að þakka fyrir þig?

Manstu eftir að þakka fyrir þig?

HEFURÐU borðað eitthvað í dag? — Veistu hver bjó til matinn? — Var það mamma þín eða einhver annar? Ættum við ekki samt að þakka Guði fyrir matinn? Af hverju? — Af því að það er Guði að þakka að jurtirnar og dýrin, sem við borðum, vaxa. En við ættum líka að þakka þeim sem bjó til matinn eða þeim sem bar hann á borð fyrir okkur.

Gleymum við ekki stundum að segja takk þegar einhver gerir eitthvað fyrir okkur? Þegar kennarinn mikli var á jörðinni gleymdu nokkrir holdsveikir menn að þakka fyrir sig.

Veistu hvað holdsveiki er? — Holdsveiki er sjúkdómur sem getur valdið því að hold eða líkamshlutar falli af. Þegar Jesús var á jörðinni máttu holdsveikir ekki búa nálægt öðru fólki. Ef holdsveikur maður sá annan mann nálgast þurfti hann að kalla og vara hann við. Þetta var gert til þess að fólk kæmi ekki of nálægt og smitaðist af honum.

Jesús var mjög góður við holdsveika. Dag einn, þegar hann var á leið til Jerúsalem, þurfti hann að fara í gegnum smábæ. Þegar hann nálgaðist bæinn komu til hans tíu holdsveikir menn. Þeir höfðu heyrt að hann hefði vald frá Guði til að lækna alls konar sjúkdóma.

Holdsveiku mennirnir komu ekki nálægt Jesú heldur stóðu langt frá honum. En þeir trúðu því að hann gæti læknað þá. Þegar þeir sáu kennarann mikla kölluðu þeir til hans: ,Jesús, meistari, hjálpaðu okkur!‘

Finnurðu til með veiku fólki? — Jesús fann til með því. Hann vissi hversu erfitt það var að vera holdsveikur. Þess vegna sagði hann við þá: ,Farið og sýnið ykkur prestunum.‘ — Lúkas 17:11-14.

Hvað er Jesús að segja holdsveiku mönnunum að gera?

Af hverju sagði Jesús þeim að gera það? Það var af því að Jehóva hafði gefið þjóð sinni lög um holdsveika. Lögin sögðu að prestur Guðs ætti að skoða húð þess sem var holdsveikur. Presturinn myndi svo segja honum hvenær honum væri batnað. Hann mátti síðan búa aftur með heilbrigðu fólki eftir að honum var batnað. — 3. Mósebók 13:16, 17.

En þessir holdsveiku menn voru enn sjúkir. Fóru þeir til prestsins eins og Jesús hafði sagt þeim að gera? — Já, þeir fóru strax. Þeir hljóta að hafa trúað því að Jesús myndi lækna þá. Hvað gerðist?

Þeir læknuðust á leiðinni til prestsins. Hold þeirra greri og þeir urðu heilbrigðir! Þeim var launað fyrir að trúa á mátt Jesú. Þeir hljóta að hafa verið glaðir! En hvað hefðu þeir átt að gera til að sýna þakklæti sitt? Hvað hefðir þú gert? —

Eftir hverju mundi þessi holdsveiki maður?

Einn þeirra sem læknaðist kom aftur til Jesú. Hann lofaði og þakkaði Jehóva hárri röddu. Það var rétt af manninum að gera það vegna þess að krafturinn, sem læknaði hann, kom frá Guði. Maðurinn féll líka fram að fótum kennarans mikla og þakkaði honum fyrir. Hann var mjög þakklátur fyrir það sem Jesús hafði gert.

En hvað um hina mennina níu? Jesús spurði: ,Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Sneri aðeins einn við til að lofa Guð?‘

Já, þannig var það. Aðeins einn af mönnunum tíu lofaði Guð og sneri við til að þakka Jesú. Og þessi maður var Samverji, það er að segja útlendingur. Hinir níu þökkuðu hvorki Guði né Jesú fyrir lækninguna. — Lúkas 17:15-19.

Hverjum þessara manna líkist þú? Viljum við ekki líkjast samverska manninum? — Eftir hverju þurfum við þá að muna ef einhver gerir eitthvað fyrir okkur? — Við ættum að muna eftir að þakka fyrir okkur. Fólk gleymir oft að þakka fyrir sig. En það er gott að gera það. Við gleðjum Jehóva Guð og son hans, Jesú, þegar við þökkum fyrir okkur.

Hvernig geturðu líkt eftir holdsveika manninum sem sneri aftur til Jesú?

Ef þú hugsar þig aðeins um þá rifjast örugglega upp fyrir þér ýmislegt sem aðrir hafa gert fyrir þig. Hefurðu einhvern tíma veikst? — Kannski hefurðu aldrei veikst eins mikið og holdsveiku mennirnir tíu, en þú hefur kannski fengið slæmt kvef eða slæma magapínu. Hugsaði einhver um þig á meðan? — Fékkstu meðal eða var eitthvað annað gert fyrir þig? Fannst þér ekki gott að einhver skyldi hjálpa þér að batna? —

Samverski maðurinn þakkaði Jesú fyrir að hafa læknað sig og það gladdi Jesú. Heldurðu ekki að mamma þín og pabbi verði ánægð ef þú þakkar þeim þegar þau gera eitthvað fyrir þig? —  Auðvitað verða þau ánægð.

Af hverju er mikilvægt að muna eftir að þakka fyrir sig?

Margir gera ýmislegt fyrir þig á hverjum degi og í hverri viku. Þeir vinna ef til vill við það og gera það með glöðu geði. En þú gleymir kannski að þakka fyrir þig. Kennarinn þinn leggur eflaust mikið á sig til að hjálpa þér að læra. Það er vinnan hans. En hann verður örugglega ánægður ef þú þakkar honum fyrir að hjálpa þér.

Stundum gerir fólk eitthvað fyrir þig sem virðist ósköp lítið. Heldur einhver dyrunum opnum fyrir þér eða réttir þér matinn við matarborðið? Það er gott að segja takk jafnvel fyrir það sem virðast smámunir.

Ef við munum eftir að þakka öðrum fyrir það sem þeir gera fyrir okkur er líklegra að við munum eftir að þakka föður okkar á himnum. Og það er mjög margt sem við getum þakkað Jehóva fyrir! Hann gaf okkur lífið og allt það góða sem gerir lífið svo ánægjulegt. Við höfum því margar ástæður til að lofa Guð með því að tala um hann á hverjum degi.