Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

19. KAFLI

Er rétt að slást?

Er rétt að slást?

ÞEKKIRÐU krakka sem eru miklir með sig og hrekkja aðra? — Finnst þér gaman að vera með þeim? Eða langar þig frekar að vera með þeim sem eru vingjarnlegir og friðsamir? — Kennarinn mikli sagði: „Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“ — Matteus 5:9.

Stundum gera aðrir eitthvað sem reitir okkur til reiði, er það ekki? — Þá langar okkur kannski að hefna okkar. Þetta kom fyrir lærisveina Jesú eitt sinn þegar þeir voru að ferðast með honum til Jerúsalem. Ég skal segja þér frá því.

Þegar þeir voru komnir nokkuð áleiðis sendi Jesús lærisveina á undan sér í Samverjaþorp til að útvega gistingu. En þorpsbúar vildu ekki fá þá vegna þess að Samverjar voru annarrar trúar en lærisveinarnir. Og þeim líkaði ekki við neinn sem fór til Jerúsalem að tilbiðja Guð.

Hvernig vildu Jakob og Jóhannes hefna sín á Samverjunum?

Hvað hefðir þú gert ef þetta hefði komið fyrir þig? Hefðirðu reiðst? Hefði þig langað til að hefna þín? — Það er einmitt það sem lærisveinana Jakob og Jóhannes langaði til að gera. Þeir spurðu Jesú: ,Eigum við að láta eld falla af himni og tortíma þeim?‘ Það er ekkert skrýtið að Jesús skyldi kalla Jakob og Jóhannes þrumusyni. En hann sagði þeim að það væri ekki rétt að fara þannig með fólk. — Lúkas 9:51-56; Markús 3:17.

Stundum eru aðrir vondir við okkur. Sumir krakkar vilja kannski ekki leika við þig og segja jafnvel: „Þú mátt ekki vera með.“ Finnst þér ekki leiðinlegt þegar eitthvað slíkt gerist? Þá gæti verið freistandi að hefna sín á þeim. En ættum við að gera það? —

Náðu í biblíuna þína og flettu upp í Orðskviðunum í 24. kafla og 29. versi. Þar stendur: „Seg þú ekki: ,Eins og hann gjörði mér, eins ætla ég honum að gjöra, ég ætla að endurgjalda manninum eftir verkum hans!‘“

Hvað merkir þetta vers? — Það merkir að við eigum ekki að reyna að hefna okkar. Við ættum ekki að vera vond við aðra þó að þeir séu vondir við okkur. En hvað geturðu gert ef einhver reynir að fá þig til að slást við sig? Hann reynir kannski að reita þig til reiði með því að kalla þig öllum illum nöfnum. Kannski hlær hann að þér og segir að þú sért hræddur. Segjum sem svo að hann kalli þig skræfu. Hvernig ættirðu að bregðast við? Ættirðu að slást við hann? —

Við skulum athuga aftur hvað Biblían segir. Flettum upp í Matteusi í 5. kafla og 39. versi. Jesús segir þar: „Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ Hvað heldurðu að Jesús hafi verið að meina? Var hann að segja að ef einhver kýldi þig á aðra kinnina ættirðu að leyfa honum að kýla þig á hina líka? —

Nei, Jesús átti alls ekki við það. Að slá utan undir er ekki það sama og að kýla með hnefanum. Það er meira eins og að ýta eða hrinda. Einhver reynir kannski að fá okkur í slag með því að slá okkur utan undir. Hann vill reita okkur til reiði. En hvað gerist ef við verðum reið og svörum í sömu mynt? — Við lendum líklega í slagsmálum.

Jesús vildi ekki að fylgjendur sínir lentu í slagsmálum. Þess vegna ættum við ekki að slá til baka ef einhver slær okkur á kinnina. Við ættum ekki að reiðast og fara að slást. Ef við förum að slást erum við engu betri en sá sem hóf slagsmálin.

Hvað heldurðu að sé best að gera ef einhver reynir að fá þig til að slást? — Ganga í burtu. Hinn hrindir þér kannski nokkrum sinnum í viðbót en svo er það líklega búið. Það er ekki veikleikamerki að ganga í burtu. Það þýðir að þú sért sterkur og ákveðinn í að gera það sem er rétt.

Hvað ættum við að gera ef einhver reynir að fá okkur til að slást við sig?

En hvað gæti gerst ef þú lentir í slagsmálum og ynnir? — Sá sem þú lamdir gæti komið aftur ásamt nokkrum vinum sínum. Þeir gætu jafnvel meitt þig með spýtu eða hnífi. Skilurðu núna hvers vegna Jesús vildi ekki að við lentum í slagsmálum? —

Hvað ættum við að gera ef við sjáum aðra vera að slást? Ættum við að halda með öðrum hvorum þeirra? — Biblían segir okkur hvað sé rétt að gera. Flettu upp í Orðskviðunum 26. kafla og 17. versi. Þar segir: „Sá, sem kemst í æsing út af deilu, sem honum kemur ekki við, hann er eins og sá, sem tekur um eyrun á hundi, er hleypur fram hjá.“

Hvað er líkt með því að blanda sér í slagsmál annarra og að taka um eyrun á hundi? Þú gætir meiðst svo að þú skalt ekki gera neitt slíkt.

Hvernig færi ef þú tækir um eyrun á hundi? Værirðu ekki að meiða hundinn og myndi hann ekki glefsa í þig? Því meir sem hundurinn reyndi að losa sig þeim mun erfiðara yrði að halda um eyrun og þeim mun æstari yrði hann. Ef þú slepptir myndi hann líklega bíta þig fast. En ekki geturðu staðið þarna og haldið um eyrun á honum endalaust, er það? —

Við komum okkur í þannig vandræði ef við blöndum okkur í slagsmál annarra. Við vitum kannski ekki hver byrjaði eða hvers vegna þeir eru að slást. Kannski er verið að berja annan af því að hann stal einhverju frá hinum. Ef við hjálpuðum honum værum við að hjálpa þjófi. Og ekki væri það gott?

Hvað áttu þá að gera ef þú sérð einhverja vera að slást? — Ef það er í skólanum geturðu hlaupið til kennara og sagt honum frá. En ef það er ekki í skólanum geturðu kallað á foreldra þína eða lögregluna. Já, við ættum að vera friðsöm jafnvel þó að aðrir vilji slást.

Hvað ættirðu að gera ef þú verður vitni að slagsmálum?

Sannir lærisveinar Jesú gera allt sem þeir geta til að lenda ekki í slagsmálum. Þannig sýnum við að við erum sterk og ákveðin í að gera það sem er rétt. Biblían segir að lærisveinn Jesú ,eigi ekki að eiga í ófriði, heldur eigi hann að vera ljúfur við alla‘. — 2. Tímóteusarbréf 2:24.

Nú skulum við skoða fleiri góð ráð sem hjálpa okkur að forðast slagsmál: Rómverjabréfið 12:17-21 og 1. Pétursbréf 3:10, 11.