Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

23. KAFLI

Hvers vegna veikist fólk?

Hvers vegna veikist fólk?

ÞEKKIR þú einhvern sem er veikur? — Sennilega verður þú stundum lasinn. Kannski færðu kvef eða magapínu. Sumir eru mjög veikir. Þeir geta jafnvel ekki staðið upp hjálparlaust. Þannig er það oft þegar fólk verður mjög gamalt.

Allir verða einhvern tíma veikir. Veistu hvers vegna fólk veikist, hrörnar og deyr? — Dag einn var komið með mann til Jesú sem gat ekki gengið og Jesús útskýrði þá hvers vegna fólk veikist og deyr. Ég skal segja þér frá því.

Jesús dvaldist í húsi í þorpi nálægt Galíleuvatni. Fólk kom þangað hópum saman til að hitta hann. Það voru svo margir í húsinu að ekki var pláss fyrir fleiri. Það var ekki einu sinni hægt að komast að dyrunum. En fólk hélt samt áfram að koma. Fjórir menn komu með lamaðan mann sem gat ekki gengið. Þeir báru hann á börum.

Veistu hvers vegna þá langaði til að koma með þennan veika mann til Jesú? — Þeir voru vissir um að Jesús gæti hjálpað honum. Þeir trúðu því að hann gæti læknað manninn. Veistu hvernig þeir komu lamaða manninum til Jesú þrátt fyrir að það voru svona margir í húsinu? —

Myndin hérna sýnir hvernig þeir fóru að því. Fyrst fóru þeir með manninn upp á þakið sem var flatt. Síðan gerðu þeir stórt gat á það. Loks létu þeir veika manninn síga á börunum í gegnum gatið og niður í herbergið fyrir neðan. Þeir höfðu mjög sterka trú!

Allir í húsinu urðu steinhissa þegar þeir sáu hvað var að gerast. Lamaði maðurinn var látinn síga niður til þeirra. Var Jesús reiður yfir því sem mennirnir höfðu gert? — Nei, alls ekki. Það gladdi hann að þeir skyldu hafa trú. Hann sagði við lamaða manninn: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Hvað sagði Jesús lamaða manninum að gera?

Sumum fannst ekki rétt af Jesú að segja þetta. Þeim fannst ekki að hann gæti fyrirgefið syndir. Til að sýna þeim að hann gæti það sagði hann við manninn: ,Stattu upp, taktu rúmið þitt og farðu heim til þín.‘

Maðurinn læknaðist þegar Jesús sagði þetta. Hann var ekki lengur lamaður. Hann gat staðið upp hjálparlaust og gengið. Þeir sem sáu þetta kraftaverk voru furðu lostnir. Þeir höfðu aldrei séð neitt svona dásamlegt og lofuðu Jehóva fyrir að hafa gefið þeim þennan mikla kennara sem gat jafnvel læknað fólk. — Markús 2:1-12.

Hvað lærum við af þessu kraftaverki?

Hvað lærum við af þessu kraftaverki? — Við lærum að Jesús hefur vald til að fyrirgefa syndir og lækna þá sem eru veikir. En við lærum líka annað mjög mikilvægt. Við lærum að fólk veikist vegna þess að það er syndugt.

Erum við þá öll syndug fyrst við veikjumst stundum? — Já, Biblían segir að allir séu fæddir syndugir. Veistu hvað það merkir að vera fæddur syndugur? — Það merkir að við fæðumst ófullkomin. Stundum gerum við það sem er rangt þó að okkur langi ekki til þess. Veistu af hverju við erum öll syndug? —

Það er vegna þess að Adam, fyrsti maðurinn, hlýddi ekki Guði. Hann syndgaði þegar hann braut lög Guðs. Og við höfum öll fengið syndina frá Adam. Veistu hvernig við fengum syndina frá honum? Ég skal reyna að útskýra það fyrir þér.

Hvernig urðum við öll syndug?

Þú hefur kannski hjálpað til við að baka brauð í formi. Veistu hvernig brauðið verður ef formið er beyglað? — Sést ekki beyglan á öllum brauðum sem eru bökuð í forminu? —

Adam var eins og þetta form og við erum eins og brauðið. Hann varð ófullkominn þegar hann braut lög Guðs. Það var eins og hann hefði fengið beyglu. Hvernig myndu þá börnin hans verða? — Þau myndu öll fá sömu beygluna eða ófullkomleikann.

Fæst börn fæðast með stóran galla sem hægt er að sjá. Það vantar ekki á þau handlegg eða fótlegg. En gallinn, sem þau hafa, er samt það slæmur að þau veikjast og deyja að lokum.

Vissulega verða sumir oftar veikir en aðrir. Hvers vegna ætli það sé? Fæddust þeir syndugri en aðrir? — Nei, allir fæðast jafnsyndugir. Við fæddumst öll ófullkomin. Þess vegna veikjast allir fyrr eða síðar. Fólk veikist jafnvel þó að það reyni að hlýða öllum lögum Guðs og geri ekkert sem er mjög slæmt.

Hvernig verður heilsufar okkar þegar syndin er farin?

Hvers vegna veikjast þá sumir oftar en aðrir? — Það eru margar ástæður fyrir því. Kannski hafa þeir ekki nóg að borða eða borða ekki hollan mat. Kannski borða þeir of mikið af kökum og sælgæti. Önnur ástæða gæti verið sú að þeir vaki of lengi á kvöldin og sofi ekki nóg eða klæði sig ekki nógu vel áður en þeir fara út í kuldann. Sumir eru svo veikburða að líkami þeirra getur ekki barist á móti veikindunum jafnvel þó að þeir reyni að fara vel með sig.

Ætli við verðum einhvern tíma laus við veikindi? Losnum við einhvern tíma við syndina? — Hvað gerði Jesús fyrir lamaða manninn? — Jesús fyrirgaf honum syndir hans og læknaði hann. Þannig sýndi Jesús hvað hann ætlar að gera fyrir alla sem leggja sig fram um að gera það sem er rétt.

Jesús mun lækna okkur ef við sýnum að við viljum ekki syndga og hötum það sem er rangt. Í framtíðinni fjarlægir hann meðfæddan ófullkomleika okkar. Hann gerir það sem konungur Guðsríkis. Syndin hverfur ekki allt í einu heldur verður hún fjarlægð á alllöngu tímabili. Þegar syndin verður loks farin veikjumst við aldrei framar. Allir hafa þá fullkomna heilsu. Mikið verður það ánægjulegt!

Til að fá betri hugmynd um það hvernig syndin hefur áhrif á alla skaltu lesa Jobsbók 14:4; Sálm 51:7; Rómverjabréfið 3:23; 5:12 og 6:23.