Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

27. KAFLI

Hvaða Guð tilbiður þú?

Hvaða Guð tilbiður þú?

HVERS vegna er mikilvægt að spyrja: Hvaða Guð tilbiður þú? — Vegna þess að fólk tilbiður marga guði. (1. Korintubréf 8:5) Þegar Páll postuli fékk kraft frá Jehóva til að lækna mann, sem hafði aldrei getað gengið, kallaði fólkið: ,Guðirnir eru stignir niður til okkar eins og menn.‘ Fólkið vildi tilbiðja Pál og vin hans, Barnabas. Það kallaði Pál Hermes og Barnabas Seif en það voru nöfn á falsguðum.

En Páll og Barnabas vildu ekki láta tilbiðja sig. Þeir stukku inn í mannfjöldann og sögðu: ,Hverfið frá þessum fánýtu goðum til lifandi Guðs.‘ (Postulasagan 14:8-15) Hver er hinn ,lifandi Guð‘ sem skapaði alla hluti? — Já, það er Jehóva, „hinn hæsti yfir allri jörðunni“. Jesús kallaði Jehóva „hinn eina sanna Guð“. Hver er þá sá eini sem verðskuldar tilbeiðslu? — Já, það er Jehóva. — Sálmur 83:19; Jóhannes 17:3; Opinberunarbókin 4:11.

Hvers vegna vildu Páll og Barnabas ekki að fólkið félli fram fyrir þeim?

Flestir tilbiðja aðra guði en „hinn eina sanna Guð“. Þeir tilbiðja oft hluti sem þeir smíða úr tré, steini eða málmi. (2. Mósebók 32:4-7; 3. Mósebók 26:1; Jesaja 44:14-17) Stundum er frægt fólk jafnvel dýrkað og kallað stjörnur eða goð. Er rétt að upphefja fólk þannig? —

Eftir að Sál varð postuli og fékk nafnið Páll, skrifaði hann: „Guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu.“ (2. Korintubréf 4:4) Hver er þessi guð? — Já, Satan djöfullinn. Satan hefur tekist að fá marga til að tilbiðja fólk og hluti.

Hvað sagði Jesús þegar Satan reyndi að fá hann til að tilbiðja sig? — „Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ (Matteus 4:10) Jesús tók skýrt fram að það eigi ekki að tilbiðja neinn nema Jehóva. Við skulum lesa um þrjá unga menn sem vissu þetta. Þeir hétu Sadrak, Mesak og Abed-Negó og voru Hebrear.

Þessir ungu menn voru af þjóð Guðs, Ísrael, og höfðu verið hernumdir til Babýlonar. Nebúkadnesar, konungur Babýlonar, reisti risastórt líkneski úr gulli. Síðan skipaði hann öllum að falla fram fyrir líkneskinu þegar tónlist yrði leikin. Hann aðvaraði: ,Hver sá sem fellur ekki fram og tilbiður, honum verður kastað inn í brennandi eldsofn.‘ Hvað hefðir þú gert? —

Hvers vegna vilja þessir menn ekki falla fram fyrir líkneskinu?

Sadrak, Mesak og Abed-Negó gerðu yfirleitt allt sem konungurinn fyrirskipaði. En þetta vildu þeir ekki gera. Veistu hvers vegna? — Vegna þess að í lögum Guðs var sagt: ,Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt engin líkneski gera þér og ekki tilbiðja þau.‘ (2. Mósebók 20:3-5) Sadrak, Mesak og Abed-Negó hlýddu því frekar lögum Guðs en skipun konungsins.

Konungurinn reiddist ákaflega og lét sækja ungu Hebreana þrjá. Hann spurði: ,Er það af ásettu ráði að þið dýrkið ekki minn guð? Ég gef ykkur annað tækifæri. Um leið og þið heyrið tónlistina skuluð þið falla fram og tilbiðja líkneskið sem ég hef gert. Ef þið gerið það ekki verður ykkur kastað í brennandi eldsofn, og hvaða guð getur frelsað ykkur úr mínum höndum?‘

Hvað gerðu ungu mennirnir? Hvað hefðir þú gert? — Þeir sögðu við konunginn: ,Guð okkar, sem við dýrkum, getur frelsað okkur. En þótt hann geri það ekki munum við ekki dýrka þína guði. Við munum ekki falla fram fyrir gulllíkneskinu þínu.‘

Konungurinn varð bálreiður. Hann fyrirskipaði: ,Kyndið ofninn sjöfalt heitara en venjulega!‘ Síðan sagði hann sterkum hermönnum að binda Sadrak, Mesak og Abed-Negó og kasta þeim í ofninn. Ofninn var svo heitur að eldsloginn varð mönnum konungs að bana. En hvernig fór fyrir Hebreunum þrem?

Sadrak, Mesak og Abed-Negó lentu beint í eldinum. En síðan stóðu þeir upp. Þeir voru ómeiddir. Og þeir voru lausir við böndin. Hvernig gat þetta gerst? — Konungurinn varð hræddur þegar hann leit inn í ofninn. ,Köstuðum við ekki þremur mönnum í eldinn?‘ spurði hann. „Jú, vissulega, konungur,“ svöruðu þjónar hans.

Hvernig bjargaði Jehóva þjónum sínum úr eldsofninum?

Þá sagði konungurinn: ,Ég sé fjóra menn ganga þar um án þess að eldurinn skaði þá.‘ Veistu hver sá fjórði var? — Það var engill Jehóva. Hann verndaði Hebreana þrjá þannig að ekkert kom fyrir þá.

Þegar konungurinn sá þetta fór hann að dyrum ofnsins og kallaði: „Sadrak, Mesak og Abed-Negó, þjónar hins hæsta Guðs, gangið út og komið hingað!“ Þegar þeir komu út sáu allir að þeir höfðu ekki brennst. Það var ekki einu sinni brunalykt af þeim. Þá sagði konungurinn: ,Lofaður sé Guð Sadraks, Mesaks og Abed-Negós sem sendi engil til að frelsa þjóna sína af því að þeir vildu ekki tilbiðja neinn annan guð en sinn Guð.‘ — Daníel, 3. kafli.

Hvaða skurðgoð dýrkar fólk nú á dögum?

Við getum dregið lærdóm af því sem gerðist þarna. Nú á dögum tilbiður fólk alls konar hluti eins og líkneski og myndir. Alfræðibók segir: „Fáninn er heilagur líkt og krossinn.“ (The Encyclopedia Americana) Fólk tilbiður hluti úr tré, steini, málmi eða taui. Fyrstu lærisveinar Jesú tilbáðu ekki rómverska keisarann. Sagnfræðingurinn Daniel P. Mannix segir að það sé sambærilegt við það að neita að hylla fánann eða syngja þjóðsönginn.

Heldurðu að það skipti Guð einhverju máli hvort við búum til myndir eða líkneski úr taui, tré, steini eða málmi? — Væri rétt af þjóni Jehóva að tilbiðja slíka hluti? — Sadrak, Mesak og Abed-Negó gerðu það ekki og Jehóva var ánægður með þá. Hvernig geturðu líkt eftir þeim? —

Þeir sem þjóna Jehóva mega hvorki tilbiðja aðra persónu né nokkra hluti. Þú getur lesið um þetta í Jósúabók 24:14, 15, 19-22; Jesaja 42:8; 1. Jóhannesarbréfi 5:21 og Opinberunarbókinni 19:10.