Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

29. KAFLI

Er Guð ánægður með allar veislur?

Er Guð ánægður með allar veislur?

Af hverju var Jehóva ánægður með þessa veislu?

FINNST þér gaman að fara í veislu? — Það getur verið mjög skemmtilegt. Heldurðu að kennarinn mikli vilji að við förum í veislur? — Hann fór sjálfur í brúðkaupsveislu og nokkrir lærisveinar fóru með honum. Jehóva er ,hinn sæli Guð‘ og þess vegna er hann ánægður þegar við skemmtum okkur vel í góðum veislum. — 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912; Jóhannes 2:1-11.

Á blaðsíðu 29 í þessari bók er sagt frá því þegar Jehóva klauf Rauðahafið svo að Ísraelsmenn kæmust yfir. Manstu eftir því? — Eftir á söng fólkið og dansaði og þakkaði Jehóva. Þetta var eins konar veisla. Fólkið var mjög ánægt og við getum verið viss um að Guð var líka ánægður. — 2. Mósebók 15:1, 20, 21.

Um það bil 40 árum seinna fóru Ísraelsmenn í aðra mikla veislu. Í þetta sinn voru gestgjafarnir ekki tilbiðjendur Jehóva. Þeir tilbáðu aðra guði og höfðu kynmök við aðra en maka sína. Heldurðu að það hafi verið í lagi að fara í slíka veislu? — Jehóva var ekki ánægður og hann refsaði Ísraelsmönnum. — 4. Mósebók 25:1-9; 1. Korintubréf 10:8.

Biblían segir líka frá tveimur afmælisveislum. Var önnur hvor þeirra til að halda upp á afmæli kennarans mikla? — Nei, báðar afmælisveislurnar voru haldnar fyrir menn sem þjónuðu ekki Jehóva. Önnur þeirra var haldin fyrir Heródes Antípas konung. Hann var fjórðungsstjóri í Galíleu þegar Jesús bjó þar.

Heródes konungur gerði margt slæmt. Hann kvæntist konu bróður síns. Hún hét Heródías. Jóhannes skírari, sem var þjónn Guðs, sagði Heródesi að það væri rangt. Það líkaði Heródesi illa og þess vegna lét hann varpa Jóhannesi í fangelsi. — Lúkas 3:19, 20.

Á meðan Jóhannes var í fangelsinu rann afmælisdagur Heródesar upp. Heródes hélt mikla veislu og bauð mörgu háttsettu fólki. Gestirnir borðuðu og drukku og skemmtu sér vel. Síðan kom dóttir Heródíasar og dansaði fyrir gestina. Allir voru svo hrifnir af dansinum að Heródes konungur ákvað að gefa henni sérstaka gjöf. Hann sagði við hana: ,Hvað sem þú biður um, það mun ég gefa þér, allt að helmingi ríkis míns.‘

Um hvað átti hún að biðja? Átti hún að biðja um peninga, falleg föt eða höll? Stúlkan vissi ekki hvað hún átti að segja. Þess vegna fór hún til Heródíasar, móður sinnar, og spurði: „Um hvað á ég að biðja?“

Heródías hataði Jóhannes skírara. Þess vegna sagði hún dóttur sinni að biðja um höfuð hans. Stúlkan fór aftur til konungsins og sagði: ,Gefðu mér þegar í stað höfuð Jóhannesar skírara á fati.‘

Heródes konungur vildi ekki taka Jóhannes af lífi vegna þess að hann vissi að Jóhannes var góður maður. En hann hafði gefið stúlkunni loforð og var hræddur við hvað öðrum í veislunni fyndist um hann ef hann skipti um skoðun. Hann sendi því mann í fangelsið til að hálshöggva Jóhannes. Stuttu seinna kom maðurinn aftur með höfuð Jóhannesar á fati. Hann færði stúlkunni höfuðið og hún lét móður sína fá það. — Markús 6:17-29.

Hin afmælisveislan, sem Biblían segir frá, var ekkert skárri. Hún var haldin fyrir Egyptalandskonung. Í þeirri veislu lét konungurinn líka hálshöggva mann. Síðan hengdi hann lík mannsins upp svo að fuglarnir gætu étið það. (1. Mósebók 40:19-22) Heldurðu að Guð hafi verið ánægður með þessar tvær veislur? — Hefðir þú viljað vera í þeim? —

Hvað gerðist í afmælisveislu Heródesar?

Við vitum að allt í Biblíunni er skrifað í ákveðnum tilgangi. Hún segir bara frá tveimur afmælisveislum og í þeim báðum voru unnin mikil vonskuverk. Hvað heldurðu að Guð sé að segja okkur um afmælisveislur? Vill hann að við höldum upp á afmæli? —

Auðvitað er enginn hálshöggvinn í afmælisveislum nú á dögum. En sá siður að halda upp á fæðingardaga byrjaði hjá fólki sem tilbað ekki hinn sanna Guð. Alfræðiorðabók segir um afmælisveislurnar í Biblíunni: „Aðeins syndarar . . . halda fagnaðarveislur á fæðingardegi sínum.“ (The Catholic Encyclopedia) Viljum við vera eins og þeir? —

En hvað með kennarann mikla? Hélt hann upp á afmælið sitt? — Nei, Biblían minnist aldrei á að afmælisveislur hafi verið haldnar fyrir Jesú. Fyrstu fylgjendur hans héldu ekki heldur fæðingardag hans hátíðlegan. Veistu af hverju fólk ákvað seinna að halda upp á fæðingardag Jesú 25. desember? —

Eins og segir í annarri alfræðiorðabók var þessi dagur valinn af því að „Rómverjar héldu hann þegar hátíðlegan því að þá var Satúrnusarhátíðin eða fæðingardagur sólarinnar“. (The World Book Encyclopedia) Fólk ákvað sem sagt að halda upp á fæðingardag Jesú á degi sem heiðingjar héldu þegar hátíðlegan.

Veistu af hverju Jesús getur ekki hafa fæðst í desember? — Af því að Biblían segir að þegar hann fæddist hafi fjárhirðar enn þá verið með hjarðirnar úti í haga á næturnar. (Lúkas 2:8-12) Það gátu þeir ekki gert í desember því að þá er kalt og oft rigning á þessu svæði.

Af hverju getur Jesús ekki hafa fæðst 25. desember?

Margir vita að Jesús fæddist ekki á jólunum. Þeir vita jafnvel að á þessum degi héldu heiðingjar hátíð sem Guð hafði ekki velþóknun á. Margir halda jól þrátt fyrir það. Þeir hafa meiri áhuga á því að halda veislu en að vita hvað Jehóva segir um málið. En við viljum þóknast Jehóva, er það ekki? —

Við skulum því ganga úr skugga um að Jehóva sé ánægður með þær veislur sem við höldum. Við getum haldið veislu á hvaða árstíma sem er. Við þurfum ekki að bíða eftir sérstökum degi. Við getum borðað góðan mat og farið í skemmtilega leiki. Væri það ekki gaman? — Þú gætir kannski talað við foreldra þína og beðið þá um að hjálpa þér að skipuleggja slíka veislu. Heldurðu ekki að það gæti verið skemmtilegt? — En áður en þú skipuleggur veislu skaltu vera viss um að þetta sé veisla sem Guð er ánægður með.

Hvernig getum við gengið úr skugga um að Guð sé ánægður með veislurnar okkar?

Eftirfarandi ritningarstaðir sýna okkur hversu mikilvægt er að gera alltaf það sem Guð hefur velþóknun á. Orðskviðirnir 12:2; Jóhannes 8:29; Rómverjabréfið 12:2; 1. Jóhannesarbréf 3:22.