Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

36. KAFLI

Hverjir verða reistir upp og hvar munu þeir búa?

Hverjir verða reistir upp og hvar munu þeir búa?

Í SÍÐUSTU tveimur köflum lásum við um nokkra einstaklinga sem voru reistir upp frá dauðum. Manstu hvað þeir voru margir? — Þeir voru fimm. Hvað voru mörg börn reist upp? — Þrjú. Og sá fjórði var ungur maður. Hvað heldurðu að við getum lært af þessu? —

Við lærum að Guð elskar ungt fólk. En hann reisir líka marga aðra upp frá dauðum. Reisir Guð aðeins upp þá sem gerðu gott? — Það mætti halda það. En margir kynntust aldrei sannleikanum um Jehóva Guð og son hans. Þeir gerðu margt rangt af því að þeim var kennt margt rangt. Heldurðu að Jehóva reisi svona fólk upp frá dauðum? —

Biblían segir: ,Upp munu rísa bæði réttlátir og ranglátir.‘ (Postulasagan 24:15) Hvers vegna verða þeir reistir upp sem voru ranglátir og gerðu ekki rétt? — Vegna þess að þeir fengu aldrei tækifæri til að fræðast um Jehóva og það sem hann vill að fólk geri.

Hvers vegna mun Guð reisa upp fólk sem gerði ekki rétt?

Hvenær heldurðu að fólk verði reist upp? — Manstu hvað Jesús sagði við Mörtu um dauða Lasarusar? Hann sagði: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Hún svaraði: „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ (Jóhannes 11:23, 24) Hvað átti Marta við þegar hún sagði að Lasarus myndi rísa upp á „efsta degi“? —

Hvar er paradísin sem Jesús er að segja manninum frá?

Marta vissi að Jesús hafði sagt að ,allir þeir sem væru í gröfunum myndu ganga fram‘. (Jóhannes 5:28, 29) Hinn ,efsti dagur‘ er sá tími þegar allir sem Guð minnist verða reistir upp frá dauðum. Þessi dagur er ekki bara einn sólarhringur heldur þúsund ár. Biblían segir að ,Guð muni dæma jarðarbúa‘ á þessum degi. Hann dæmir meðal annars þá sem hafa verið reistir upp. — Postulasagan 17:31; 2. Pétursbréf 3:8.

Hugsaðu þér hvað þetta verður dásamlegur dagur! Á þessum þúsund ára langa degi verða margar milljónir látinna manna reistar upp frá dauðum. Jesús sagði að þegar fólkið yrði reist upp myndi það búa á stað sem kallast paradís. Við skulum athuga hvar paradís verður og hvernig verður að búa þar.

Þremur klukkustundum áður en Jesús deyr á kvalastaur talar hann um paradís við mann sem hékk á staur við hliðina á honum. Það er verið að lífláta manninn fyrir glæpi sem hann hefur framið. En þegar afbrotamaðurinn fylgist með Jesú og heyrir það sem sagt er um hann fer hann að trúa á hann. Þess vegna segir afbrotamaðurinn: „Minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt.“ Jesús svarar: „Sannlega segi ég þér í dag, þú skalt vera með mér í paradís.“ — Lúkas 23:42, 43, NW.

Um hvað ættum við að hugsa þegar við lesum um paradís?

Hvað á Jesús við þegar hann segir þetta? Hvar er paradís? — Hugsaðu málið. Hvar var paradís upphaflega? — Eins og þú manst leyfði Guð Adam, fyrsta manninum, og konu hans að búa í paradís hérna á jörðinni. Þessi paradís hét Eden. Í Edengarðinum voru alls konar dýr en þau gerðu engum mein. Þar var líka stór á og mörg tré með fullt af gómsætum ávöxtum. Þetta var yndislegur staður til að búa á. — 1. Mósebók 2:8-10.

Þegar við lesum að afbrotamaðurinn verði í paradís ættum við að sjá fyrir okkur að öll jörðin verði unaðsfögur. Verður Jesús í paradís hérna á jörðinni með þessum fyrrverandi afbrotamanni? — Nei. Veistu hvers vegna? —

Það er vegna þess að Jesús verður á himnum sem konungur yfir paradís. Jesús verður því með manninum í þeim skilningi að hann reisir hann upp frá dauðum og sinnir þörfum hans. En hvers vegna leyfir Jesús fyrrverandi afbrotamanni að búa í paradís? — Við skulum reyna að átta okkur á því.

Vissi afbrotamaðurinn um fyrirætlun Guðs áður en hann talaði við Jesú? — Nei, það gerði hann ekki. Hann gerði margt slæmt vegna þess að hann þekkti ekki sannleikann um Guð. Í paradís lærir hann um það sem Guð ætlar sér að gera. Þá fær hann tækifæri til að gera vilja Guðs og sanna þannig að hann elskar hann í raun og veru.

Munu allir sem fá upprisu búa í paradís á jörð? — Nei. Veistu af hverju? — Af því að sumir verða reistir upp til að vera með Jesú á himnum. Þeir munu ríkja með honum sem konungar yfir paradís á jörð. Hvernig vitum við það?

Kvöldið fyrir dauða sinn segir Jesús postulunum: ,Í húsi föður míns eru margir bústaðir og ég fer burt til að undirbúa stað fyrir ykkur.‘ Síðan lofar hann þeim: ,Ég kem aftur og tek ykkur til mín svo að þið verðið einnig þar sem ég er.‘ — Jóhannes 14:2, 3.

Hvert fór Jesús eftir að hann var reistur upp? — Já, hann fór aftur til himna til að vera með föður sínum. (Jóhannes 17:4, 5) Jesús lofar sem sagt postulunum og öðrum fylgjendum sínum að reisa þá upp svo að þeir geti verið með honum á himnum. Hvað gera þeir á himnum með Jesú? — Biblían segir að lærisveinarnir, sem fá hlutdeild í „fyrri upprisunni“, verði á himnum og ríki með honum sem konungar yfir jörðinni „um þúsund ár“. — Opinberunarbókin 5:10; 20:6; 2. Tímóteusarbréf 2:12.

Hversu margir fá hlutdeild í „fyrri upprisunni“ og stjórna sem konungar með Jesú? — Jesús sagði við lærisveinana: ,Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður ykkar hefur þóknast að gefa ykkur ríkið.‘ (Lúkas 12:32) Það er bara ákveðinn fjöldi sem tilheyrir þessari ,litlu hjörð‘ og verður reistur upp til að vera með Jesú í Guðsríki. Biblían segir að „hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir“ verði reistar upp til himna. — Opinberunarbókin 14:1, 3.

Hvar munu hinir upprisnu búa og hvað munu þeir gera?

Hversu margir munu búa í paradís á jörð? — Biblían segir ekki hve margir þeir verða. En Guð sagði Adam og Evu í Edengarðinum að eignast börn og uppfylla jörðina. Þau gerðu það að vísu ekki. En Guð mun sjá til þess að fyrirætlun sín rætist og að jörðin fyllist af góðu fólki. — 1. Mósebók 1:28; Jesaja 45:18; 55:11.

Hugsaðu þér hversu dásamlegt það verður að búa í paradís. Öll jörðin verður eins og lystigarður. Þar verður allt iðandi af lífi; fuglum, dýrum og alls konar fallegum blómum og trjám. Enginn þjáist vegna veikinda og enginn þarf að deyja. Allir verða vinir. Ef okkur langar að lifa að eilífu í paradís á jörð þurfum við að undirbúa okkur núna.

Lestu meira um fyrirætlun Guðs með jörðina í Orðskviðunum 2:21, 22; Prédikaranum 1:4 og Jesaja 2:4; 11:6-9 og 35:5, 6.