Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

38. KAFLI

Hvers vegna ættum við að elska Jesú?

Hvers vegna ættum við að elska Jesú?

ÍMYNDAÐU þér að þú sért á báti sem er alveg að sökkva. Myndirðu ekki vilja að einhver bjargaði þér? — Hugsaðu þér ef einhver fórnaði lífinu til að bjarga þér. Það er einmitt það sem Jesús Kristur gerði. Eins og við lásum í 37. kafla gaf hann líf sitt sem lausnargjald til að bjarga okkur.

Jesús bjargar okkur auðvitað ekki frá drukknun. Frá hverju bjargar hann okkur þá? Manstu það? — Hann bjargar okkur frá synd og dauða sem við höfum öll fengið í arf frá Adam. Jesús dó líka fyrir þá sem hafa gert margt illt. Myndir þú hætta lífinu til þess að bjarga slíku fólki? —

Biblían segir: ,Varla lætur nokkur lífið fyrir réttlátan mann — fyrir góðan mann vill kannski einhver deyja.‘ En Biblían segir að Jesús hafi ,dáið fyrir óguðlega menn‘, þar á meðal fólk sem þjónar ekki Guði. Biblían segir í framhaldinu: ,Kristur dó fyrir okkur meðan við vorum enn í syndum okkar [gerðum það sem er rangt].‘ — Rómverjabréfið 5:6-8.

Manstu eftir manni sem gerði margt illt áður en hann varð postuli? — Hann skrifaði seinna: „Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur. Það var Páll postuli sem skrifaði þetta. Hann sagðist hafa verið ,óskynsamur‘ og lifað „í illsku“ áður fyrr. — 1. Tímóteusarbréf 1:15; Títusarbréfið 3:3.

Hugsaðu þér hversu kærleiksríkur Guð var að senda son sinn til að deyja fyrir svona fólk. Þú ættir að ná í biblíuna þína og lesa um þetta í Jóhannesi 3. kafla, versi 16. Þar segir: „Því svo elskaði Guð heiminn [fólkið á jörðinni], að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“

Hvað þurfti Jesús að þola þegar hann gaf líf sitt fyrir okkur?

Jesús sannaði að hann elskaði okkur jafnheitt og faðir hans. Þú manst kannski að í 30. kafla lásum við hvað Jesús þurfti að þola nóttina sem hann var handtekinn. Farið var með hann heim til Kaífasar æðsta prests og haldin réttarhöld yfir honum. Jesús var barinn og falsvitni lugu ýmsu upp á hann. Það var þá sem Pétur sagðist ekki þekkja hann. Við skulum ímynda okkur að við séum á staðnum og getum séð hvað gerist næst.

Það er kominn morgunn. Jesús hefur verið vakandi alla nóttina. Prestarnir kalla æðstaráðið saman með hraði, en það var hæstiréttur Gyðinga. Þetta gerðu þeir til að halda önnur réttarhöld því að réttarhöldin, sem haldin voru um nóttina, voru ólögleg. Þeir reyna aftur að saka Jesú um glæpi gegn Guði.

Því næst binda prestarnir Jesú og fara með hann til Pílatusar, rómverska landstjórans. Þeir segja Pílatusi: ,Jesús er á móti ríkisstjórninni. Það ætti að taka hann af lífi.‘ En Pílatus áttar sig á því að prestarnir eru að ljúga. Þess vegna segir hann við þá: ,Þessi maður hefur ekkert gert af sér. Ég ætla að sleppa honum.‘ En þá hrópa prestarnir og hitt fólkið: ,Nei! Taktu hann af lífi!‘

Pílatus reynir aftur seinna að segja fólkinu að hann ætli að sleppa Jesú. En þá fá prestarnir mannfjöldann til að æpa: ,Ef þú sleppir honum ert þú líka á móti ríkisstjórninni! Taktu hann af lífi!‘ Fólkið verður mjög æst. Veistu hvað Pílatus gerir þá? —

Pílatus lætur undan. Fyrst lætur hann húðstrýkja Jesú og síðan fá hermennirnir hann í hendur til þess að taka hann af lífi. Þeir setja þyrnikórónu á höfuð honum og gera grín að honum með því að hneigja sig fyrir honum. Síðan láta þeir hann bera stóran staur og fara með hann út fyrir borgina á stað sem kallast Hauskúpustaður. Þeir negla Jesú á höndum og fótum við staurinn. Síðan reisa þeir staurinn. Það blæðir úr sárunum og Jesús er sárkvalinn þar sem hann hangir á staurnum.

Jesús deyr ekki alveg strax. Hann hangir bara á staurnum. Æðstu prestarnir gera grín að honum og þeir sem ganga fram hjá segja: ,Komdu niður af kvalastaurnum ef þú ert sonur Guðs.‘ En Jesús veit hvers vegna faðir hans sendi hann til jarðarinnar. Hann veit að hann verður að gefa fullkomið líf sitt svo að við getum fengið tækifæri til að lifa að eilífu. Um þrjúleytið síðdegis hrópar Jesús til föður síns og deyr. — Matteus 26:36– 27:50; Markús 15:1; Lúkas 22:39– 23:46; Jóhannes 18:1– 19:30.

Jesús var svo sannarlega ólíkur Adam. Adam elskaði ekki Guð. Hann óhlýðnaðist Guði. Adam elskaði okkur ekki heldur. Við erum öll fædd syndug af því að hann syndgaði. Hins vegar sýndi Jesús að hann elskaði bæði Guð og okkur. Hann hlýddi alltaf Guði. Og hann fórnaði lífi sínu til að bæta fyrir það sem Adam gerði okkur.

Hvernig getum við sýnt að við elskum Jesú?

Finnst þér ekki stórkostlegt að Jesús skyldi gera þetta fyrir okkur? — Þakkarðu Guði fyrir að hafa gefið okkur son sinn þegar þú biður til hans? — Páll postuli var þakklátur fyrir það sem Jesús gerði fyrir hann. Hann skrifaði: ,Sonur Guðs elskaði mig og fórnaði lífi sínu fyrir mig.‘ (Galatabréfið 2:20) Jesús dó líka fyrir mig og þig. Hann gaf fullkomið líf sitt svo að við gætum fengið að lifa að eilífu. Er það ekki góð og gild ástæða til að elska Jesú? —

Páll postuli skrifaði til kristinna manna í Korintuborg: „Kærleikur Krists knýr okkur til verka.“ Hvaða verk eru það? Hvað heldurðu? — Taktu eftir hverju Páll svarar: „Kristur dó fyrir alla til þess að þeir myndu lifa fyrir hann. Þeir ættu ekki að lifa til að þóknast sjálfum sér.“ — 2. Korintubréf 5:14, 15, New Life Version.

Veistu hvernig þú getur sýnt að þú lifir eins og Kristur vill? — Ein leið er að segja öðrum frá því sem þú veist um hann. Eða segjum að þú sért einn heima þannig að mamma þín og pabbi eða annað fólk sér ekki hvað þú ert að gera. Myndirðu þá horfa á sjónvarpsþætti eða skoða eitthvað á Netinu sem þú veist að Jesús væri ekki ánægður með? — Mundu að Jesús lifir og hann getur séð allt sem við gerum.

Hver getur séð allt sem við gerum?

Við viljum líkja eftir Jehóva og það er önnur ástæða fyrir því að við ættum að elska Jesú. ,Faðirinn elskar mig,‘ sagði Jesús. Veistu af hverju hann elskar Jesú og af hverju við ættum að gera það líka? — Það er af því að Jesús var tilbúinn til að deyja svo að vilji Guðs næði fram að ganga. (Jóhannes 10:17) Við skulum því gera eins og Biblían segir: ,Líkið því eftir Guði eins og elskuð börn hans. Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði okkur og fórnaði lífinu fyrir okkur.‘ — Efesusbréfið 5:1, 2.

Til að læra að meta Jesú og það sem hann gerði fyrir okkur skaltu lesa Jóhannes 3:35; 15:9, 10 og 1. Jóhannesarbréf 5:11, 12.