Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

41. KAFLI

Börn sem gleðja Guð

Börn sem gleðja Guð

HVAÐA barn heldurðu að hafi glatt Jehóva mest allra barna sem hafa verið á jörðinni? — Það var Jesús, sonur hans. Við skulum ræða aðeins um það sem Jesús gerði til að gleðja föður sinn á himnum.

Fjölskylda Jesú bjó þrjár dagleiðir frá Jerúsalem þar sem hið fallega musteri Jehóva stóð. Jesús kallaði musterið ,hús föður síns‘. Hann fór þangað á hverju ári með fjölskyldu sinni til að halda páska.

Þegar Jesús var 12 ára var fjölskylda hans á heimleið eftir páskahátíðina. Þau höfðu gengið fyrstu dagleiðina þegar þau uppgötvuðu að Jesús var ekki á meðal ættingja eða vina eins og þau höfðu haldið. María og Jósef fóru því strax aftur til Jerúsalem til að leita að Jesú. Hvar heldurðu að hann hafi verið? —

Þau fundu Jesú í musterinu. Hann var að hlusta á kennarana og spyrja þá spurninga. Hann gat líka svarað spurningum þeirra. Þeir voru mjög undrandi hversu vel hann svaraði. Sérðu núna hvers vegna Guð var ánægður með son sinn? —

María og Jósef voru auðvitað mjög fegin þegar þau fundu hann loksins. En Jesús hafði ekki verið áhyggjufullur. Hann vissi að musterið var öruggur staður. Þess vegna spurði hann: „Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?“ Hann vissi að musterið var hús Guðs og honum fannst gott að vera þar.

Eftir þetta fóru María og Jósef með Jesú aftur heim til Nasaret. Hvernig heldurðu að Jesús hafi komið fram við foreldra sína? — Biblían segir að hann hafi verið „þeim hlýðinn“. Já, hann gerði það sem foreldrar hans báðu hann um og vann til dæmis ýmis heimilisstörf eins og að sækja vatn í brunn. — Lúkas 2:41-52.

Hvernig gladdi Jesús Guð þegar hann var barn?

Taktu eftir að Jesús hlýddi ófullkomnum foreldrum sínum þó að hann væri fullkominn. Gladdi það Guð? — Já, vissulega, því að í orði hans er börnum sagt: ,Hlýðið foreldrum ykkar.‘ (Efesusbréfið 6:1) Þú getur glatt Guð með því að líkja eftir Jesú og hlýða foreldrum þínum.

Þú getur líka glatt Guð með því að segja öðrum frá honum. Sumum finnst kannski að börn eigi ekki að segja öðrum frá Guði. En á dögum Jesú gerðu nokkrir drengir það og þegar fólk reyndi að þagga niður í þeim, sagði Jesús: ,Hafið þið aldrei lesið í Ritningunni: „Af munni barna fær Guð lof“?‘ (Matteus 21:16) Allir geta sagt öðrum frá Jehóva og útskýrt hversu dásamlegur Guð hann er ef þá langar til þess. Ef við gerum það gleðjum við Guð.

Hvernig getum við fræðst um Guð svo að við getum sagt öðrum frá honum? — Með því að lesa og rannsaka Biblíuna heima. Við lærum síðan meira á samkomum þar sem þjónar Guðs koma saman til að fræðast. En hvernig vitum við hverjir eru þjónar Guðs? —

Í fyrsta lagi er gott að athuga hvað fólk gerir á samkomunum. Kennir það örugglega það sem Biblían segir? Les það upp úr Biblíunni og ræðir um hana? Er það ekki þannig sem við hlustum á Guð? — Viljum við ekki heyra það sem Guð segir þegar við erum á safnaðarsamkomum? — En hvað ef fólk segir að þú þurfir ekki að fara eftir því sem stendur í Biblíunni? Heldurðu að slíkt fólk þjóni Guði? —

Það er líka gott að muna að Biblían segir að þjónar Guðs eigi að ,bera nafn hans‘. (Postulasagan 15:14) Guð heitir Jehóva og þess vegna getum við spurt fólk hvort Jehóva sé Guð þeirra. Ef það segir nei, þá vitum við að það er ekki þjónar hans. Þjónar Guðs eiga líka að segja öðrum frá Guðsríki og sýna kærleika sinn til Guðs með því að halda boðorð hans. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

Ef þú þekkir fólk sem gerir allt þetta ættirðu að fara með því á samkomur. Þú ættir að hlusta vandlega á samkomunum og svara síðan þegar spurt er spurninga. Jesús gerði það þegar hann var í húsi Guðs. Ef þú gerir allt þetta gleðurðu Guð eins og Jesús gerði.

Manstu eftir frásögum í Biblíunni af öðrum börnum sem glöddu Guð? — Tímóteus er mjög gott dæmi. Pabbi hans tilbað ekki Jehóva. En það gerðu Evnike, mamma hans, og Lóis, amma hans. Tímóteus hlustaði á þær og þannig lærði hann um Jehóva.

Hvað vildi Tímóteus gera þó að pabbi hans tilbæði ekki Guð?

Seinna, þegar Tímóteus var orðinn eldri, heimsótti Páll postuli heimabæ hans. Páll tók eftir hversu mikið Tímóteus langaði til að þjóna Jehóva. Þess vegna bauð hann Tímóteusi að ferðast með sér svo að hann gæti þjónað Jehóva enn betur. Páll og Tímóteus töluðu við fólk um Jesú og Guðsríki hvar sem þeir komu. — Postulasagan 16:1-5; 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15.

En nefnir Biblían bara drengi sem glöddu Guð? — Nei, hún segir líka frá ungri ísraelskri stúlku sem gladdi Guð. Á hennar dögum voru Sýrland og Ísrael óvinaþjóðir. Dag einn börðust Sýrlendingar við Ísrael og tóku stúlkuna til fanga. Hún var send heim til hershöfðingja, sem hét Naaman, til að vera þjónustustúlka eiginkonu hans.

Naaman var með sjúkdóm sem kallast holdsveiki. Enginn læknir hafði getað hjálpað honum. Ísraelska stúlkan trúði því samt að spámaður Guðs gæti hjálpað honum. En Naaman og kona hans tilbáðu að sjálfsögðu ekki Jehóva. Átti hún þá að segja þeim frá spámanninum? Hvað hefðir þú gert? —

Hvernig gladdi þessi ísraelska stúlka Guð?

Stúlkan sagði: ,Ég vildi óska að Naaman færi til spámanns Jehóva í Ísrael því að hann gæti læknað hann af holdsveikinni.‘ Naaman hlustaði á stúlkuna og fór til spámanns Jehóva. Eftir að hafa gert það sem spámaðurinn sagði honum að gera læknaðist hann. Þetta varð til þess að Naaman fór að þjóna hinum sanna Guði. — 2. Konungabók 5:1-15.

Myndir þú vilja gera eins og stúlkan frá Ísrael og hjálpa einhverjum að kynnast Jehóva og því sem hann getur gert? — Hverjum gætirðu hjálpað? — Þeir sem þú vilt hjálpa halda kannski í byrjun að þeir þurfi enga hjálp. En þú gætir sagt þeim frá öllu því góða sem Jehóva gerir. Þá hlusta þeir kannski. Þú getur að minnsta kosti verið viss um að það gleður Guð.

Eftirfarandi ritningarstaðir hvetja ungt fólk til að þjóna Guði með gleði: Sálmur 122:1; 148:12, 13; Prédikarinn 12:1; 1. Tímóteusarbréf 4:12; Hebreabréfið 10:23-25.