Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

43. KAFLI

Hverjir eru bræður okkar og systur?

Hverjir eru bræður okkar og systur?

EITT sinn spurði kennarinn mikli: „Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?“ (Matteus 12:48) Þetta var óvenjuleg spurning. Geturðu svarað henni? — Þú veist líklega að móðir Jesú hét María. En veistu hvað bræður hans hétu? — Og átti hann einhverjar systur? —

Biblían segir að bræður Jesú hafi heitið „Jakob, Jósef, Símon og Júdas“. Og hann átti líka systur sem voru á lífi þegar hann prédikaði. Þar sem Jesús var frumburðurinn voru öll systkini hans yngri en hann. — Matteus 13:55, 56; Lúkas 1:34, 35.

Voru bræður Jesú lærisveinar hans? — Biblían segir að í byrjun hafi þeir ,ekki trúað á hann‘. (Jóhannes 7:5) En seinna meir urðu Jakob og Júdas lærisveinar hans og skrifuðu meira að segja bréf sem eru í Biblíunni. Veistu hvað þau heita? — Já, Jakobsbréfið og Júdasarbréfið.

Þó að systur Jesú séu ekki nefndar með nafni í Biblíunni vitum við að hann átti að minnsta kosti tvær. En þær geta hafa verið fleiri. Gerðust systur hans fylgjendur hans? — Við vitum það ekki vegna þess að Biblían segir ekkert um það. En veistu hvers vegna Jesús spurði: „Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?“ — Við skulum athuga það.

Jesús var að kenna lærisveinunum þegar einhver truflaði hann og sagði: „Móðir þín og bræður standa hér úti og vilja tala við þig.“ Jesús notaði því tækifærið til að kenna áheyrendum sínum mikilvægan lærdóm með því að spyrja þessarar óvenjulegu spurningar: „Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?“ Hann rétti út höndina í átt að lærisveinunum og sagði: „Hér er móðir mín og bræður mínir.“

Síðan útskýrði Jesús við hvað hann átti: „Hver sem gjörir vilja föður míns, sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir.“ (Matteus 12:47-50) Þetta sýnir hvað Jesú fannst hann náinn lærisveinum sínum. Hann var að kenna okkur að lærisveinarnir hafi verið honum eins og raunverulegir bræður, systur og mæður.

Hverja sagði Jesús vera bræður sína og systur?

Þegar þetta gerðist trúðu bræður Jesú, þeir Jakob, Jósef, Símon og Júdas, ekki að hann væri sonur Guðs. Þeir hafa greinilega ekki trúað því sem engillinn Gabríel sagði við móður þeirra. (Lúkas 1:30-33) Kannski hafa þeir verið vondir við Jesú. Sá sem lætur þannig hagar sér ekki eins og sannur bróðir eða sönn systir. Þekkirðu einhvern sem hefur verið vondur við bróður sinn eða systur? —

Biblían segir frá Esaú og Jakobi og að Esaú hafi orðið svo reiður að hann sagði: ,Ég ætla að drepa Jakob bróður minn.‘ Rebekka, móðir þeirra, varð mjög hrædd og lét senda Jakob í burtu svo að Esaú gæti ekki drepið hann. (1. Mósebók 27:41-46) En mörgum árum síðar breyttist Esaú og faðmaði og kyssti Jakob. — 1. Mósebók 33:4.

Jakob eignaðist tólf syni. En eldri sonum hans þótti ekki vænt um Jósef, yngri bróður sinn. Þeir voru öfundsjúkir út í hann vegna þess að hann var eftirlæti föður þeirra. Þeir seldu hann því þrælakaupmönnum sem voru á leið til Egyptalands. Síðan sögðu þeir föður sínum að villidýr hefði drepið Jósef. (1. Mósebók 37:23-36) Var þetta ekki hræðilegt? —

Seinna sáu bræður Jósefs eftir því sem þeir höfðu gert og Jósef fyrirgaf þeim. Sérðu hvernig Jósef líktist Jesú? — Postular Jesú flúðu frá honum þegar hann var í erfiðleikum og Pétur sagðist jafnvel ekki þekkja hann. En Jesús fyrirgaf þeim öllum líkt og Jósef gerði.

Hvaða lærdóm getum við dregið af því sem Kain gerði Abel?

Við getum líka dregið lærdóm af bræðrunum Kain og Abel. Guð sá að Kain elskaði ekki bróður sinn og sagði honum að bæta ráð sitt. Ef Kain hefði elskað Guð í raun og veru hefði hann hlustað á hann. En hann elskaði ekki Guð. Dag einn sagði Kain við Abel: „Göngum út á akurinn!“ Abel fór með honum. Þegar þeir voru einir úti á akrinum sló Kain bróður sinn svo fast að hann drap hann. — 1. Mósebók 4:2-8.

Í Biblíunni er okkur sagt að draga sérstakan lærdóm af þessu. Veistu hver hann er? — ,Þetta er boðskapurinn sem þið hafið heyrt frá upphafi: Við eigum að elska hver annan. Ekki vera eins og Kain sem heyrði hinum vonda til.‘ Bræðrum og systrum ætti því að þykja vænt hvert um annað. Þau ættu ekki að vera eins og Kain. — 1. Jóhannesarbréf 3:11, 12.

Hvers vegna væri slæmt að vera eins og Kain? — Vegna þess að Biblían segir að hann hafi ,tilheyrt hinum vonda‘, Satan djöflinum. Það var engu líkara en að Satan væri faðir Kains af því að Kain hegðaði sér eins og hann.

Sérðu hvers vegna það er mikilvægt að elska systkini sín? — Eftir hvaða börnum værir þú að líkja ef þér þætti ekki vænt um systkini þín? — Börnum Satans. Ekki viltu það? — Hvernig geturðu þá sýnt að þú viljir vera barn Guðs? — Með því að elska systkini þín í raun og veru.

En hvað er það að elska? — Það er sterk tilfinning innra með okkur sem fær okkur til að gera öðrum gott. Við sýnum að okkur þykir vænt um aðra þegar við berum góðar tilfinningar til þeirra og gerum eitthvað gott fyrir þá. Og hver eru systkini okkar sem okkur ætti að þykja vænt um? — Mundu að Jesús sagði að það væru þau sem mynda hina stóru kristnu fjölskyldu.

Hvernig geturðu sýnt að þú elskir bróður þinn?

Hversu mikilvægt er að þykja vænt um trúsystkini okkar? — Biblían segir: „Sá sem elskar ekki bróður sinn [eða systur], sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóhannesarbréf 4:20) Við megum því ekki láta okkur þykja bara vænt um suma í kristnu fjölskyldunni. Okkur verður að þykja vænt um alla. Jesús sagði: ,Á því munu allir þekkja að þið eruð mínir lærisveinar, ef þið berið elsku hver til annars.‘ (Jóhannes 13:35) Þykir þér vænt um öll trúsystkini þín? — Mundu að ef þér þykir það ekki geturðu ekki elskað Guð í raun og veru.

Hvernig getum við sýnt að okkur þyki vænt um bræður okkar og systur? — Ef okkur þykir vænt um þau sniðgöngum við þau ekki eða forðumst að tala við þau. Við erum vinaleg við þau öll. Við erum alltaf góð við þau og okkur langar til að gefa þeim af því sem við eigum. Ef þau eiga einhvern tíma í erfiðleikum hjálpum við þeim af því að við erum ein stór fjölskylda.

Hvað sönnum við með því að elska öll trúsystkini okkar? — Við sönnum að við erum lærisveinar Jesú, kennarans mikla. Og er það ekki einmitt það sem við viljum? —

Í Galatabréfinu 6:10 og 1. Jóhannesarbréfi 4:8, 21 er einnig rætt um það að elska bræður okkar og systur. Hvernig væri að þú opnaðir þína eigin biblíu og læsir þessi vers?