Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

45. KAFLI

Hvað er Guðsríki og hvernig sýnum við að við styðjum það?

Hvað er Guðsríki og hvernig sýnum við að við styðjum það?

KANNTU bænina sem Jesús kenndi fylgjendum sínum? — Ef ekki, getum við lesið hana saman í Biblíunni í Matteusi 6:9-13. Margir kalla þessa bæn faðirvorið. Þar segir meðal annars: „Til komi þitt ríki.“ Veistu hvað Guðsríki er? —

Guðsríki er eins konar ríkisstjórn. Til eru margs konar ríkisstjórnir og í sumum þeirra er æðsti stjórnandinn kallaður forseti. En ríkisstjórnin, sem Guð hefur lofað að komi, kallast Guðsríki og stjórnandi hennar kallast konungur.

Veistu hvern Jehóva Guð valdi til að stjórna í ríki sínu? — Hann valdi son sinn, Jesú Krist. Hvers vegna er Jesús betri en allir stjórnendur sem menn gætu valið? — Vegna þess að hann elskar Jehóva, föður sinn. Þess vegna gerir hann alltaf það sem er rétt.

Löngu áður en Jesús fæddist í Betlehem talaði Biblían um fæðingu hans og sagði að Guð myndi velja hann sem stjórnanda. Við skulum lesa um þetta í Jesaja 9:6, 7. Þar segir: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað . . . Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“

Hér er talað um Jesú sem stjórnanda Guðsríkis og hann er kallaður ,höfðingi‘. Auk þess er hann sonur Jehóva, konungsins mikla. Jehóva hefur gert Jesú að konungi í stjórn sinni sem mun ríkja yfir jörðinni í þúsund ár. (Opinberunarbókin 20:6) Eftir að Jesús lét skírast fór hann að prédika og segja: „Gerið iðrun, himnaríki er í nánd.“ — Matteus 4:17.

Af hverju ætli Jesús hafi sagt að himnaríki væri í nánd? — Af því að konungurinn, sem átti seinna að stjórna á himnum, var hjá þeim. Þess vegna sagði Jesús líka: ,Guðs ríki er meðal ykkar.‘ (Lúkas 17:21, neðanmáls) Myndir þú ekki vilja vera svo nálægt konungi Guðsríkis að þú gætir snert hann? —

Hvaða mikilvæga starf átti Jesús að vinna á jörðinni? — Jesús svaraði þessari spurningu þegar hann sagði: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ (Lúkas 4:43) Jesús vissi að hann gæti ekki sinnt prédikunarstarfinu einn. Hvað heldurðu að hann hafi gert? —

Hvaða starf var Jesús sendur til að vinna á jörðinni?

Jesús tók fólk með sér og kenndi því að prédika. Hann byrjaði á því að kenna postulunum tólf. (Matteus 10:5, 7) En kenndi hann bara postulunum að prédika? Nei, Biblían segir að hann hafi kennt mörgum öðrum. Seinna sendi hann 70 aðra lærisveina á undan sér, tvo og tvo saman. Hvað kenndu þeir fólki? — Jesús sagði: ,Segið þeim: „Guðs ríki er komið í nánd við ykkur.“‘ (Lúkas 10:9) Þannig lærði fólk um ríki Guðs.

Löngu áður en þetta gerðist var hefð í Ísrael að nýir konungar kæmu ríðandi inn í borgina á fola svo að fólkið gæti séð þá. Jesús gerir þetta í síðasta skiptið sem hann heimsækir Jerúsalem. Hann gerir það af því að hann á að verða konungur Guðsríkis. Vill fólkið fá hann fyrir konung? —

Þegar hann kemur inn í borgina tekur mikill mannfjöldi á móti honum og margir leggja yfirhafnir sínar á götuna fyrir framan hann. Aðrir höggva greinar af trjám og leggja á götuna. Með þessu sýnir fólkið að það vilji fá Jesú fyrir konung. Það hrópar: „Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni Drottins.“ En það eru ekki allir ánægðir. Sumir trúarleiðtogar segja jafnvel við Jesú: ,Þaggaðu niður í lærisveinum þínum.‘ — Lúkas 19:28-40.

Af hverju vildi fólkið ekki lengur fá Jesú fyrir konung?

Fimm dögum seinna er Jesús handtekinn og leiddur inn í höll til að hitta landstjórann Pontíus Pílatus. Óvinir Jesú halda því fram að hann segist vera konungur og að hann sé á móti rómversku ríkisstjórninni. Pílatus spyr Jesú um þetta. Jesús bendir á að hann sé ekki að reyna að hrifsa til sín völd. „Mitt ríki er ekki af þessum heimi,“ segir hann við Pílatus. — Jóhannes 18:36.

Pílatus fer þá út og segir fólkinu að hann finni enga sök hjá Jesú. En núna vill fólkið ekki fá Jesú fyrir konung. Það vill ekki einu sinni að hann verði látinn laus. (Jóhannes 18:37-40) Pílatus talar aftur við Jesú og eftir það er hann viss um að Jesús hafi ekki gert neitt af sér. Að lokum fer hann með Jesú út til fólksins og segir: ,Sjáið konung ykkar!‘ En fólkið hrópar: „Burt með hann! Burt með hann! Krossfestu [„staurfestu“, NW] hann!“

Pílatus spyr: ,Á ég að krossfesta [„staurfesta“, NW] konung ykkar?‘ Æðstu prestarnir svara: ,Við höfum engan konung nema keisarann.‘ Hugsaðu þér! Þessir vondu prestar eru búnir að snúa fólkinu á móti Jesú. — Jóhannes 19:1-16.

Ástandið nú á dögum er mjög svipað. Fæstir vilja fá Jesú fyrir konung. Þeir segjast kannski trúa á Guð en vilja ekki að Guð eða Kristur segi þeim hvað þeir eigi að gera. Þeir vilja hafa sínar eigin ríkisstjórnir hér á jörðinni.

Hvað um okkur? Hvaða áhrif hefur það á okkur að læra um Guðsríki og allt það góða sem það mun gera fyrir okkur? — Þykir okkur ekki vænt um Guð? — En hvernig getum við sýnt Guði að við elskum hann og viljum lúta stjórn hans? —

Af hverju lét Jesús skírast og hvernig sýndi Guð að hann var ánægður með það?

Við getum sýnt Guði hvernig okkur er innanbrjósts með því að fylgja fordæmi Jesú. Hvernig sýndi Jesús að hann elskaði Jehóva? — Hann sagði: „Ég geri alltaf það sem honum þóknast.“ (Jóhannes 8:29) Já, Jesús kom til jarðar ,til að gera vilja Guðs‘ og til að „fullna verk hans“. (Hebreabréfið 10:7; Jóhannes 4:34) En við skulum athuga hvað Jesús gerði áður en hann hóf prédikunarstarfið.

Jesús fór niður að ánni Jórdan til Jóhannesar skírara. Eftir að þeir höfðu vaðið út í ána skírði Jóhannes hann með því að dýfa honum á kaf í vatnið og lyfta honum síðan upp aftur. Veistu af hverju Jóhannes skírði hann? —

Hvar getum við sagt öðrum frá Guðsríki?

Jesús bað Jóhannes að skíra sig. En hvernig vitum við að Guð vildi að Jesús léti skírast? — Við vitum það af því að þegar Jesús kom upp úr vatninu heyrði hann rödd Guðs af himni segja: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ Guð lét heilagan anda sinn meira að segja koma yfir Jesú í dúfulíki. Með því að láta skírast sýndi Jesús að hann vildi þjóna Jehóva alla ævi — já, að eilífu. — Markús 1:9-11.

Þú ert enn þá að vaxa og þroskast. En hvað ætlarðu að gera seinna? — Ætlarðu að láta skírast eins og Jesús? — Þú ættir að líkja eftir honum því að Biblían segir að hann sé fyrirmynd okkar og að við eigum að „feta í hans fótspor“. (1. Pétursbréf 2:21) Þegar þú lætur skírast sýnirðu að þig langi til lúta stjórn Guðs. En það er ekki nóg að láta skírast.

Við þurfum líka að fara eftir öllu því sem Jesús kenndi. Jesús sagði að við ættum ekki að vera „af heiminum“. Værum við að hlýða honum ef við tækjum upp siði heimsins? Jesús og postularnir héldu sér frá öllu slíku. (Jóhannes 17:14) Hvað gerðu þeir í staðinn? — Þeir sögðu öðrum frá Guðsríki. Það var aðalstarf þeirra. Getum við gert það sama? — Já, og við gerum það ef við viljum að Guðsríki komi eins og við biðjum um.

Lestu þessa ritningarstaði en þeir benda okkur á hvernig við getum sýnt að við viljum að Guðsríki komi: Matteus 6:24-33; 24:14; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17 og 5:3.