Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

46. KAFLI

Ferst heimurinn aftur í flóði?

Ferst heimurinn aftur í flóði?

HEFURÐU einhvern tíma heyrt talað um heimsendi? — Margir tala um heimsendi nú á dögum. Sumir segja að heimurinn eigi eftir að farast í kjarnorkustríði. Heldurðu að Guð láti fallegu jörðina okkar og stjörnuprýddan himininn einhvern tíma farast? —

Eins og við höfum lært er talað um endalok heimsins í Biblíunni. „Heimurinn fyrirferst,“ segir þar. (1. Jóhannesarbréf 2:17) Heldurðu að jörðin eigi eftir að eyðast þegar heimurinn ferst? — Nei, því að Biblían segir að Guð hafi skapað jörðina þannig að hún væri „byggileg“ og fólk gæti búið á henni og liðið vel. (Jesaja 45:18) Í Sálmi 37:29 segir: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ Þetta er líka ástæðan fyrir því að Biblían segir að jörðin eigi að standa að eilífu. — Sálmur 104:5; Prédikarinn 1:4.

En hvað er átt við fyrst jörðin eyðist ekki við endalok heimsins? — Við getum komist að því með því að skoða vel það sem gerðist á dögum Nóa. Biblían segir: ,Vatnsflóðið gekk yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst.‘ — 2. Pétursbréf 3:6.

Lifði einhver af þegar heimurinn fórst í Nóaflóðinu? — Í Biblíunni kemur fram að Guð hafi ,bjargað Nóa, prédikara réttlætisins, og sjö öðrum þegar hann lét vatnsflóðið koma yfir heim óguðlegra‘. — 2. Pétursbréf 2:5.

Hvaða heimi var eytt á dögum Nóa?

Hvaða heimur fórst þá? Fórst jörðin eða var það vonda fólkið sem fórst? — Biblían segir að það hafi verið ,heimur óguðlegra‘. Taktu líka eftir að Nói er kallaður ,prédikari‘. Hvað heldurðu að hann hafi verið að prédika? — Hann varaði fólkið við því að ,heimurinn, sem þá var,‘ myndi farast.

Þegar Jesús talaði um Nóaflóðið sagði hann lærisveinunum frá því hvað fólk hafði verið að gera rétt áður en endirinn kom. Hann sagði: „Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt.“ Síðan sagði Jesús að áður en heimurinn okkar liði undir lok myndu mennirnir lifa lífinu á sama hátt. — Matteus 24:37-39.

Orð Jesú sýna að við getum lært ýmislegt af því hvernig fólk lifði lífinu fyrir Nóaflóðið. Manstu hvað fólkið gerði? — Við lásum í 10. kafla að sumir hafi verið mjög ofbeldisfullir og níðst á öðrum. Jesús sagði að fæstir hefðu hlustað á Nóa þegar Guð sendi hann til að prédika fyrir þeim.

En þá rann upp sá dagur þegar Jehóva sagði Nóa að hann ætlaði að eyða öllu slæmu fólki í vatnsflóði. Vatnið átti að hylja alla jörðina og fjöllin líka. Jehóva sagði Nóa að smíða stóra örk. Hún var eins og risastór, ílangur kassi eða kista eins og þú sérð á myndinni á blaðsíðu 238.

Guð sagði Nóa að smíða nógu stóra örk til að hann, fjölskylda hans og dýrin kæmust fyrir í henni og björguðust. Nói og fjölskylda lögðu mjög hart að sér. Þau felldu stór tré og notuðu viðinn til að smíða örkina. Það tók fjölmörg ár að smíða hana því að hún var risastór.

Manstu hvað annað Nói gerði allan þann tíma sem hann var að smíða örkina? — Já, hann prédikaði og varaði fólk við flóðinu. Hlustaði nokkur? Nei, enginn nema fjölskylda hans. Allir hinir voru of uppteknir af öðru. Manstu hvað Jesús sagði að fólkið hefði verið að gera? — Það var upptekið af því að borða og drekka og kvænast og giftast. Fólkinu fannst það ekki vera að gera neitt slæmt og gaf sér ekki tíma til að hlusta á Nóa. Við skulum athuga hvað kom fyrir það.

Eftir að Nói og fjölskylda fóru inn í örkina lokaði Jehóva dyrunum á eftir þeim. Fólkið fyrir utan trúði ekki enn að flóðið myndi koma. En allt í einu byrjuðu vatnsdropar að falla af himni. Þetta var engin venjuleg rigning. Það rigndi eins og hellt væri úr fötu! Fljótlega myndaði vatnið beljandi fljót sem æddu áfram. Þau felldu stór tré og veltu stórum hnullungum á undan sér rétt eins og þeir væru smásteinar. En hvað varð um fólkið fyrir utan örkina? — Jesús sagði: ,Flóðið kom og hreif alla burt.‘ Allir sem voru fyrir utan örkina dóu. Af hverju? — Jesús segir að fólkið ,hafi ekki vitað fyrr en flóðið kom‘ af því að það hlustaði ekki á Nóa. — Matteus 24:39; 1. Mósebók 6:5-7.

Af hverju megum við ekki bara hugsa um að skemmta okkur?

Eins og þú manst sagði Jesús að við gætum lært margt af því sem kom fyrir fólkið á þeim tíma. Hvað getum við lært? — Fólkinu var ekki aðeins eytt vegna þess að það var slæmt heldur líka vegna þess að það var of upptekið til að fræðast um Guð og það sem hann ætlaði að gera. Við verðum að gæta okkar að verða ekki eins og þetta fólk. Ertu ekki sammála því? —

Heldurðu að Guð ætli að eyða heiminum aftur í vatnsflóði? — Nei, hann hefur lofað að gera það ekki. Hann sagði: ,Regnboga minn set ég í skýin, að hann sé merki.‘ Jehóva sagði að regnboginn ætti að vera merki um að vatnið yrði aldrei framar „að flóði til að tortíma öllu holdi“, það er að segja fólki. — 1. Mósebók 9:11-17.

Við getum þess vegna treyst því að Guð muni aldrei aftur eyða heiminum í vatnsflóði. En í Biblíunni er samt talað um endi heimsins eins og við vitum. Hverjum bjargar Guð þegar hann eyðir þessum heimi? — Ætli hann bjargi þeim sem hafa áhuga á flestu öðru en að fræðast um hann? Ætli hann bjargi þeim sem eru alltaf of uppteknir til að rannsaka Biblíuna? Hvað heldurðu? —

Langar þig ekki til að vera meðal þeirra sem Guð bjargar? — Væri ekki gaman ef fjölskyldan okkar væri eins og fjölskylda Nóa þannig að Guð bjargaði okkur öllum? — Ef við viljum lifa af endi þessa heims verðum við að skilja hvernig Guð ætlar að eyða honum og koma á réttlátum nýjum heimi. Skoðum betur hvernig hann gerir það.

Í Daníelsbók 2. kafla, versi 44, er þetta útskýrt nánar. Í þessum ritningarstað er talað um okkar tíma. Þar segir: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki [eða stjórn], sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“

Skilurðu þennan ritningarstað? — Biblían segir að ríki Guðs muni eyða öllum ríkisstjórnum á jörðinni. Af hverju? — Af því að þær hlýða ekki konunginum sem Guð hefur valið. Og hver er það? — Já, það er Jesús Kristur.

Jesús Kristur, konungur Guðs, eyðir þessum heimi í Harmagedónstríðinu.

Jehóva Guð hefur rétt til að ákveða hvers konar stjórn eigi að ríkja yfir jörðinni og hann hefur valið son sinn, Jesú, sem konung. Bráðlega tekur konungurinn Jesús Kristur forystuna í því að eyða öllum ríkisstjórnum heimsins. Í Opinberunarbókinni 19. kafla, versi 11 til 16, er því lýst eins og myndin hérna sýnir. Þetta stríð er kallað Harmagedón.

Guð segir að ríki sitt muni eyða öllum ríkisstjórnum manna. En segir hann okkur að taka þátt í því? — Nei, því að í Biblíunni er Harmagedón kallað ,stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Já, Harmagedón er stríð Guðs og hann lætur Jesú Krist stjórna árás himneskra hersveita. Er stutt í að Harmagedón komi? Við skulum athuga hvernig við getum komist að því.

Lesum saman um þann tíma þegar Guð eyðir öllum vondum mönnum og bjargar þjónum sínum: Orðskviðirnir 2:21, 22; Jesaja 26:20, 21; Jeremía 25:31-33 og Matteus 24:21, 22.